Það hefur gengið eftir sem ég sagði í pistli strax eftir kosningar, að Viðreisn myndi helst af öllu vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokki.
Benedikt hlekkjaði sig snemma við Bjarta framtíð (BF) og hefur þrisvar reynt við Sjálfstæðisflokkinn með það föruneyti. Tvisvar fór hann í sýndarviðræður við vinstri-mið flokkana fjóra.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar tekið málaleitan Viðreisnar og BF treglega, vegna lítils meirihluta slíkrar stjórnar í þinginu, að sagt er.
Stefnuáherslur Viðreisnar vega þó einnig mjög að sálarlífi Sjálfstæðismanna.
Ástæðan er sú, að helstu áherslur Viðreisnar eru stefnumál Samfylkingarinnar (endurupptaka aðildarviðræðna við ESB, uppboð á fiskveiðikvótum og aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum).
Öll þessi mál skapa Sjálfstæðisflokknum vanda. Þau grafa undan fylgi hans á landsbyggðinni og styggja verulega marga áhrifamenn í flokknum.
Svo hefur heldur ekki tíðkast í Valhöllu að verðlauna klofningsmenn, en Viðreisn er auðvitað fyrst og fremst klofningur ESB-sinna út úr Sjálfstæðisflokknum.
Viðreisn þarf hins vegar að ná umtalsverðum árangri með þessi stefnumál sín í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki, því annars verður för hennar til háðungar.
Erindisleysa og svört framtíð!
Spurningin sem nú hangir yfir næstu tilraun til að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er því sú, hvort Bjarni geti látið Viðreisn beygja sig?
Getur Bjarni sætt sig við þessi stefnumál Samfylkingarinnar?
Eða getur hann sjálfur gert framboð Viðreisnar að erindisleysu, með því að beygja Benedikt og félaga?
Hinn valkosturinn er að núverandi stjórn sitji áfram sem minnihlutastjórn eða starfsstjórn til kosninga í apríl. Hægt er að starfa á þinginu næstu vikurnar með sama hætti og gert var við afgreiðslu fjárlaga. Enginn bráðavandi bíður lausnar.
Það er væntanlega góður kostur fyrir núverandi stjórnarflokka að kjósa aftur á næstu mánuðum. Þeir gætu þá hugsanlega náð meirihluta á ný.
VG og flokkarnir á vinstri-miðjunni virðast ekki ætla að blanda sér mikið í frumlegar tilraunir til stjórnarmyndunar, hvorki með Framsóknarflokki né Sjálfstæðisflokki.
Meðan svo er aukast líkur á kosningum í vor – eins og upphaflega stóð til.
Fyrri pistlar