Ef fram fer sem horfir með gjaldtöku við helstu ferðamannastaði landsins þá er í reynd verið að heimila einkavæðingu á skattheimtuvaldi, til landeigenda við þessa staði.
Það er svolítið eins og var á miðöldum, þegar landeigendur gátu stöðvað ferðalanga um land sitt, t.d. við hlið og brýr, og rukkað þá eftir geðþótta. Þetta þótti hið versta fyrirkomulag og hamlaði eðlilegum samgöngum og viðskiptum.
Hitt sem fylgir því að slefandi rukkarar mæti ferðafólki við helstu náttúruperlur landsins – og bara hvar sem er – er hversu ókræsileg ásýnd þetta verður á íslenskri ferðaþjónustu.
Þetta verður “sjoppulegt”, eins og Egill Helgason segir. Bretar myndu segja “tacky” (smekklaust og klént)!
Og það sem meira er, þessu fylgir engin trygging fyrir því að landeigendur bæti aðstöðu ferðafólks almennilega á þessum stöðum. Græðgin gæti gert að verkum að þeir stingi gróðanum einfaldlega í vasann og jafnvel flytji hann úr landi þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt.
Samt er það samfélagið sem leggur vegina til þessara staða og viðheldur þeim. Vegina sem færa þeim ferðafólkið. Kanski ætti samfélagið að rukka þessa landeigendur sérstaklega fyrir það – rúturnar fara afar illa með vegina!
Það er enginn klassi á því að selja ferðafólki Ísland með þessum hætti, land þar sem helsta aðdráttaraflið er náttúran sjálf.
Við þurfum minna sýnilega gjaldtöku til að greiða fyrir nauðsynlegar úrbætur á ferðamannastöðum.
Einfaldast hefði verið að hækka virðisaukaskattinn á hótelgistingu (sem er óvenju lágur) og setja það sem þannig aflast beint í umbætur. Það hefði einkum lagst á erlenda ferðamenn. Það er líka ódýrast í framkvæmd (engin þörf fyrir her af rukkurum og eftirlitsmönnum).
Ríkisstjórnin vill það hins vegar ekki, vegna þess að vinstri stjórnin lagði það upphaflega til!
Að því slepptu er hugmynd Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ráðherra ferðamála um náttúrupassa miklu betri hugmynd en sjálftaka landeigenda.
Nýjustu hugmyndir um útfærslu gjaldtökunnar með náttúrupassa eru líka mildari í garð Íslendinga en rukkun á staðnum.
Vonandi ná stjórnvöld tökum á málinu. Nauðsynlegt er að stöðva þessa stjórnlausu sjálftökuleið frjálshyggjunnar sem er í uppsiglingu.
Fyrri pistlar