Föstudagur 11.04.2014 - 11:33 - FB ummæli ()

Sparisjóðirnir – græðgi og óreiða skýra fallið

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna er mikið plagg. Ég hef einungis skoðað niðurstöðukaflann og kynninguna, en af því og viðtölum við nefndarmenn má sjá að þau setja niðurstöður sínar fram af mikilli varkárni. Dómurinn er samt afgerandi.

Hlutafélagavæðing sparisjóðanna er upphafið að vanda þeirra, segir í skýrslunni. Það skapaði eigendum og stjórnendum aukið frelsi til að fara í áhættusamari bankarekstur og maka krókinn fyrir sig sjálfa og vildarvini.

Hlutafélagavæðinguna má rekja til herferðarinnar sem Hannes Hólmsteinn og Pétur Blöndal gengust fyrir og kölluðu “fé-án-hirðis”.

Sparisjóðirnir voru áður skilgreindir sem samfélagslegar stofnanir, hófsamar fjármálastofnanir er þjónuðu nærsamfélagi sínu í þágu almannahags. Það sögðu þessir talsmenn fjármálavæðingar og einkagróða vera af hinu illa. Nauðsynlegt væri að koma þessu “fé-án-hirðis”, sem þeir sögðu sparisjóðina vera, í hendur einkaaðila sem gætu ávaxtað það betur.

Það var gert og þá hófst dansinn í kringum gullkálfinn. Það leiddi til hrunsins.

Áhætta var aukin, reksturinn varð losaralegri („frjálsari“), eftirlit sömuleiðis – og stjórnendur og eigendur hófu að maka krókinn á starfseminni.

Farið var á svig við leikreglur við þá iðju. Rannsóknarnefndin vísar 21 máli til saksóknara þar sem rökstuddur grunur er beinlínis um lögbrot.

Ávöxtun stofnfjár var blásin upp og það var hækkað undir lok árs til að auka arðgreiðslur til hluthafa. Fé var fært úr rekstri og varasjóði til eigenda. Lánað var til hlutabréfabrasks með veði í hlutabréfunum sjálfum.

Hagur stofnfjáreigenda var aukinn um leið og sparisjóðunum sjálfum var íþyngt. Þetta er það sem William Black kallaði að “tæma banka innanfrá” – og það voru stjórnendur sem því stýrðu.

Hinir nýskipuðu “hirðar” sparisjóðanna hirtu féð í orðsins fyllstu merkingu!

Í skýrslunni segir m.a.:

„Enginn hafði að lögum eftirlitsskyldu með arðgreiðslum sparisjóðanna. Þegar yfirverðsvæntingar og arðsvonir stofnfjáreigenda voru komnar í algleyming var ugglaust erfitt að standa gegn kröfum þeirra um háan arð. Mikill hagnaður sparisjóðanna árin 2004 til 2007 leiddi til þess að arðsemi eigin fjár varð mjög há. Það gerði mörgum sparisjóðum kleift að greiða stofnfjáreigendum drjúgan arð.”

Slíkar greiðslur, óreiða og óhófleg áhætta í rekstri riðu svo sparisjóðunum að fullu.

Saklausir skattgreiðendur bera tjónið.

Samt höfðu þeir ekki setið veislu hirðanna og engar veitingar þegið.

 

Síðasti pistill: Samband lýðræðis og lífsgæða þjóða

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar