Laugardagur 03.01.2015 - 15:45 - FB ummæli ()

Ísland er gott – en gæti verið mun betra

Forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, benti réttilega á að Íslendingar hafa náð afar góðum árangri við uppbyggingu lífsgæða frá lýðveldisstofnun til nútímans, í áramótaávarpi sínu.

lifskjor_og_lifsh_a_n_1990Ég skrifaði bók árið 1990 um viðamikla rannsókn á lífskjörum á Íslandi, sem gerð var árið 1988, fyrir hátt í þrjátíu árum síðan. Þar var meðal annars mikill samanburður á lífskjörum Íslendinga og annarra norrænna þjóða, þar sem litið var til fjölmargra lífskjaraþátta á tímabilinu 1985-1988 (sjá Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum).

Þá þegar vorum við komin í fremstu röð vestrænna þjóða (sjá stutta umfjöllun um bókina hér).

Megin einkenni lífskjara Íslendinga á árunum 1985 til 1990 var það, að Íslendingar voru með afar góða útkomu á sumum sviðum en lakari á öðrum. Einkum taldist lakara að Íslendingar þurftu að hafa talsvert meira fyrir öflun lífsgæða sinna en hinar norrænu þjóðirnar, sem voru í fremstu röð vestrænna þjóða á þeim tíma.

Íslendingar þurftu að vinna mun meira fyrir sínum lífskjörum og nutu minni velferðarforsjár hins opinbera, en á móti voru skattar lægri hér. Niðurstaða mín var sú, að Ísland væri meira sjálfsbjargarsamfélag þar sem hinar norrænu þjóðirnar væru meiri velferðarríki.

Í bókinni Eilífðarvélin (kafla 6), sem kom út árið 2010 í ritstjórn Kolbeins Stefánssonar, var komið aftur inn á slíkan samanburð. Einnig í nýlegri bók minni og Guðnýjar Eydal  (Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).

Þar kom fram að saman hefur dregið með norrænu þjóðunum í velferðarútgjöldum á tímabilinu. Skattar á einstaklinga hækkuðu einnig hér frá 1995 til 2004, mest á lægri tekjuhópa. Ávinningur af lægri sköttum hefur því farið þverrandi hér á landi á síðustu tveimur áratugum.

Samt var Ísland enn í fremstu röð á árunum 2005 til 2008, ásamt hinum norrænu þjóðunum – auk Hollands, Sviss og Lúxemborgar (sjá hér). Það var niðurstaða afar fjölþættrar rannsóknar á lífsgæðum nærri 30 nútímaþjóða.

Enn var þó sama einkennið á góðum lífsgæðum Íslendinga, þ.e. að þeir þurfa að vinna meira fyrir sínu en grannríkin. Grunnkaup er lægra og vinnutími lengri hér. Skuldir einnig miklar og vextir alltof háir.

Hrunið magnaði svo fjárhagsþrengingar á Íslandi með mikilli lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna og aukinni skuldabyrði, sem færði okkur neðar í alþjóðlegum lífskjarasamanburði.

OECD setur okkur nú í 11 sæti af aðildarríkjum sínum (og byggir það á gögnum fyrir árin 2011-2012) þ.e. eftir að botni kreppunnar var náð (sjá hér). Við höfðum þá fallið úr 6. sæti á sambærilegan fjölþættan mælikvarða fyrir árin 2005 til 2008.

Við vorum hins vegar komin á ný í þriðja efsta sæti hvað ánægju með lífið snertir árið 2012 (sjá hér, mynd 5). Það var svipuð niðurstaða og kom fram í skýrslunni sem forsetinn vísaði til (hér), en hún nær til ýmissa annarra þátta en ánægju með lífið.

 

Það sem gæti verið betra

Frá 2011 höfum við verið að bæta hag okkar á ný, án þess þó að hafa enn náð sambærilegri stöðu og fyrir hrun. Það sem helst vantar uppá nú er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna batni enn frekar.

Hækka þarf grunnkaup og draga úr yfirvinnu og óhóflegri atvinnuþátttöku. Einnig gæti verið kjarabót í lækkaðri skattbyrði hjá lægri og milli tekjuhópum, þ.e. ef það kemur ekki til fulls niður á lakari velferðarþjónustu eða í aukningu notendagjalda.

Húsnæðismálin eru sérstaklega erfið vegna áhrifa hrunsins, misvægis í húsnæðisframboði og vegna of lélegs kaupmáttar margra, einkum ungs fólks.

Heilbrigðismál sömuleiðis. Þar eru mál þó væntanlega að fara að snúast til betri vegar, með kjarasamningum við lækna og auknum fjárveitingum til málaflokksins.

Vinstri stjórnin verndaði allra tekjulægstu hópana eftir hrun og núverandi stjórn hefur breikkað það til annarra tekjuhópa, t.d. með skuldaleiðréttingunni, auk nokkurra kjarabóta til lífeyrisþega. Meira þarf þó til.

Stóra verkefnið í kjarasamningum í framhaldinu ætti að vera áhersla á framleiðniaukningu (með styttingu vinnutíma) og verðtryggða kaupmáttarsamninga, sem færa t.d. 3-4% aukningu ráðstöfunartekna samhliða hagvexti upp á 2-3%, til lengri tíma litið. Með meiri hagvexti myndi kaupmáttur hækka meira.

Verðtrygging kjarasamninga er sérstaklega hagstæð og áhættulítil núna, þegar liggur við verðhjöðnun. Við þær aðstæður má semja um hóflega kaupmáttaraukningu á línuna, þannig að hagvöxtur á mann skili sér að fullu til allra. Afmarkaðir sérhópar í greinum sem standa vel gætu jafnvel fengið enn meira.

Umbætur í húsnæðismálum, framleiðniaukning og verðtryggðir kaupmáttarsamningar ættu að vera stærstu málin til skemmri tíma, að því gefnu að heilbrigðismálin séu nú að komast á betri braut. Menntamálin þurfa síðan að fá fjárhagslega örvun eftir niðurskurð krepputímans.

Stjórnvöld vinna nú að miklum umbótum í húsnæðismálum, sem munu væntanlega líta dagsins ljósa alveg á næstunni. En óvíst er hvaða stefna verður tekin á vinnumarkaði. Þar ættu menn að skoða mögulegan ávinning af tengingum milli framleiðniaukningar og verðtryggðra kaupmáttarsamninga.

Með duglegu átaki á þessum sviðum á allra næstu árum komumst við betur út úr afleiðingum hrunsins og gerum gott Ísland enn betra en nú er.

Það er vel gerlegt. Gæfa okkar felst ekki hvað síst í þeim möguleika.

Til lengri tíma ætti svo að vera hægt að útrýma alvarlegri fátækt á Íslandi og gera samfélagið enn manneskjulegra, grænna og vænna.

 

Síðasti pistill:  Nýja Ísland – hver er stefnan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar