Föstudagur 22.06.2018 - 11:52 - FB ummæli ()

Ísland: Dýrasta land Evrópu

Hagstofa Íslands og Eurostat birtu um daginn nýjan samanburð á verðlagi milli Evrópulanda (sjá hér).

Niðurstaðan er sú, að Ísland er nú dýrasta landið í Evrópu. Jafnvel dýrara en Sviss og Noregur, sem lengi hafa verið með hæsta verðlagið.

Þetta má sjá á töflunni hér að neðan. Dálkur 1 sem sýnir útkomuna fyrir einkaneyslu heimilanna gefur bestu heildarmyndina:

Verðlag á einkaneyslu heimilanna er um 66% hærra en meðaltalið fyrir Evrópu og meira en þrisvar sinnum dýrara en ódýrustu löndin (Búlgaría og Makedónía).

Verðlag einkaneyslu er 16-17% hærra á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Það munar um minna.

Verð er um 33% hærra á Íslandi en í Svíþjóð og um 36% hærra en í Finnlandi. Þetta er mjög mikill munur.

Ég man þá tíma að verð á hinum Norðurlöndunum var hærra en á Íslandi. En það er sem sagt liðin tíð og gott betur!

Í töflunni má einnig sjá samanburð fyrir nokkra aðgreinda þætti einkaneyslunnar í Evrópulöndunum. Ísland er þar ýmist langefst eða í einu af allra efstu sætunum.

Mjög dýrt að vera Íslendingur!

Þetta er verkefni almennings í lífsbaráttunni hér á landi.

Laun á Íslandi þurfa að duga til framfærslu í dýrasta landi Evrópu.

En launin eina duga ekki og því þurfa velferðaraðgerðir stjórnvalda einnig að koma til.

Og dreifing skattbyrðarinnar þarf að vera þannig að hún hlífi lægstu tekjuhópum mun betur en nú er.

Þó það komi ekki fram í þessum samanburði þá er verð húsnæðis á Íslandi einnig mjög hátt og hefur hækkað einstaklega mikið á síðastliðnum árum.

Það hefur étið upp þá kaupmáttaraukningu sem samið hefur verið um á vinnumarkaði, einkum fyrir fólk í lægri tekjuhópum.

Ungt fólk sem er að glíma við að koma sér upp fjölskyldu og húsnæði á lágum tekjum finnur sérstaklega mikið fyrir þessari óheillaþróun.

Það er stórt verkefni, ekki síst fyrir verkalýðshreyfinguna, að koma skikk á þessi mál þannig að dæmin gangi upp fyrir þá sem verr standa.

Verðlagning og samkeppnishæfni

Og svo má einnig spyrja hvort álagning sé ekki of mikil á Íslandi?

Landsframleiðsla Íslands er 33% yfir meðaltali Evrópu en verðlag einkaneyslu heimilanna er 66% yfir meðaltali Evrópulanda.

Varla er það náttúrulögmál að Ísland sé dýrasta land í Evrópu…

Verðlagið hlýtur í öllu falli að setja viðmið fyrir launin sem greiða þarf í landinu – svo Íslandi verði samkeppnishæft til búsetu við grannríkin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar