Föstudagur 20.10.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Skattbyrði tekjuhópa frá 1992 til 2015

Menn hafa rætt nokkuð um skattbyrði undanfarið. Ekki er allt rétt sem sagt er um það mál.

Hægri menn kenna vinstri flokkum um miklar hækkanir á skattbyrði almennings og segjast sjálfir standa fyrir skattalækkanir. Það er vægast sagt villandi, eins og sýnt verður hér að neðan.

Vinstri menn segjast vilja auka útgjöld hins opinbera til góðra og brýnna málefna og lofa að hlífa lægri og milli hópum við aukinni skattbyrði. Er það raunhæft?

 

Svona þróaðist skattbyrðin

Myndin hér að neðan sýnir hvernig skattbyrði tekjuhópa þróaðist frá 1992 til 2015. Við erum með 3 tekjuhópa: lágtekjufólk (lægstu tíu prósent framteljenda), miðtekjufólk og hátekjufólk (tekjuhæstu tíu prósentin).

Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra og sýna greidda beina skatta eftir álagningu, að teknu tilliti til allra löglegra frádráttarliða (persónuafsláttar, barnabóta, vaxtabóta, iðgjalda í lífeyrissjóði o.fl.).

Hér má sjá að skattbyrði lágtekjufólks jókst mikið frá um 1995 til 2004, hélst svo svipuð til hruns.

Í tíð Jóhönnu og Steingríms lækkaði hún í fyrstu en hækkaði svo lítillega aftur eftir að kaup tók að hækka frá og með 2011, án þess að persónuafslátturinn (skattleysismörkin) hækkaði nógu mikið samhliða. Síðan hækkaði skattbyrði lágtekjufólks meira frá 2014 til 2015.

Svipað mynstur er á hækkun skattbyrðinnar hjá miðtekjuhópnum. Nema hvað umfang hækkaðrar skattbyrði þeirra var ekki jafn mikið og hjá lágtekjufólkinu.

Mesta breytingin varð þó hjá hátekjufólki. Þar lækkaði skattbyrðin stórlega frá 1995 og alveg til 2007. Hátekjufólk greiddi að meðaltali um 33% af heildartekjum sínum í beina skatta árið 1995 en hafði lækkað í um 17% árið 2007.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði hæstu tíu prósentanna aftur, bæði vegna minnkandi fjármagnstekna (sem nutu lægri skattbyrðar en atvinnu- og lífeyristekjur) og vegna aukina álagningar á hærri tekjur og miklar eignir (endurupptaka hátekjuskatts og nýi auðlegðarskatturinn).

Skattbyrðin hjá hátekjufólkinu fór í fyrstu aðeins upp fyrir það sem hæst hafði verið um 1995 en lækkaði svo frá 2013 til 2015.

 

Hverjir hækkuðu og hverjir lækkuðu skattbyrðina?

Myndin sýnir glögglega að skattbyrði lágtekju- og miðtekjufólks hækkaði einkum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (2005-2007 og 2013-2016) , en lækkaði aðeins í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms (2009-2013).

Samt fóru hægri menn, Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð offari í gagnrýni á vinstri stjórnina og sögðu hana hafa hækkað skattbyrði “almennings” meira en hundrað sinnum!

Vissulega hafa þessir aðilar fundið fyrir skattahækkunum frá 2009 til 2013, enda hækkaði skattbyrði hátekju- og stóreignafólks umtalsvert þá, sem og skattbyrði fyrirtækja.

En skattbyrði millitekju- og lágtekjuhópa lækkaði á þeim tíma.

Kanski vinstri menn geti endurtekið þennan leik ef þeir komast í stjórn eftir næstu kosningar?

Það ætti raunar að vera auðvelt að framkvæma mikið af góðum málum þá, meðal annars með losun eiginfjár ríkisbankanna og hóflegri aukningu skatta á auðlindarentu, erlenda ferðamenn og allra hæstu tekjur og eignir.

Það eru sem sagt Sjálfstæðismenn sem eru mesta skattaógnin fyrir lágtekju- og miðtekjufólk, allan þorra almennings.

Tekjuskattslækkanir Sjálfstæðisflokksins virðast eingöngu hafa verið fyrir hátekjufólk.

 

Síðasti pistill: Lífeyrismál – lofað og svikið á víxl.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar