Þriðjudagur 20.10.2015 - 15:40 - FB ummæli ()

Stöðugleikinn: Mun Ísland semja af sér?

Það var stór stund í júní síðastliðnum þegar leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, kynntu áformin um afnám gjaldeyrishafta og varðveislu stöðugleika.

Flestir tóku þessum áformum fagnandi og töldu vel á málum haldið. Þetta var stór rós í hnappagat stjórnarinnar.

Í kynningunni var gert ráð fyrir að lagður yrði á eignir slitabúanna 39% stöðugleikaskattur, sem myndi skila allt að 850 milljörðum í ríkissjóð. Að teknu tilliti til heimilaðra frádráttarliða myndi hann skila 682 milljörðum, segir fjármálaráðuneytið. Þetta væri sú leið sem stjórnvöld gætu farið ef ekki næðust samningar við kröfuhafa.

Samningaleiðin var hins vegar skilgreind sem “leið stöðugleikaskilyrða”, sem uppfylla þyrfti til að tryggja að gengið myndi ekki hrynja á ný vegna mikils útfæðis krónueigna. Þau skilyrði voru skilgreind í 6 liðum.

En leiðtogar ríkisstjórnarinnar lögðu áherslu á að leiðir stöðugleikaskatts og stöðugleikaskilyrða væru álíka verðmætar fyrir þjóðarbúið. Þó reiknuðu flestir með að leið stöðugleikaskilyrðanna yrði lítillega hagfelldari kröfuhöfunum, til að ýta undir samningsvilja þeirra.

 

Á að gefa tæpan helming af skattinum eftir?

Nú er hins vegar komin upp sú staða, að þrotabúin bjóða stjórnvöldum 340 milljarða greiðslu til að fullnægja stöðugleikaskilyrðunum, eða rétt um helming af því sem stöðugleikaskattur myndi skila.

Í gær bauð svo slitabú Glitnis að ríkið fengi fullt eignarhald á Íslandsbanka, gegn lækkun á öðrum greiðslum sem búið hafði áður boðið. Samtals virðist þó sem að sú leið myndi einungis hækka framlag slitabúanna samanlagt um 40-50 milljarða, upp í um 380-390 milljarða (þetta er óstaðfest mat).

Þetta yrðu samt ekki meira en í besta falli tæpir 400 milljarðar, samanborið við 682 milljarða sem stöðugleikaskattur myndi skila.

Munar ekki allt of miklu á þessum upphæðum?

Þetta myndi fela í sér að erlendu kröfuhafarnir myndu áfram eiga hundruð milljarða króna hér á landi, sem nytu ávöxtunar og sem þyrfti að leysa út með gjaldeyri eftir 7-10 ár.

Hluta lausnarinnar yrði sem sagt einungis slegið á frest, eins og InDefence-menn hafa bent á (sjá grein Ólafs Elíassonar hér).

 

Skiptir ekki máli hversu mikið ríkið fær frá slitabúunum?

Nú fljóta undarlegar röksemdir um samfélagið, röksemdir sem hljóta að vera komnar frá hagfræðingum sem eru að vinna fyrir hina erlendu kröfuhafa.

Þeir segja að ekki skipti máli hversu miklar tekjur ríkið/Seðlabankinn fær út úr þessum samningum við kröfuhafana! Það eina sem skipti máli sé hversu miklu þurfi að breyta af krónum í gjaldeyri til skemmri tíma.

Það sé hvort eð er ekki hægt að eyða þessu fé strax án þess að valda eignabólu, verðbólgu eða gengisfalli, segja þeir. Þá gera þessir menn væntanlega ráð fyrir því að ofþensluástand sé hafið og verði varanlegt á Íslandi til lengri tíma og að ríkið geti aldrei greitt niður skuldir sínar eða farið í stærri framkvæmdir (t.d. byggingu nýs Landsspítala)!

“Peningana þarf að taka úr umferð og eyða þeim”… “láta þá hverfa”, segja þessir menn!

Í veruleikanum eru eignirnar þó jafn verðmætar hvort sem menn geta eytt þeim strax eða bara síðar – ekki satt?

Það er án efa erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja þetta tal hagfræðinga!

Ríkið gæti sem sagt haft a.m.k. 682 milljarða í skatttekjur af 39% stöðugleikaskatti en svo er sagt að það geti alveg eins vel sætt sig við að fá einungis 340-400 milljarða og að sitja jafnframt uppi með stóran hluta vandans óleystan (í þessu sambandi skiptir litlu máli í hvaða formi eignirnar eru, þ.e. sem fullt eignarhald Íslandsbanka sem nú er boðið eða sem reiðufé).

Fyrir venjulegt fólk nær þetta ekki nokkru máli, að slá hátt í 300 milljörðum af mögulegum skatttekjum og sætta sig við það. Maður hefði talið að svona 50 milljarða afsláttur af skattinum til að fá samning og sátt um málið hefði verið alveg nógu gott fyrir kröfuhafana.

 

Loforð stjórnvalda

Loforð stjórnvalda um að báðar leiðirnar myndu skila álíka ávinningi, í möguleika á lækkun opinberra skulda og lækkun vaxtagreiðslna, þarf að standa.

Á það var lögð rík áhersla í kynningu þeirra Sigmundar Davíðs og Bjarna.

Nú skal ég ekki útiloka að önnur mikilvæg verðmæti, en beinar tekjur ríkisins, kunni að felast í leið stöðugleikaskilyrðanna, sem semja mætti um.

Á glæru nr. 9 í kynningu ráðherranna var sagt: “Rík áhersla er lögð á gagnsæi og upplýsingagjöf”.

Það stendur þó enn uppá Seðlabankann og ríkisstjórnina að sýna svart á hvítu, hvernig samningaleið sem skilar einungis 340-400 milljörðum í ríkissjóð er jafn verðmæt og 682 milljarðarnir sem stöðugleikaskattur gæti skilað.

Það er mikið í húfi fyrir ríkisstjórnina – og enn meira fyrir almenning í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.10.2015 - 23:08 - FB ummæli ()

Stríðið gegn flóttafólki

Í fyrra fluttu 1.873 erlendir ríkisborgarar til Íslands (þ.e. aðfluttir umfram brottflutta). Árið 2013 voru þeir 1.634.

Flestir koma þeir hingað óáreittir, vegna þess að þeir eru frá löndum Evrópusambandsins. Við erum í Evrópska efnahagssvæðinu og verðum að veita þeim landvist. Getum sjálf flutt til ESB-landa í staðinn.

Nú er hins vegar verið að neita tveimur barnafjölskyldum um dvalarleyfi hér á landi. Önnur kom frá hinu stríðshrjáða Sýrlandi og hin er frá Albaníu. Bæði löndin eru utan Evrópusambandsins.

Maður sér þó ekki brýna þörf á að senda þau burt.

Ég hef raunar lengi undrast hversu hart er tekið á flóttafólki sem hingað kemur.

Ekki síst í ljósi þess hve mörgum innflytjendum við tökum við í venjulegu árferði.

Hvað munar um tvær fjölskyldur í viðbót þegar við tökum við hátt í tvö þúsund innflytjendum á ári? Þetta er vinnufært fólk og það vantar vinnuafl í landinu.

Stóð annars ekki til að taka við flóttafólki frá Sýrlandi?

Er það góð byrjun að senda þá til baka sem þegar hafa komið hingað af sjálfdáðum?

Um hvað snýst annars þessi viðvarandi harðneskja í garð flóttafólks?

Halda menn að landið muni fyllast í einni svipan, ef það spyrst að hingað hafi eitthvað af flóttafólki fengið að koma?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.10.2015 - 11:15 - FB ummæli ()

Auðræði kæfir lýðræði

New York Times er með merkilega úttekt um áhrif peninga í bandarískum stjórnmálum í dag (sjá hér).

Þeir sýna enn betur en áður mikil áhrif auðmanna í bandarískum stjórnmálum, sem ég hef reyndar oft bloggað um. Hvernig auðmenn nota fé sitt til að kaupa sér mikil pólitísk áhrif.

Þetta gengur svo langt að stjórnmálamenn verða eins og strengjabrúður auðmanna, sem leggja línurnar um stefnu og úrræði í þjóðmálunum.

Ef stjórnmálamenn spila ekki með og þjóna hagsmunum auðmanna þá verða þeir sveltir – framlög í kosningasjóðinn rýrna eða þorna upp. Ferillinn er þar með í hættu.

Úttekt New York Times sýnir að auðmenn í fjármálageira og orkugeira eru atkvæðamestir í pólitíkinni.

 

Hvernig pólitík vilja auðmenn?

Hvað vilja auðmenn fá stjórnmálamenn til að gera fyrir sig?

Þeir vilja lægri skatta á hátekjur, fjármagnstekjur og erfðafé – og svo vilja þeir skera niður velferðarprógrömm fyrir almenning, ekki síst fyrir þá tekjulægstu. Þeir vilja meira frelsi til að braska án afskipta stjórnvalda.

Þeir vilja sem sagt meiri ójöfnuð og betri skilyrði til að auka auð sinn með sívaxandi hraða, um leið og tekjur lægri og milli tekjuhópa sitja eftir.

Það hefur náðst svo mikill árangur með þessa stefnu frá um 1980 að ójöfnuður í Bandaríkjunum er nú meiri en nokkru sinni fyrr frá byrjun 20 aldar. Ríkidæmið á toppnum blómstrar sem aldrei fyrr.

Millistéttin hefur á sama tíma dregist afturúr og ungt vel menntað fólk úr millistétt getur varla vænst þess að njóta betri kjara en foreldrar þeirra. Það er nýtt.

Um 60-70% kjósenda í Bandaríkjunum vilja hins vegar hækka skatta á hátekjur, fjármagn og uppsafnaðan ættarauð og allur þorri almennings vill líka efla velferðarkerfið, bæði almannatryggingar og sjúkratryggingar.

Almenningur er sem sagt á algerlega öndverðri skoðun við auðmennina.

En lína auðmanna ræður samt ferðinni, að mestu leyti.

Það er ótvíræður vitnisburður um að keypt pólitísk áhrif auðmanna skila þeim miklum árangri. Jafnvel þó þeir setji aðeins örlítið brot af auði sínum í pólitískar fjárfestingar.

Auðræðið er þar með orðið áhrifameira en lýðræðið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.10.2015 - 11:35 - FB ummæli ()

Valdabrölt Jóns Steinars

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, heldur áfram að ráðast á Hæstarétt. Segist vilja koma réttinum “í lag”.

Hann segir sitjandi dómara vera í valdabrölti og telur það miður.

En fáir hafa verið jafn mikið í valdabrölti og Jón Steinar sjálfur.

Þegar Davíð Oddsson og Björn Bjarnason hófu að skipa pólitíska samherja á dómarabekkinn í Hæstarétti hafði Jón Steinar ekkert við það að athuga.

Ónei! Hann sjálfur, stórpólitískur eins og hann hefur lengi verið, þáði meira að segja dómarasæti þar í valdatíð Björns Bjarnasonar.

Mörgum í samfélaginu fannst að Jón Steinar ætti ekkert sérstakt erindi á dómarabekk í æðsta dómstóli landsins, vegna óvenju mikilla pólitískra afskipta sinna. Hlutleysi gagnvart viðfangsefninu er mikilvægur eiginleiki sem dómarar þurfa að hafa.

Pólitískur einstrengingur og harðdrægni í hagsmunabaráttu eru hins vegar hættulegir eiginleikar dómara, sem öðru fremur þurfa að hefja sig upp yfir baráttu dægurmála og hagsmuna.

En Jón Steinar fór í Hæstarétt. Síðar kom í ljós að hann hafði haldið áfram pólitískri starfsemi sinni þar, meðal annars með útsendingu nafnlausa bréfsins sem frægt varð.

Það sem Jóni Steinari gramdist sérstaklega á hinum nýja starfsvettvangi sínum var að hann gat ekki tekið yfir réttinn. Þar voru fyrir á bekk menn sem stóðu í lappirnar og létu pólitíska sendingu frá Eimreiðarklíkunni ekki trufla sig um of.

Þetta gat Jón Steinar ekki fyrirgefið. Þegar hann, valdsmaðurinn sjálfur, sakar Hæstarétt um valdabrölt þá er hann eina ferðina enn að hefna ófara í eigin valdabrölti í Hæstarétti.

En það er fleira sem vekur athygli við málflutning Jóns Steinars.

Tryggvi Gíslason, sá merki skólamaður, gerir athugasemd við það sjónarmið Jóns Steinars að ekki eigi almenn viðmið lýðræðis og jafnræðis að gilda við ráðningu dómara í Hæstarétt, ásamt hæfni á sviði lögfræða og samfélagsmála.

Tryggvi vill að í Hæstirétti sitji hæfir dómarar sem talist geta eins konar “þverskurður af fólkinu í landinu”. Konur ættu til dæmis að hafa þar álíka vægi og karlar, enda enginn skortur á hæfum konum í lögfræðingastétt.

Betur sjá augu en auga og taka þarf tillit til ólíkra viðhorfa þegar leyst er úr ágreiningi manna, segir Tryggvi réttilega.

Þessu hafnar Jón Steinar og segist aðeins vilja þá allrahæfustu. En hverjir eru það?

Eru það þeir sem Eimreiðarklíkan velur og telur sér hliðholla?

Vissulega má bæta skipan dómara í Hæstarétt með hliðsjón af viðmiðum sem Tryggvi Gíslason nefnir.

En þegar annálaðir valdsmenn gagnrýna aðra fyrir valdabrölt þá ætti fólk að láta slíkt sem vind um eyru þjóta.

 

Síðasti pistill:  Jóhanna slær í gegn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.10.2015 - 12:23 - FB ummæli ()

Jóhanna slær í gegn

Hún kom skemmtilega á óvart Gallup könnunin sem spurði almenning um frammistöðu forsætisráðherra síðustu tveggja áratuga.

Spurt var hver þeirra hefði staðið sig best í embætti.

Jóhanna Sigurðardóttir ber af. Um 43% svarenda telja hana hafa staðið sig best. Það er meira en helmingur þeirra sem afstöðu taka. Hún er langt fyrir ofan Davíð Oddsson, sem var lang fyrirferðamestur á stóli forsætisráðherra á tímabilinu.

Þetta er sérstaklega skemmtilegt vegna þess að Jóhanna hefur ekki notið sannmælis. Raunar hefur hún verið ófrægð á sérstaklega grófan hátt, meðal annars af pólitískum keppinautum, ekki síst þeim sem er í öðru sæti á listanum.

Almenningur lætur þetta nú sem vind um eyru þjóta og kann að meta verk Jóhönnu. Það er uppörvandi að almenningur skuli að einhverju marki meta fólk og verk óháð áróðri og ófrægingum í fjölmiðlum.

 

Lexía fyrir Samfylkinguna

Það er líka lexía í þessu fyrir Samfylkinguna, flokk Jóhönnu.

Fyrir síðustu kosningar, þegar Jóhanna var ekki lengur í framboði eða forystu flokksins, var eins og Samfylkingin skammaðist sín fyrir hana og verk ríkisstjórnar hennar og Steingríms J. Sigfússonar.

Samfylkingarfólk bognaði að hluta undan áróðri Sjálfstæðismanna, sem sögðu Samfylkinguna hafa farið of langt til vinstri í samstarfinu við VG. Fyrir því var þó lítill fótur.

Í kosningunum 2013 bauð Samfylkingin heimilunum einkum upp á stöðugleika sem átti að fást með aðild að Evrópusambandinu – og fátt annað. Stjórnarandstaðan bauð hins vegar upp á væna skuldaleiðréttingu og bætt kjör heimila. Val heimilanna var því auðvelt.

Samfylkingin beið afhroð í kosningunum og hefur ekki fundið fjöl sína á ný.

Nú er þar varla að finna verðugan arftaka Jóhönnu í forystusveitinni. Framsókn skartar hins vegar verðugum arftaka Jóhönnu á sviði velferðarmála, Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra.

Jóhanna og ríkisstjórn hennar tóku við skelfilegu búi og komu Íslandi upp úr rústum hrunsins, dýpstu kreppu lýðveldistímans. Þau náðu góðum árangri á mörgum sviðum, þó ekki hafi þau getað staðið við öll loforðin.

Núverandi stjórnvöld tóku við betra búi í batnandi aðstæðum og hafa þau einnig gert margt gagnlegt, skilað okkur lengra framávið.

Þegar ryk þjóðmálabáráttunnar sest batnar dómgreind almennings. Fólk lítur til baka og sér staðreyndirnar í skýrara ljósi. Upphlaup og ófrægingar villa ekki um í sama mæli og fyrr.

Þess vegna er rökrétt að Jóhanna Sigurðardóttir fái nú betra mat hjá almenningi. Ætli núverandi stjórnvöld muni ekki njóta sömu áhrifa í framhaldinu?

 

Síðasti pistill: Vúdú-velferð Sjálfstæðiskvenna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.9.2015 - 20:54 - FB ummæli ()

Vúdú-velferð Sjálfstæðiskvenna

Fyrir síðustu kosningar byggðu Sjálfstæðismenn málflutning sinn mikið á vúdú-hagfræði.

Sögðust ætla að lækka skatta. Það myndi örva efnahagslífið svo mikið að ríkið yrði ekki fyrir neinu tekjutapi af skattalækkuninni. Skattalækkunin gæti sem sagt borgað sig sjálf. Bullandi gróði fyrir alla!

Þetta væri auðvitað alger galdur ef rétt reyndist. Þess vegna fékk þessi speki nýfrjálshyggjunnar einmitt heitið “vúdú-hagfræði”. Þetta var og er lítið annað en sjónhverfing áróðursmanna.

Þegar Bjarni Benediktsson var kominn til valda í ráðuneyti skattamála lækkaði hann vörugjöld og álagningu í efra þrepi virðisaukaskattsins. Það hefði átt að örva atvinnulífið og duga til að halda tekjum ríkisins óbreyttum, samkvæmt vúdú-hagfræðinni sem hann boðaði fyrir kosningar.

En fjármálaráðherrann (Bjarni Benediktsson) sagði þá að hækka þyrfti matarskattinn til að halda tekjum ríkisins. Vúdú-brellurnar dugðu honum sem sagt ekki þegar á hólminn var komið.

 

Frá vúdú-hagfræði til vúdú-velferðar

Nú fara Sjálfstæðiskonur fram með mikla herferð fyrir einkavæðingu í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þær segja að þetta sé leið til að fá meiri þjónustu án aukinna opinberra útgjalda.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir einmitt að einkavæðing sé leið til að fá meira fé inn í velferðarþjónustuna. Þá á hún við að ríkið borgi að minnsta kosti jafn mikið og áður en notendur þjónustunnar borgi að auki meira sjálfir úr eigin vasa, einkum þeir sem vilja fá meira en grunnþjónustu eina (hvernig sem hún verður svo skilgreind).

Þetta er einmitt borið fram í anda vúdú-hagfræðinnar og meintra yfirburða einkarekstrar á öllum sviðum. Talað er eins og hægt sé að fá meira fyrir minna,  allt fyrir ekkert, rétt eins og í vúdú-hagfræðinni.

En svo átta menn sig allt í einu á því, að einhver þarf að borga meira eða sætta sig við minni þjónustu. Í stað aukinna útgjalda hins opinbera verða notendagjöldin aukin hjá þeim sem vilja fá almennilega þjónustu.

Ásdís Halla Bragadóttir er mikill talsmaður einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni. Hún á og rekur einmitt fyrirtæki á því sviði og vill fá fleiri verkefni frá ríkinu. Segir það auka framboð þjónustu með hagkvæmum hætti. Hún vill sem sagt að ríkið greiði henni fyrir að veita heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir núna.

 

Gallar einkarekstrar á velferðarsviði

Getur slíkur einkarekstur veitt meiri velferð en ríkið gerir nú – fyrir sömu fjárhæð?

Það er alls ekki sjálfgefið. Einkarekstur hefur bæði kosti og galla á þessu sviði. Gallarnir eru meðal annars vegna þess að neytendaaðhalds gætir almennt ekki í heilbrigðisþjónustu eins og á neytendamarkaði. Sérfræðingar velja þjónustuúrræði og lyf, ekki sá sjúki.

Einkarekstur í velferðarkerfinu hefur að auki einn umtalsverðan kostnaðarlið sem ríkið hefur ekki: hagnað og arðgreiðslur til eigenda. Þá er stjórnunarkostnaður almennt meiri í einkafyrirtækjum vegna umtalsvert hærri launa stjórnenda og sérfræðinga en hjá ríkinu.

Einkarekin velferðarþjónusta þarf sem sagt að sjá fyrir kapítalistunum sem vilja græða á henni. Það er umtalsverður viðbótarkostnaður.

Helstu leiðirnar til að ná inn fyrir hagnaði og hærri launum eru annað hvort að draga úr þjónustumagninu sem ríkið greiðir fyrir, eða að láta notendur greiða meira með einum eða öðrum hætti. Þeir sem ekki geta greitt umtalsverð notendagjöld verða þá að neita sér um þjónustu.

Þannig innleiðir einkarekstur stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustuna á ný. Efnahagur ræður þar með meiru um hversu góða eða mikla þjónustu hinir veiku og þurfandi fá.

Undan þessu verður ekki vikist, þó vel meinandi Sjálfstæðiskonur haldi öðru fram – rétt eins og þær séu handhafar einhverra vúdú-bragða í rekstri.

Í Bandaríkjunum hefur verið gengið mun lengra í umsvifum einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu en í Evrópu. Dómur reynslunnar er sá, að einkarekstrinum þar fylgir mun meiri kostnaður en í ríkisreknum heilbrigðiskerfum Evrópu. Betri gæði fyrir þá efnameiri en lakari fyrir hina efnaminni.

Þetta er líka reynslan af auknu hlutverki einkarekstrar í sænska velferðarkerfinu, sem hægri menn beittu sér fyrir á síðasta áratug. Aðgengi og þjónustugæði hinna efnameiri hafa batnað þar en á móti hefur dregið úr aðgengi hinna efnaminni og mest þurfandi. Það segir sænska Ríkisendurskoðunin í nýlegri úttekt.

Mér finnst sjálfsagt að kanna kosti aukins einkarekstrar á sumum sviðum heilbrigðis- og velferðarþjónustu. En jafnframt þarf þá að kanna galla einkarekstrar á því sviði. Vega svo kostina á móti göllunum.

Einkarekstur á velferðarsviði, sem fjármagnaður er af hinu opinbera, á einungis að líða ef hann stenst hin ströngustu próf um hagkvæmni og gæði umfram opinberan rekstur.

Viðmiðið þarf jafnframt að vera, að öllum sé sinnt sem jafningjum, óháð efnahag. Annars er grafið undan velferðarsamfélaginu og stéttaskipting aukin.

Síðasti pistill: Frans páfi hrellir Íhaldið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.9.2015 - 15:31 - FB ummæli ()

Frans páfi hrellir Íhaldið

Það var fróðlegt að hlusta á ræðu Frans páfa á Bandaríkjaþingi í dag.

Páfinn hefur verið ófeiminn við að taka afstöðu til brýnna þjóðmála samtímans. Hann hefur markað sér stöðu með áherslu á hófsemd, réttlæti og sjálfbærni, en gegn fátækt og útskúfun.

Hann gagnrýnir græðgi og peningahyggju frjálshyggjukapítalisma nútímans og stríðsrekstur hvers konar.

Hann hvetur til alvöru aðgerða til að draga úr fátækt, ekki síst í ríkum samfélögum, eins og Bandaríkjunum, sem hafa góð efni til að útrýma sárri fátækt.

Það er gott og tímabært að Frans páfi tali þessu máli yfir þingmönnum Bandaríkjaþings.

Þar hefur almennt verið lítill áhugi á að nota gríðarlegan auð Bandaríkjanna til að draga úr fátækt og bæta hag venjulegs fjölskyldufólks.

Stjórnmálamenn beggja flokka (Repúblikana og Demókrata) virðast oft hafa meiri áhyggjur af því, að auður þeirra allra ríkustu aukist ekki nógu hratt. Það á þó meira við um Íhaldið (Repúblikana) en aðra.

Íhaldið í Bandaríkjunum hefur mestan áhuga á óheftum kapítalisma, sem fóstrar græðgi og ójöfnuð. Þeim hugnast ekki velferðarríkið og skattkerfið, sem endurdreifir auðnum frá þeim allra ríkustu til lægri og milli tekjuhópa.

Þeim hugnast heldur ekki barátta gegn umhverfismengun, sem páfi boðar af mikilli sannfæringu.

Repúblikanar segjast vera “fyrir lífið” og hafna fóstureyðingum á þeirri forsendu. En fáir eru jafn herskáir talsmenn stríðsrekstrar og þeir. Í stríðum tapast flest lífin.

Fáir leggja meiri áherslu á dauðarefsingu og óhefta byssueign en Repúblikanar. Er það að vera “fyrir lífið”?

Almennir Bandaríkjamann taka páfa vel. Þess vegna þykjast Repúblikanar einnig vera ánægðir með komu páfa á þingpalla, þó boðskapur hans gangi gegn mörgu í pólitík þeirra. Sumir þeirra hafa þó opinberað efasemdir sínar um boskap hans.

Vonandi hefur Frans páfi einhver áhrif á hugarfar ríkjandi afla í Bandaríkjunum.

Boðskapur hans er til góðs fyrir alla.

 

Síðasti pistill:  Góð skref ríkisstjórnarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.9.2015 - 13:34 - FB ummæli ()

Góð skref ríkisstjórnarinnar

Verðlag á Íslandi hefur lengi verið eitt það hæsta í heimi. Einungis heitt vatn og rafmagn hafa kostað markvert minna hér en annars staðar í Evrópu.

Öll skref til að lækka verðlagið í landinu eru því mikilvæg – það er önnur en lækkun launa.

Þannig var það gott skref hjá ríkisstjórninni að fella niður vörugjöld á rafeindatækjum, byggingavörum, varahlutum og annarri vöru um síðustu áramót. Verra var þó að matarskatturinn var hækkaður í staðinn.

En nú í síðustu viku undirritaði Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra samkomulag við Evrópusambandið um gagnkvæma lækkun á tollum á unninni matvöru.

Það er fínt skref.

Í fjárlögum næsta árs er kveðið á um lækkun tolla á skóm og fatnaði, strax um áramótin næstu. Það er einnig gott, léttir af verðbólguþrýstingi og eflir verslun með þessa vöru innanlands.

Allt bætir þetta hag heimilanna og því ber að fagna.

 

Síðasti pistill:  Er mikil byrði af lífeyrisþegum á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.9.2015 - 12:57 - FB ummæli ()

Er mikil byrði af lífeyrisþegum á Íslandi?

Menn hafa rætt svolítið um byrði af örorkulífeyrisþegum undanfarið.

Í síðasta pistli sýndi ég nýjustu tölur um stærð þessa hóps í norrænu samfélögunum.

Niðurstaðan er sú, að hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri er svipað eða minna hér en á hinum Norðurlöndunum.

En ef við lítum á alla lífeyrisþega (öryrkja og ellilífeyrisþega samanlagða)? Hvernig kemur Ísland þá út úr samanburðinum?

Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Fjöldi lífeyrisþega 2013

Hér má sjá að Ísland er með hlutfallslega minnsta byrði vegna fjölda lífeyrisþega af Norðurlöndunum öllum.

Hér voru allir lífeyrisþega um 22% af íbúum 16 ára og eldri, en í hinum löndunum var hlutfallið frá 28% og upp í 32%.

Hér munar mest um það að ellilífeyrisþegar eru mun færri á Íslandi. Það helgast einkum af því að Íslendingar fara mun síðar á ellilífeyri en íbúar grannríkjanna.

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri og einnig er algengara að fólk vinni hér eitthvað áfram eftir að það hefur töku ellilífeyris (sem sparar ríkinu útgjöld í almannatryggingakerfinu).

 

Íslenskir ellilífeyrisþegar borga sjálfir meirihluta eigin lífeyris

Íslendingar hafa ekki einungis litla byrði af lífeyrisþegum vegna minni fjölda þeirra almennt. Annað léttir skattborgurum byrðina að auki.

Það er sú staðreynd að um 60% af ellilífeyri eldri borgara kemur nú þegar úr lífeyrissjóðunum. Það er uppsafnaður ævisparnaður fólks. Skattborgarar sleppa við að greiða þetta, ólíkt því sem er í flestum landanna á meginlandi Evrópu.

Eftir því sem tíminn líður kemur enn stærri hluti ellilífeyris úr lífeyrissjóðunum og framlag almannatrygginga til eldri borgara minnkar að sama skapi, vegna tekjutenginga í almannatryggingakerfinu.

Byrði samfélagsins vegna ellilífeyrisgreiðslna mun þannig minnka á næstu áratugum, að öðru óbreyttu. Eftir því sem tekjur eldri borgara munu aukast, munu þeir einnig greiða meira í skatta.

Þegar lífeyrisréttindi verða orðin fullþroskuð (upp úr ca. 2030) mun staðan hafa batnað hvað þetta varðar og framlag almannatrygginga verður að stærstum hluta greiðsla örorkulífeyris og uppbóta á ellilífeyri fyrir þá sem hafa lítið úr lífeyrissjóðum, af einhverjum ástæðum.

Það er því óhætt að segja, að heildarbyrði Íslendinga vegna fjölda lífeyrisþega er umtalsvert minni en á hinum Norðurlöndunum.

Lífeyrisþegar greiða sjálfir stærri hluta lífeyris síns hér en í flestum vestrænum löndum, með sparnaði sínum í lífeyrissjóðunum.

Raunar erum við með einna minnsta byrði vegna lífeyrisþega á Vesturlöndum öllum – á heildina litið.

Við höfum því betri stöðu en flestar þjóðir til að gera vel við þenna þjóðfélagshóp sem lífeyrisþegar eru.

 

Síðasti pistill:  Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum árið 2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.9.2015 - 09:23 - FB ummæli ()

Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum árið 2013

Í nýlegri umfjöllun um fjölda örorkulífeyrisþega á Íslandi og hinum Norðurlöndunum vísaði ég til talna frá OECD fyrir árið 2009 og talna frá NOSOSKO (Norræn nefnd um tölfræði félagsmála) fyrir árið 2011.

Megin niðurstaðan var sú, að Ísland væri í neðri kantinum hvað hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri snerti, samanborið við hin Norðurlöndin.

Hér eru nýrri tölur og í skýrari framsetningu (Heimild NOSOSKO 2015).

Hlutfall öryrkja 2013

Ísland er árið 2013 með lægst hlutfall fólks á vinnualdri sem er á einhverjum lífeyri, eða um 10%, á meðan hinar norrænu þjóðirnar eru með 11% til 14%.

Langflestir þessara lífeyrisþega á vinnualdri eru með örorkulífeyri, en aðrir eru á endurhæfingarlífeyri, örorkustyrk eða hafa farið snemma á ellilífeyri (förtidspension/early retirement).

Á Íslandi tilheyra síðari hópnum t.d. sjómenn sem geta farið á lífeyri eftir 60 ára aldur eða opinberir starfsmenn sem njóta 95 ára reglunnar og geta stundum farið á ellilífeyri áður en 67 ára aldri er náð. Hér er þó mun fátíðara að fara snemma á ellilífeyri en í nær öllum öðrum vestrænum samfélögum.

Ísland er sem sagt með hlutfallslega færri örorkulífeyrisþega en hin Norðurlöndin, á heildina litið.

Það er því mjög fjarri lagi að hér sé fjórfalt til fimmfalt fleiri íbúar á vinnualdri á örorkulífeyri en á hinum Norðurlöndunum, eins og fullyrt hefur verið.

Á næstu mynd er sýnt hlutfall örkulífeyrisþega af stærð einstakra aldurshópa. Það segir mikið um einkenni örorkulífeyrisþega á Íslandi.

Öryrkjar eftir aldurshópum 2013

Hér má sjá að Ísland er með hærra hlutfall örorkulífeyrisþega í lægri aldurshópum en mun lægra hlutfall í efri aldurshópum, einkum yfir 60 ára aldursmörkunum, þar sem flestir örorkulífeyrisþegar eru.

Okkur hefur sem sagt tekist verr en frændþjóðunum að koma ungu fólki sem býr við skerta heilsu til vinnu og samfélagsþátttöku. Það ætti að vera sérstakt markmið hér á landi að bæta úr þessu, til dæmis í samstarfi TR , VIRK endurhæfingarsjóðsins, heilbrigðisþjónustunnar og atvinnulífsins.

Hér hefur einnig gætt vaxandi vanda við að koma ungu fólki úr skóla og út á vinnumarkað, sem æskilegt væri að taka betur á, einkum þar eð ótímabært brottfall úr framhaldsskólum er allt of mikið á Íslandi.

Á móti tekst mun betur hér á landi að halda aftur af fjölgun örorkulífeyrisþega í efri aldurshópum. Það skiptir mestu fyrir heildarniðurstöðuna.

Sú útkoma byggir á því, að Íslendingar vinna lengur fram eftir ævinni en nær allar aðrar þjóðir innan OECD samtakanna, jafnvel þó erfitt og versnandi heilsufar hamli vinnugetu margra þegar árin færast yfir.

Það er aðdáunarverður árangur. Hann kemur meðal annars fram í því, að mun fleira fólk með margvísleg heilsuvandamál stundar hér fulla launaða vinnu sér til framfærslu en algengast er í grannríkjunum.

 

Mikið hefur dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega

Menn hafa einnig rætt nokkuð um fjölgun örorkulífeyrisþega á síðustu árum. Það hefur að sumu leyti verið villandi umræða.

Örorkulífeyrisþegum tók að fjölga mikið í kringum 1990 en eftir 2005 hafa hins vegar orðið mikil umskipti hvað það varðar. Síðan þá hefur mikið dregið úr fjölguninni, eins og eftirfarandi mynd með gögnum frá TR sýnir.

Fjölgun öryrkja til 2014

Árleg fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi frá 2005 til 2014 var á bilinu 1-4% en fyrir þann tíma var fjölgunin oftast á bilinu 5-11%.

Tvö ár á fyrra tímabilinu eru þó fráviksár með um 3% fjölgun (1997 og 1998), en fyrir 2005 fylgdi fjölgun örorkulífeyrisþega atvinnuleysi að umtalsverðu leyti (ég hef rannsakað það samband talsvert ítarlega ásamt Sigurði Thorlacius lækni, sem er sérfræðingur í örorkumálum).

Eftir því sem meðalaldur þjóða hækkar (sem er að gerast á Íslandi og víðar á Vesturlöndum) þá má búast við að örorkulífeyrisþegum fjölgi meira en íbúafjölgunin almennt er, að öðru óbreyttu.

Það er einfaldlega vegna þess að tíðni örorku vex með aldri.

Árið 2014 var þó fjölgun örorkulífeyrisþega hins vegar lítið frábrugðin almennri fólksfjölgun hér á landi (um 1%). Oftar er fjölgun örorkulífeyrisþega þó meiri en íbúafjölgunin, eins og í mörgum vestrænum löndum.

 

Atvinnuþátttaka fólks með örorku

Almennt er æskilegt að greiða fyrir aukinni atvinnuþátttöku fólks með hvers konar örorku, eins og kostur er. Það er bæði gott fyrir fólkið sjálft og samfélagið. Raunar hefur ágætur árangur náðst á því sviði á Íslandi.

Hér er samkvæmt lífskjarakönnunum Hagstofunnar um 11-12% fólks á vinnualdri með líkamlega eða andlegar heilsufarshömlur af einhverjum toga, sem draga úr vinnugetu. Örorkulífeyrisþegar eru hins vegar rúmlega 8% af fólki á vinnualdri, skv. tölum TR.

Það þýðir að hátt í þriðjungur fólks með einhverja örorku bjargi sér sjálft með fullri atvinnuþátttöku, þrátt fyrir skerta heilsu. Um 30% hinna sem eru á örorkulífeyri stunda einhverja launaða vinnu að auki, oftast í hlutastörfum. Raunar benda tölur OECD til þess að atvinnuþátttaka fólks með örorku sé með allra hæsta móti á Íslandi af OECD-ríkjunum.

Megin leiðirnar til að ná betri árangri í að auka atvinnuþátttöku öryrkja eru:

  • Að auka sveigjanleika á vinnustöðum fyrir fólk með skerta vinnugetu
  • Auka fjárhagslegan ávinning öryrkja af atvinnuþátttöku (t.d. með því að hætta að fullu skerðingu örorkulífeyris vegna eigin atvinnutekna)
  • Aukinn almennur stuðningur við atvinnuþátttöku
  • Jákvæðara viðhorf atvinnulífsins og stjórnvalda til málsins

Sumir virðast telja að upptaka starfsgetumats í stað núverandi örorkumats muni sjálfkrafa fækka örorkulífeyrisþegum. Þó sú breyting sé um margt jákvæð þá leiðir hún ekki sjálfkrafa til fækkunar örorkulífeyrisþega, nema það sé um leið gert mun erfiðara en nú er fyrir langveikt fólk að fá örorkulífeyri.

Starfgetumat er einfaldlega hin hliðin á örorkumati. Maður sem fær þá niðurstöðu að hann sé með 75% örorku (skerta vinnugetu) hann telst að öðru jöfnu vera með 25% starfsgetu.

Það er vissulega jákvætt að horfa á starfsgetuna, en í grunninn er hún einungis önnur leið til að tala um skerta starfsgetu og örorku.

Það eru stuðningsaðgerðirnar og hvataumhverfið sem mestu ráða um raunverulega atvinnuþátttöku fólks með skerta vinnugetu af heilsufarsástæðum.

Til að ná betri árangri á þessu sviði þarf einkum meiri stuðning og jákvæðari viðhorf til úrræða, bæði hjá atvinnulífi og stjórnvöldum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.8.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Rangfærslur Vigdísar Hauks um öryrkja

Hæstvirtur formaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir, var í viðtali við RÚV í gær. Þar talaði hún meðal annars um örorkulífeyrisþega og fór því miður ranglega með nokkrar lykilstaðreyndir.

Vigdís sagði að öryrkjar væru hér um 9% fólks á vinnumarkaði en um 2% á hinum Norðurlöndunum.

Þetta er kolrangt.

Nýjustu tölur TR sýna að öryrkjar eru um 8,8% af fólki á vinnumarkaði hér (2014), en á hinum Norðurlöndunum er þetta svipað í Danmörku en nokkru hærra í Finnlandi og talsvert hærra í Noregi og Svíþjóð (örorkulífeyrisþegar eru þar 10-11% fólks á vinnualdri, skv. tölum OECD).

Í reynd eru Íslendingar með umtalsvert færra fólk á vinnualdri á lífeyri en er á hinum Norðurlöndunum. Ég skrifaði grein um það á Eyjunni fyrir um tveimur árum (sjá hér).

Árið 2011 voru um 21% Íslendinga 16 ára og eldri á einhverjum lífeyri en í hinum Norðurlöndunum var samsvarandi hlutfall frá 27% og upp í 30%. Nýrri tölur fyrir 2013 eru svipaðar (heimild: NOSOSKO 2014).

Við erum með heldur hærra hlutfall ungs fólks á örorkulífeyri en hinar norrænu þjóðirnar en mun lægra hlutfall hjá fólki á aldrinum 50-66 ára, en langflestir örorkulífeyrisþegar eru einmitt á þeim aldri. Konur eru þar í meirihluta, einkum vegna hærri tíðni gigtarsjúkdóma hjá þeim en hjá körlum.

Um 5,7% þjóðarinnar allrar voru á örorkulífeyri í fyrra (2014). Umtalsvert hefur dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi á síðustu árum (sjá hér).

Árið í fyrra fjölgaði örorkulífeyrisþegum t.d. um 1,1%, en á árunum upp úr 1990 var fjölgunin allt upp í tíu sinnum meiri. Fjölgunin í fyrra var svipuð og íbúafjölgunin í landinu.

Þetta eru því vægast sagt villandi staðhæfingar hjá formanninum og öðrum um fjölda og fjölgun öryrkja hér á landi og meintan vanda sem því tengist.

 

Mikilvægi vinnuhvata

Annað sem Vigdís fór rangt með var þegar hún sagði að allar launatekjur skerði örorkubætur almannatrygginga.

Hið rétta er að öryrkjar mega hafa tæpar 110 þúsund krónur á mánuði (1.315.200 krónur á ári) í atvinnutekjur án þess að örorkulífeyrinn sjálfur skerðist.

Hjá þeim sem hafa engar aðrar tekjur en frá almannatryggingum skerða atvinnutekjur hins vegar lágmarksframfærslutrygginguna, sem er svolítið annað mál – en engu að síður óheppilegt.

Ég tek hins vegar undir með Vigdísi þegar hún segir mikilvægt að auka hvata til vinnu og ég legg eindregið til að öll skerðing örorkulífeyris vegna atvinnutekna verði algerlega afnumin.

Ríkinu ætti fyllilega að duga að fá skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja. Þannig væri hvatinn til atvinnuþátttöku öryrkja hámarkaður.

Gleymum því hins vegar ekki, að menn fá ekki örorkulífeyri nema þeir hafi alvarlega langtíma sjúkdóma eða umtalsverðar líkamlegar eða andlegar hamlanir sem skerða vinnugetu. Starfsgetumat mun litlu breyta um það.

Margir öryrkjar geta þó unnið eitthvað (einkum hlutastörf) og flestir örorkulífeyrisþegar vildu geta unnið meira en þeir gera nú.

Það væri þjóðhagslega hagkvæmt að skapa þeim skilyrði til að gera það – um leið og lífsgæði öryrkja yrðu betri fyrir vikið.

Það myndi gerast með viðhorfsbreytingu í samfélaginu og meiri stuðningi við atvinnuþátttöku öryrkja, meðal annars með aðlögun og auknum sveigjanleika á vinnustöðum og meiri jákvæðni atvinnurekenda og ríkisvaldsins.

 

Síðasta grein:  Við munum Stuðmenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.8.2015 - 13:16 - FB ummæli ()

Við munum Stuðmenn

Stuðmenn toppuðu glæsilegan dag menningarnætur á Arnarhóli í gær.

Það fór vel á því, enda gullaldarbandið enn í fínum gír. Þeir mættu meira að segja fara að koma með ný lög – gætu hæglega slegið í gegn á ný.

Tónleikarnir á hólnum byrjuðu með hinni kraftmiklu Dimmu og svo tók við hin stórskemmtilega Amaba Dama. Loks Stuðmenn.

Þar sem ég stóð í hópi innlendra sem erlendra og fylgdist með Stuðmönnum skauta í gegnum vel valin lög, frá ýmsum skeiðum ferilsins, rifjaðist upp fyrir mér hversu mikið Stuðmenn og þeirra líkir eiga í mér og minni tíð.

Stuðmenn eru ekki bara frábærir tónlistarmenn. Þeir eru líka konseptlistamenn sem lögðu mikið til tíðarandans.

Plötur þeirra, frá brautryðjendaverkinu Sumar á Sýrlandi til Tívolí og Með allt á hreinu, voru að miklu leyti konseptverk. Þarna mátti finna snjöll þemu, þar sem saman fór húmor og pólitík, þeirra eigin sýn á lífið. En umfram allt var þetta góð skemmtun.

Það var því gaman að sjá Stuðmenn í svona fínu formi á Arnarhólnum í gærkvöld. Þeir eru einn stærsti gullmolinn í okkar alþýðumenningu, popp kúltinu.

 

Poppið og nýsköpunin – og það sem minnið geymir

Þegar maður hugsar til þess hvað það er sem stendur uppúr í samfélaginu og menningunni á hverjum tíma þá leitar maður að stóru stjörnunum, í listum jafnt sem þjóðmálum. Maður spyr um nýsköpunina.

Saga mannkyns var lengi skrifuð sem eins konar ferðalag um kirkjugarða þjóðarleiðtoga, herforingja og biskupa. Hún var sögð sem saga yfirstéttarinnar – freku karlanna sem höfðu völdin og auðinn.

Á okkar tíð á seinni hluta 20. aldar og inn á núverandi öld opnaðist æ meira svigrúm fyrir nýja strauma til áhrifa, ekki síst í menningu, vísindum, þjóðmálum og viðskiptum.

Popp menningin var stór hluti nýsköpunarinnar á okkar tíð, frá sjöunda áratug síðustu aldar. Þar var mikil gerjun og mikill sköpunarmáttur sem slapp laus á þeim tíma og fjörgaði umhverfi sitt. Jók við lífið.

Maður spyr sig stundum að því hvort úr nýsköpunarmættinum hafi dregið á síðustu áratugum?

Klassískir snillingar á þessu sviði hafa í auknum mæli stigið á stokk á síðustu árum og endurflutt verk sín, oft við góðan hljómgrunn. Um daginn hlustaði ég á Patty Smith gera sínu framlagi skil á frábærum tónleikum í Hörpu. Það fjörgaði söguminni mitt.

Kanski einmitt þess vegna var ég með hugann við söguna og víða samhengið er ég hlustaði á Stuðmenn í gær.

Það er ómetanlegt fyrir þjóð að eiga góða listamenn sem geta hreift við hverri taug í líkama manns og túlkað og auðgað tíðarandann.

Hver kynslóð á sín leiðarljós í menningunni, en mér sýnist að Stuðmenn höfði enn til ansi breiðs hóps þó 40 ár séu liðin frá því að sumarið kom á „Sýrlandinu“ kalda.

“Mannst’ekk’eftir mér” hljómaði textinn í einu laginu, reyndar um stjórnmálamann. Það minnir á að stjórnmálamenn eru oft ekki nógu stórir í sniðum né nógu farsælir, svona almennt séð.

Æskilegt væri að fleiri stjórnmálamenn skili þjóðinni jafn miklum tilefnum til gleði og uppörvunar og listamenn eins og Stuðmenn hafa gert.

Ég man Stuðmenn og geri áfram, meðan enn fer straumur um víraverk sálarinnar. Það gildir um flesta Íslendinga. En ég vildi gjarnan muna fleiri stjórnmálamenn betur, fyrir góð og farsæl verk í almannaþágu.

Þeir sem einkum þjóna sérhagsmunum og forréttindaaðli mega gjarnan hverfa í gleymskunnar dá. Þeir eru því miður of margir.

Þeir sem færa fjöldanum mest skína skærast – og geymast best.

 

Síðasta grein:  Biskup blessar syndina

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.8.2015 - 13:51 - FB ummæli ()

Biskup blessar syndina

Biskup nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, heilagur Hannes frá Hólmsteini, hefur kveðið upp úr um það, að vændi skuli ekki lengur teljast ámælisvert, ólíkt því sem kristin kirkja hefur boðað í rúm 2000 ár.

Vændi er einungis eitt af þeim “atvinnutækifærum” sem konur geta nýtt sér til lífsviðurværis, segir hann.

Ekki sé sanngjarnt af kvenréttindakonum af hafa slík tækifæri af öðrum konum.

Hmmmm….

Þetta er að vísu rökrétt út frá lífsskoðun nýfrjálshyggjunnar. Þar er í forgangi frelsi til hvers konar viðskipta og réttur til að safna eignum. Annað er víkjandi.

Fyrirbæri eins og manngildi og mannréttindi skipta minna máli. Mannleg virðing og réttlæti sömuleiðis.

Réttur allra til lágmarkslífsgæða og velferðar leiðir bara til skattheimtu sem hamlar viðskiptafrelsinu, segir í helgiritum nýfrjálshyggjunnar.

Fólk er sumsé bara markaðsvarningur í heimi Hólmsteins. Hvorki meira né minna. Það má meðhöndla eins og hverja aðra söluvöru.

 

Atvinnutækifæri hjá mafíunni

Það sama gildir auðvitað á öðrum sviðum.

Eða hvers vegna skyldi fólk amast við því að ungir menn fari til starfa fyrir mafíuna í Rússlandi eða Mexíkó?

Þar er hægt að hafa góðar tekjur – að minnsta kosti til skemmri tíma.

Gildir einu þó starfsemin felist í því að greiða ungu fólki leið til glötunar og að mafíósar myrði stundum keppinauta sína og aðra sem kunna að standa þeim í vegi.

Já, hvers vegna skyldu menn láta siðferði, mannréttindi og manngildi flækast fyrir góðum markaðsviðskiptum?

Slíkt eru bara viðskiptahindranir í heimi nýfrjálshyggjunnar!

 

Síðasti pistill:  Mikil ánægja með íslenska menntakerfið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 11.8.2015 - 22:17 - FB ummæli ()

Mikil ánægja með íslenska menntakerfið

Ný könnun OECD á ánægju almennings með menntakerfið í 43 ríkjum heimsins sýnir mikla trú Íslendinga á menntakerfi sínu.

Ísland er í efsta sæti, ásamt Írlandi og Belgíu (83% eru ánægð). Næst á eftir koma Noregur, Sviss og Finnland.

Svíar, Bretar, Frakkar og Þjóðverjar koma mun neðar. Neðstir eru Grikkir, ásamt Brasilíu, Rússlandi og stríðshrjáðri Úkraínu. Hér eru niðurstöðurnar í heild:

Ánægja með menntakerfið 2014

Annað hvort er þetta mjög gott hjá Íslendingum eða þá að almenningur veit ekkert um menntakerfið í landinu.

Flestir hafa þó talsverða reynslu af menntakerfinu vegna skólagöngu eigin barna. Við hljótum því að meta þessar upplýsingar þannig að fólki finnist kerfið virka vel og veita ágæta þjónustu.

Viðmót menntakerfisins er í öllu falli gott og hægt er að hafa trú á því.

Við eigum samt að hafa í huga að árangur nemenda í grunnskólanum er ekki langt fyrir ofan meðallag OECD-ríkja.

Það er sem sagt ekki endilega fullt samræmi milli árangurs á prófum og ánægju almennings með menntakerfið. Finnar ná mun betri árangri en við en almenningur þar er ívið minna ánægður með menntakerfi sitt en við Íslendingar.

Verst er auðvitað að vera neðarlega bæði í námsárangri og ánægju fólks með kerfið. Svíar eru nú að mörgu leyti komnir í þá stöðu – ólíkt því sem áður var. Er það afleiðing af breyttri stjórnarstefnu síðustu tvö kjörtímabilin, með aukinni einkavæðingu?

Eftir hrunið mikla mega Íslendingar vel við una að vera árið 2014 í efsta sæti svo margra þjóða, hvað snertir ánægju almennings með menntakerfið.

Fyrir okkur sem vinnum í menntakerfinu er þetta auðvitað uppörvandi.

Við erum þó með eitt alódýrasta háskólakerfi sem fyrirfinnst á Vesturlöndum og náum samt þokkalegum árangri þar. Það er starfsfólki háskólanna meira að þakka en fjárveitingavaldinu.

Nú er hins vegar að standa við stóru loforðin frá aldarafmæli Háskóla Íslands og ná meðalfjárveitingu OECD-ríkjanna á nemanda á Íslandi ekki seinna en árið 2018, líkt og tekist hefur fyrir grunnskólann og framhaldsskólann.

Það mun skila samfélaginu meiri framförum og efla nýsköpun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.8.2015 - 20:49 - FB ummæli ()

Jöklar hverfa – en frjálshyggjan blífur

Sífellt safnast upp sönnunargögn um hlýnun lofthjúpsins og vísindamenn vara við alvarlegum afleiðingum fyrir jarðarbúa.

Morgunblaðið segir í dag frá því að jöklar séu hvarvetna að hverfa, óvenju hratt – líka á Íslandi. Vegna hnattrænnar hlýnunar af manna völdum.

En frjálshyggjumenn á Vesturlöndum hafa véfengt slíkar niðurstöður vísindamanna og telja allt tal um hnattræna hlýnun vera „árás á kapítalismann“! Þeir boða því afskiptaleysisstefnu gagnvart loftslagsvandanum. Það gera þeir líka í málum fjármálamarkaðarins.

Frjálshyggjumenn, og sérstaklega nýfrjálshyggjumenn (neoliberals), eru augljóslega ákveðnir í að læra ekkert af vísindum né af fjármálakreppunni. Halda bara áfram trúboði sínu um óhefta markaðshyggju, auðræði og afskiptaleysisstefnu, eins og ekkert hafi í skorist!

Þeir hafna öllu jarðsambandi og fljóta sofandi að feigðarósi.

Jafnvel þó Mogginn bendi á að jöklarnir séu að hverfa…

Í besta falli segja frjálshyggjumenn að þetta lendi á framtíðarkynslóðum og spyrja svo: “Hvað hafa framtíðarkynslóðir gert fyrir okkur? Við skuldum þeim ekkert! Höldum frekar áfram að græða og grilla.”

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur leitt baráttu frjálshyggjumanna hér á landi og gerir enn.

Eftirfarandi eru klassísk orðaskipti hans og Guðna Elíssonar prófessors, en Guðni afhjúpaði eftirminnilega götin í málflutningi Hannesar Hólmsteins um loftslagsmálin fyrir nokkrum misserum:

Hannes sagði:

„Hvernig í ósköpunum ættum við að trúa þessu fólki (vísindamönnum)? Og það, sem meira er: Hvers vegna ættum við að afsala okkur þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapítalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátinn, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva“.

Guðni svaraði þessu í grein sinni:

„Stærsta áhættan sem menn geta tekið lýtur að lífi mannkynsins á jörðinni. Þrátt fyrir það hafa ýmsir af þeim sem Hannes fylgir að málum sett fram þá kröfu að við gerum ekkert. Hannes segir sjálfur: „Ég ætla ekki í björgunarbátinn, fyrr en ég er viss um, að skipið er að sökkva.“ Líkingin slær Hannes blindu. Hvert flýr sá sem kemst hvergi?“

Fyrirhyggja er sem sagt frjálshyggjumönnum fjarri. Vilja láta óheftan markaðinn skeika að sköpuðu.

Hér að neðan má svo sjá frjálshyggjumenn í björgunarbátnum. Hannes hefur fyrir þeim orð.

Slide1

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar