Miðvikudagur 01.10.2014 - 14:07 - FB ummæli ()

Eignir stéttanna, 1997 til 2013

Hagstofan birti um daginn nýjar upplýsingar um eiginfjárstöðu fjölskyldna/einstaklinga (þ.e. eignir umfram skuldir, eða nettóeignir).

Stóri fréttapunkturinn þótti vera aukning eiginfjár milli áranna 2012 og 2013. Vissulega jókst eiginfé flestra hópa, einkum vegna hækkunar fasteignaverðs og hlutabréfa. Sú þróun hófst raunar árið 2011.

En það er fleira fróðlegt við tölur Hagstofunnar um eiginfé fjölskyldna, sérstaklega ef þróunin er skoðuð eftir ólíkum eignahópum.

Myndin hér að neðan sýnir þróun eiginfjár hjá eignamestu hópunum, millihópum og eignaminnstu hópunum, frá 1997 til 2013. Það gefur góða vísbendingu um hvernig bóluhagkerfið og hrunið léku heimili í ólíkum eignahópum eða stéttum (Heimild: Hagstofa Íslands).

Eignir Þróun eiginfjár 1997-2013

Hér má sjá að eiginfé eignamesta hópsins (efstu tíu prósenta einstaklinga) jókst langmest á áratugnum fyrir hrun. Samdráttur eigna efsta hópsins eftir hrun hefur nú skilað sér til baka og eru eignirnar orðnar meiri en áður varð mest (m.v. nafnverð eigna). Það sama gildir um næsthæsta eignahópinn (gráa brotalínan).

Miðhópurinn sá lítillega aukningu hreinna eigna sinna fyrir hrun en sú litla aukning hvarf svo aftur í hruninu og endanleg staða er nú svipuð og hafðu verið um 2001.

Lægstu eignahóparnir voru hins vegar með neikvætt eiginfé allan tímann (skulduðu meira en þeir áttu) og sú staða versnaði verulega eftir 2002 og fram að hruni  – og svo enn frekar í hruninu sjálfu.

Eiginfjárstaða lægstu hópanna er enn árið 2013 mun verri en hún hafði verið á árunum fyrir hrun.

Hins vegar er eiginfé eignamestu hópanna nú mun meira en það var á árunum fyrir 2007.

Bóluhagkerfistíminn frá aldamótum og fram að hruni jók þannig eignir hæstu hópanna verulega en eignir lægstuhópa voru frekar að rýrna að nafnvirði, miðað við þessi gögn Hagstofunnar.

Hrunið fór síðan mun verr með eignir fólks í lægri eignahópum en með fólk í hærri hópunum – hlutfallslega séð.

Seinni myndin sýnir nettó eiginfjárstöðu fjölskyldna í ólíkum eignahópum á árinu 2013 (eignir umfram skuldir, í milljónum króna; raðað frá þeim lægstu til hinna hæstu).

Eignir -Netto eiginfjárstaða

Þar má sjá að þrátt fyrir aukningu eiginfjár í öllum eignahópum á árinu 2013 umfram árið 2012, þá er staðan enn neikvæð hjá þremur lægstu hópunum (vinstra megin á myndinni – skuldir þar eru enn meiri en eignir).

Hóparnir nærri miðju eignastigans (lægri miðjan og hærri miðjan) eru með lítillega jákvæða eiginfjárstöðu.

Efsti eignahópurinn (eignamestu tíu prósent einstaklinga) er hins vegar með hreinar eignir að nafnvirði sem nema um það bil 1550  milljörðum króna (hátt í andvirði einnar landsframleiðslu Íslands – eignir í skattaskjólum erlendis eru þó ekki meðtaldar).

Eiginfé fjölskyldna jókst um nálægt 147 milljarða króna á einu ári, frá 2012 til 2013. Hátt í 80% af þessari aukningu (eða um 115 milljarðar) varð hjá þremur hæstu eignahópunum, þ.e. hæstu þrjátíu prósentum einstaklinga. Eignamestu 30 prósentin fengu sem sagt um 80% af eignaaukningunni frá 2012 til 2013.

Þessar upplýsingar Hagstofunnar gefa þannig góða vísbendingu um að fólk í hæstu eignahópunum græddi gríðarlega á árum bóluhagkerfisins, um leið og milli og lægri eignahópar högnuðust lítt eða ekkert.

Eignaaukningin eftir hrun hefur verið langmest hjá mesta efnafólkinu.

Þó talsverðar eignir hafi tapast í hruninu þá standa einnig mjög miklar hreinar eignir eftir, en fyrst og fremst hjá efstu hópunum.

Tímabilið allt frá aldamótum hefur þannig verið hæstu eignahópunum á Íslandi (stóreignafólki) afar hagfellt, þrátt fyrir hrunið. Hið sama verðu ekki sagt um fólk í milli og lægri eignahópunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar