Enn eru Sameinuðu þjóðirnar að senda frá sér skýrslur vísindamanna sem segja að jörðin sé að hitna úr hófi fram, með væntum skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið allt (sjá hér).
Einn fremsti “sérfræðingur” Íslendinga í umhverfismálum og loftslagi jarðar, vúdú-hagfræðingurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur haldið hinu gagnstæða fram.
Hannes hefur neitað því að um nokkra hitun lofthjúpsins sé að ræða. Svo hefur hann þó stundum líka sagt að um nokkra hitun gæti veri að ræða, en segir þá um leið að það sé ekki mannkyninu að kenna – og alls ekki kapitalismanum.
Síðan hefur hann dregið þá ályktun af þessum kveðskap sínum, að ekki sé hægt að gera neitt í málinu. Hitun sé einn af duttlungum sólkerfisins sem gangi fram og til baka, án skýringa. Alvöru vísindamenn á sviði umhverfismála sjá þó ótvíræð merki um annað og segja loftslagsmengun manna rót vandans.
Hólmsteinn og félagar hans í hópi frjálshyggju-róttæklinga hafa því boðað afskiptaleysisstefnu á sviði loftslagsbreytinga, líkt og vúdú-hagfræðin þeirra boðar í fjármálaheiminum (það var einmitt stefnan sem leiddi til fjármálakreppunnar). Ekki eigi að gera neitt til að aftra loftslagsmengun.
Frjálshyggjumenn segja að allt sem ríkið geri sé til óþurftar, hvort sem er á sviði loftslagsmála eða fjármálamarkaða. Óheft frelsi til að græða og grilla jörðina eigi því að hafa forgang. Þess vegna boða þeir afskiptaleysisstefnu – í öllum málum. Óheftur markaður ráði för. Það er boðskapur sem mengandi auðmönnum líkar vel.
Með þessari nýju skýrslu Sameinuðu þjóðanna er sem sagt enn vegið að speki Hólmsteina og frjálshyggju-róttæklinga um heimsbyggðina alla.
Það er því viðbúið að Koch bræðurnir bandarísku, sem fjármagna hugveitur frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum og víðar (t.d. Cato Institute), sendi útkall til Hólmsteina heimsins.
Þeir munu vilja kveða þennan boðskap vísindamanna Sameinuðu þjóðanna í kútinn. Koch bræður og fleiri mengandi iðnjöfrar þurfa að fá að menga jörðina áfram án hindrana frá óvinum kapítalismans, jafnvel þó þeir kalli sig „vísindamenn“.
Til þess eru þræðirnir spunnir.
Síðasti pistill: Gott framtak hjá Ögmundi
Síðasti pistill: Myndverk á sjó
Fyrri pistlar