Sunnudagur 27.09.2015 - 20:54 - FB ummæli ()

Vúdú-velferð Sjálfstæðiskvenna

Fyrir síðustu kosningar byggðu Sjálfstæðismenn málflutning sinn mikið á vúdú-hagfræði.

Sögðust ætla að lækka skatta. Það myndi örva efnahagslífið svo mikið að ríkið yrði ekki fyrir neinu tekjutapi af skattalækkuninni. Skattalækkunin gæti sem sagt borgað sig sjálf. Bullandi gróði fyrir alla!

Þetta væri auðvitað alger galdur ef rétt reyndist. Þess vegna fékk þessi speki nýfrjálshyggjunnar einmitt heitið “vúdú-hagfræði”. Þetta var og er lítið annað en sjónhverfing áróðursmanna.

Þegar Bjarni Benediktsson var kominn til valda í ráðuneyti skattamála lækkaði hann vörugjöld og álagningu í efra þrepi virðisaukaskattsins. Það hefði átt að örva atvinnulífið og duga til að halda tekjum ríkisins óbreyttum, samkvæmt vúdú-hagfræðinni sem hann boðaði fyrir kosningar.

En fjármálaráðherrann (Bjarni Benediktsson) sagði þá að hækka þyrfti matarskattinn til að halda tekjum ríkisins. Vúdú-brellurnar dugðu honum sem sagt ekki þegar á hólminn var komið.

 

Frá vúdú-hagfræði til vúdú-velferðar

Nú fara Sjálfstæðiskonur fram með mikla herferð fyrir einkavæðingu í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þær segja að þetta sé leið til að fá meiri þjónustu án aukinna opinberra útgjalda.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir einmitt að einkavæðing sé leið til að fá meira fé inn í velferðarþjónustuna. Þá á hún við að ríkið borgi að minnsta kosti jafn mikið og áður en notendur þjónustunnar borgi að auki meira sjálfir úr eigin vasa, einkum þeir sem vilja fá meira en grunnþjónustu eina (hvernig sem hún verður svo skilgreind).

Þetta er einmitt borið fram í anda vúdú-hagfræðinnar og meintra yfirburða einkarekstrar á öllum sviðum. Talað er eins og hægt sé að fá meira fyrir minna,  allt fyrir ekkert, rétt eins og í vúdú-hagfræðinni.

En svo átta menn sig allt í einu á því, að einhver þarf að borga meira eða sætta sig við minni þjónustu. Í stað aukinna útgjalda hins opinbera verða notendagjöldin aukin hjá þeim sem vilja fá almennilega þjónustu.

Ásdís Halla Bragadóttir er mikill talsmaður einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni. Hún á og rekur einmitt fyrirtæki á því sviði og vill fá fleiri verkefni frá ríkinu. Segir það auka framboð þjónustu með hagkvæmum hætti. Hún vill sem sagt að ríkið greiði henni fyrir að veita heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir núna.

 

Gallar einkarekstrar á velferðarsviði

Getur slíkur einkarekstur veitt meiri velferð en ríkið gerir nú – fyrir sömu fjárhæð?

Það er alls ekki sjálfgefið. Einkarekstur hefur bæði kosti og galla á þessu sviði. Gallarnir eru meðal annars vegna þess að neytendaaðhalds gætir almennt ekki í heilbrigðisþjónustu eins og á neytendamarkaði. Sérfræðingar velja þjónustuúrræði og lyf, ekki sá sjúki.

Einkarekstur í velferðarkerfinu hefur að auki einn umtalsverðan kostnaðarlið sem ríkið hefur ekki: hagnað og arðgreiðslur til eigenda. Þá er stjórnunarkostnaður almennt meiri í einkafyrirtækjum vegna umtalsvert hærri launa stjórnenda og sérfræðinga en hjá ríkinu.

Einkarekin velferðarþjónusta þarf sem sagt að sjá fyrir kapítalistunum sem vilja græða á henni. Það er umtalsverður viðbótarkostnaður.

Helstu leiðirnar til að ná inn fyrir hagnaði og hærri launum eru annað hvort að draga úr þjónustumagninu sem ríkið greiðir fyrir, eða að láta notendur greiða meira með einum eða öðrum hætti. Þeir sem ekki geta greitt umtalsverð notendagjöld verða þá að neita sér um þjónustu.

Þannig innleiðir einkarekstur stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustuna á ný. Efnahagur ræður þar með meiru um hversu góða eða mikla þjónustu hinir veiku og þurfandi fá.

Undan þessu verður ekki vikist, þó vel meinandi Sjálfstæðiskonur haldi öðru fram – rétt eins og þær séu handhafar einhverra vúdú-bragða í rekstri.

Í Bandaríkjunum hefur verið gengið mun lengra í umsvifum einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu en í Evrópu. Dómur reynslunnar er sá, að einkarekstrinum þar fylgir mun meiri kostnaður en í ríkisreknum heilbrigðiskerfum Evrópu. Betri gæði fyrir þá efnameiri en lakari fyrir hina efnaminni.

Þetta er líka reynslan af auknu hlutverki einkarekstrar í sænska velferðarkerfinu, sem hægri menn beittu sér fyrir á síðasta áratug. Aðgengi og þjónustugæði hinna efnameiri hafa batnað þar en á móti hefur dregið úr aðgengi hinna efnaminni og mest þurfandi. Það segir sænska Ríkisendurskoðunin í nýlegri úttekt.

Mér finnst sjálfsagt að kanna kosti aukins einkarekstrar á sumum sviðum heilbrigðis- og velferðarþjónustu. En jafnframt þarf þá að kanna galla einkarekstrar á því sviði. Vega svo kostina á móti göllunum.

Einkarekstur á velferðarsviði, sem fjármagnaður er af hinu opinbera, á einungis að líða ef hann stenst hin ströngustu próf um hagkvæmni og gæði umfram opinberan rekstur.

Viðmiðið þarf jafnframt að vera, að öllum sé sinnt sem jafningjum, óháð efnahag. Annars er grafið undan velferðarsamfélaginu og stéttaskipting aukin.

Síðasti pistill: Frans páfi hrellir Íhaldið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar