Hún kom skemmtilega á óvart Gallup könnunin sem spurði almenning um frammistöðu forsætisráðherra síðustu tveggja áratuga.
Spurt var hver þeirra hefði staðið sig best í embætti.
Jóhanna Sigurðardóttir ber af. Um 43% svarenda telja hana hafa staðið sig best. Það er meira en helmingur þeirra sem afstöðu taka. Hún er langt fyrir ofan Davíð Oddsson, sem var lang fyrirferðamestur á stóli forsætisráðherra á tímabilinu.
Þetta er sérstaklega skemmtilegt vegna þess að Jóhanna hefur ekki notið sannmælis. Raunar hefur hún verið ófrægð á sérstaklega grófan hátt, meðal annars af pólitískum keppinautum, ekki síst þeim sem er í öðru sæti á listanum.
Almenningur lætur þetta nú sem vind um eyru þjóta og kann að meta verk Jóhönnu. Það er uppörvandi að almenningur skuli að einhverju marki meta fólk og verk óháð áróðri og ófrægingum í fjölmiðlum.
Lexía fyrir Samfylkinguna
Það er líka lexía í þessu fyrir Samfylkinguna, flokk Jóhönnu.
Fyrir síðustu kosningar, þegar Jóhanna var ekki lengur í framboði eða forystu flokksins, var eins og Samfylkingin skammaðist sín fyrir hana og verk ríkisstjórnar hennar og Steingríms J. Sigfússonar.
Samfylkingarfólk bognaði að hluta undan áróðri Sjálfstæðismanna, sem sögðu Samfylkinguna hafa farið of langt til vinstri í samstarfinu við VG. Fyrir því var þó lítill fótur.
Í kosningunum 2013 bauð Samfylkingin heimilunum einkum upp á stöðugleika sem átti að fást með aðild að Evrópusambandinu – og fátt annað. Stjórnarandstaðan bauð hins vegar upp á væna skuldaleiðréttingu og bætt kjör heimila. Val heimilanna var því auðvelt.
Samfylkingin beið afhroð í kosningunum og hefur ekki fundið fjöl sína á ný.
Nú er þar varla að finna verðugan arftaka Jóhönnu í forystusveitinni. Framsókn skartar hins vegar verðugum arftaka Jóhönnu á sviði velferðarmála, Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra.
Jóhanna og ríkisstjórn hennar tóku við skelfilegu búi og komu Íslandi upp úr rústum hrunsins, dýpstu kreppu lýðveldistímans. Þau náðu góðum árangri á mörgum sviðum, þó ekki hafi þau getað staðið við öll loforðin.
Núverandi stjórnvöld tóku við betra búi í batnandi aðstæðum og hafa þau einnig gert margt gagnlegt, skilað okkur lengra framávið.
Þegar ryk þjóðmálabáráttunnar sest batnar dómgreind almennings. Fólk lítur til baka og sér staðreyndirnar í skýrara ljósi. Upphlaup og ófrægingar villa ekki um í sama mæli og fyrr.
Þess vegna er rökrétt að Jóhanna Sigurðardóttir fái nú betra mat hjá almenningi. Ætli núverandi stjórnvöld muni ekki njóta sömu áhrifa í framhaldinu?
Síðasti pistill: Vúdú-velferð Sjálfstæðiskvenna
Fyrri pistlar