Nú berast þau tíðindi frá Alþingi að náttúrupassafrumvarpið sé dautt. Það verður ekki afgreitt úr nefnd á þessu þingi.
Ekki er meirihluti fyrir því, hvorki hjá stjórnarflokkun né stjórnarandstöðu.
Þetta mátti sjá fyrir.
Ég sagði í pistli sl. vetur um þessa skelfilegu hugmynd ráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að líklegra væri að hún fengi reisupassa en náttúrupassa, þegar upp yrði staðið.
Þetta var slæm hugmynd, sem hefði haft afleitar afleiðingar fyrir ásýnd lands og þjóðar og jafnvel skaðað ferðaþjónustuna.
Fyrir utan hversu fáránlegt það var að ætla að leggja skatt á Íslendinga til að byggja göngustíga fyrir blómstrandi ferðaþjónustu, sem í alltof miklum mæli er svört atvinnustarfsemi.
Ef tekið væri á miklum skattsvikum ferðaþjónustunnar myndu meira en nægir fjármunir aflast til gerðar göngustíga og nauðsynlegrar aðstöðu við helstu ferðamannastaði. Að því frátöldu hefði gistináttagjald dugað vel, með lágmarks tilkostnaði.
Nú hefur sem sagt komið á daginn að þingið hafnar hinni afleitu hugmynd ráðherrans.
Fara verður aðrar og eðlilegri leiðir til að fjármagna verkefnið.
Megi náttúrupassinn hvíla í friði – um alla tíð.
Fyrri pistlar