Sunnudagur 13.04.2014 - 09:26 - FB ummæli ()

Burt með ykkur, segir Björn Bjarnason

Enn harðna átökin í Sjálfstæðisflokknum.

ESB-aðildarsinnar taka sífellt fleiri skref í átt að stofnun nýs hægri flokks um ESB-aðild, út úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir munu að vísu líka taka talsvert af hægri armi Samfylkingarinnar með sér.

Talað er um fundahöld eftir páska til að fullnusta flokksstofnunina.

Björn Bjarnason hefur ítrekað sent ESB-sinnum tóninn á Evrópuvaktinni. Það er að vonum, enda málið þeim árvöknu vaktmönnum meira skylt en öðrum.

Í nýjum pistli herðist Björn enn í afstöðu til ESB-sinna og segir þeim bara að hypja sig út af flokkslóðinni. Svo bætir hann þessu við:

“Andrúmsloftið innan Sjálfstæðisflokksins verður ánægjulegra ef óánægjuraddir ESB-aðildarsinna þagna þar.”

Rétt hjá Birni. Tónninn í flokknum verður auðvitað hreinni með meiri rétttrúnaði.

Hann vísar þarna á dyr fulltrúum gamalla ættarvelda í Sjálfstæðisflokknum og stórum hluta stjórnenda fyrirtækja, sem lengstum hafa verið hryggjarstykkið í Sjálfstæðisflokknum. Þeim sem hafa tryggt fjármagnið sem flokkurinn hefur nærst á.

Hraustlega gert hjá Birni!

Á meðan bognar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og segir forystu flokksins hafa haldið illa á ESB-málinu, mistök hafi verið gerð. Hún hvetur til að afstaðan verði endurskoðuð, til að vinna gegn þessari flokksstofnun.

Spurning hvort Bjarni Benediktsson formaður þurfi að taka snúning eða vafning á þetta?

Svo er líka spurning hversu mikið skýrslan um fall sparisjóðanna muni „flækjast fyrir Sjálfstæðismönnum“ í framhaldinu, svo vísað sé í fræg ummæli fyrrverandi varaformanns flokksins um skýrsluna miklu um fall bankanna?

Sjálfstæðisflokksmenn, óháð afstöðu til ESB-aðildar, voru í öllum aðalhlutverkum í þeim hildarleik sem felldi sparisjóðakerfið. Sérstaklega er saga stóru sparisjóðanna á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík sóðaleg (SPRON, BYR og SPKEF).

Kanski sumum Sjálfstæðismönnum hugnist bara vel að fá nýjan hægri flokk sem eins konar björgunarbát frá hrunstimpli Sjálfstæðisflokksins…

 

 Síðasti pistill:  Sparisjóðirnir – græðgi og óreiða skýra fallið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar