Þessa dagana sit ég ráðstefnu OECD og Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel um vinnuþátttöku og lífeyriskerfi. Markmiðið er að safna saman upplýsingum um reynslu ólíkra þjóða af ólíku skipulagi lífeyriskerfa og vinnumarkaða.
Mér var boðið að halda erindi um fyrirkomulagið og reynsluna á Íslandi. Íslendingar hafa reyndar talsverða sérstöðu á þessu sviði, því við förum síðar á eftirlaun eða lífeyri en flestar aðrar vestrænar þjóðir.
Þetta tengist sérstöðu bæði í lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði og hefur ýmis jákvæð áhrif, sem marga fýsir að öðlast. Að fara síðar á lífeyri bætir hag eldra fólks og heldur kostnaði lífeyriskerfa niðri, svo dæmi sé tekið.
Það er reyndar talsverður vandi í mörgum ríkjum á meginlandi Evrópu að menn fara afar snemma út af vinnumarkaði og inn í lífeyriskerfin, jafnvel áður en þeir ná sextugsaldri þar sem lengst er gengið. Þetta leiðir til mikils kostnaðar fyrir samfélögin.
Margar þjóðir standa frammi fyrir því að ráða illa við þennan kostnað og valið verður þá um að hækka lífeyristökualdurinn, hækka iðgjaldagreiðslur og skatta, eða skerða lífeyriskjörin.
Eftirsóknarverðast virðist að hækka lífeyristökualdurinn – en þó sjaldnast vandræðalaust.
Eitt af því sem ég sýndi ráðstefnugestum, sem eru sérfræðingar á þessu sviði frá öllum ESB ríkjunum, var myndin hér að neðan. Á henna má sjá atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 65 til 69 ára. Sérstaða Íslendinga er mikil þarna.
Um 48% Íslendinga á þessum aldri stunda einhverja launaða vinnu. Frændur okkar Norðmenn koma næstir með um 27% og aðrar þjóðir eru með mun lægri tölur. Danir eru með 14% atvinnuþátttöku í þessum aldurshópi og Spánverjar 4%, svo dæmi séu tekin.
Nú er fleira sem hefur gildi í lífinu en launuð vinna. En með góðu heilsufari og góðum líkum til að ná frekar háum lífaldri (sem Íslendingar njóta í miklum mæli samanborið við margar aðrar þjóðir) þá er vinnugeta meiri en á fyrri tíð.
Íslendingar vilja almennt ekki hækka hinn opinbera lífeyristökualdur (67 ára), þó karlar fari nú að jafnaði út af vinnumarkaði hér við 68 ára aldur og konur við 67 ára aldurinn. Það er heldur lægra en var á árunum fyrir kreppuna.
Hins vegar kemur fram í könnunum að Íslendingar vilja gjarnan hafa val um það, hvenær þeir hætta og sérstaklega fýsilegt finnst mörgum hér að eiga kost á að trappa sig út af vinnumarkaðinum, með minnkandi starfshlutfalli.
Margir öfunda okkur af þessum háa lífeyristökualdri og þeim ávinningi sem honum fylgir. En margt þarf til að sú útkoma gangi eftir. Vinnumarkaðir og lífeyriskerfi þurfa að vinna saman á farsælan hátt og það reynist mörgum þjóðum erfitt verkefni að leysa.
Fyrri pistlar