Sunnudagur 16.03.2014 - 17:31 - FB ummæli ()

Peningavæðing náttúrunnar

Sjálfstæðismenn hefur lengi dreymt um að einkavinavæða og peningavæða sem flesta hluti á Íslandi. Leyfa efnuðum einkaaðilum að græða sem mest á landinu og miðunum. Náttúran og hálendið eru þar ekki undanskilin.

Í leiðarvísinum sem leiddi til hrunsins, þ.e. bókinni “Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi”, sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson árið 2001 að náttúran væri “fé-án-hirðis”. Það átti raunar við um allt sem ekki var í höndum einstakra auðmanna eða gróðabraskara.

Hálendið, orkulindirnar, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðirnir voru til dæmis fé-án-hirðis, samkvæmt útleggingu Hannesar Hólmsteins í þessu ógæfulega kveri frjálshyggjunnar á Íslandi.

Markmiðið var að koma þessu öllu í hendur einkaaðila sem fyrst og leyfa þeim að græða sem mest á slíkum eignum. Eins og gerðist með kvótakerfinu í sjávarútvegi. Það fól í sér einkavæðingu og fjármálavæðingu sjávarauðlindarinnar sem áður var sameign þjóðarinnar.

Um leið og Sjálfstæðismenn voru komnir aftur í stjórn fóru landeigendur að hamra á mikilvægi þess að hefja gjaldtöku af ferðamönnum, innlendum sem erlendum. Mikil fjölgun ferðamanna gerir það gróðavænlegt.

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra tók vel í málið og boltinn er nú farinn að rúlla (raunar hraðar en ráðherrann ætlaði). Nú vilja t.d. meðeigendur ríkisins á Geysissvæðinu rukka sjálfir og setja féð í vasann, áður en lög um slíkt taka gildi og þrátt fyrir andstöðu ríkisins (sem á hverinn!).

Það er sem sagt stutt í að ekki verði lengur hægt að ferðast um landið, með börn og buru, án þess að greiða gjald við áhugaverðustu staðina, eða sýna fyrirframgreiddan aðgöngumiða („náttúrupassa“).

Með slíku fyrirkomulagi verður náttúruskoðun á Íslandi peningavædd. Það verður mikil breyting.

Ísland verður ekki lengur “almenningur”, þar sem Íslendingar fara frjálsir um til að njóta náttúrunnar.

Skiltin munu spretta upp eins og gorkúlur: “Geysis-svæðið er í einkaeigu. Öll umferð bönnuð, nema gegn greiðslu”! „Dettifoss er í einkaeigu…“! „Kerið er í einkaeigu…“ o.s.frv…

Þá loks mun Íslendingum skiljast að það er ekki almenningur sem á landið – heldur “landeigendur”.

Ísland verður þar með ekki lengur fé-án-hirðis. Frjálshyggjumenn munu kalla þetta “framfarir” og aukið “frelsi landeigenda”. Frelsi almennings minnkar að sama skapi.

Það er spurning hvort þetta auki hamingju þjóðarinnar?

Það er líka spurning hvort þetta geri Ísland minna aðlaðandi í augum erlendra ferðamanna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar