Föstudagur 23.03.2018 - 11:34 - FB ummæli ()

Skynsamlegt að ríkið eigi banka

Ríkið er nú aðaleigandi bæði Landsbanka og Íslandsbanka.

Á síðustu 5 árum hafa eigendur þessara banka fengið um 207 milljarða í arðgreiðslur af þessum tveimur bönkum (sjá hér).

Pælið í því!  Tvö hundruð og sjö þúsund milljónir.

Þetta er andvirði þriggja nýrra Landsspítala.

Arðgreiðslur bankanna til ríkisins eiga stóran þátt í því hversu vel ríkið stendur nú, þrátt fyrir hið mikla áfall sem hrunið var fyrir þjóðarbúið.

 

Hættuleg síbylja nýfrjálshyggjumanna

Tíðarandinn er hins vegar sá, að ríkið eigi ekki að eiga banka. Markaðshyggjupostular og nýfrjálshyggjumenn prédika þetta í sífellu.

Ríkið má helst ekki eiga neitt né gera neitt. Svokallaðir fjárfestar og atvinnurekendur eiga að gera allt, því þeir hafa svo miklu meira vit á fjármálum, segja hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar.

“Gammar” og gróðapungar eigi að ráða ferðinni og maka krókinn – eins og það sé gott fyrir almenning!

Reynslan af eignarhaldi auðmanna á bönkum er þar að auki einstaklega afleit hér á landi.

Ríkið átti og rak Landsbankann í 117 ár, með ágætum árangri, áður en hann var endanlega seldur einkafjárfestum árið 2003. Kaupendurnir voru stórtækir braskarar sem hegðuðu sér eins og verstu gammar og hákarlar.

Það tók einkaaðilana ekki nema um 5 ár að reka bankana í þrot, sem var svo gríðarlegt að stærð að það nærri dró þjóðarbúið allt með sér í fallinu. Lagði ofurbyrðar á saklausan almenning, með kaupmáttarrýrnun og skuldaklöfum.

Hvernig getur nokkrum heilvita manni dottið í hug eftir slíka reynslu að það sé betra að auðmenn eigi stærstu bankana en að þeir séu í sameign þjóðarinnar?

Hefði okkur liðið betur ef þessir 207 milljarðar hefðu alfarið runnið í vasa örfárra auðmanna, sem hefðu að auki flutt stóran hluta fjárins úr landi í erlend skattaskjól?

Ó Nei!

Það hefði verið það vitlausasta sem hægt hefði verið að gera þjóðinni.

 

Lærum af Norðmönnum

Norðmenn eru sennilega eina þjóðin í heimi sem ákvað að láta olíuauðlindir sínar og vinnslu þeirra vera í meirihlutaeigu þjóðarinnar, frekar en í eigu fámennrar yfirstéttar.

Fyrir vikið eru Norðmenn sem þjóð í einstakri stöðu hagsældar í heiminum og verða það til langrar framtíðar.

Að afhenda einkareknum gróðapungum gullgæsir þjóðarinnar til eignar, hvort sem er í formi náttúruauðlinda eða banka, er ótrúleg heimska ef ekki glæpsamlegt athæfi.

Við skulum því eiga Landsbankann og Íslandsbanka áfram og láta hagsmunadrifna síbylju einkageirans sem vind um eyru þjóta.

Fáum arðinn af starfsemi þessara banka áfram í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar og veitum honum þaðan til góðra þjóðþrifamála.

Hagur þjóðarinnar á að vera framar hag fámennra hópa einkaaðila.

 

Síðasti pistill: Góðærið á fullu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar