Laugardagur 04.10.2014 - 12:51 - FB ummæli ()

Eignaskiptingin – lítill hlutur millistéttar

Í síðasta pistli sýndi ég hvernig heildareignir einstaklinga í ólíkum eignahópum þróuðust frá 1997 til 2013, á verðlagi hvers árs, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands sem unnin eru úr skattframtölum.

Þar kom fram að eignir hópanna sem mest eiga jukust örast allra og að eignir milli og lægri hópa rýrnuðu hlutfallslega meira í kjölfar hrunsins. Eignaminnsti þriðjungur þjóðarinnar eða svo var með neikvæða eiginfjárstöðu allan tímann og versnaði sú staða þeirra með hruninu.

Þetta þýðir að ójöfnuður í skiptingu eigna fjölskyldna á Íslandi jókst á tímabilinu.

Í þessum pistli sýni ég með skýrari hætti hvernig hlutfallsleg skipting eigna fjölskyldna þróaðist.

Myndin hér að neðan sýnir skiptingu hreinna eigna (þeir eignalausu eru undanskildir), frá 2000 til 2013. Tölurnar sýna eignarhlut eignamestu 10 prósenta einstaklinga, eignamestu 30 prósenta einstaklinga og loks fyrir þau 40 prósent einstaklinga sem eru í miðju eignastigans.

Alls ná upplýsingarnar á myndinni þannig til 70% einstaklinga, en lægstu 30% sem uppá vantar eru eignalaus, þ.e. eignastaða einstaklinga í þeim hópum er í heild neikvæð; flestir þeirra skulda meira en þeir eiga).

Eignamestu 70 prósent einstaklinga eiga sem sagt allar hreinar eignir fjölskyldna í landinu (skv. skattframtölum og vinnslu Hagstofunnar). Myndin sýnir hvernig þær eignir skiptast milli hæstu eignahópanna og miðjunnar. Eignamestu 30 prósentin áttu um 88% hreinna eigna til 2005 en hlutur þeirra hækkaði svo í tæp 96% árið 2010 en var árið 2013 um 94%.

Ríkustu 10 prósentin áttu um 61% hreinna eigna 2013 (þegar þeir eignalausu eru undanskildir) en ef þeir eignalausu eru meðtaldir voru eignir ríkustu tíu prósentanna rúmlega 70% hreinna eigna árið 2013.

Eignir stétta 2

Myndin sýnir að eignamesti hópurinn (þau tíu prósent einstaklinga sem mest eiga) átti um 52-54% hreinna eigna fjölskyldna á árunum fyrir hrun (strikuðu súlurnar á myndinni). Hlutur þeirra fór svo hækkandi á bóluárunum og alveg til 2010.

 

Aukin samþjöppun á toppnum – minnkandi hlutur miðjunnar

Hæst fór hlutur eignamesta hópsins í 65%, þ.e. eignamestu tíu prósentanna, árið 2010 (hann jókst í kreppunni vegna þess að eignir lægri hópa minnkuðu meira en eignir hæstu tekjuhópa, eins og sjá má í fyrri pistli mínum). Á árinu 2013 hafði hlutur eignamesta tíundarhópsins lækkað lítillega, eða í 61%.

Í reynd er samþjöppun eigna á Íslandi mjög mikil og ójöfnuður í skiptingu eigna mun meiri en ójöfnuður í skiptingu tekna. Ójöfnuðurinn jókst enn frekar á bóluárunum og einnig í kreppunni.

Samþjöppun eigna á toppnum hefur þannig aukist á þessum tíma.

Eignamesti þriðjungur þjóðarinnar á í reynd megnið af hreinum eignum í landinu.

Samanlagður hlutur eignamestu 30 prósenta einstaklinganna var samkvæmt tölum Hagstofunnar rúmlega 87% árið 2000 og hafði hann hækkað í 94% hreinna eigna í lok tímabilsins (2013).

Ekki síður er athyglisvert að skoða hlut millistéttarinnar. Hún er metin sem þau 40% einstaklinga sem eru með hreinar eignir í miðju eignastigans.

Hlutur miðjunnar af hreinum eignum fjölskyldna var rúmlega 12% í byrjun tímabilsins en hafði lækkað í 6% í lok þess, eins og sjá má á myndinni að ofan.

Á seinni myndinni er sýnd hlutfallsleg skipting heildareigna fjölskyldna árin 1997 og 2013. Þar má sjá stöðu allra eignahópa, líka eignaminnstu hópanna sem eru undanskildir á efri myndinni.

Hlutur eignamestu hópanna er hærri hér en á fyrri myndinni, þegar allir eru meðtaldir en ekki bara þeir hópar sem eru með “hreinar eignir”.

Eignir-Hlutdeild heildareigna 1997 og 2013

Hér má sjá að hlutur eignamestu tíu prósentanna í heildareignum fjölskyldna fór úr um 56% árið 1997 upp í rúm 70% árið 2013.

Á sama tíma lækkaði hlutur lægsta eignahópsins úr -7,5% í -12,7%. Skuldastaða þeirra versnaði.

Þessi mynd sýnir einnig skýrlega hversu rýr hlutur hópanna á miðjunni er í heildareignum fjölskyldna (hópar 4 til 7).

Þar sem eignarhlutur miðjunnar var yfirhöfuð einhver fyrir hefur hann rýrnað á síðustu árum (hópar 6 og 7 og einnig í hópi 8) – um leið og eignarhlutur efstu tveggja hópanna stækkaði.

Þetta er þannig saga aukinnar samþjöppunar “heildareigna” (allir meðtaldir), jafnt sem “hreinna eigna” (eignalausir undanskildir). Eignir eru í öllum tilvikum taldar sem eignir umfram skuldir, þ.e. nettóeignir.

Niðurstaðan er sú, að eignaskiptingin á Íslandi hefur orðið ójafnari – bæði í aðdraganda hrunsins og í kreppunni sem fylgdi.

 

Aths. Rétt að hafa í huga að eignir Íslendinga erlendis (þ.m.t. í skattaskjólum) eru ekki meðtaldar. Það myndi einkum bætast við eignir hæsta eignahópsins. Fjáreignir eru taldar á nafnverði en ekki á markaðsverði. Það vanmetur einnig eignir eignamestu hópanna. 

Síðasti pistill: Eignir stéttanna, 1997 til 2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar