Það var fróðlegt að hlusta á ræðu Frans páfa á Bandaríkjaþingi í dag.
Páfinn hefur verið ófeiminn við að taka afstöðu til brýnna þjóðmála samtímans. Hann hefur markað sér stöðu með áherslu á hófsemd, réttlæti og sjálfbærni, en gegn fátækt og útskúfun.
Hann gagnrýnir græðgi og peningahyggju frjálshyggjukapítalisma nútímans og stríðsrekstur hvers konar.
Hann hvetur til alvöru aðgerða til að draga úr fátækt, ekki síst í ríkum samfélögum, eins og Bandaríkjunum, sem hafa góð efni til að útrýma sárri fátækt.
Það er gott og tímabært að Frans páfi tali þessu máli yfir þingmönnum Bandaríkjaþings.
Þar hefur almennt verið lítill áhugi á að nota gríðarlegan auð Bandaríkjanna til að draga úr fátækt og bæta hag venjulegs fjölskyldufólks.
Stjórnmálamenn beggja flokka (Repúblikana og Demókrata) virðast oft hafa meiri áhyggjur af því, að auður þeirra allra ríkustu aukist ekki nógu hratt. Það á þó meira við um Íhaldið (Repúblikana) en aðra.
Íhaldið í Bandaríkjunum hefur mestan áhuga á óheftum kapítalisma, sem fóstrar græðgi og ójöfnuð. Þeim hugnast ekki velferðarríkið og skattkerfið, sem endurdreifir auðnum frá þeim allra ríkustu til lægri og milli tekjuhópa.
Þeim hugnast heldur ekki barátta gegn umhverfismengun, sem páfi boðar af mikilli sannfæringu.
Repúblikanar segjast vera “fyrir lífið” og hafna fóstureyðingum á þeirri forsendu. En fáir eru jafn herskáir talsmenn stríðsrekstrar og þeir. Í stríðum tapast flest lífin.
Fáir leggja meiri áherslu á dauðarefsingu og óhefta byssueign en Repúblikanar. Er það að vera “fyrir lífið”?
Almennir Bandaríkjamann taka páfa vel. Þess vegna þykjast Repúblikanar einnig vera ánægðir með komu páfa á þingpalla, þó boðskapur hans gangi gegn mörgu í pólitík þeirra. Sumir þeirra hafa þó opinberað efasemdir sínar um boskap hans.
Vonandi hefur Frans páfi einhver áhrif á hugarfar ríkjandi afla í Bandaríkjunum.
Boðskapur hans er til góðs fyrir alla.
Fyrri pistlar