Laugardagur 06.12.2014 - 12:37 - FB ummæli ()

Er báknið alltaf að þenjast út?

Frjálshyggjumenn eru sífellt að tala um að ríkið sé alltaf að vaxa. Þeir missa gjarnan svefn yfir þessu.

Telja að ríkið vaxi jafnt í tíð hægri og vinstri stjórna. Vaxi alveg stjórnlaust!

En hvað segir Hagstofa Íslands um þróun opinberra útgjalda? Opinber útgjöld eru mikilvægasti mælikvarðinn á umsvif hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga samanlögð).

Það má sjá á myndinni hér að neðan. Hún er með tvo mælikvarða á útgjöldin. Annars vegar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og hins vegar í krónutölu á föstu verðlagi 2013.

Opinber útgjöld til 2013

Bláa línan bendir til vaxtar útgjalda að raunvirði frá 1988, einkum eftir 1995. Hámarki náðu útgjöldin á hrunárinu 2008. Þá urðu útgjöldin óvenju mikil, einkum vegna endurfjármögnunar hins gjaldþrota Seðlabanka Íslands.

En þjóðarframleiðslan sjálf jókst líka á þessum tíma að krónuvirði.

Við venjulegar aðstæður aukast raunveruleg útgjöld hins opinbera að krónuvirði álíka mikið og þjóðarframleiðslan, til dæmis vegna þess að laun opinberra starfsmanna fylgja launaþróuninni í einkageiranum. Það þarf ekki einu sinni fjölgun opinberra starfsmanna til að opinber útgjöld aukist samhliða þjóðarframleiðslunni.

Þetta er einmitt það sem gerðist á tuttugu árunum frá 1988 til 2007.

Opinber útgjöld jukust þá einfaldlega í takti við þjóðarframleiðsluna, auknu umsvifin í samfélaginu. Þetta má sjá á gráu súlunum á myndinni. Opinberu útgjöldin í heild voru um 41,5% árið 1988 og 40,7% árið 2007. Á milli sveifluðust þau í kringum þessar stærðir (urðu lægst 39,5% og hæst 44,6%).

Hlutur opinberra útgjalda af þjóðarkökunni stóð sem sagt að mestu í stað í 20 ár fram að hruni.

Þá jukust þau hins vegar gríðarlega, vegna kostnaðar af hruninu. En þau hafa verið lækkandi á ný frá 2010. Útgjöldin eru þó enn heldur hærri en almennt á 20 ára tímabilinu fram að hruni, einkum vegna mikils vaxtakostnaðar af opinberum skuldum, sem hrunið jók stórlega.

Það virðist stefna í að báknið jafnist aftur út í svipaðri stærð og fyrr, eftir að afleiðinga frjálshyggjuhrunsins fer að gæta minna á næstu árum (sjá hér, mynd 6).

Það er því vægast sagt villandi þegar frjálshyggjumenn fjargviðrast yfir meintum vexti ríkisvaldsins.

Báknið hefur að mestu staðið í stað, nema vegna frjálshyggjuhrunsins (sem frjálshyggjumenn eiga enn eftir að biðja afsökunar á!).

Opinbera báknið óx hins vegar einnig frá 1980 til um 1990, en þá var það einkum vegna vaxtar velferðarríkisins og menntakerfisins. Sá vöxtur var samfélaginu mjög til góðs.

Raunar er báknið á Íslandi ekki sérlega stórt samanborið við grannríki Íslendinga (sjá hér og hér).

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar