Mánudagur 10.11.2014 - 11:55 - FB ummæli ()

Hagstofan – fróðleg skýrsla um börn og fátækt

Hagstofa Íslands hefur undanfarið aukið birtingar á efni úr lífskjarakönnun ESB, sem framkvæmd er árlega hér á landi, eins og í öðrum Evrópulöndum.

Fyrir skömmu komu út nýjar skýrslur um húsnæðisaðstæður og um skort á efnislegum lífsgæðum.

Það eru mjög gagnlegar upplýsingar sem koma fram í þessum skýrslum.

Í þeirri nýjustu er sjónum sérstaklega beint að börnum og fátækt. Fátækt er þar mæld annars vegar sem hlutfall barnafjölskyldna undir fátæktarmörkum (afstæð fátækt) og hins vegar hlutfall barnafjölskyldna af ýmsum gerðum sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum (algild fátækt).

Almennt tel ég meira byggjandi á vísum um algilda fátækt og upplýsingum um fjárhagsþrengingar en á vísum um afstæða fátækt. Fjölþættari mælingar gefa þó almennt skýrari mynd af fátæktarvandanum en hver og ein mæling.

Niðurstaða þessarar nýju skýrslu er sú, að fátæktarvandi er algengari á heimilum þar sem börn eru en á öðrum heimilum. Einnig er fátækt mun algengari hjá einstæðum foreldrum en hjónum með börn. Þá er hættan á fátækt mest hjá yngstu foreldrunum.

Á myndinni hér að neðan, sem kemur úr skýrslu Hagstofunnar, má annars vegar sjá yfirlit um hlutfall barnafjölskyldna undir lágtekjumörkum og hins vegar barnafjölskyldur sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum.

Screen shot 2014-11-10 at 10.41.34 AM

Í báðum mælingum er hlutfall barnafjölskyldna hærra en hjá öðrum fjölskyldum. Þá er athyglisvert að þó hlutfall þeirra sem búa við skort á efnislegum lífsgæðum hafi aukist eftir að hrunið skall á þá varð það ekki hærra en á árunum frá 2004 til 2007. Á árinu 2008 voru innleiddar breytingar í almannatryggingakerfinu sem drógu úr fátækt lífeyrisþega, en sú þróun gekk að hluta til baka með hruninu.

Á seinni myndinni má sjá erfiða stöðu einstæðra foreldra í samanburði við hjón með tvö börn á heimilinu.

Screen shot 2014-11-10 at 10.43.02 AM

Um 30% einstæðra foreldra voru undir lágtekjumörkum árið 2013 og um 25% þeirra búa við skort á efnislegum lífsgæðum (heilu línurnar á myndinni).

Hjá hjónum með tvö börn eru tölurnar sitt hvoru megin við 5%, sem er lágt í alþjóðlegum samanburði. Staða barna einstæðra foreldra ætti því að vera sérstakt áhyggjuefni á Íslandi. Hún er markvert verri hér en á hinum Norðurlöndunum, samkvæmt upplýsingum frá Eurostat og OECD (sjá hér).

Í fyrri skýrlu Hagstofunnar um skort á efnislegum lífsgæðum kom einnig fram að um 25% öryrkja búa við skort á efnislegum lífsgæðum og um 22% atvinnulausra.

Einstæðir foreldrar, öryrkjar og atvinnulausir eru samkvæmt þessum skýrslum Hagstofunnar þeir þjóðfélagshópar sem búa við mesta hættu á fátæktarþrengingum Íslandi í dag.

Svona upplýsingar auðvelda mjög árangursríka stefnumótun á sviði velferðarmála.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar