Laugardagur 15.03.2014 - 11:14 - FB ummæli ()

Barnaleg pólitík

Styrmir Gunnarsson hefur lengi barið Evrópu-lóminn á Evrópuvaktinni og gerir enn. Málflutningur þeirra vaktstjóra gegn Evrópuríkjunum er oft heiftarlegur, barnalegur og jafnvel forheimskandi.

Styrmir og félagar hans í hirð Davíðs hafa ekki sætt sig við að Bandaríkjamenn snéru baki við okkur að loknu kalda stríðinu.

Í kjölfar einangrunar Íslands í makríldeilunni telur Styrmir tímabært að snúa enn frekar baki við Evrópu og endurvekja tengslin við Bandaríkin. Hann sér litla von í tengslum forseta okkar við Rússland, Kína og Indland, eins og fleiri.

Vandinn er sá, að Bandaríkjamenn hafa lítinn áhuga á okkur, eins og þeir hafa ítrekað sýnt. Við höfum auk þess frekar lítið þangað að sækja. Okkar mikilvægustu markaðir eru í Evrópu, sem og mikilvæg tengsl á sviði menningar og mennta.

Nánustu frænd- og vinaþjóðir okkar eru á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu. Hörð sérhagsmunagæsla Norðmanna, sem ekki er ný, breytir engu um það. Raunar eru þeir mjög líkir okkur í þeim efnum.

Einangrun okkar í makríldeilunni virðist ekki síst vera tilkomin vegna harðrar hagsmunagæslu okkar manna og jafnvel klaufaskapar.

Það er því bæði heimskulegt og óvarlegt að gera lítið úr mikilvægi Evróputengsla fyrir okkur, hvað sem manni finnst annars um þróun Evrópusambandsins (um það hef ég mínar efasemdir).

Í því samhengi er barnalegt að tala eins og Styrmir gerir í pistli á Evrópuvaktinni í dag. Hér eru þrjú dæmi:

“Skrifstofuveldið í Brussel notar ýmsar aðferðir til að láta vanþóknun sína í ljós. Nú hafa þeir ákveðið að ofveiða makríl til að hefna harma á Íslendingum!”

“Nú vitum við hvern hug Evrópusambandið og Norðmenn bera til okkur og þótt það sé óskemmtilegt er betra að vita en vita ekki.”

“Svona mundi Evrópusambandið umgangast fiskistofna við Ísland ef það næði yfirráðum yfir þeim og sæi tækifæri til að nota þá gegn einhverjum, sem það teldi að hefði gert á sinn hlut. Jafnvel gegn okkur sjálfum.”

Ég spyr: Hefur Evrópusambandið einhverja “harma að hefna á Íslendingum”? Það held ég ekki. Raunar er þetta hálf hlægileg fullyrðing.

Trúir Styrmir því virkilega að Evrópusambandið myndi ræna fiski af Íslendingum og gefa öðrum til að klekkja á okkur, ef það hefði möguleika á slíku? Og hvernig ætti slíkur möguleiki að verða til? Myndum við skrifa upp á aðildarsamning sem gerði slíkt mögulegt? Þekkir Styrmir mörg dæmi um slíkt framferði Evrópusambandsins?

Evrópusambandið tók umsókn okkar um aðild vinsamlega og sýnir okkur yfirleitt tillitsemi og umburðarlyndi, jafnvel þó við eigum það ekki alltaf skilið.

En stjórnendum ESB er alveg saman hvort við komum alla leið inn í sambandið eða ekki. Alveg sama.

Það er ekki holl ráðgjöf að tala fyrir utanríkispólitík á grundvelli forheimskunar og gífuryrða um okkar mikilvægustu vina- og viðskiptaþjóðir.

 

Síðasti pistill: Dagsmenn í sókn í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar