Mánudagur 17.03.2014 - 17:25 - FB ummæli ()

Ragnar Árnason meinar það sem hann segir

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, skrifaði nýlega grein í tímarit hagfræðinema (Hjálmar), þar sem hann færir rök fyrir því, að opinberar heilbrigðistryggingar séu samfélaginu skaðlegar (sjá hér, bls. 22-23). Hvorki meira né minna!

Ragnar hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann er róttækur í skoðunum, fer gjarnan út á jaðrana. Hann var kommúnisti áður fyrr en síðan kúventi hann og er nú með allra róttækustu frjálshyggjumönnum, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins.

Ragnar telur nú óhefta markaði mikla guðsgjöf og vill beita þeim á sem flest samfélagshlutverk. Að sama skapi leggst hann gegn nær öllu hlutverki og starfi ríkisvalds, ekki síst ef það felur í sér inngrip á verksvið markaðarins.

Boðskapurinn er að allt sé gott við markaðinn, en allt slæmt við ríkið og fulltrúalýðræðið.

Það sem Ragnar talar sérstaklega um í þessari grein er meint skaðsemi niðurgreiðslna hins opinbera á kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Hann gefur sér forsendur um virkni markaðar á heilbrigðissviði (sem augljóslega standast ekki) og reiknar svo út frá þeim forsendum að meðalmaðurinn væri betur settur án niðurgreiðslna hins opinbera.

Þar með telur hann sig hafa sýnt að samfélagið allt skaðist af opinberum heilbrigðistryggingum. Sú fullyrðing stenst ekki, eins og ég sýni hér á eftir.

Dæmi um rangar forsendur Ragnars er þegar hann segir eftirfarandi:

“Eins og jafnan í hagfræðilegri greiningu skulum við gera ráð fyrir markaðshagkerfi. Í slíkum hagkerfum ráðstafa neytendur tekjum sínum með hliðsjón af markaðsverði.”

Ef barn slasast eða veikist spyrja foreldrar þá um “markaðsverð” áður en þau leita læknisaðstoðar eða bráðaþjónustu? Eða þegar fólk fær alvarlegan sjúkdóm? Metur fólk svo hvort það hefur efni á læknisþjónustunni út frá tekjum sínum?

Nei, ekki í opinberum kerfum eins og á Norðurlöndum og víðast í Evrópu. Opinberar heilbrigðistryggingar gera fólki kleift að sækja þá þjónustu sem þarf í bráðum heilsuvanda, óháð slíkum spurningum um afkomu fjölskyldunnar. Það er frábær kostur sem alflestir kunna að meta. Það snýst um að setja heilbrigðismál í forgang.

Raunar er stór hluti „niðurgreiðslna“ í opinberu kerfunum þannig, að fólk greiðir skatta þegar það er fullfrískt á vinnumarkaði en nýtur svo heilbrigðisþjónustu eftir þörfum og getu þegar slys, veikindi eða öldrun ber að höndum. Þá fær fólk þjónustuna að mestu án staðgreiðslu. Þetta eru tryggingar. Flestir eru búnir að greiða fyrir þjónustuna fyrr á ferlinum, með skattgreiðslum sínum. Þetta er svipað og með lífeyrisréttindi. Í slíkum tilvikum eru þetta ekki niðurgreiðslur.

Það eru einkum þeir sem eru tekjulágir alla ævi sem njóta beinnar opinberrar niðurgreiðslu á raunkostnaði. Án þess yrðu þeir og fjölskyldur þeirra af sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu og myndu tapa heilsu eða deyja fyrir aldur fram, þó hægt væri að lækna þá. Tækifæri til að njóta heilbrigðs lífs væru þá meira háð stétt en nú er.

En í algerlega einkareknum kerfum, eins og Ragnar virðist aðhyllast, myndi fólk neyðast til að spyrja sig slíkra spurninga um hvort það hefði efni á læknisþjónustu og lyfjum. Margir yrðu þar af heilbrigðisþjónustu sem allir ganga að vísri og myndu ekki vilja vera án í okkar samfélagi. Lífi þeirra tekjulágu yrði í meiri mæli fórnað.

Þegar Ragnar segir opinberar heilbrigðistryggingar skaðlegar fyrir samfélagið allt þá hugsar hann dæmið eingöngu út frá hagsmunum þeirra tekjuhærri. Hagur þeirra myndi batna í einkareknu kerfi (skattar þeirra gætu lækkað eitthvað), en Ragnar horfir framhjá því að án opinberra trygginga myndi hagur tekjulægri hópanna stórskaðast. Hvernig er þá hægt að fullyrða að hagur alls samfélagsins myndi batna með 100% einkareknum heilbrigðistryggingum, eins og Ragnar gerir?

Ragnar talar því fyrir kerfi sem þjónar hag ríka fólksins en horfir framhjá hag þeirra tekjulægri.

 

Hver er dómur reynslunnar?

Ragnar kemst að niðurstöðu sinni með vafasömum útreikningum, á grundvelli forsendna sem ekki standast í okkar samfélagi. Það var raunar fyrirséð þegar hliðsjón er höfð af róttækri frjálshyggju hans.

Mun vænlegri leið til að svara spurningunni um kosti og galla opinberra heilbrigðistrygginga er sú, að spyrja um reynslu þjóða af slíkum kerfum og af einkareknum heilbrigðistryggingum sérstaklega.

Bandaríkin eru það land sem beitir einkareknum heilbrigðistryggingum í hvað mestum mæli, þó þau nái ekki alla leið í markaðsparadís frjálshyggjumannsins. Um 45% af kostnaði við heilbrigðisþjónustu er greiddur af bandaríska ríkinu en á Norðurlöndum og í Hollandi er hlutur hins opinberra mun stærri, eða oft á bilinu 75-85% af heildarkostnaði.

Hver er reynslan af leiðinni sem Ragnar mælir með, ef við tökum Bandaríkin sem það land sem kemst næst þeirri leið?

Bandaríkin eru með lang dýrasta heilbrigðiskerfið á Vesturlöndum. Það er að auki fjarri því að vera með bestan árangur í veitingu heilbrigðisþjónustu. Því til viðbótar skilur bandaríska kerfið um 15-25% íbúa landsins eftir án sjúkratrygginga eða með ófullnægjandi tryggingar, sem ógnar fjárhag þeirra fjölskyldna þegar alvarleg slys eða veikindi verða.

Aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu er takmarkaðra í Bandaríkjunum en annars staðar á Vesturlöndum, vegna mikils kostnaðar sjúklinga. Lyfjaverð er hærra en annars staðar og einnig kostnaður sjúklinga við algengar aðgerðir. Kerfið er einnig sundurlausara og óhagkvæmara en t.d. á Norðurlöndum, í Bretlandi og  Hollandi, svo dæmi séu tekin. Stjórnunarkostnaður er margfalt meiri í USA en á Norðurlöndum.

Hér má sjá úttekt á kostnaði og árangri Bandaríska kerfisins í samanburði við önnur vestræn heilbrigðiskerfi, sem ofangreindar fullyrðingar mínar eru m.a. byggðar á. Skýrslur OECD, Health at a Glance, segja sömu sögu.

Dómur reynslunnar er sem sagt mjög skýr. Leiðin sem Ragnar mælir með er bæði dýrari, óskilvirkari og skilar lakari árangri en opinberu heilbrigðistryggingarnar á Norðurlöndum og í öðrum vestrænum löndum.

Opinberu tryggingakerfin eru betri á flesta mælikvarða. Þetta er hin hagfræðilega niðurstaða.

Félagslega niðurstaðan er ekki síður skýr.

Opinberu tryggingakerfin skila geðþekkara og heilbrigðara samfélagi þar sem tækifæri til að njóta heilbrigðs lífs eru öllum betur tryggð og heilsufarslegar afleiðingar fátæktar eru þar mun minni. Sjá nánar um það hér.

Það er mikið umhugsunarefni að jafn róttækir menn og Ragnar Árnason skuli vera í jafn miklum metum í Sjálfstæðisflokknum og raun ber vitni. Ragnar er formaður nýskipaðs ráðgjafaráðs fjármálaráðherra og hefur verið fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans.

Ragnar skapaði sér álit í Sjálfstæðisflokknum með því að gerast harður talsmaður kvótakerfisins og hagsmuna útvegsmanna. Þar var einungis hugsað um hag fámennrar yfirstéttar en ekki um almannahag. Ragnar hefur lagst gegn sanngjörnum auðlindagjöldum af kvótunum til þjóðarinnar.

Það er greinilega vel metið í Sjálfstæðisflokknum að tala fyrir hagsmunum þeirra ríku, jafnvel þó það sé á kostnað milli og lægri tekjuhópa, eins og er um þessar hugmyndir Ragnars um heilbrigðistryggingar.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því hversu langt sumir frjálshyggjumenn á Íslandi eru tilbúnir að ganga.

Ragnar Árnason meinar það sem hann segir. Í því liggur mikil hætta fyrir almenning.

 

Síðasti pistill: Peningavæðing náttúrunnar

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar