Á vel heppnuðu málþingi í Þjóðminjasafninu í gær flutti ég erindi um þróun tekjuójafnaðar á Íslandi fyrir og eftir hrun, með sérstakri áherslu á hæstu tekjurnar.
Efnið sem ég kynnti kemur úr rannsóknum sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur og ég höfum unnið að á síðustu misserum og munum birta á bók næsta vetur.
Aðferðafræði Piketty, Atkinson og félaga
Við byggjum á aðferðafræði sem Thomas Piketty og Anthony B. Atkinson og félagar hafa þróað og notum sambærileg gögn og þeir félagar. Þar er um að ræða skattagögn þar sem allar skattskyldar tekjur eru til grundvallar, en hægt er að greina að einstaka tekjuþætti og áhrif skatta.
Piketty, Atkinson og félagar hafa haft mikil áhrif á rannsóknir á tekjuskiptingu og eignaskiptingu á síðustu árum, nú síðast með nýrri bók Thomas Piketty, Capital in the Twenty First Century, sem er metsölubók um allan heim (sem er mjög óvenjulegt fyrir fræðibók). Þeir hafa einnig sett saman alþjóðlegan gagnabanka um hátekjur (World Top Incomes Database), sem við nýtum okkur.
Íslensku gögnin ná til allra skattgreiðenda en ekki til úrtaks eins og Hagstofurnar nota.
Mesta aukning ójafnaðar – en úr jöfnustu stöðu
Þróun tekjuójafnaðar fram að hruni var mjög óvenjuleg á Íslandi. Ójöfnuður jókst hér örar en áður hefur sést í vestrænu samfélagi frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Áður en sú aukning hófst var Ísland með einna jöfnustu tekjuskiptinguna, ásamt hinum norrænu löndunum.
Annað sem var mjög sérstakt hér var að fjármagnstekjur, ekki síst söluhagnaður hlutabréfa og annarra eigna („capital gains“, sem eru hinar eiginlegu brask- og spákaupmennskutekjur), voru mun meiri hér en annars staðar. Þar gætir sérstakra áhrifa stærsta bóluhagkerfis sögunnar, sem hér ríkti frá 1998 og með verulega auknum þunga frá 2003 til 2008.
Lækkuð skattbyrði í hærri tekjuhópum og aukin byrði í lægri hópum jók einnig á ójöfnuðinn á þessum tíma, auk þess sem bætur almannatrygginga drógust aftur úr launum á vinnumarkaði.
Eftir hrun dró svo snarlega úr ójöfnuðinum á ný. Það gerðist vegna minnkunar fjármagnstekna (sem einkum höfðu runnið til allra tekjuhæsta hópsins) og vegna aukinna jöfnunaráhrifa af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum.
Ísland fór frá því að vera með eina jöfnustu tekjuskiptingu Vesturlanda á árunum fram að 1995 og yfir í að verða með þeim ójöfnustu á Vesturlöndum 2005 til 2007, þ.e. þegar allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar (einnig söluhagnaðarhluti fjármagnstekna, sem var óvenju mikill hér). Ef söluhagnaði er sleppt (eins og gert er í könnunum Hagstofu Íslands og Eurostat) þá fór Ísland úr næstefsta í 18. sæti Evrópuþjóða þegar ójöfnuðurinn var orðinn mestur (sjá nánar hér).
Óvenju mikil jöfnun aftur eftir hrun
Frá og með 2010 var tekjuskiptingin aftur orðin svipuð og verið hafði um árið 1999, í byrjun bólutímans. Ísland var þá aftur komið í hóp hinna jöfnustu samfélaga. Samt var tekjuskiptingin enn heldur ójafnari en verið hafði á árunum 1997 og fyrr.
Þessar fordæmalausu sveiflur í umfangi og einkennum ójafnaðar urðu einkum vegna áhrifa bóluhagkerfisins og hrunsins, en einnig vegna stefnu stjórnvalda.
Aukning ójafnaðar fram að hruni varð að tveimur þriðju hlutum vegna verulega aukinna fjármagntekna hátekjuhópanna, en að einum þriðja vegna áhrifa af skatta- og bótastefnu stjórnvalda (sjá hér). Sú þróun gekk svo til baka eftir hrun, í svipuðum hlutföllum.
Myndirnar tvær úr erindi mínu frá í gær sem hér fylgja segja þessa sögu. En við Arnaldur Sölvi Kristjánsson höfum safnað miklu magni af upplýsingum og greiningum sem styðja og styrkja þessar niðurstöður. Við birtum það allt síðar.
Aukning ójafnaðarins er mest þegar allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar (svörtu súlurnar), en þó söluhagnaði sé sleppt þá er aukningin einnig mikil (gráu súlurnar – ath. að tiltölulega lítil breyting á Gini stuðlinum felur í sér umtalsverða breytingu á tekjuskiptingunni).
Línan á myndinni sýnir svo áhrif bóluhagkerfisins (spákaupmennskunnar með hlutabréf og aðrar eignir) á ójöfnuðinn. Þau áhrif byrjuðu að aukast eftir 1998 og náðu hámarki á árinu 2007.
Svo er hér að neðan sýnt hvernig hlutur ríkasta eins prósents einstaklinga af heildartekjum þjóðarinnar jókst á Íslandi í samanburði við Bandaríkin.
Athyglisvert er að samdráttur tekna ríkasta eins prósentsins í Bandaríkjunum var mun minni í núverandi kreppu en á Íslandi og þeir ríku þar í landi eru aftur komnir á flug og eru að endurheimta tekjustig sitt frá því fyrir hrun. Þróunin á Íslandi til 2012 var öll önnur.
Athyglisverð spurning er hvort hæstu tekjurnar hér á landi muni aftur fara framúr öllum öðrum eftir að hlutabréfamarkaðurinn fer á flug á ný og önnur eignaverð taka að hækka. Stefna stjórnvalda mun þó skipta miklu máli um það, ekki síst skatta- og auðlindastefnan.
Aukning háu teknanna byrjaði af krafti á Reagan-tímanum í Bandaríkjunum, upp úr 1980, en var örust á bóluárunum (t.d. 1994-2000 og 2003-2007). Hér byrjaði aukning háu teknanna síðar en gekk mun örar fyrir sig en í Bandaríkjunum.
Á árinu 2007 er hámarki var náð var ríkasta eitt prósent Íslendinga með tæplega 20% heildartekna en samsvarandi hópur í Bandaríkjunum var með um 23,5%.
Samspil bóluhagkerfisins, hrunsins og tekjuskiptingarinnar felur þannig í sér mikla og afar óvenjulega sögu.
Fyrri pistlar