Fimmtudagur 24.11.2016 - 14:05 - FB ummæli ()

Framsókn er miðjan – ekki Viðreisn

Viðreisn stillti sér upp sem miðjuflokkur fyrir kosningar. Að vísu bættu þau gjarnan við “frjálslyndur” fyrir framan “miðjuflokkur”.

Þegar hins vegar er skoðað hvaða fólk er í forystu Viðreisnar, hvaðan þau komu og hvaða megináhersla er í stefnu þeirra þá blasir við nokkuð hefðbundin hægri pólitík og náin tengsl við hörðustu sérhagsmunasamtök atvinnurekenda (SA og Viðskiptaráð).

Viðreisn samanstendur einkum af markaðshyggju-sinnuðum Sjálfstæðismönnum, sem höfðu þá sérstöðu innan Sjálfstæðisflokksins að vilja ganga í ESB.

Álitamál er hvort Viðreisn er sem slík hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn eða bara á svipuðum slóðum og Sjálfstæðisflokkurinn.

En miðjuflokkur er Viðreisn ekki.

Að þessu leyti hefur Viðreisn siglt undir fölsku flaggi.

Framsókn á sér hins vegar hundrað ára sögu sem stjórnmálaflokkur og a.m.k. á síðustu hálfri öldinni sem miðjuflokkur, “opinn í báða enda”, eins og áður var sagt.

Ef menn skoða starf fráfarandi stjórnar þá sjá menn að þar var umtalsverð togstreyta milli Sfl. og Ffl., einkum um velferðarmál og hag heimilanna, sem og um landsbyggðarsjónarmið.

Framsókn hélt uppi talsverðri sókn í velferðarmálum og skilaði ágætum efndum á kosningaloforðum sínum frá kosningunum 2013, ekki síst loforðum sem snéru að hagsmunum heimilanna og upptöku á eignum erlendra kröfuhafa.

Sjálfstæðismenn streyttust gegn mörgum þessara mála, t.d. húsnæðisumbótum sem Eygló Harðardóttir beitti sér fyrir.

Sjálfstæðismenn beittu sér einnig fyrir því að skuldalækkunin gagnaðist um of hátekjufólki – sem og því að láta skuldugu heimilin borga sjálf skuldalækkunina að hluta með eigin lífeyrissparnaði – sem var billegt.

Á lokasprettinum fyrir kosningarnar nú var kastað um 5 milljarða viðbót inn í frumvarp Eyglóar um hækkun á lífeyri eldri borgara.

 

Katrín ætti að skoða samstarf við Framsókn í fullri alvöru

Ég vissi það alltaf að Viðreisn var ekki að fara í viðræður um fimm flokka stjórn Katrínar af neinni alvöru. Það var ekki þeirra partí. Enda sleit Viðreisn viðræðum í gær án þess að fullreynt væri á málefnasamstöðu.

Hins vegar eru mun betri forsendur fyrir að slíkt mynstur geti gengið með Framsókn í stað Viðreisnar.

Píratar höfðu áður haft uppi neikvæða afstöðu til samstarfs við Framsókn, vegna Panama-skjalanna. Þeir hafa hins vegar sýnt sig að vera lausnamiðaðir og sveigjanlegir. Vonandi getur Björt framtíð haft svipaða afstöðu til Framsóknar, því BF á samleið með Framsókn í velferðarmálum.

Framsókn vill líka miðla í stjórnarskrármálinu.

Panama-hneykslið var bundið við fyrrverandi formann Framsóknar og á því var tekið, með endurnýjaðri forystu flokksins, þó erfitt væri fyrir alla þar á bæ. Það ber að virða.

Þess vegna á ekki að erfa Panama-málið við Framsókn um of, enda eru það einkum efnamenn úr Sjálfstæðisflokknum sem prýða listann yfir notendur erlendra skattaskjóla.

Fyrir Framsókn sjálfa er líka álitlegra að fara í slíka stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, því staða Framsóknar þar væri mun sterkari en í hægri stjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Þar væri Framsókn með afar veika stöðu.

Það er því margt sem mælir með fimm flokka stjórn Katrínar með aðild Framsóknar. Það væri alvöru mið-vinstri stjórn, með góðan stuðning um land allt.

Þenna kost ætti því að skoða í mikilli alvöru, til að forða okkur frá róttækri hægri stjórn.

Að þessum valkosti frágengnum á Katrín kost á að vinna með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð með góðan meirihluta og þokkalegt mótvægi við hægri pólitík Sjálfstæðisflokksins. Forsenda þess er þó sú að BF hafi sjálfstæða tilveru án Viðreisnar.

Varla getur talist vænlegt fyrir VG að fara í stjórn með báðum Sjálfstæðisflokkunum (Sfl. og Viðreisn), staða VG væri of veik þar.

Betra væri fyrir VG að vera með Framsókn og Sfl – en allt munu þetta þó þykja lítt spennandi kostir í herbúðum VG.

 

Síðasti pistill:  Arðsamt að eiga illa rekinn banka

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar