Ríkisskattstjóri upplýsti um daginn að áætlað umfang skattsvika á Íslandi nemi rúmlega 80 milljörðum á ári (þ.e. 80 þúsund milljónum króna).
Ríkisendurskoðun Íslands benti á að í Danmörku væri talið að rangar greiðslur í almannatryggingakerfinu gætu numið á bilinu 3-5% af heildarupphæð bóta.
Ef þær tölur giltu fyrir Ísland myndi upphæð rangra greiðslna, m.a. bótasvika, nema á bilinu 2,6-4,4 milljörðum, að mati TR.
Það er þó ekki vitað hvort þessar tölur gætu fyllilega átt við á Íslandi, því það hefur ekki verið vandlega rannsakað. En gáið að því að þetta vísar til “rangra greiðsla, m.a. bótasvika”. Bótasvik eru einungis hluti af þessari upphæð (í Bretlandi eru bótasvik um fjórðungur rangra greiðslna).
Ríkisendurskoðun Bretlands metur árlega eiginleg bótasvik þar í landi og kemst að þeirri niðurstöðu að þau séu þessi árin um 0,7% af útgreiddum bótum.
Ef hlutfall bótasvika væri svipað á Íslandi og í Bretlandi væru bótasvik hér á landi á bilinu 600-800 milljónir króna á ári. Það er vissulega há upphæð.
Samt eru skattsvik í kringum hundrað sinnum stærri upphæð en áætluð bótasvik, ef miðað er við reynslu Breta af bótasvikum í þarlendum almannatryggingakerfum.
Skattsvik og bótasvik eru auðvitað alvarleg mál. Í heilbrigðu samfélagi á hvorugt að líðast.
Það er þó gagnlegt fyrir okkur öll að hafa það á hreinu, að skattsvik gætu verið allt að hundrað sinnum stærra vandamál en bótasvik.
Með því að draga verulega úr skattsvikum væri hægt að lækka skattaálögur á heiðarlega skattgreiðendur eða bæta opinbera þjónustu verulega, fyrir tugi milljarða á ári.
Og með fullri útrýmingu bótasvika væri hægt að tryggja þeim sem raunverulega þurfa á stuðningi almannatrygginga að halda ívið betri kjör, eða á bilinu 15-30 þúsund krónur á ári (þ.e. í kringum 2.000 krónur á lífeyrisþega á mánuði).
Fyrri pistlar