Sunnudagur 01.06.2014 - 19:55 - FB ummæli ()

Vinstri meirihluti í Reykjavík?

Viðræður eru að hefjast um samstarf milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er að mörgu leyti athyglisverður kostur.

Þetta yrði sterkur meirihluti með níu fulltrúa af fimmtán. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt í málefnaáherslum og samhljóm hefur mátt finna milli þeirra í kosningabaráttunni.

Að mörgu leyti yrði um endurreisn R-listans að ræða. Hann var sterkt umbótaafl sem sat í þrjú kjörtímabil. Það er líka sterk leið fyrir vinstri menn að stefna nú að frekara samstarfi, eftir að sundrung í röðum þeirra keyrði um þverbak í þingkosningunum í fyrra.

Sú sundrung veikti stöðu vinstri manna verulega og færði einkum Sjálfstæðisflokki fleiri þingsæti en fylgi þeirra bauð uppá. Um 14% atkvæða fóru í súginn vegna smáframboða sem ekki náðu lágmarki til að fá fulltrúa.

Dagur B. Eggertsson er einmitt maðurinn til að byggja brýr milli einstaklinga og flokka á vinstri vængnum. Ef vel tækist til um samhenta stjórn borgarinnar yrði staða vinstri manna í landsmálunum sterkari.

Auðvitað eru aðrir kostir fyrir Samfylkinguna, sem er langstærsti flokkurinn í Reykjavík. Hún gæti starfað með Sjálfstæðisflokki með sterkan meirihluta, en líklega meira misræmi í stefnuáherslum.

Samt er Halldór Halldórsson mun geðþekkari og málefnalegri maður að vinna með en frjálshyggjulið Sjálfstæðisflokksins og hirð Hádegismóra.  Það ætti því að vera hægt að ná málefnasamstöðu með honum í starfhæfum meirihluta.

Það kom hins vegar fram í viðræðum forystumanna framboðanna í Reykjavík á Stöð 2 rétt áðan, að allir hafa fyrirvara á samvinnu við Framsókn, vegna áherslunnar á mosku-málið og innflytjendur. Líka leiðtogi Sjálfstæðismanna.

Dagur útilokar þó ekki samstarf við Framsókn, en eins og aðrir kallar hann á að Framsókn skýri skilmerkilega á hvaða ferð flokkurinn er með þennan málaflokk. Sigmundur Davíð er byrjaður að skýra það og segist ekki andvígur byggingu mosku í Reykjavík.

Flest bendir þó til að vinstri meirihluti verði myndaður í Reykjavík. Slíkur meirihluti gæti lagt grunn að stærra sögulegu hlutverki fyrir vinstri hreyfinguna í landsmálunum. Góður árangur meirihluta S og BF í stjórnun Reykjavíkur á óvenju erfiðum tíma er líka uppörvandi fyrir endurnýjað samstarf í þeim anda.

Vinstri og miðjumenn þurfa að skilja að með sundrungu í sínum röðum vinnst ekkert, nema að færa hægri öflunum í Sjálftæðisflokki og fjármálaöflunum meiri völd í landinu. Menn muna hversu illa sundrund innan VG lék stjórn Jóhönnu og Steingríms, sem að öðru leyti starfaði vel og náði mikilvægum árangri.

Aukin samstaða og samvinna á vinstri vængnum felur því í sér mikilvæga möguleika. Reykjavík gæti orðið vettvangur sögulegra sátta á næsta kjörtímabili.

Vinstri og miðjumenn ætla einnig að freista samstarfs í Reykjanesbæ og hugsanlega eru líka slíkir möguleikar í Hafnarfirði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar