Mánudagur 02.06.2014 - 21:50 - FB ummæli ()

Það sem vinstri menn ættu að gera í Reykjavík

Pólitík er ekki bara fagleg stjórnsýsla, ábyrg fjármálastjórn og skynsamlegur og vandaður rekstur.

Í lýðræði á pólitík líka að snúast um að láta drauma almennings rætast. Gera það sem kjósendur valdhafanna vilja. Svara óskum og leysa vandamál sem plaga samfélagið.

Vinstri menn í Reykjavík eiga nú kjörið tækifæri til að setja mark sitt á söguna, ef fyrirhugað meirihlutasamstarf gengur eftir.

Síðasti meirihluti tók við þrotabúi Sjálfstæðisflokksins eftir hrun. Það var erfitt verkefni, eins og í landsstjórninni. Fjárhagsþrengingar og rekstrarerfiðleikar settu mark sitt á starfið.

Það gekk vonum framar, en stærsti bagginn var væntanlega björgum Orkuveitunnar frá gjaldþroti.

Að öðru leyti var lítið svigrúm til að láta drauma kjósenda rætast. Þetta var basl.

Sama var í landsstjórninni. Endurreisn eftir frjálshyggjuhrunið tók alla orku vinstri stjórnarinnar. Sú stjórn tók þó þá ákvörðun að freista þess að hlífa lægri tekjuhópum við afleiðingum hrunsins, eins og erfiður fjárhagur ríkissjóðs leyfði. Svigrúmið var raunar minna en ekkert.

Samt náði stjórnin mikilvægum árangri í því, en almenningi fannst að meira hefði átt að gera. Þegar kom að þingkosningum í fyrra vildu vinstri flokkarnir einkum sýna fjárhagslega ábyrgð og greiða niður skuldir, en sögðust ekki ætla að gera meira fyrir skuldug heimilin.

Þess vegna varð auðveldur leikur fyrir þáverandi stjórnarandstöðu að bjóða heimilunum meiri stuðning, þ.e. um 20% lækkun skulda heimilanna til viðbótar. Auðvitað tóku heimilin því tilboði og snéru baki við vinstri stjórninni.

Í þessu liggur mikilvæg lexía fyrir vinstri menn í Reykjavík.

 

Mikil fjölgun íbúða, gjaldfrjáls leikskóli, nýsköpun og efling lýðræðis

Vinstri meirihluti þarf að marka sér spor, sem um munar. Þau þurfa að skila alvöru vinstri pólitík en ekki stæra sig af því einu að vera betri fjármálastjórar en Sjálfstæðismenn (það er hvort eð er of auðvelt til að vera spennandi!).

Þau þurfa að skila framförum í samfélaginu í Reykjavík. Einkum á sviði velferðarmála og nýsköpunar. Þar standa upp úr húsnæðismálin og hagur barnafjölskyldna, en einnig nýsköpun og efling lýðræðis og gagnsæis í borgarmálunum.

R-listinn náði sögulegum árangri í að fullnægja þörf barnafjölskyldna fyrir leikskólapláss á stjórnartíma sínum frá 1995.

Nýr vinstri meirihluti þarf að skila lofaðri fjölgun íbúða í Reykjavík og bættum hag barnafjölskyldna. Loforð VG um gjaldfrjálsan leikskóla er djarfasta velferðarloforðið sem fram var sett, auk húsnæðismálanna.

Það væri frábært að geta komið gjaldfrjálsum leikskóla í höfn, ásamt hinu. Það myndi marka söguleg spor í þróun borgarinnar og vekja athygli í heiminum. Það er einmitt þannig mál sem vinstri menn eiga að koma í höfn. Það yrði líka vel metið af ungu fólki – til langrar framtíðar.

Slíkt mál mun kosta talsvert, en er ekki óyfirstíganlegt. Marka þarf stefnuna og hefja leiðina að lokamarkinu. Ef fjárhagur leyfir það ekki til fulls á kjörtímabilinu, þá er samt mikilvægt að marka stefnuna og ná verulegum áfanga, t.d. að borgin greiði helming kostnaðarins strax en stefni svo áfram að fullnustu stefnunnar á næsta kjörtímabili.

Vinstri menn þurfa að vera óhræddir við að skila slíkum framförum og skera sig úr svo um munar. Slík pólitísk dirfska mun skila langlífi í pólitíkinni og gefa pólitísku starfi inntak sem almenningur mun vel meta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar