Miðvikudagur 08.05.2019 - 15:04 - FB ummæli ()

Óheillaþróun frá orkupökkum ESB til HS Orku

Í umræðum um orkupakka 3 er oft sagt að hann skipti litlu máli á meðan ekki er lagður strengur til orkuútflutnings frá Íslandi til Evrópu.

Þetta er villandi málflutningur.

Orkupakki 3 er hluti af lengri tíma þróun skipanar orkumála, sem einkum stefnir að aukinni markaðsvæðingu og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja. Þetta er meðal annars fært í þann búning að um sé að ræða aukna samkeppni sem styrki stöðu heimila og fyrirtækja, sem eigi svo að koma fram í betri og ódýrari þjónustu.

Sá hængur er þó á þessari stefnu Evrópusambandsins að einkum er um að ræða gervisamkeppni, sem mun litlum ábata skila til neytenda. Verðhækkanir á orku til almennings eru líklegasta afleiðingin hér á landi.

Hins vegar er mikil ágóðavon falin í þessari stefnu fyrir einkafjárfesta sem fá tækifæri til að eignast hluti í opinberum orkuveitum.

Þegar tilskipun ESB um nýja skipan orkumála frá 1997 var innleidd í lög á Íslandi með raforkulögum árið 2003 voru flestir forsvarsmenn raforkufyrirtækja landsins þeim andvígir (sjá t.d. hér).

Helstu rökin gegn þessari breytingu voru þau, að samlegðaráhrif myndu tapast, m.a. með tvöföldun yfirbygginga orkufyrirtækja, sem leiddi til aukins kostnaðar og hærra verðs fyrir notendur orkunnar.

 

Krafan um uppskiptingu opinberra orkufyrirtækja og einkavæðingu

Fyrstu merki hinnar nýju skipanar hér á landi komu fram í kröfum um uppskiptingu opinberra orkuveita (t.d. Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur).

Mest áberandi í fyrstu var uppskipting Hitaveitu Suðurnesja í HS orku og HS veitur.

Síðan komu einkafjárfestar að eign HS orku, með gleiðbrosandi braskgosann Ross Beaty frá Kanada fremstan í flokki. Hann var sagður hafa ætlað að koma með fé inn í reksturinn – sem reyndist blekking.

Hann fékk í reynd lánað fyrir kauverðinu frá seljandanum (Reykjanesbæ). Eignarhlut sinn setti hann inn í skúffufyrirtæki í Svíþjóð og þaðan var hann svo fluttur undir aðrar kennitölur, sjálfsagt með viðkomu í erlendum skattaskjólum – eins og háttur alþjóðlegra braskara er.

Markmið braskarans frá Kanada var aldrei annað en að eiga þennan arðvænlega hlut í einhvern tíma og selja hann svo aftur á mun hærra verði.

Það hefur hann nú gert og er um þessar mundir upptekinn af því að braska með gull (sjá hér).

Ekkert gott kom út úr þessu fyrir íbúa Suðurnesja. Reykjanesbær gaf frá sér þennan verðmæta eignarhlut  og varð af þeim arði er hann skilaði til erlenda braskarans – sem ekkert lagði af mörkum til starfseminnar.

Góðu heilli er HS orka nú komin í meiri mæli í eigu íslenskra lífeyrissjóða.

 

Orkupakki 3 gengur lengra í óheillaáttina

Orkupakki 3 og síðan Orkupakkar 4 og 5 eru framhald þeirrar þróunar sem við sjáum þegar í framkvæmd á Suðurnesjum og tengdist orkupökkum 1 og 2.

Eftirfarandi eru helstu þættir þeirra breytinga sem þessari orkustefnu ESB munu fylgja:

  • Aukin markaðsvæðing og einkavæðing raforkugeirans.
  • Aukin yfirbygging með uppskiptingu opinberra orkufyrirtækja og fjölgun einkafyrirtækja (með „frjálsum“ vindmyllugörðum og smávirkjunum).
  • Aukin aðkoma einkafjárfesta er vilja mjólka verðmæti og arð út úr starfseminni.
  • Aukin gervisamkeppni til að blekkja almenning.
  • Og loks hækkun orkuverðs til heimila og smærri fyrirtækja – sem mun ná hámarki með lagningu sæstrengs til Bretlands.

Hvers vegna ætti Ísland sem býr við lægsta verð á orku til heimila í Evrópu að vilja fara inn á þessa leið?

Höfum við svo góða reynslu af innkomu einkafjárfesta og braskara inn í framleiðslu og dreifingu orku hér á landi?

Höfum við ástæðu til að gefa eftir forræði okkar yfir framþróun á skipan orkumála í landinu til ESB eða til alþjóðlegra fjárfesta og braskara?

Engin þörf er á því að innleiða athugasemdalaust þessa tilskipun ESB um Orkupakka 3. Samningurinn um EES mun halda eftir sem áður.

Við erum að mestu í góðum málum með skipan orkumála í landinu og eigum sjálf að stýra ferðinni til framtíðar, á grundvelli góðrar reynslu og fyrirliggjandi þekkingar.

 

Síðasti pistill: Nú er komið að lífeyrisþegum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar