Fimmtudagur 07.03.2019 - 19:45 - FB ummæli ()

Ætla stjórnvöld að svíkja loforð sitt um skattalækkanir?

 

Í upphafi samráðs við aðila vinnumarkaðarins, sem stjórnvöld blésu til vegna yfirstandandi kjarasamninga, var markmið þeirra í skattamálum skilgreint svona:

“Hafin verður endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfið sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa (lágtekjur og lægri millitekjur)”.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um opinber fjármál fyrir árin 2019-2023 kemur fram að “heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu samhliða endurskoðun bótakerfa verði gerð með það að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur”.[1]

Þetta virðist allt saman skýrt og klárt.

Þetta er það sem verkalýðshreyfingin hélt að væri markmiðið með skattabreytingunni.

Ekki var rætt um það á samráðsfundunum að ofurlaunahópar sem hafa fengið ofurlaunahækkanir á síðustu árum fengju líka skattalækkanir.

Nei!

Ekkert var sagt um það – enda hefðu fulltrúar launafólks þá væntanlega gengið á dyr snemma í þessu samráðsferli.

Það eru einmitt þessar ofurlaunahækkanir forstjóra, bankastjóra, annarra stjórnenda, ráðherra og þingmanna sem meðal annars hafa valdið mikilli ólgu á vinnumarkaði.

 

Tillögurnar eru ekki sérstaklega fyrir lægri tekjuhópa

En þegar fjármálaráðherra kynnti áform stjórnvalda um skattalækkanir fyrir rúmri viku kom í ljós að allir fá sömu skattalækkunina, um 6.750 krónur á mánuði – háir jafnt sem lágir!

Hver er þörfin á því? Hver er skynsemin í því?

Skúringarkonan sem ekki nær endum saman fær jafn mikið og forstjórar stórfyrirtækja, bankastjórar og ráðherrar.

Tillaga stjórnvalda var vissulega langt undir væntingum verkalýðshreyfingarinnar.

En kynning fjármálaráðherra á tillögunum var einnig mjög villandi (sjá t.d. glæru nr. 5 í kynningu hans), svo fæstir áttuðu sig á því að skattalækkunin gengur í sömu krónutölu upp allan tekjustigann.

Útfærsluna á þessu má sjá á meðfylgjandi mynd, sem sýnir samanburð á skattatillögu stjórnvalda og tillögu verkalýðsfélaganna (þ.e. ódýrustu tillögunni í skýrslunni Sanngjörn dreifing skattbyrðar).

Súlurnar sýna breytingu á staðgreiðslu tekjuskatts, í krónum á mánuði. Þegar súlurnar fara niður fyrir 0-línuna þá lækkar staðgreiðslan, en hækkar þegar þær fara yfir 0-línuna.

Tillaga verkalýðsfélaganna er um lækkun skatta fyrir alla sem eru með mánaðartekjur allt að 900 þúsund kr. – mest um 20 þúsund kr. lækkun á mánuði. Um 90% framteljenda fá umtalsverða skattalækkun samkvæmt þessari tillögu – þeir tekjulægstu fá mest.

Þeir sem eru með tekjur frá 900 til 1.300 þús. fá litla breytingu á skattbyrði sinni en skattahækkanir koma á þá sem eru með yfir 1.300 þúsund króna mánaðartekjur.

Tillaga fjármálaráðherra er hins vegar sú sama fyrir alla – 6.750 þús., nema hvað þeir sem eru með tekjur frá 200 til 300 þúsund kr. á mánuði fá minna en aðrir (t.d. margir lífeyrisþegar).

Þetta er sem sagt ekki tillaga um “að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur”. Alls ekki.

Fjármálaráðherra sló ryki í augu fólks í kynningu sinni og blandaði við þetta áhrifum fyrirhugaðrar breytingar á heimild til samsköttunar hjóna. Það er hins vegar einskiptis aðgerð. Þegar hún er gengin yfir fá þeir sem samsköttun missa lægri skattbyrði sem nemur 6.750 kr. á mánuði, þ.e. lægri en þeir hefðu ella fengið.

Hjón sem bæði eru með tekjur yfir um 900 þúsund krónum fá þessa skattalækkun fjármálaráðherra til fulls – hvort um sig.

 

Fjármálaráðherra sóar svigrúminu á ofurlaunafólk

Fjármálaráðherra segir ekki svigrúm til meiri skattalækkunar en sem nemur 14,7 milljörðum (svigrúmið er að vísu miklu meira, sbr. hér).

Með því að sólunda hluta þessa svigrúms á hátekjufólk, sem hvorki þarf á þessari skattalækkun að halda né mun yfir höfuð taka eftir henni í buddu sinni, þá færir ráðherrann lágtekju- og millitekjufólki minni kjarabót en þetta svigrúm ella leyfir.

Þessi framgangsmáti felur í sér augljós svik á loforðinu sem gefið var í samráðsferlinum sem staðið hefur í meira en ár í ráðherrabústaðnum.

Hvers lags framkoma er þetta eiginlega?

 

Stjórnvöld geta auðveldlega gert mun betur – ef þau bara vilja

Ef stjórnvöld standa við loforðin sem þau gáfu og láta skattalækkunina einungis koma til þeirra sem eru með tekjur að 900 þúsund krónum á mánuði þá geta þau fært lágtekju- og millitekjufólki mun meiri kjarabót en þau hafa nú boðið.

Þetta gætu þau einnig gert án þess að hækka tekjuskattinn hjá þeim sem eru fyrir ofan 900 þúsund króna tekjumarkið.

Hitt er auðvitað annað mál, að stjórnvöld gætu gert enn betur við lægri og milli tekjuhópana ef þau hækka skattinn á hæstu tekjurnar hóflega.

Ef þau ganga enn lengra og hækka fjármagnstekjuskattinn nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum og ráðast í þær umbætur sem við Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri leggjum til í skýrslunni Sanngjörn dreifing skattbyrðar, þá geta þau almennt gert mun betur við allan þorra launafólks og lífeyrisþega – og lagað innviðina að auki.

Eins og staðan er í dag þá stefnir hins vegar í að stjórnvöld muni svíkja þau loforð sem þau gáfu aðilum vinnumarkaðarins, um að láta lágtekju- og lægra millitekjufólk fyrst og fremst njóta breytinga á tekjuskattskerfinu.

Er ofurlaunaþjóðin svo illa haldin að hún þurfi á 6.750 króna skattalækkun að halda – eftir að hafa fengið launahækkanir sem telja í hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum króna á mánuði? Hækkanir sem stjórnvöld hafa samþykkt.

Sjá menn virkilega ekki að það fé sem til taks er ætti að fara eingöngu til þeirra hópa sem lofað var að yrðu í forgangi?

———————–

Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi í hálfu starfi.

 

[1] Ívitnanir í nýlega skattaskýrslu Fjármála- og efnahagsmálaráðuneytisins, bls. 1.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar