Enn harðna átökin í Sjálfstæðisflokknum.
ESB-aðildarsinnar taka sífellt fleiri skref í átt að stofnun nýs hægri flokks um ESB-aðild, út úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir munu að vísu líka taka talsvert af hægri armi Samfylkingarinnar með sér.
Talað er um fundahöld eftir páska til að fullnusta flokksstofnunina.
Björn Bjarnason hefur ítrekað sent ESB-sinnum tóninn á Evrópuvaktinni. Það er að vonum, enda málið þeim árvöknu vaktmönnum meira skylt en öðrum.
Í nýjum pistli herðist Björn enn í afstöðu til ESB-sinna og segir þeim bara að hypja sig út af flokkslóðinni. Svo bætir hann þessu við:
“Andrúmsloftið innan Sjálfstæðisflokksins verður ánægjulegra ef óánægjuraddir ESB-aðildarsinna þagna þar.”
Rétt hjá Birni. Tónninn í flokknum verður auðvitað hreinni með meiri rétttrúnaði.
Hann vísar þarna á dyr fulltrúum gamalla ættarvelda í Sjálfstæðisflokknum og stórum hluta stjórnenda fyrirtækja, sem lengstum hafa verið hryggjarstykkið í Sjálfstæðisflokknum. Þeim sem hafa tryggt fjármagnið sem flokkurinn hefur nærst á.
Hraustlega gert hjá Birni!
Á meðan bognar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og segir forystu flokksins hafa haldið illa á ESB-málinu, mistök hafi verið gerð. Hún hvetur til að afstaðan verði endurskoðuð, til að vinna gegn þessari flokksstofnun.
Spurning hvort Bjarni Benediktsson formaður þurfi að taka snúning eða vafning á þetta?
Svo er líka spurning hversu mikið skýrslan um fall sparisjóðanna muni „flækjast fyrir Sjálfstæðismönnum“ í framhaldinu, svo vísað sé í fræg ummæli fyrrverandi varaformanns flokksins um skýrsluna miklu um fall bankanna?
Sjálfstæðisflokksmenn, óháð afstöðu til ESB-aðildar, voru í öllum aðalhlutverkum í þeim hildarleik sem felldi sparisjóðakerfið. Sérstaklega er saga stóru sparisjóðanna á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík sóðaleg (SPRON, BYR og SPKEF).
Kanski sumum Sjálfstæðismönnum hugnist bara vel að fá nýjan hægri flokk sem eins konar björgunarbát frá hrunstimpli Sjálfstæðisflokksins…
Fyrri pistlar