Sunnudagur 01.10.2017 - 10:52 - FB ummæli ()

Lífeyrismál – lofað og svikið á víxl

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er mjög viðkunnanlegur maður. En það er lítið byggjandi á loforðum sem hann gefur lífeyrisþegum.

Ég minnist þessa ekki að nokkur íslenskur stjórnmálamaður hafi lofað eldri borgurum umtalsverðum kjarabótum og svikið þau loforð jafnhratt aftur.

Fyrir kosningar 2013 sendi Bjarni bréf til allra eldri borgara og sagðist ætla að afnema tekjutengingar ellilífeyris (sjá hér og hér).

Það var ansi stórt loforð – sem aldrei var efnt.

Skömmu fyrir kosningar í október í fyrra setti ríkisstjórn Bjarna ný lög um ellilífeyri, sem tóku gildi 1. janúar á þessu ári. Þá voru tekjutengingar auknar en hvorki lækkaðar né afnumdar, eins og lofað var.

Þar til í desember 2016 máttu eldri borgarar hafa 109 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði án þess að það skerti lífeyri TR.

Þetta var aflagt 1. janúar 2017. Það var mikil afturför og gerði það mun ófýsilegra fyrir eldri borgara með lágar lífeyristekjur að vinna með lífeyristökunni, til að bæta hag sinn.

Í staðinn var sett eitt almennt frítekjumark upp á 25 þús. kr. Flestir lífeyrisþegar fá einhverjar tekjur úr lífeyrissjóðum og eru fljótir að nýta þetta almenna frítekjumark upp í topp fyrir lífeyrissjóðstekjurnar.

Þetta þýðir að lífeyrir TR er þá í flestum tilvikum skertur frá fyrstu krónu vegna atvinnutekna (þ.e. hjá þeim sem hafa 25 þús. eða meira frá lífeyrissjóði eða í fjármagnstekjur).

Því til viðbótar var skerðingarhlutfallið hækkað úr um 39% í 45% (þessar breytingar á lífeyriskerfinu eru skýrðar nánar hér).

Fyrir flesta var frítekjumarkið fyrir atvinnutekjur því sem næst afnumið og skerðingin að auki hert í byrjun þessa árs.

Lífeyrisþegar voru betur settir hvað þetta snertir í september 2008 – fyrir um tíu árum síðan (þá máttu þeir hafa 30.000 kr. í atvinnutekjur án þess það skerti lífeyrinn – og 30.000 krónur voru mun verðmætari þá en nú er).

 

Það sem afnumið var í janúar er nýtt kosningaloforð í september

Ég sá í fjölmiðlum fyrir skömmu að Bjarni Benediktsson segist nú ætla að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir eldri borgara, upp í 100 þúsund krónur.

Það er kynnt sem mikil framför. Stór sigur sem í vændum sé.

Í fjárhagsáætlun fráfarandi ríkisstjórnar Bjarna Ben. til næstu 5 ára var gert ráð fyrir að það myndi taka 5 ár að hækka frítekjumarkið aftur upp í 100 þús. (eða um 90% af því sem það var í desember sl.).

Kanski menn lofi því nú í kosningavímunni að gera þetta á skemmri tíma!

Þetta virðast forystumenn Sjálfstæðisflokksins telja miklar framfarir.

Þeir rýra kjörin fyrst og lofa svo að bæta um 90% af því aftur á næstu 5 árum (hækka frítekjumarkið upp í 100 þúsund í stað 109 þúsunda).

Hvers virði eru loforð þess sem hefur boðið eldri borgurum upp á aðra eins hringekju loforða og svika og Bjarni Benediktsson hefur gert síðan 2013?

 

Er ellilífeyrir að hækka mikið um þessar mundir?

Hinar auknu skerðingar lífeyris TR vegna annarra tekna, sem tóku gildi um síðustu áramót, voru réttlættar með því að verið væri að hækka lífeyri TR umtalsvert. Og vissulega hækkaði lífeyririnn fyrir marga.

Þannig fara Sjálfstæðismenn yfirleitt að í velferðarmálum: þeir hækka með annarri hendinni en lækka um leið með hinni!

Ef lífeyrisgrunnurinn er hækkaður þá skerða þeir meira á móti vegna annarra tekna – svo eldri borgarar og öryrkjar fái ekki of mikið út úr kjarabótinni! Þannig hefur þetta oft verið.

Óskertur lífeyrir almannatrygginga (það sem þeir fá sem ekki hafa aðrar tekjur umfram 25 þús. kr. á mánuði) var hækkað í 280 þúsund um áramótin síðustu (fyrir einstakling sem býr einn; fyrir skatt).

Nú er svo talað um að á næsta ári hækki þessi lífeyrir TR í 300 þúsund – og er það sögð mikil hækkun.

En er það sérstaklega mikil hækkun?

Þeir sem hafa fylgst með vita að verið er að láta óskertan lífeyri almannatrygginga fylgja lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Á þessu ári og svo aftur á því næsta.

Verið er sem sagt að leyfa samsvarandi hækkun á lífeyri og varð á lægstu launum í kjarasamningunum.

Er það eitthvað sérstaklega metnaðarfullt fyrir eldri borgara?

Ónei! Ekki myndi ég segja það (þó auðvitað sé það skárra en að vera áfram um 5% lægri en lágmarkslaunin).

Þeir sem eru á lægsta launataxta á vinnumarkaði eru skólafólk í hlutastörfum og innflytjendur sem verið er að níðast á. Venjulegt íslenskt verkafólk er með um 55-60% hærri laun fyrir 40 tíma vinnuviku – það er meðaltal reglulegra verkamannalauna. Nær væri að miða hámark lífeyris TR við þá tölu – til fulls eða að hluta.

Þetta hefur verið það skásta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi talið að sé verjandi að bjóða lífeyrisþegum TR að hámarki – það sama og er í lægsta launataxtanum.

Það hefur reyndar verið basl á köflum að láta lífeyri TR hanga í lægsta launataxtanum – sérstaklega þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan sem sýnir hvernig óskertur lífeyrir hefur þróast frá 1990 til samtímans, sem hlutfall af lágmarkslaunum.

Hér má sjá að árið 1991 var lífeyrir almannatrygginga um 9% hærri en lægsti launataxtinn á vinnumarkaðinum.

Síðan dróst lífeyririnn afturúr jafnt og þétt og náði botni árið 2001, þegar lífeyririnn var aðeins um 88% af lægsta launataxta. Þetta var á Davíðs-tímanum.

Árin 2002 og 2003 hækkaði hann svo aftur upp í 99-100% af lágmarkslaunum, eftir mikla baráttu Öryrkjabandalagsins undir forystu Garðars Sverrissonar og Samtaka eldri borgara undir forystu Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis.

Lífeyririnn dróst svo afturúr á ný á árinu 2008, í aðdraganda hrunsins, en hækkaði myndarlega í byrjun árs 2009 – og varð þá hærri miðað við lágmarkslaun en nokkurt annað ár síðan 1990 (15% hærri). Hann var 10% hærri 2010 og 2011 en lækkaði svo aftur uns botni var náð í 95-96% af lægstu launum á árunum 2015 og 2016.

Hinar “miklu hækkanir” á lífeyri almannatrygginga á þessu ári og því næsta eru sem sagt til þess að ná aftur þeirri stöðu að lífeyrir verði jafn lægsta launataxtanum á ný.

Það er allur sigurinn.

Það er allt örlætið sem réttlætti þá einstaklega óskynsamlegu aðgerð að afnema því sem næst frítekjumarkið vegna atvinnutekna.

 

Síðasti pistill:  Allt rétt sem ég sagði um skatta

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar