Hagstofa Íslands hefur birt tölur um launabreytingar á almennum markaði frá síðasta ári fyrri kjarasamnings (desember 2018) og til maí 2019, þ.e. eftir að fyrsta launahækkun lífskjarasamningsins er gengin yfir.
Niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hækkunin er mest hjá launalægstu hópunum (5,2% til 5,5%) og fer svo minnkandi þegar litið er til launahærri hópa. Minnst er hækkunin hjá sérfræðingum og stjórnendum (1,5% til 2%).
Launahækkanir samkvæmt lífskjarasamningnum eru föst krónutala og hærri fyrir þá sem eru á strípuðum töxtum. Þetta þýðir að hlutfallsleg hækkun og kaupmáttaraukning almennt er mest hjá þeim tekjulægstu.
Margt annað í lífskjarasamningnum skilar sér best til lægstu launahópanna, til dæmis skattalækkanir sem koma í janúar nk. og svo aftur í janúar að ári. Það sama á við um hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðning, til dæmis í formi stofnframlaga og væntanlegra nýrra lánamöguleika, sem enn á þó eftir að útfæra (sjá yfirlit hér um kjarabætur á samningstímabilinu öllu).
Þegar litið er til sögunnar þá hefur það oft reynst erfitt að fá meiri hækkanir í lægstu launahópunum, jafnvel þó yfirlýstur vilji hafi staðið til þess.
Reynslan af lífskjarasamningnum til þessa bendir til að það muni takast vel nú, en að vísu er enn ósamið við opinbera starfsmenn.
Fyrri pistlar