Miðvikudagur 06.01.2016 - 11:18 - FB ummæli ()

Menningin fari öll í eina tunnu

Vigdís Hauksdóttir og Viðskiptaráð eru á einu máli í afstöðu sinni til opinberra stofnana.

Þau telja slíkar stofnanir almennt til óþurfta. Þær séu eins konar lúxus sem skapi engin verðmæti sem teljandi séu.

Bæði Vigdís og Viðskiptaráð hafa þannig lýst þeirri skoðun sinni að fyrirtækin ein skapi verðmæti og opinberir starfsmenn og stofnanir séu eins konar sníkjudýr á fyrirtækjunum, eins og Ayn Rand og Hannes Hólmsteinn myndu orða þetta.

Þess vegna vilja þau hjúin fækka opinberum stofnunum sem mest. Leggja niður, sameina eða hola út að innan – en umfram allt einkavæða sem mest af starfsemi hins opinbera.

Ef sama starfsemin væri komin í hendur einkaaðila myndi hún kanski fara að teljast vera “verðmætaskapandi”! Eins og bankarnir sýndu svo eftirminnilega í kjölfar einkavæðingar þeirra…

Í Fréttablaðinu í dag eru reifaðar hugmyndir þessara aðila um menningarstofnanir. Eftirfarandi er frásögn Fréttablaðsins af málinu:

“Í nóvember 2013 birti hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar 111 sparnaðartillögur og tvær þeirra, númer 36 og 37, fjölluðu um að yfirstjórnir Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Einars Jónssonar og Listasafns Íslands yrðu sameinaðar, annars vegar. Hins vegar að yfirstjórnir Landsbókasafns Íslands, Kvikmyndasafns Íslands, Hljóðbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands yrðu sameinaðar.

Hugmynd Viðskiptaráðs er að öll söfnin sem hér eru nefnd fyrir ofan rynnu saman í eina stofnun – Safnastofnun.”

Þetta tal setur ný viðmið fyrir umræðu um hagræðingu. Allt sem hefur “safn” í heiti sínu skuli renna saman í eina stofnun! Jafnvel þó Þjóðminjasafn og Listasafn Íslands eigi ekki mikið skylt í viðfangsefnum sínum þá skuli þau sameinuð í eina “Safnastofnun”, með fjölmörgum öðrum söfnum – og kanski með Symfóníuhljómsveitinni líka.

Forsendan er auðvitað sú, að þetta sé allt svo ómerkileg starfsemi að það megi spara stjórnendur, símsvara og skúringafólk með því að hrúga því öllu saman undir eina fjarstadda stjórn. Í eina tunnu.

Stjórnunarhugmyndin sem að baki býr á meira skylt við miðstýringu í anda sovét-skipulagsins en það sem alls staðar á Vesturlöndum hefur þróast í tímans rás og reynst vera heppilegt.

Þarna er í senn horft framhjá því að opinberi geirinn á Íslandi er almennt ódýr og metnaðarfullur í rekstri. Hann leggur að auki meira til samkeppnishæfni þjóðarinnar en einkageirinn, samkvæmt mælingum erlendra einkarekinna stofnana (IMD og World Economic Forum – sjá hér og hér).

Með frekari útvíkkun á hugmyndinni ætti svo auðvitað að setja menninguna alla í eina tunnu – undir sömu stjórn.

Svo kæmi menntunin, heilbrigðisþjónustan, sýslumannsembættin…

Hvert um sig í eina tunnu – undir einni stjórn.

Þetta myndi auðvitað ekki virka vel, en kanski greiða fyrir einkavæðingu síðar…

 

Síðasti pistill:  Glæsilegur viðskilnaður Ólafs Ragnars

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar