Miðvikudagur 29.08.2018 - 16:14 - FB ummæli ()

Stjórnvöld veikja vaxtabótakerfið svo um munar

Vaxtabætur eru helsta verkfæri stjórnvalda til að auðvelda fjölskyldum með lágar og milli tekjur að eignast íbúðarhúsnæði.

Mikill meirihluti Íslendinga vildi helst geta búið í eigin húsnæði. En eftir hrun hefur þeim fækkað umtalsvert sem það gera um leið og búseta í leiguhúsnæði hefur stóraukist.

Aukin notkun leiguhúsnæðis er ekki vegna þess að fleiri vilji nú leigja. Það sem ræður för er að færri eiga möguleika á því að geta ráðið við afborganir af íbúðarlánum. Íbúðir eru orðnar of dýrar fyrir mun fleiri en áður var.

Ungt fólk neyðist því í auknum mæli til að leita í leigu eða búa lengur í foreldrahúsum en áður.

Allir vita að bæði verð á íbúðum og leiga hafa hækkað með fordæmalausum hætti á síðustu árum, vegna þess að lítið var byggt fyrst eftir hrunið, túristum fjölgaði ört og vegna aukinnar innkomu fjárfesta og braskara á húsnæðismarkaðinn (t.d. Gamma og Heimavalla).

Bæði kaupverð og leiga íbúðarhúsnæðis eru nú í allra hæstu hæðum.

Stjórnvöld höfðu það í  hendi sér að bregðast við og auðvelda fólki með lægri tekjur að eignast íbúðarhúsnæði eins og hér hefur tíðkast.

Virkasta leiðin til þess hefði verið að auka vaxtabætur til ungs fjölskyldufólks í lægri og milli tekjuhópum.

Stefnan í fjármálaráðuneytinu hefur hins vegar sú, að gera það ekki. Þvert á móti að draga stórlega úr slíkum húsnæðisstuðningi.

Þróun opinbers stuðnings við kaup ungs fólks á íbúðarhúsnæði má sjá á myndinni hér að neðan. Hún sýnir vaxtabætur sem hlutfall af vaxtakostnaði vegna íbúðakaupa, frá 1994 til 2016.

Þróun vaxtabóta er augljóslega tengd því hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn, eins og myndin sýnir. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru í ríkisstjórn frá 1995 til 2007 og þá minnkaði stuðningur vaxtabótakerfisins um helming, úr 26% af vaxtakostnaði heimila að meðaltali og niður í 13%.

Vinstri stjórnin sem sat frá 2009 til 2013 stórjók stuðning vaxtabótakerfisins við skulduga íbúðareigendur, meðal annars með sérstöku aukaátaki árin 2011 og 2012. Stuðningurinn fór hæst í 35% og lægstu launahóparnir fengu enn meira, eða um 45% af vaxtakostnaði sínum greiddan af ríkinu (vegna tekjutenginga vaxtabótanna).

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk aftur fjármálaráðuneytið á árinu 2013 hélt minnkun þessa stuðnings við ungt fjölskyldufólk áfram.

Á árinu 2016 var þessi stuðningur orðinn minni en nokkru sinni fyrr eftir að vaxtabótakerfið var tekið upp árið 1990.

Stefnt er á enn minni stuðning við ungt fjölskyldufólk

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar Katrína Jakobsdóttur fyrir árin 2018 til 2022 er gert ráð fyrir áframhaldandi minnkun húsnæðisstuðnings hins opinbera, bæði við kaupendur íbúðarhúsnæðis og leigjendur. Stefna Sjálfstæðisflokksins virðist ráða för í þessum efnum.

Það blasir því við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alveg snúið baki við séreignastefnu í húsnæðismálum og almennri velferðarstefnu í húsnæðismálum. Markaðshyggja fjárfesta og braskara ræður för.

Svipuð óheillaþróun hefur verið á sviði barnabóta á síðustu árum. Stuðningur við barnafjölskyldur stefnir í að verða minni en í áratugi, á tíma þar sem húsnæðismarkaðurinn hefur étið upp stóran hluta þeirra kjarabóta sem samið var um fyrir launafólk í síðustu kjarasamningum.

Raunar juku stjórnvöld einnig skattbyrði láglaunafólks á síðustu árum svo um munaði.

Það þarf að vera verkefni verkalýðshreyfingarinnar að snúa þessari óheillaþróun við í komandi kjarasamningum.

Ef stjórnvöld leggja ekki sitt af mörkum til að bæta úr á þessu sviði hlýtur verkalýðshreyfingin að þurfa að fara fram með mun meiri launakröfur á hendur atvinnurekenda en ella væri.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar