Viðræður eru að hefjast um samstarf milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er að mörgu leyti athyglisverður kostur.
Þetta yrði sterkur meirihluti með níu fulltrúa af fimmtán. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt í málefnaáherslum og samhljóm hefur mátt finna milli þeirra í kosningabaráttunni.
Að mörgu leyti yrði um endurreisn R-listans að ræða. Hann var sterkt umbótaafl sem sat í þrjú kjörtímabil. Það er líka sterk leið fyrir vinstri menn að stefna nú að frekara samstarfi, eftir að sundrung í röðum þeirra keyrði um þverbak í þingkosningunum í fyrra.
Sú sundrung veikti stöðu vinstri manna verulega og færði einkum Sjálfstæðisflokki fleiri þingsæti en fylgi þeirra bauð uppá. Um 14% atkvæða fóru í súginn vegna smáframboða sem ekki náðu lágmarki til að fá fulltrúa.
Dagur B. Eggertsson er einmitt maðurinn til að byggja brýr milli einstaklinga og flokka á vinstri vængnum. Ef vel tækist til um samhenta stjórn borgarinnar yrði staða vinstri manna í landsmálunum sterkari.
Auðvitað eru aðrir kostir fyrir Samfylkinguna, sem er langstærsti flokkurinn í Reykjavík. Hún gæti starfað með Sjálfstæðisflokki með sterkan meirihluta, en líklega meira misræmi í stefnuáherslum.
Samt er Halldór Halldórsson mun geðþekkari og málefnalegri maður að vinna með en frjálshyggjulið Sjálfstæðisflokksins og hirð Hádegismóra. Það ætti því að vera hægt að ná málefnasamstöðu með honum í starfhæfum meirihluta.
Það kom hins vegar fram í viðræðum forystumanna framboðanna í Reykjavík á Stöð 2 rétt áðan, að allir hafa fyrirvara á samvinnu við Framsókn, vegna áherslunnar á mosku-málið og innflytjendur. Líka leiðtogi Sjálfstæðismanna.
Dagur útilokar þó ekki samstarf við Framsókn, en eins og aðrir kallar hann á að Framsókn skýri skilmerkilega á hvaða ferð flokkurinn er með þennan málaflokk. Sigmundur Davíð er byrjaður að skýra það og segist ekki andvígur byggingu mosku í Reykjavík.
Flest bendir þó til að vinstri meirihluti verði myndaður í Reykjavík. Slíkur meirihluti gæti lagt grunn að stærra sögulegu hlutverki fyrir vinstri hreyfinguna í landsmálunum. Góður árangur meirihluta S og BF í stjórnun Reykjavíkur á óvenju erfiðum tíma er líka uppörvandi fyrir endurnýjað samstarf í þeim anda.
Vinstri og miðjumenn þurfa að skilja að með sundrungu í sínum röðum vinnst ekkert, nema að færa hægri öflunum í Sjálftæðisflokki og fjármálaöflunum meiri völd í landinu. Menn muna hversu illa sundrund innan VG lék stjórn Jóhönnu og Steingríms, sem að öðru leyti starfaði vel og náði mikilvægum árangri.
Aukin samstaða og samvinna á vinstri vængnum felur því í sér mikilvæga möguleika. Reykjavík gæti orðið vettvangur sögulegra sátta á næsta kjörtímabili.
Vinstri og miðjumenn ætla einnig að freista samstarfs í Reykjanesbæ og hugsanlega eru líka slíkir möguleikar í Hafnarfirði.
Fyrri pistlar