Bóluhagkerfið á Íslandi sem hófst um 1998 og náði hamarki frá 2003 til 2008 var gríðarleg gósentíð fyrir hátekjufólk á Íslandi. Þetta var stærsta bóluhagkerfi sögunnar.
Tekjur þeirra ríkustu ruku upp úr öllu valdi og urðu með þeim allra hæstu í Evrópu. Þetta má sjá í nýlegum gögnum frá Eurostat, sem sýnd eru á myndinni hér að neðan.
Raunverulegar ráðstöfunartekjur tekjuhæsta eins prósentsins í Evrópu-löndum, meðaltal 2005 til 2007 (kaupmáttarjafnað). Heimild: Eurostat (söluhagnaður undanskilinn, en hann var óvenju hár á Íslandi).
Einungis ríka fólkið í Lúxemborg var með hærri ráðstöfunartekjur en ríka fólkið á Íslandi, á hátindi bóluáranna, 2005 til 2007. Ríka fólkið í Sviss var lítillega lægra en kollegar þeirra á Íslandi á þessum tíma.
Samt eru háu tekjurnar á Íslandi meira vantaldar en í hinum löndunum. Hvers vegna voru þær meira vantaldar hér?
Jú, vegna þess að brasktekjur (capital gains – söluhagnaður) voru meiri hér en í nokkru öðru landi. Það var vegna hinnar óvenju stóru spákaupmennskubólu sem hér var og einstakra skattfríðinda hátekjufólks. Einnig virðast íslenskir hátekjumenn hafa notað skattaskjól meira en kollegar þeirra í öðrum vestrænum löndum.
Það hversu margir hátekjumenn græddu gríðarlega á braski bóluáranna skýrir hvers vegna Ísland fór svo illa afvega og hrundi á endanum – hvers vegna þetta gekk svo langt. Hætta er á að of margir vilji endurtaka leikinn á ný. Ofsagróðinn mun áfram freista.
Athyglisverð málstofa á morgun í Þjóðminjasafninu
Þetta er meðal efnis sem ég mun fjalla um á ráðstefnu EDDU-Öndvegisseturs í fundarsal Þjóðminjasafnsins á morgun (Ójöfnuður – stærsta mál samtímans?).
Efni mitt er „Þróun háu teknanna á Íslandi – fyrir og eftir hrun“.
Dagskráin er mjög athyglisverð, ekki síst fyrirlestur Bandaríkjamannsins Jason Beckfield sem mun spyrja hvort samfélag jafnaðarins heyri nú sögunni til í Evrópu.
Þá fjalla Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg um viðhorf til ójafnaðar í Evrópu og á Íslandi.
Málþingið er í fundarsal Þjóðminjasafnsins kl. 14 á morgun, föstudag. Málþingið fer fram á ensku.
Allir eru velkomnir.
Fyrri pistlar