Sunnudagur 01.09.2019 - 20:53 - FB ummæli ()

Orkan okkar tapar orrustunni – en vinnur stríðið

Ég held að Frosti Sigurjónsson og félagar hans í Orkunni okkar hafi rétt fyrir sér um orkupakkamál Evrópusambandsins.

Þó ímynd Miðflokksmanna sé mjög neikvæð eftir Klausturmálið þá hafa þeir einnig að mestu rétt fyrir sér um orkupakkana.

Orkupakkar 1 og 2 fóru í gegn án umræðu, í skjóli sinnuleysis. En þeir voru skaðlegir hagsmunum íslensku þjóðarinnar (sjá hér).

Almenningur hafði takmarkaðan skilning á málinu og fjölmiðlar stimpluðu andstæðinga þessara tilskipana frá ESB fljótlega sem “íhaldssama” og “gamaldags”.

Það gerði baráttuna erfiðari.

Menntamenn eru margir mjög hlynntir Evrópusambandinu og telja sér trú um að alþjóðavæðing óheftra markaðshátta sé “frjálslynd” og “framsækin”.

Það er hins vegar mikil blekking.

Alþjóðavæðing óheftra markaðshátta er skipan sem þjónar fyrst og fremst hagsmunum þeirra allra ríkustu, fjárfesta og braskara, en sniðgengur að miklu leyti hagsmuni almennings.

Bæði hér og erlendis.

Hættan á því að við töpum forræði yfir auðlindum okkar er mikil. Þetta mun smám saman verða flestum Íslendingum ljósara.

Sinnuleysi almennings er þó enn alltof mikið – en það mun breytast þegar málið skýrist betur.

 

Sinnuleysið sigrar á morgun

Stór meirihluti þingmanna mun á morgun samþykkja innleiðingu tilskipanar ESB um 3ja orkupakkann.

En þau sem það gera munu einungis fagna sigri í einni orrustu, því stríðinu er ekki lokið.

Það heldur áfram og málið verður skýrara og andstaðan árangursríkari þegar fjórði orkupakkinn kemur á dagskrá – og enn frekar þegar sá fimmti lítur dagsins ljós.

Markmið ESB er að samþætta orkumarkaði allra Evrópuríkja, með tengingum milli landa og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja, í nafni óheftra markaðshátta og gervisamkeppni – undir forræði evrópskrar stjórnsýslustofnunar.

Ef við festumst í þessu neti mun orkuverð til heimila og smærri fyrirtækja hér á landi hækka mikið.

Framvinda málsins á meginlandi Evrópu mun smám saman skýra hvað er í húfi.

Aþjóðavæðing óheftra markaðshátta hefur almennt gengið of langt – meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins.

Gallar þeirrar þróunar munu smá saman verða öllum ljósari.

Frosti og félagar munu því hrósa sigri í stríðinu – þó síðar verði.

 

Síðasti pistill: Eignarhald banka: Sjálfstæðismenn gegn þjóðinni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar