Þriðjudagur 30.12.2014 - 14:54 - FB ummæli ()

Nýja Ísland – hver er stefnan?

Nýja ÍslandÍ lok hrunmánaðarins, október 2008, kom út bókin Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér, eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing.

Bókin var skrifuð á árinu fyrir hrun og lýsti miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem orðið höfðu upp úr 1990. Höfundur segir svo í formála að tengja megi sumar þessara breytinga við hrunið sjálft, sem orsakir.

Þær breytingar sem Guðmundir Magnússon fjallaði um voru hnignun íslenska jafnaðarsamfélagsins sem ríkt hafði frá lýðveldisstofnun og upplausn þeirrar samheldni sem því hugarfari fylgdi.

Í staðinn kom aukin stéttaskipting og auðræði, sem skákaði lýðræðislegu valdi til hliðar. Því fylgdi svo fjármálavæðing alls samfélagsins, þar sem bankamenn og braskarar fóru með mestu völdin.

Þessi nýja valdastétt á toppi samfélagsins drekkti fyrirtækjum og bönkum í skuldum, með taumlausri græðgi sinni og braski með lánsfé. Að lokum varð skuldasöfnunin svo mikil að hrun fjármálakerfisins varð óumflýjanlegt.

Guðmundur gagnrýnir þetta nýja Ísland sem hinum nýja tíma fylgdi, tíma sem ég hef kallað “frjálshyggjutímann” en mætti líka kalla „sérhyggjutíma“. Hann telur að samfélagið hafi verið betra áður en til þessara nýmæla og breyttu stéttaskiptingar kom – auk þess sem hann harmar auðvitað hið mikla hrun sem í kjölfarið fylgdi.

Lykilhugtök gamla samfélagsins voru “jöfnuður, menning og samfélag”, segir Guðmundur. En lykilhugtök þessa nýja Íslands voru “frelsi, peningar og markaður”.

Gagnrýni Guðmundar Magnússonar er sérstaklega sterk því hann hefur lengi verið virkur Sjálfstæðismaður og var meira að segja sjálfur talsmaður aukinnar frjálshyggju á árum áður. Sú frjálshyggja sem hann mælti þá með lagði áherslu á heilbrigðari samkeppni, jöfn tækifæri og minni spillingu í stjórnmálum. Það er stefna sem gamli Alþýðuflokkurinn lagði oft mikla áherslu á.

En sú frjálshyggja sem varð ríkjandi eftir 1990, nýfrjálshyggjan (neoliberalism/libertarianism), færði hins vegar fyrri galla samfélagsins flesta til verri vegar. Samþjöppun auðs og valds varð meiri en nokkrum sinnum fyrr, ójöfnuður jókst og fyrirhyggjuleysi keyrði um þverbak.

Samhliða þessu jukust völd auðmanna í stjórnmálum til muna. Spilling jókst og samfélagið veiktist vegna aukinna áhrifa auðræðis (sjá viðtal við Guðmund hér).

 

Hvert stefnir hið endurreista Ísland?

Eftir hrun varð ríkjandi sá skilningur að tilraunin með óheftan markað og fjármálavæðingu í aðdraganda hrunsins hefði mistekist herfilega. Breyta þyrfti um kúrs og endurbyggja samfélagið, fá annað “nýtt Ísland”.

Vinda skyldi ofanaf fjármálavæðingunni, spillingunni, græðginni, ofurvaldi auðmanna og efla í staðinn lýðræði, aðhald, fagmennsku, gagnsæi og gera samfélagið heilbrigðara.

“Heiðarleiki, virðing, jafnrétti og réttlæti” voru helstu áhersluorð þjóðfundarins árið 2009.

Nú sex árum eftir hrun má spyrja hvernig til hafi tekist? Hvar er hið nýja Ísland statt?

Að mörgu leyti tókst endurreisn samfélagsins nokkuð vel, miðað við aðrar þjóðir sem fóru illa út úr kreppunni, til dæmis Írland, Grikkland, Spán, Portúgal og Eystrasaltsríkin. Hagvöxtur var endurvakinn frá og með 2011 og atvinnuleysi varð minna hér en víðast í kreppuríkjunum.

Lægri tekjuhópum var að hluta hlíft við áfallinu, þó allir fyndu fyrir mikilli kjaraskerðingu. Jöfnuður jókst verulega á ný, með lækkun fjármagnstekna yfirstéttarinnar og breyttri skatta- og bótastefnu stjórnvalda.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði góðri skýrslu um orsakir hrunsins og fleiri lögðu þar hönd á plóg. Of mikil áhættutaka og skuldsetning sem bankarnir gerðu mögulega var sögð frumorsök vandans, en opinberir eftirlitsaðilar (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld) brugðust í þeirri skyldu sinni að verja almenning gegn óhófi fjármálageirans og yfirstéttarinnar.

Sérstakur saksóknari var skipaður til að rannsaka hvort lög hefðu verið brotin. Hann er enn að störfum, en hefur þegar kært allmarga þátttakendur. Allnokkrir hafa verið sakfelldir en sumir hafa fengið sýknudóm.

Tilraunir til að endurnýja lýðræðið með setningu nýrrar stjórnarskrár, fyrir milligögnu stjórnlagaráðs, var siglt í strand af ríkjandi stjórnmálaöflum. Lítils virðist að vænta af framhaldi þess máls.

Fá önnur nýmæli í samfélagsgerðinni er uppi og raunar virðist sem hið endurreista Ísland sé í grunninn að mestu svipað því samfélagi sem var hér fyrir hrun, án óhófsbrasksins þó – enn sem komið er.

Sú endurnýjun sem vonast var eftir hefur þannig orðið að litlu.

Átökin um stöðu og framtíð opinbera heilbrigðiskerfisins og Ríkisútvarpsins vekja svo upp margar spurningar um horfurnar.

 

Sérhyggjumenn herða róðurinn

Í flestum grannríkjanna á Vesturlöndum er litið svo á að hemja verði fjármálageirann eftir kreppureynsluna, með nýrri löggjöf um hertara eftirlit og aðhald hins opinbera og seðlabanka. Stemma þurfi stigu við ójöfnuði, ofríki og óhófi fjármálaaflanna, með því að setja eins konar hraðatakmarkanir (reglun og aukið aðhald) á nýfrjálshyggjuskipanina sem komin var á. Grunni kapítalismans er þó almennt ekki breytt.

Hér á landi neituðu nýfrjálshyggjumenn að viðurkenna nokkra ábyrgð eða galla óhefta markaðarins, auðmannadekursins né galla afskiptaleysisstefnunnar sem ríkti fyrir hrun. Margir íslenskir hagfræðingar virðast því miður enn of hallir undir óheftan markað, þó OECD og AGS og fleiri hafi snúið við blaðinu í þeim efnum (sjá hér). Hér er því lítill vilji til breytinga.

Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar hafa endurheimt sjálftraust sitt og þylja nú með vaxandi þunga sömu þulurnar og fyrir hrun. Þær snúast um aukið frelsi fyrirtækja og fjármála; lækkun skatta (einkum hjá hátekjufólki og fyrirtækjum); samdrátt ríkishlutverks á öllum sviðum; einkavæðingu; markaðsvæðingu; einkaeign á náttúruauðlindum þjóðarinnar og öðrum sameignum; veikingu eftirlitsstofnana; niðurrif velferarríkisins (þ.m.t. opinbera heilbrigðisgeirans) og niðurrif Ríkisútvarpsins.

Sérstakt nýmæli hjá íslenskum nýfrjálshyggjumönnum eftir hrun er útbreiðsla hins róttæka boðskapar skáldkonunnar Ayn Rand, en hún telur atvinnurekendur vera ofurmenni og flesta aðra aumingja er lifi sníkjulífi á þeim ríku! „Græðgi er góð“ og „kapítalisminn siðlegur“ hafa þeir eftir henni. Ayn Rand er einnig þekkt fyrir blygðunarlausa lofgjörð sína um eigingirnina. Þessir aðilar ganga því enn lengra en áður í áróðursstarfi sínu.

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins (SA) eru aftur komin  á fullt við að móta þjóðmálastefnuna í þessum anda og frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru við völd í landsstjórninni. Þar lækka þeir skatta á hátekju- og stóreignafólk en hækka matarskatt og komugjöld í heilbrigðisþjónustunni, sem leggst með mestum þunga á þá tekjulægstu.

Margt virðist þannig stefna í sömu átt og fyrir hrun. Tal um hraðahindranir eða takmarkanir á nýfrjálshyggjuskipan óhefta markaðarins virðist vera jafnvel minna hér á landi en í flestum grannríkjanna, þrátt fyrir skelfilega reynslu okkar af hinu “Nýja Íslandi” Guðmundar Magnússonar.

Þeir sem vilja verjast því að tilraun fyrir-hruns áranna verði endurtekin þurfa því að hafa sig alla við – hvar í flokki sem þeir standa.

Minnumst þess að margir græddu gríðarlega á braski bóluáranna og vilja ólmir taka upp þann þráð á ný, um leið og þeir sjá mikla þörf á að halda aftur af öllum launahækkunum til almennings. Sömu aðilar vilja gera almenning ábyrgan fyrir verðbólgunni og heimta jafnframt meiri niðurskurð opinbera velferðarkerfisins, svo lækka megi skatta á hátekjufólk og fyrirtæki.

 

Lokaorð

Í lokakafla bókar sinnar, Nýja Ísland: Listin að týna sjálfum sér, segir Guðmundur Magnússon:

„Á síðustu fimmtán árum eða svo hefur hinn alþjóðlegi frjálsi markaður numið land á Íslandi með öllum þeim kostum og ókostum sem honum fylgja. Hér hefur orðið til nýtt þjóðfélag, sumpart fyrir innlendan tilverknað, sumpart fyrir hnattræna þróun og sem afleiðing af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hamagangurinn og kappið sem einkennt hefur þessi ár minnir að ýmsu leyti á það hvernig eldri kynslóðir brutust úr fátækt og kyrrstöðu þjóðfélagsins á fyrstu áratugum síðustu aldar. En munur er á. Þær báru gæfu til þess að varðveita og rækta samtímis með sér lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeiði sem gekk yfir. Annars hefði farið illa. Annars er ekki víst að Ísland væri í dag sjálfstætt ríki.  Jöfnuðurmenning og samfélag eru lykilhugtök til skilnings á þessum tíma. Þá sögðu Íslendingar gjarnan „við“ og skírskotuðu þannig til heildarinnar.

Frelsipeningar og markaður mega líklega teljast einkennishugtök „Nýja Íslands“. Nú segja menn oftar „ég“ en „við“; „hvað hef ég upp úr þessu?“ er ósjaldan viðkvæðið þegar verkefni eða viðfangsefni ber á góma. Aukið frelsi einstaklinga og svigrúm til viðskipta er stærsti ávinningur síðustu áratuga. En kunnum við að fara með frelsið? Skiljum við ábyrgðina sem því fylgir? Getur verið að breytingarnar hafi orðið hraðstígari en þjóðfélagið réð við? Margt sem rakið hefur verið í þessari bók bendir til þess að svo sé. Svo virðist sem í ákafanum á markaðnum hafi samkenndin, sem er svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélagsins, gleymst. Hlýtur það ekki að vera hið stóra verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir að endurheimta hana?“

Taka má undir þessi orð Guðmundar Magnússonar.

 

PS! Þetta er lítillega endurbætt útgáfa fyrri pistils.

Síðasti pistill: Úr garði Monets

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar