Mánudagur 28.05.2018 - 14:25 - FB ummæli ()

Engin alvöru hægri sveifla í borginni

Sumir tala um niðurstöðu kosninganna í Reykjavík eins og meirihlutinn hafi fallið og að kosningarnar hafi falið í sér einhverja hægri sveiflu.

Sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn varð heldur stærri en Samfylkingin er sjálfsagt grundvöllur þeirrar tilfinningar margra að þetta hafi verið hægri sveifla.

En hvernig var heildarmyndin?

Á töflunni hér að neðan má sjá hvernig kjörnir fulltrúar skiptust á hægri – miðju – vinstri ás:

Sjálfstæðisflokkur (D) og Miðflokkurinn (M) voru einu flokkarnir sem skilgreindu sig sem hægri flokka í Reykjavík.

Viðreisn skilgreinir sig sem miðjuflokk og Flokkur fólksins (F) leggur höfuð áherslu á að bæta hag fátækra, sem er vinstra mál, þó þar séu allmargir fyrrverandi Sjálfstæðismenn. Það er því réttast að tala um þau sem miðjuflokk líka – treysta sér til að vinna bæði til hægri og vinstri.

Á vinstri væng eru Samfylkingin (S), Píratar (P), Sósíalistaflokkurinn (J) og V (VG).

Ef samanlagt fylgi þessara þriggja blokka er skoðað þá eru vinstri menn stærstir, með 11 fulltrúa.

Hægri menn eru samanlagt með einungis 9 fulltrúa.

Ef Miðflokkurinn teldist miðjuflokkur (sem þó er andstætt málflutningi Vigdísar Hauksdóttur) þá væru hægri menn einungis með 8 fulltrúa.

Miðjan er með 3 samanlagt, samkvæmt þessari skiptingu. Ef Flokkur fólksins teldist í staðinn sem hægri flokkur þá næðu hægri menn samanlagt einungis 10 fulltrúum.

Vinstri blokkin væri samt stærri, með 11 fulltrúa á móti 10.

Ef Flokkur fólksins teldist vinstri flokkur væri vinstri blokkin með 12 á móti 9 hægri fulltrúum.

Vinstri flokkar og vinstri fulltrúar eru augljóslega stærsti hópurinn í borgarstjórn – eins og var í fráfarandi borgarstjórn.

Samfylking og VG töpuðu í kosningunum en Sósíalistar og Píratar bættu við sig. Þar var sem sagt tilfærsla innan vinstri vængsins.

Sjálfstæðismenn bættu við sig, en Miðflokkurinn (sem að mestu er klofningur úr Framsókn) fékk einungis einn fulltrúa (Vigdísi Hauks). Síðast fékk Framsókn 2 fulltrúa í Reykjavík. Miðflokkurinn og Framsókn samanlagt fá einungis 1 fulltrúa núna – fækkun um helming!

Vigdís segir Miðflokkinn vera mikinn sigurvegara í Reykjavík, en Sósíalistar fengu meira fylgi þar en hún!

 

Var þá stefnu fráfarandi meirihluta hafnað?

Varla er hægt að segja það. Einkum þar sem hin miðjusinnaða Viðreisn er all samhljóma áherslum fráfarandi meirihluta í stærstu málunum, meðal annars um þéttingu byggðar, borgarlínu, skóla- og jafnréttismál.

Viðreisn fékk án efa mikið af fylgi sínu frá fyrrum kjósendum Bjartrar framtíðar – sem voru auðvitað hluti fráfarandi meirihluta.

Raunar má segja að stærstu málefnaáherslur fráfarandi meirihluta hafi fengið stuðning meirihluta kjósenda á ný.

Það er því bæði rangt að kosningarnar feli í sér hægri sveiflu eða að sjónarmiðum fráfarandi meirihluta hafi verið hafnað.

Línurna eru skýrar.

 

Nýlegur pistill:  Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar