Föstudagur 13.2.2015 - 11:16 - FB ummæli ()

Vitfirring Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð Íslands var með árlega revíu sína í gær.

Þetta eru skrautlegar samkomur þar sem forystumenn Viðskiptaráðs koma fram í röndóttum jakkafötum og segja þjóðinni og stjórnmálamönnum hvernig stjórna eigi landinu.

Fyrir hrun voru þessar samkomur vinsælar. Menn töldu að spekingar Viðskiptaráðs hefðu höndlað sannleikann og mændu upp í nasir þeirra.

Sannleikur þeirra reyndist vera einföld útgáfa af bandarískri nýfrjálshyggju og ræningjakapítalisma.

Lykilstefið var: allt sem ríkið gerir er slæmt – allt sem einkageirinn gerir er frábært! Ég á’etta – ég má’etta.  Amen…

Stjórnvöld gleyptu við þessu, eins og margir aðrir.

Viðskiptaráð hældi sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands.

Árangurinn lét ekki á sér standa!

Eftir trylltan dans í kringum gullkálfinn hrundi fjármálakerfið og efnahagslífið til grunna. Atvinnulífið drukknaði í skuldum vegna brasks. Þar á meðal steypustöðin B.M. Vallá.

Ég sé að Viðskiptaráð er enn við sama heygarðshornið – með sömu messuna og fyrir hrun.

 

Eigum við að gefa frá okkur orkuauðlindirnar?

Nú heimta Viðskiptaráðsmenn á ný að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur verði seld ódýrt til braskara í einkageiranum. Þeir eru meira að segja búnir að verðleggja góssið sjálfir!

Orkuveitan er einokunarfyrirtæki í almannaþjónustu. Einkavæðing þess myndi gefa gróðapungum opið veiðileyfi á neytendur vatns og rafmagns (án samkeppni) og reikningar heimilanna myndu hækka.

Við erum nú með einhvern lægsta húshitunar- og rafmagnskostnað sem þekkist í Evrópu – í þessu kalda og dimma landi. Það er mikilvægt fyrir heimilin.

Það væri vitfirring að láta einkavæðingu Orkuveitunnar yfir okkur ganga og tapa þessari góðu stöðu.

Og ættum við líka að afhenda einkaaðilum í Viðskiptaráði orkuauðlindir fallvatnanna til eigin fénýtingar, með einkavæðingu Landsvirkjunar?

Forstjóri Landsvirkjunar hefur nýlega upplýst að fyrirtækið verði á næstunni í stakk búið að greiða almenningi í arð tugi milljarða á ári til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar – eigenda auðlindanna.

Væru þeir peningar betur geymdir í vösum meðlima Viðskiptaráðs eða á reikningum braskara í erlendum skattaskjólum? Svari hver fyrir sig.

Viðskiptaráð vill einnig að ríkið selji alla aðra fýsilega starfsemi sem það hefur á sinni könnu og leggur meðal annars til að heilbrigðisþjónustu, menntun og störfum sýslumanna verði úthýst til braskara í Viðskiptaráði. Næsti bær við er úthýsing löggæslunnar og ríkisstjórnarinnar.

 

Er búið að útvista ríkisstjórninni til Viðskiptaráðs?

Maður hlustar á þessa speki í forundran.

Eftir þá reynslu sem þjóðin fékk af hrunadansinum þá væri það vitfirring að fylgja ráðum Viðskiptaráðs nú. Hrein og klár vitfirring.

Hvernig væri nú að Viðskiptaráðsmenn færu í meðferð og lærðu að viðurkenna að það var einkageirinn sem steypti Íslandi fyrir björg.

Ný-einkavæddir bankar fóru þar fremstir, með taumlausri græðgisvæðingu, skuldasöfnun og lögbrotum í bland.

Það tók braskarana einungis fimm ár að reka bankana alla í þrot, í eitt stærsta gjaldþrot heimssögunnar! Þjóðin axlar nú byrðar vegna þess.

Ef Viðskiptaráð einbeitti sér að því að bæta rekstur, stjórnun og siðferði í einkageiranum þá gæti það átt rétt á sér. En ekki sem sjálfskipuð ríkisstjórn þjóðarinnar.

Íslenskir kjósendur hafa ekki kosið Viðskiptaráð til að stjórna landinu.

Viðskiptaráðsmenn ættu að hafa hægt um sig eftir reynsluna af stefnu þeirra sem færði okkur hrunið.

Þeir hafa ekkert lært af reynslunni.

 

Síðasti pistill:  Hrunið og árangur endurreisnarinnar

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.2.2015 - 10:46 - FB ummæli ()

Hrunið og árangur endurreisnarinnar

Ég skrifaði fræðilega grein í Íslenska þjóðfélagið, tímarit Félagsfræðingafélagsins, í desember sl. Þar fjalla ég ítarlega um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar og árangurinn við endurreisn samfélagsins (greinina í heild má sjá hér).

Í útdrætti er efni og niðurstöðum úttektarinnar lýst svona:

“Hér er fjallað um einkenni íslensku fjármálakreppunnar og spurt hvernig hún hafði áhrif á lífskjör almennings. Sjónum er sérstaklega beint að aðgerðum við endurreisn samfélagsins eftir hrunið. Umfjöllunin er sett í samhengi við helstu kenningar um kreppuviðbrögð í anda keynesískrar hagstjórnar og afskiptaleysisstefnu austurríska skólans. Niðurstaðan er sú, að endurreisn íslenska þjóðarbúsins hafi tekist nokkuð vel í samanburði við aðrar þjóðir sem urðu fyrir stóru áfalli eins og Ísland. Sérstaða íslensku leiðarinnar fólst einkum í blandaðri aðferð niðurskurðar og skattahækkana, með útfærslum í anda endurdreifingarstefnu.

Velferðarútgjöldum var beint meira til lægri og millitekjuhópa um leið og skert var hjá hærri tekjuhópum; tekjutilfærslur til heimila voru auknar en skert í þjónustu. Bætur og greiðslur sem fóru sérstaklega til lægri tekjuhópa voru auknar, til að vinna gegn aukningu fátæktar. Hið sama var gert við skattbyrði heimila, þ.e. byrðin var færð frá tekjulægri heimilum til þeirra tekjuhærri og til fyrirtækja. Í kjarasamningum voru lágmarkslaun hækkuð sérstaklega. Þá var sérstakur auðlegðarskattur lagður á fólk með miklar hreinar eignir. Loks var beitt úrræðum til að létta skuldabyrði heimila og beindust þær aðgerðir einnig meira að milli- og lægri tekjuhópum.

Lífskjörin jöfnuðust mikið í kjölfar hrunsins, meðal annars vegna áhrifa af þessari endurdreifingarstefnu.”

Ljóst er af staðreyndagögnum að stjórnvöld (í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn) unnu mikið starf við einstaklega erfiðar aðstæður, sem skilaði miklum árangri.

Þó gera megi ágreining um sumt í framkvæmd kreppuúrræðanna er ekki hægt að gera ágreining um að umtalsverður árangur hafi náðst. Margir vildu þó að stjórnvöld hefðu gert meira, til dæmis í skuldamálum.

Hugsanlega hefði mátt ná enn betri árangri með öðrum áherslum og í einhverjum tilvikum með öðrum leiðum. Það er þó auðveldara að segja eftirá en í að komast í hita leiksins.

Þetta hefði líka getað farið miklu verr. Hrunið var fordæmalaust og geigvænlegt áfall – og fjárhagur ríkisins í rúst.

Menn eiga því að vera sanngjarnir og varast gífuryrði og grófar og illa ígrundaðar ásakanir, eins og enn heyrast. Full ástæða er til að hæla þeim og þakka sem stóðu vaktina í rústum hrunsins, ekki síst Jóhönnu og Steingrími og liði þeirra.

Menn mættu líka hafa í huga, að fjölmargir erlendir fagmenn á þessu sviði hafa lokið upp einum munni um ágæti þeirrar leiðar sem farin var á Íslandi – og þann árangur sem hún skilaði.

 

Síðasti pistill:  Skipting eigna – hvar er Ísland í röðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.2.2015 - 14:21 - FB ummæli ()

Skipting eigna – hvar er Ísland í röðinni?

Skipting auðsins á Íslandi hefur verið til umræðu að undanförnu. Það er gagnlegt, því eignaskiptingin er hér, eins og annars staðar, mun ójafnari en tekjuskiptingin.

Fjármálaráðuneytið birti í gær tölur úr skattframtölum um eignaskiptinguna á Íslandi (sjá hér og hér). Hagstofan er með talsvert af upplýsingum um þetta á vef sínum (sjá hér). Ég hef birt nokkrar færslur um eignaskiptinguna á bloggi mínu hér á Eyjunni (sjá hér, r, hér og hér).

Lítið hefur þó farið fyrir samanburði á eignskiptingunni á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum. Skortur gagna hefur lengi aftrað því, en undanfarið hefur sú staða batnað.

Ofangreindar tölur Hagstofu og fjármálaráðuneytis sýna þó á skýran hátt, að eignaskiptingin á Íslandi er mun ójafnari en tekjuskiptingin. Þær sýna líka að ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi hefur aukist mikið á síðasta áratug eða svo.

Athyglisverð ný rannsókn á skiptingu auðsins í heiminum er í skýrslu svissneska bankans Credit Suisse, Global Wealth Report 2014. Þar má finna vísbendingar um skiptingu eigna í ýmsum löndum, í meiri mæli en áður.

Hægt er að bera Ísland saman við ýmis lönd sem eru í þeirri skýrslu. Þannig má til dæmis fá mynd af hlutdeild ríkustu tíu prósentanna og ríkasta eina prósentsins af heildar nettóeignum (eignir að frádregnum skuldum), með þokkalegri vissu. Samt ber að hafa nokkurn fyrirvara á sambærileika gagna á þessu sviði.

 

Mjög mikill ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi

Á myndinni hér að neðan eru ofangreindar upplýsingar notaðar til að skoða hvar Ísland er í alþjóðlegum samanburði hvað snertir samþjöppun eigna eða auðs. Við sýnum hlutdeild ríkustu tíu prósentanna og ríkasta eina prósentsins af heildar nettóeignum þjóðarinnar fyrir 29 lönd (færri eru með tölur fyrir ríkasta eina prósentið).

Vísbendingin er sú, að eignaskiptingin á Íslandi sé mjög ójöfn, í samanburði við önnur vestræn ríki. En það á einnig við um hin norrænu löndin, nema helst Finnland.

Eignaskiptingin - alþjóðlegur samanburður

Samanburður á hlutdeild stóreignafólks (hæstu tíu prósentanna og hæsta eina prósentsins) af heildareignum (að frádregnum skuldum).

Heimildir: Credit Suisse 2014; Hagstofa Íslands og Fjármálaráðuneytið

 

  • Ísland er með þriðja mesta ójöfnuðinn í eignaskiptingunni, ef miðað er við hlutdeild eignamestu tíu prósentanna (ljósu súlurnar). Ríkustu tíu prósentin eiga um 70,7% auðsins á Íslandi.
  • Fjármálaráðuneytið sýnir að ríkustu fimm prósentin áttu um frá 48% til 56% hreinna eigna á árunum 2009 til 2013.
  • En ef einungis er litið á efsta eina prósentið (dökku súlurnar á myndinni) þá er Íslandi með 6.-7. mesta ójöfnuðinn, með Noregi. Svíar og Danir eru með enn stærri hlut efsta prósentsins en Ísland, en Finnland er með mun minni ójöfnuð á þessu sviði.
  • Um árið 2000 var Ísland að öllum líkindum með jöfnustu eignaskiptinguna á Norðurlöndum (sjá hér og hér).
  • Ójöfnuður í eignaskiptingunni jókst mikið á Íslandi í aðdraganda hrunsins, mun meira en á hinum Norðurlöndunum, en hefur haldist tiltölulega mikill áfram, þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi orðið mun jafnari eftir hrun (sjá hér).

Það vekur auðvitað athygli að Norðurlöndin skuli vera með eignaskiptingu sem er í ójafnari kantinum, ekki langt frá Bandaríkjunum, því þessi lönd eru þekkt af því að vera með einna jöfnustu tekjuskiptinguna. Þetta misræmi milli skiptingar eigna og tekna hefur þó lengi verið þekkt meðal fræðimanna á þessu sviði.

Á því eru nokkrar skýringar (sjá t.d. hér).

Norrænu velferðarríkin jafna tekjuskiptinguna mikið, án þess að jafna eignaskiptinguna sérstaklega. Veglegri velferðarríki eru stundum einnig talin leiða til þess að fólk spari minna (fyrir lífeyri eða húseignum), sem eykur ójöfnuð eignaskiptingar.

Á Íslandi og í Noregi er séreign húsnæðis þó mikil og ætti eignaskiptingin þar að vera jafnari fyrir vikið. En þá skiptir máli hversu mikið fólk skuldar í fasteignum sínum og á Íslandi er það mikið (sem dregur úr jöfnunaráhrifum séreignastefnunnar).

Á Norðurlöndum er stórfyrirtækjum sýnd mikil tillitssemi, sem hefur til lengri tíma auðveldað samþjöppun eignarhalds á atvinnulífinu, ekki síst í Svíþjóð. Oft tengist þetta mikilvægi viðkomandi fyrirtækja sem útflutningsatvinnugreina.

Þessar tölur varpa að mörgu leyti nýju ljósi á Ísland – og raunar á hin Norðurlöndin líka.

Hinn frægi norræni jöfnuður, sem er einkennandi fyrir tekjur og almenn lífsgæði, nær ekki til eignaskiptingarinnar í sama mæli.

 

——————————————-

Skýringar: Miða er einkum við tímabilið 2008 til 2013 (tölur fyrir Ísland eru frá 2013).

Rétt er að hafa í huga að inn í þessar tölur vantar eignir í erlendum skattaskjólum, sem þýðir að eignir eignamestu hópanna eru sérstaklega vantaldar. Einnig eru fjáreignir eins og hlutabréf talin á nafnvirði en ekki á markaðsvirði, sem einnig vantelur sérstaklega eignir efnaðasta fólksins.

Inn í íslensku tölurnar vantar lífeyriseignir. Eignir í lífeyrissjóðunum dreifast nokkuð jafnt á ólíka tekjuhópa, vegna skylduaðildarinnar. Hins vegar er séreign meiri hjá tekjuhærri og eignameiri hópum (lágtekjufólk safnar síður séreign) og felst því líka vanmat á eignum þeirra ríku með því að undanskilja séreignalífeyrinn. Lífeyriseignir eru óvenju miklar á Íslandi og draga því úr neikvæðri eiginfjárstöðu, en áhrifin á skiptingu eigna eru óljósari.

Matið á eignum efnaðasta fólksins sem í ofangreindum tölum felst er því án efa varfærnislegt.

Löndin sem eru borin saman hér eru þau sem Credit Suisse segir vera með áreiðanlegri upplýsingar, en í skýrslu þeirra eru áætlaðar tölur fyrir mun fleiri lönd. Í þeim hópi eru mörg lönd t.d. frá Asíu og víðar, sem eru sum með mikla hlutdeild hæstu hópanna – þ.e. með mikinn ójöfnuð í eignaskiptingu. Ef þau væru talin með myndi fjölga í hópi þeirra landa sem eru með ójafnari eignaskiptingu en Ísland – hins vegar eru á myndinni helstu löndin sem viðalla jafna berum okkur saman við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.2.2015 - 14:42 - FB ummæli ()

Velferðarvaktin – metnaðarfull ný stefna

Velferðarvaktin, sem nú starfar samkvæmt nýrri forskrift undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur fyrrverandi ráðherra, sendi frá sér nýja og metnaðarfulla skýrslu í síðustu viku.

Þar eru útfærðar tillögur í 6 liðum til að vinna bug á sárri fátækt á Íslandi, ekki síst fátækt barnafjölskyldna. Skýrsluna má sjá hér.

Þarna eru tímabærar og ágætlega útfærðar tillögur um velferðarstefnu, sem gætu breytt miklu ef þær kæmu til framkvæmdar. Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda, því Velferðarvaktin starfar á vegum Velferðarráðuneytisins.

Eftirfarandi eru þrjár mikilvægustu tillögurnar, af sex:

  • Barnabætur og barnatryggingar – til að vinna bug á fátækt barnafjölskyldna
  • Viðmið til lágmarksframfærslu skilgreind betur, með samkomulagi helstu hagsmunaaðila. Þar með yrðu þau viðmið raunsærri og áhrifameiri en nú er
  • Víðtækar tillögur um framboð húsnæðis og nýjar húsnæðisbætur, með mun meiri stuðningi við leigjendur (að þessu er þegar unnið í Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu)

Staðreyndin er sú, að vegna þess að frekar fáir búa við sára fátækt á Íslandi, í samanburði við önnur vestræn lönd (sbr. nýjar tölur Hagstofu Íslands), þá mun ekki kosta mikið að útrýma henni.

Velferðarvaktin segir m.a.: “Í Noregi eru barnabætur um 20.000 kr. á barn á mánuði. Miðað við lauslega útreikninga í janúar 2015 má sjá að ef greiddar yrðu um 15.000 kr. með hverju barni á mánuði í ótekjutengdar barnabætur á Íslandi, sem er nokkuð lægra en norska viðmiðið, vegna 80.000 barna myndi það kosta ríkissjóð um 14,4 milljarða króna árlega” (í stað rúmlega 10 milljarða eins og nú er).

Slíkar umbætur, sem myndu færa okkur nær grannþjóðunum á þessu sviði, eru því mjög viðráðanlegar fyrir íslenska samfélagið.

Það ber að fagna sérstaklega þessari skýrslu Velferðarvaktarinnar.

 

Síðasti pistill:  Ný sápuópera – Hannes hreinsar Davíð

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.1.2015 - 10:29 - FB ummæli ()

Ný sápuópera: Hannes hreinsar Davíð

Um daginn fór ég á fyrirlestur sem Hannes Hólmsteinn hélt um “ný gögn um hrunið”.

Þar kom að vísu fátt nýtt fram um orsakir hrunsins, en þetta var hins vegar skemmtilegt tækifæri til að sjá hvernig Hannes er að þróa skáldskap sinn um meintar erlendar orsakir hrunsins, sem hann segist vinna að.

Hannes segir sjálfur að hann nálgist verkefnið sem pólitískur “vígamaður” frekar en hlutlaus fræðimaður. Það er heldur ekki nýtt. Flest sem Hannes hefur gert í gegnum tíðina, meðal annars í nafni fræða og háskólastarfs, eru pólitísk áróðursverk, með einum eða öðrum hætti.

Ævisaga Halldórs Laxness er helsta frávikið – en hún var að umtalsverðu leyti skrifuð af Halldóri Laxness sjálfum undir höfundarnafni Hannesar Hólmsteins, eins og hæstiréttur staðfesti eftirminnilega.

Hannes segist “standa með Íslandi og gegn útlendingum” í umfjöllun sinni um erlendar orsakir hrunsins. Það hjálpar honum væntanlega að komast að þeirri niðurstöðu að sökin sé útlendinga, en ekki Íslendinga. Hlutleysi og alvöru fræðimennska myndi bara þvælast fyrir!

Ef menn ætla að kenna útlendingum alfarið um íslenska hrunið þurfa þeir að horfa framhjá innlendum orsökum þess. Þær voru vissulega mikilvægar, enda varð hér til stærsta bóluhagkerfi sögunnar, hvorki meira né minna.

Því fylgdi mikil óreiða, óvenju ör skuldasöfnun og gríðarleg áhætta, sem á endanum kom mönnum í koll og rak bankana í þrot. Þetta bóluhagkerfi var verk Íslendinga, þó alþjóðlegar aðstæður hafi gert þeim kleift að fara ótrúlega langt afvega.

Rifjum fyrst upp helstu innlendu orsakir hrunsins áður en við skoðum hina nýju sápuóperu Hannesar Hólmsteins.

 

Innlendar orsakir hrunsins og helstu gerendur

Einkavæðing bankanna 1998 til 2003 hafði verið framkvæmd samkvæmt hefðbundinni formúlu hins gamalgróna íslenska klíkukapítalisma – “helmingaskiptareglunni”. Bankarnir voru settir í hendur einstaklinga sem voru “í (nánu) talsambandi við stjórnarflokkana”.

Eftir að bankarnir voru að fullu einkavæddir, í byrjun árs 2003, slepptu þeir öllu lausu og lánsfé streymdi til landsins sem aldrei fyrr. Það fé var að mestu notað af fjármálamönnum og fyrirtækjaeigendum, oft nátengdum eigendum bankanna, til spákaupmennsku og brasks. Það er ekki heilbrigð efnahagsstarfsemi.

Skuldasöfnun og taumlaust brask var mjög ábatasamt fyrir yfirstéttina í landinu og gekk svo langt að landinu var drekkt í erlendum skuldum, um leið og braskararnir söfnuðu upp gríðarlegum eignum. Stjórnvöld sátu aðgerðalaus hjá og dáðust að hagnaðartölum banka og stærri fyrirtækja. “Sjáiði ekki veisluna drengir”, sagði fjármálaráðherrann haustið 2007, þegar þjóðarbúið stefndi lóðrétt í hrun.

Stjórnendur Seðlabankans leiddu ekki hugann að ógnum við fjárhagslegan stöðugleika svo merkjanlegt væri og Fjármálaeftirlitið lét bankastjórnendur blekkja sig út í hafsauga. Ríkisstjórnin var eins og klappstýra hjá útrásarvíkingum.

Íslenska fjármálamiðstöðin” var eins og skrípamynd af Wall Street kapítalisma á sterum. “Wall Street on the Tundra” var heitið sem þekktur bandarískur blaðamaður notaði á fyrirbærið.

Sjálfstæðismenn urðu fyrir miklu áfalli með hruninu. Stefna sem Eimreiðarhópurinn innleiddi undir forystu Davíðs og Hannesar (1991-2004) og stjórnun flokksins á fjármálum þjóðarinnar samfleytt í 18 ár (1991-2008) endaði með hruni fjármálakerfisins og djúpri kreppu efnahagslífsins.

Sjálfur guðfaðir nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, Davíð Oddsson, var æðsti yfirmaður íslenska fjármálakerfisins (aðalbankastjóri Seðlabankans) þegar dansinn kringum gullkálfinn keyrði um þverbak (2005-2008) – og svo þegar allt hrundi til grunna.

Davíð átti að vernda “fjárhagslegan stöðugleika”, sem seðlabankastjóri. En á hans vakt fór hins vegar öll fjármálastjórn þjóðarbúsins úr skorðum eins og frekast gat orðið – með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.

Þetta var líklega mesta klúður Íslandssögunnar.

 

Bankar byggðir á sandi

Íslenska þjóðarbúið var orðið skuldsettasta þjóðarbú heims þegar árið 2004-5. Einstaklega ör vöxtur skulda var til vitnis um of alltof mikla áhættu og ótraustan grundvöll – einstaklega brothætt bankakerfi. Það sýndi skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og það kemur einnig glögglega fram í vandaðri bók Guðrúnar Johnsen fjármálahagfræðings um fall bankakerfisins.

Hið sama sagði finnski fjármálaeftirlitsmaðurinn Kaarlo Jännäri, er gerði sérstaka úttekt á orsökum bankahrunsins. Einnig hinir virtu fjármálahagfræðingar Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, sem rannsakað hafa allar helstu fjármálakreppur síðustu átta alda. Þau segjast aldrei fyrr hafa séð aðra eins skuldasöfnun og á Íslandi og Írlandi í aðdraganda kreppunnar (skuldir jukust örar á Íslandi). Ósjálfbær skuldasöfnun er algengasta orsök bankahruns.

Staðan var orðin erfið þegar á árinu 2006 og þegar alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust haustið 2007 var bara tímaspursmál hvenær íslenska spilaborgin myndi hrynja. Icesave og Edge sparireikningarnir framlengdu líf bankanna um hríð, en teningunum var löngu kastað.

 

Sápuópera Hannesar Hólmsteins

Hrunið var rothögg fyrir Sjálfstæðismenn. Fyrstu viðbrögð voru að horfast í augu við mistök sem gerð voru og sýna betrumbót með Endurreisnarskýrslunni frægu. Davíð Oddsson sópaði henni hins vegar af borðinu og reyndi í staðinn að hengja sökina á Baugsfjölskylduna eina.

Síðan kom Styrmir Gunnarsson með “umsáturskenninguna”, sem var sú að útlendingum væri um að kenna (einkum Bandaríkjamönnum), því þeir hefðu ekki viljað bjarga íslensku bönkunum eftir að þeir höfðu verið reknir í þrot af Íslendingum sjálfum. Sérkennileg rökfræði það.

Seðlabanki Bandaríkjanna taldi íslensku bönkunum ekki viðbjargandi og ráðlagði Íslandi að leita neyðaraðstoðar AGS. Mun meira lánsfé þyrfti en Seðlabankinn óskaði eftir.

Auk þess virtist ljóst að Íslandi gæti ekki ráðið við þær skuldir sem stofna þyrfti til ef reyna ætti að bjarga þessum bönkum (sem ekki var heldur víst að tækist). Þá er ónefnt óréttlætið sem hefði falist í því að skuldsetja almenning á Íslandi enn meira en þó varð, til að bjarga eigendum einkabanka frá eigin glapræðum.

Hannes Hólmsteinn hefur ítrekað reynt að hreinsa Sjálfstæðisflokkinn, nýfrjálshyggjuna, Davíð og félaga sína í Eimreiðarhópnum af allri ábyrgð á því sem misfórst hér á landi. Hann hefur einnig reynt að fría fjármálamennina og braskarana af allri sök – nema Baugsfjölskylduna eina.

Sú fjölskylda varð snemma að skotspæni hjá þeim Eimreiðarmönnum vegna þess að Baugsmenn komu ekki úr þeirri klíku sem Sjálfstæðisflokknum var þóknanleg. Treguðust einnig við að greiða verndargjaldið í flokkssjóðinn.

Hannes var sem sagt enn í fyrirlestrinum um daginn að tala um að allt hefði verið í stakasta lagi á meðan Davíð var forsætisráðherra en svo hafi Baugsfjölskyldan tekið við árið 2004 og stýrt landinu í nafni einhvers nýs “klíkukapítalisma” – rétt eins og gamli klíkukapítalisminn hefði aldrei verið til.

Raunar hefur hann oft áður sagt að fyrst eftir 2004 hafi allt farið afvega, vegna Baugsfjölskyldunnar. Það er annars magnað hversu vel Hannesi tekst stundum að gleyma því að Davíð var sjálfur æðsti stjórnandi íslenska fjármálakerfisins (sem aðalbankastjóri Seðlabankans) frá 2005 til 2009. Davíð stýrði fjármálakerfinu að hruni.

Screen shot 2015-01-17 at 6.26.23 PMMynd Gunnars Karlssonar, úr Fréttablaðinu.

Nýr spunaþráður

Nú er hins vegar kominn nýr þráður í spunann hjá Hannesi. Hann er sá, að bankarnir íslensku hafi ekki verið neitt verri en erlendir bankar og því hefði átt að bjarga þeim. Vandinn var bara sá að þeir voru alltof stórir til að Íslendingar gætu sjálfir bjargað þeim.

Hannesi finnst, eins og Styrmi, að Bandaríkjamenn hefðu átt að bjarga bönkunum, vegna þess að við studdum þá í kalda stríðinu. Síðan gerir hann mikið úr því að Brown og Darling, leiðtogar Bretlands, hefðu beinlínis viljað fella íslensku bankana og unnið að því í leyni.

Í fyrirlestrinum var það helst nýtt að nú er Hannes farinn að tengja þessa ævintýralegu tilgátu við spekúlasjón um að leiðtogar Bretlands hafi viljað kenna Skotum þá lexíu að sjálfstæði borgaði sig ekki, með því að fella íslenska fjármálakerfið.

Nokkuð djúp samsæriskenning það. Þessir viðburðir á Íslandi gerðust mörgum árum áður en ákveðið var að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Það var David Cameron sem samdi um það árið 2012 en ekki Gordon Brown árið 2008!

Þetta er náttúrulega spuni hjá Hannesi, þar sem eitt rekst á annars horn. Fabúla án haldbærra sönnunargagna.

Fróðlegt verður að fá viðbrögð erlendra aðila við þessari sápuóperu í fyllingu tímans.

 

Sjálfstæðismenn vilja sápuóperuna – til að sleppa við ábyrgð

Þegar litið var yfir hópinn sem var á fyrirlestri Hannesar og félaga sýndist mér að stór meirihluti væru virkir Sjálfstæðismenn. Nærri helmingur Eimreiðarmanna var á staðnum.

Þeir og aðrir flokksmenn drukku í sig einfeldningslegar og á köflum hlægilegar útlistanir Hannesar á hinum ýmsu þráðum sápunnar – rétt eins og þetta væri í fullri alvöru.

Það er skiljanlegt. Sjálfstæðismenn þyrstir í aflausn ábyrgðar á þessu mesta klúðri Íslandssögunnar. Fyrir sig, flokkinn, stefnuna og leiðtogana.

Að klína sökinni nær alfarið á útlendinga er þægilegasta undankomuleiðin.

Ég sé fyrir mér að þegar Hannes hefur lokið við skáldskapinn þá verði góð eftirspurn eftir sápuóperu hans hjá félögum Sjálfstæðismanna um land allt. Hann gæti hæglega farið með þetta sem “roadshow” um byggðir landsins, eins konar sumargleði Sjálfstæðismanna, undir auglýsingunni „Hannes hreinsar Davíð og flokkinn“.

Ekki er þó víst að hann slái við freyðibaðsýningum dönsku strípastúlkunnar Susan Haslund, sem gekk í 7 ár á sveitaböllum um land allt! Það var feikivinsælt þegar “Susan baðaði sig” á mannamótum.

 

Einn góður fróðleiksmoli

Ég tók þó með mér einn gagnlegan fróðleiksmola frá þessari forsýningu Hannesar um daginn:

Hann upplýsti að Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefði sagt við Davíð Oddsson seinni hluta árs 2005, að hann óttaðist að íslenska efnahagsundrið væri snjóbolti sem væri á leið niður fjallshlíð – og hann óttaðist líka að Davíð yrði undir honum.

Jóhannes Nordal, hinn aldraði og margreyndi seðlabankamaður, varð sannspár um þetta.

Snjóboltann hnoðuðu þó Davíð og félagar sjálfir og renndu af stað niður fjallið. Gráðugir braskarar stukku svo á hann hver á fætur öðrum uns hann varð risavaxinn, með þekktum afleiðingum.

Það er auðvitað hægt að finna til með Davíð og félögum fyrir að hafa orðið undir þessu fargi…

Flokkar: Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.1.2015 - 14:32 - FB ummæli ()

Aukinn ójöfnuður í eignaskiptingu á Íslandi

Síðustu daga hefur verið mikil umfjöllun um aukinn ójöfnuð í skiptingu eigna í heiminum, í framhaldi af nýrri skýrslu Oxfam um efnið.

Nú virðist stutt í að ríkasta eina prósentið í heiminum eigi meira en helming allra eigna á jörðinni.

Það eru tíðindi.

Í byrjun október síðastliðinn skrifaði ég þrjár greinar á Eyjuna um eignaskiptinguna á Íslandi og þróun hennar yfir tíma, þ.m.t. í gegnum kreppuna. Greinarnar eru hér og hér og hér.

Stærsta niðurstaðan var sú, að ójöfnuður í eignaskiptingunni á Íslandi hefur aukist mikið frá 1997 til 2013.

Ójöfnuður eigna jókst líka eftir hrun, ólíkt ójöfnuði í tekjuskiptingunni. Hér eru tvær myndir af nokkrum sem ég birti í október.

 

Eignir-Hlutdeild heildareigna 1997 og 2013

Mynd 1: Hlutur fólks í ólíkum eignahópum af heildareignum á Íslandi, 1997 og 2013, raðað í tíu jafn stóra hópa (tíundir), frá þeim sem eiga minnst (vinstra megin) til hinna sem eiga mest (hægra megin). (Heimild: Hagstofa Íslands)

 

Hér má sjá að ríkustu tíu prósent heimila á Íslandi (stóreignahópurinn) áttu um 56% heildareigna í landinu árið 1997 en voru komin upp í um 71% árið 2013.

Ef við tökum ríkustu 30 prósentin þá voru eignir þeirra orðnar um 94% allra eigna á Íslandi árið 2013. Eignir hinna 70 prósentanna voru litlar sem engar. Ríkasta eina prósentið á um 23% heildareigna.

Í næst efsta tíundarhópnum jókst eignarhluturinn líka, úr 23,7% í 25,1%.

En í öllum öðrum eignahópum minnkaði hlutdeild heildareigna, mest hjá allra lægsta hópnum. Þar var neikvæð eiginfjárstaða (þau skulduðu meira en þau áttu) uppá -7,5% árið 1997 en var komin niður í -12,7% ári 2013.

Á seinni myndinni má betur sjá þróun eigna fólks í ólíkum hópum frá ári til árs.

Þar kemur fram að eignir efnafólks voru að aukast miklu örar en eignir milli og lægri hópa fram að hruni. Eftir hrun drógust eignir efsta hópsins minna saman en eignir lægri hópanna.

Þeir sem áttu minnstar eignir fyrir, fór verst út úr hruninu hvað þróun eigna snertir (skuldir þeirra jukust), bæði hlutfallslega og í nafnvirði eigna.

Ójöfnuður í skiptingu eigna jókst þannig bæði fyrir hrun og eftir hrun. Spurningin er hvernig þróunin verður í framhaldinu.

Eignir Þróun eiginfjár 1997-2013

Mynd 2: Þróun eigna í ólíkum eignahópum, frá ári til árs. (Hagstofa Íslands)

 

Rétt er að ítreka að inn í þessar tölur vantar eignir Íslendinga erlendis, þar með talið eignir í erlendum skattaskjólum.

Það er fyrst og fremst allra ríkasta fólkið sem á umtalsverðar eignir erlendis. Ójöfnuðurinn í eignaskiptingunni meðal Íslendinga væri þannig mun meiri en ofangreindar tölur benda til, ef erlendar eignir væru að fullu meðtaldar. Einnig ef hlutabréf og verðbréf væru talin á markaðsvirði en ekki á nafnvirði eins og skatturinn gerir. Tölurnar vanmeta því ójöfnuðinn í eignaskiptingunni umtalstalsvert.

 

Síðasti pistill:  Svona er sólarlagið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.1.2015 - 12:51 - FB ummæli ()

Svona er sólarlagið

Í svartasta skammdeginu og síendurteknum leiðindaveðrum er gott að horfa til bjartari tíma.

Hér er sería af sólarlagsmyndum.

Smellið á myndirnar til að sjá alla seríuna og einstakar myndir í stærri upplausn.

Screen Shot 2015-01-20 at 12.38.05

Screen Shot 2015-01-20 at 12.40.14

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.1.2015 - 22:32 - FB ummæli ()

Eygló hugsar um almenning

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur staðið velferðarvaktina í ríkisstjórninni.

Fyrir Framsóknarflokkinn gegnir hún einu alþýðingarmesta ráðherraembættinu, því kosningaloforð Framsóknar voru einkum á sviði velferðarmála.

Eygló vill efla velferðarríkið og koma húsnæðismálunum í höfn. Lækka skuldabyrði heimilanna og laga stöðu leigjenda. Bæta hag lífeyrisþega.

Þegar hafa náðst mikilvægir áfangar á þeirri braut.

Fleira er þó á döfinni.

Til dæmis er von á nýjum lagafrumvörpum um grundvallarbreytingar á skipan húsnæðismála og eflingu húsnæðis- og leigubóta.

En Eygló lætur ekki duga að þrýsta á um framfarir í velferðarmálum, þó það sé ærið verkefni og oft þungsótt í hirslur Sjálfstæðisflokksins (fjármálaráðuneytið), þegar fjármagna þarf umbætur á þeim sviðum.

Eygló lýsti því um daginn að hún vill einnig sjá alvöru launahækkanir fyrir almenning í næstu kjarasamningum. Hún sér svigrúm til þess, eftir að ríkisstjórnin hefur létt álögum af fyrirtækjum og eflt vaxtarskilyrði atvinnulífsins.

Það er alveg rétt.

Auðvitað vill enginn að verðbólgunni sé sleppt alveg lausri. Þess er heldur ekki að vænta að læknasamningarnir gangi yfir línuna.

Læknar voru í sérstöðu, eins og forsætisráðherra sagði, því bjarga þurfti heilbrigðiskerfinu frá bráðu hruni. Það skilja allir og samþykkja.

En það er svigrúm fyrir meira en 3% launahækkun til almennings við núverandi aðstæður, eins og Eygló Harðardóttir segir.

Við búum um þessar mundir við verðhjöðnunaraðstæður og því er lítil hætta á verðbólgusprengju, þó kaupmáttur almennings batni eftir þrautagöngu kreppunnar.

Kaupmáttaraukning eflir þrótt atvinnulífsins enn frekar við þessi skilyrði.

Ráðherrar eiga að hugsa fyrst og fremst um hag almennings og segja hlutina eins og þeir eru. Slíkt er til eftirbreytni.

Vonandi vinna aðilar vinnumarkaðarins úr stöðunni með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

 

Síðasti pistill:  Er rétt að selja Alþingishúsið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.1.2015 - 11:39 - FB ummæli ()

Er rétt að selja Alþingishúsið?

Þegar RÚV var hlutafélagavætt árið 2007 fékk það í vöggugjöf óviðráðanlegar lífeyrisskuldbindingar, sem rekstrinum var þó ætlað að bera. Kjarninn gerir ágæta grein fyrir þessu í dag.

RÚV réð aldrei við lífeyrisskuldbindingarnar og tók lán fyrir þeim. Það lán er nú að drekkja Ríkisútvarpinu, þrátt fyrir mikinn sparnað í rekstri á síðustu árum.

Þarna var undarlega að verki staðið, rétt eins og menn hefðu viljað stefna RÚV í ógöngur með hlutafélagavæðingunni.

Stjórnvöld vilja ekki endurskipuleggja fjárhag miðilsins nú með léttingu lífeyrisskuldbindinga. Þá er fátt til ráða, annað en risavaxinn niðurskurður til viðbótar.

Leiðin sem helst virðist fær er sögð sú, að selja útvarpshúsið og leigja ódýrt húsnæði fyrir RÚV úti í bæ. Þá væri hægt að greiða niður skuldina vegna lífeyrisskuldbindinganna og hugsanlega ná endum saman.

Þætti það góð leið hjá BBC í Bretlandi að selja höfuðstöðvarnar í London til að laga skammtímarekstur? Eða hjá TV France í París?

Ja, væri það góð leið að selja Alþingishúsið til að minnka skuldir ríkissjóðs? Þar mætti til dæmis opna glæsilegt spilavíti.

Eða selja Þingvelli undir sumarbústaðaland? Eða bara til „landgreifa“, sem gætu gert sér mat úr þjóðgarðinum með náttúrupassanum?

“Góð leið fyrir hvern? ” er lykilspurning í þessu samhengi.

Sala útvarpshússins væri fyrst og fremst góð leið fyrir þá sem vilja veg RÚV minni.

Sala Þingvalla væri sömuleiðis góð eingöngu fyrir þá sem vilja veg þjóðarinnar minni – en eigin gróða meiri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.1.2015 - 13:48 - FB ummæli ()

Afleiðingar hryðjuverkanna

Hryðjuverkin skelfilegu í París munu magna þróun sem þegar er komin á mikinn skrið á Vesturlöndum:

  • Andúð á Íslam mun aukast
  • Leit að og eftirlit með hættulegum einstaklingum eykst
  • Umburðarlyndi í opnum samfélögum veikist
  • Vandi fjölmenningarsamfélaga eykst
  • Stjórnmálaflokkar sem vilja hefta fjölgun innflytjenda munu eflast

Hryðjuverkin vekja auðvitað óhug. Þau tengjast kimum Íslamstrúar og eru sögð gerð í nafni trúarinnar og spámannsins. Það leiðir eðlilega til aukins fyrirvara gagnvart Íslam og jafnvel til aukinnar andúðar í garð múslima á Vesturlöndum.

Á Vesturlöndum búa nú þegar vel á annað þúsund róttækra íslamista sem hafa farið til Sýrlands og sem gætu gerst liðsmenn í heilögu stríði (Jihad), eins og frönsku hryðjuverkamennirnir, as sögn Spiegel.

Almenningur krefst aukins öryggis í kjölfar hryðjuverka. Stjórnvöld munu verða við því, auka eftirlit og jafnvel banna róttækan íslamisma og tengda hegðun.

Það er eðlilegt í ljósi ógnarinnar, en um leið er umburðarlyndi í opnu samfélögunum á Vesturlöndum settar nýjar og þrengri skorður

Góðir múslimar, sem eru stóri meirihlutinn, líða mest allra fyrir gerðir þessara hryðjuverkamanna. Íslamskir hryðjuverkamenn eru því verstu óvinir Íslams á Vesturlöndum.

 

Er hnattvæðingin komin of langt?

Það verður varla framhjá því komist að viðurkenna að hnattvæðing hins opna vestræna samfélags er komin í miklar ógöngur – hefur að öllum líkindum farið langt framúr því sem gerlegt er við núverandi aðstæður í heiminu.

Draumurinn ljúfi um fjölmenningarsamfélag, þar sem fólk af ólíkum uppruna, með ólíka trú og ólíka lífsskoðun, býr saman í sátt og samlyndi er vandasamari í framkvæmd en menn gerðu ráð fyrir.

Ástæðan er djúpstæð gjá milli menningarheima, lífshátta og hugarfars, sem leiðir til alvarlegra árekstra.

Vestræna umburðarlyndið, mannréttindin, lýðræðið og markaðsfrelsið er um margt illa samrýmanlegt við lífsskoðun margra múslima og margra annarra þjóða sem búa utan Vesturlanda.

Á síðustu árum höfum við séð nýja stjórnmálaflokka sem vilja beita sér gegn fjölgun innflytjenda koma til sögunnar og vaxa óvenju hratt. UKIP í Bretlandi, National Front í Frakklandi, Sannir Finnar í Finnlandi, Svíþjóðardemókratar og margir fleiri.

Hryðjuverkin munu magna fylgisaukningu við þá, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Við getum hrópað að þetta séu ný-nasistar eða kynþáttahatarar, sem væri þó mjög villandi. Flestir sem ganga til liðs við þessa flokka hafa fyrst og fremst áhyggjur af samkeppni við innflytjendur um störf og lífskjör.

Aðrir hafa áhyggjur af því að mikil fjölgun innflytjenda af óskyldum menningarheimi breyti samfélögum sem fyrir eru og íbúum eru kær.

Aðrir vilja ekki trúarbragðastríð múslima inn á götur samfélaga sinna, eins og talsmenn slíkra afla í Þýskalandi segja (sjá hér).

Það er bæði til góð og slæm þjóðernishyggja. Þjóðerni og menning skipta fólk máli þó það sé fjarri því að teljast vera þjóðernisöfgamenn eða kynþáttahatarar. Hófleg ræktarsemi við eigin menningu og sögu er heilbrigð.

Góð vestræn samfélög eru þess virði að viðhalda og efla, til dæmis norrænu lýðræðis- og velferðarsamfélögin, sem eru að mörgu leyti mannvænustu samfélög jarðarinnar.

Að því leyti eru alvöru kynþáttahatarar og öfgamenn úr okkar eigin röðum, eins og fjöldamorðinginn Breivik, verstu óvinir umburðarlyndra og opinna vestrænna samfélaga.

 

Mun umburðarlyndi opna samfélagsins lifa af?

Það er heldur ekki sjálfgefið að umburðarlyndi okkar nái svo langt að við séum reiðubúin til að leyfa fólki úr öðrum menningarheimi að breyta samfélagi okkar á róttækan hátt. Þegar innflytjendur af mjög ólíkum menningarheimi eru orðnir 20% til 30% íbúa, eða meira, gerist það sjálfkrafa.

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa hryðjuverkamenn áhrif, sem öll eru til ills. Ég nefni nokkur af þeim áhrifum í listanum í byrjun greinarinnar.

Vandi nútímans er sá, að opin samfélög eru viðkvæm fyrir ógn hryðjuverkamanna og þessum áhrifum. Það er því auðvelt að stigmagna þau.

Hversu mörg hryllileg hryðjuverk þarf í viðbót til að breyta samfélögum okkar í óbærileg og rándýr eftirlitssamfélög?

Helstu fórnarlömb þessarar þróunar eru vestræna umburðarlyndið og fjölmenningarsamfélagið, hvað sem líður góðum ásetningi um annað.

Ég hygg að þessi mál eigi eftir að verða með stærstu viðfangsefnum vestrænna samfélaga á næstu árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.1.2015 - 11:20 - FB ummæli ()

Launa þarf listamennina svo menning blómstri

Það er dýrt að vera Íslendingur. Það gerir fámennið.

Markaður í fámennissamfélagi er alltaf takmörkunum háður. Ekki eru nógu margir til að heilbrigð samkeppni fái þrifist. Verðlag er því of hátt.

Þeir sem reyna að lifa af því að selja sérvöru hafa of fáa kaupendur.

Þetta á ekki síst við um flest svið menningar.

Það er sérstaklega erfitt að vera listamaður á fámennismarkaði.

Samt eiga Íslendingar óvenju stórar sveitir listamanna og marga mjög öfluga og snjalla. Það sýnir mikinn kraft fólksins í því erfiða umhverfi sem hér er.

Þetta á ekki síst við um tónlistina, en líka bókmenntir og myndlist.

Af þessum sökum þarf fámennisþjóð að leggja mikinn áburð og vökvun til listamanna, til að halda þeim og menningunni gangandi –  og helst í blóma.

Við getum ekki ætlast til að menn skapi list svo um munar af hugsjón einni og svelti sig til þess. Við getum gert betur og búið til betra umhverfi fyrir listafólk.

Starfslaun listamanna hafa lengi þjónað sem eins konar áveitukerfi fyrir menninguna og verið afar þýðingarmikil sem slík. Samt er þar allt skorið við nögl og lýðskrumarar og menningarfælur ýmsar veitast iðulega að fyrirbærinu.

Ég sé að snillingurinn Bubbi Mortens hefur gefist upp á að sækja um listamannalaun vegna ítrekaðrar höfnunar.

Við ættum að vera stolt af því að hafa Bubba og ýmsa aðra framúrskarandi listamenn á starfslaunum. Það væri eðlileg viðurkenning á mikilvægi framlagsins og verðlaun fyrir óvenjugóða sköpun. Öðrum hvatning.

Við mættum líka sýna því skilning að vegna áhrifa netsins hefur diskasala hrunið á síðustu árum, en það hefur rústað markað tónlistarmanna, a.m.k. tímabundið. Sama gildir að hluta um bækur.

Það er eðlilegt að samfélagið sýni slíku skilning og bjóði upp á aðlögun að breyttum skilyrðum. Afnám virðisaukaskatts á bókum og menningu hefði t.d. verið meira viðeigandi en hækkun á þessum tímapunkti.

Menningin þarf bæði áburð og góða ræktarmenn. Það skilja garðyrkjumenn og bændur.

Blómleg menning bætir lífsgæði allra í samfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.1.2015 - 12:11 - FB ummæli ()

Olíufélögin hirða lækkunina sjálf!

Olíuverð hefur lækkað um nálægt 50% á heimsmarkaði.

Verðið á bensíni til almennings hér á landi hefur hins vegar aðeins lækkað um 20% (sjá hér).

Þarna munar miklu.

Ætla má að sanngjarnt væri að lækkun um 50% á heimsmarkaði skilaði sér í a.m.k. 25% lækkun á smásöluverði hér á landi, að teknu tilliti til opinberra gjalda og flutningskostnaðar.

Olíufélögin hafa því aukið álagningu sína í stað þess að láta neytendur njóta lækkunar á innkaupsverðinu til fulls.

Olíufélögin íslensku hafa sem sagt tekið drjúgan hluta af lækkuninni til sín.

Olíufélögin eru hins vegar alltaf fljót að hækka verð til neytenda þegar heimsmarkaðsverð hækkar. Bara samdægurs – og til fulls sýnist manni.

Er þetta er ein birtingarmynd “sjálftökuhagkerfisins”, þar sem neytendur eru í hugum fyrirtækjaeigenda sem eins konar “skattstofn” eða “auðlind”, sem má arðræna?

Samkeppni milli bensínstöðva sýnist manni oft vera sýndarsamkeppni, gjarnan með vistarbandi eins og tíðkaðist á miðöldum (með viðskiptatryggð, t.d. í formi vildarkorta og vildarlykla, sem veita oft lítið meira en sýndarfríðindi).

Þetta gildir væntanlega mest um stærri olíufélögin sem njóta hagstæðari kjara við innkaup en þau smærri.

 

Síðasti pistill:  Tekjuskiptingin – Góð umsögn í virtu fagtímariti

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.1.2015 - 14:30 - FB ummæli ()

Tekjuskiptingin – góð umsögn í virtu fagtímariti

Income Inequality coverHaustið 2013 kom út hjá hinni virtu Stanford University Press útgáfu í Bandaríkjunum bókin Income Inequality: Economic Disparities and the Middle Class in Affluent Countries.

Luxembourg Incomes Study setrið í Lúxemborg (LIS), einn helsti vettvangur alþjóðlegra rannsókna á tekjuskiptingu, stóð að bókinni.

Ég og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur eigum kafla í henni, þar sem fjallað er um samband milli bóluhagkerfisins, hrunsins og tekjuskiptingarinnar á Íslandi.

Við erum þarna í félagsskap með mörgum fremstu sérfræðingum heimsins í tekjuskiptingarrannsóknum. Ekki skemmir heldur að við höfum fengið mjög góð viðbrögð við rannsókn okkar.

Síðasta sumar birtust dómar um bókina í fagtímaritum, m.a. í American Journal of Sociology, sem er eitt virtasta fræðatímarit þjóðfélagsfræðinnar.

Hér má sjá dóminn, sem er mjög jákvæður og aðstandendum bókarinnar til mikillar ánægju:

AJS-review-Income-Inequality.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 3.1.2015 - 15:45 - FB ummæli ()

Ísland er gott – en gæti verið mun betra

Forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, benti réttilega á að Íslendingar hafa náð afar góðum árangri við uppbyggingu lífsgæða frá lýðveldisstofnun til nútímans, í áramótaávarpi sínu.

lifskjor_og_lifsh_a_n_1990Ég skrifaði bók árið 1990 um viðamikla rannsókn á lífskjörum á Íslandi, sem gerð var árið 1988, fyrir hátt í þrjátíu árum síðan. Þar var meðal annars mikill samanburður á lífskjörum Íslendinga og annarra norrænna þjóða, þar sem litið var til fjölmargra lífskjaraþátta á tímabilinu 1985-1988 (sjá Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum).

Þá þegar vorum við komin í fremstu röð vestrænna þjóða (sjá stutta umfjöllun um bókina hér).

Megin einkenni lífskjara Íslendinga á árunum 1985 til 1990 var það, að Íslendingar voru með afar góða útkomu á sumum sviðum en lakari á öðrum. Einkum taldist lakara að Íslendingar þurftu að hafa talsvert meira fyrir öflun lífsgæða sinna en hinar norrænu þjóðirnar, sem voru í fremstu röð vestrænna þjóða á þeim tíma.

Íslendingar þurftu að vinna mun meira fyrir sínum lífskjörum og nutu minni velferðarforsjár hins opinbera, en á móti voru skattar lægri hér. Niðurstaða mín var sú, að Ísland væri meira sjálfsbjargarsamfélag þar sem hinar norrænu þjóðirnar væru meiri velferðarríki.

Í bókinni Eilífðarvélin (kafla 6), sem kom út árið 2010 í ritstjórn Kolbeins Stefánssonar, var komið aftur inn á slíkan samanburð. Einnig í nýlegri bók minni og Guðnýjar Eydal  (Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).

Þar kom fram að saman hefur dregið með norrænu þjóðunum í velferðarútgjöldum á tímabilinu. Skattar á einstaklinga hækkuðu einnig hér frá 1995 til 2004, mest á lægri tekjuhópa. Ávinningur af lægri sköttum hefur því farið þverrandi hér á landi á síðustu tveimur áratugum.

Samt var Ísland enn í fremstu röð á árunum 2005 til 2008, ásamt hinum norrænu þjóðunum – auk Hollands, Sviss og Lúxemborgar (sjá hér). Það var niðurstaða afar fjölþættrar rannsóknar á lífsgæðum nærri 30 nútímaþjóða.

Enn var þó sama einkennið á góðum lífsgæðum Íslendinga, þ.e. að þeir þurfa að vinna meira fyrir sínu en grannríkin. Grunnkaup er lægra og vinnutími lengri hér. Skuldir einnig miklar og vextir alltof háir.

Hrunið magnaði svo fjárhagsþrengingar á Íslandi með mikilli lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna og aukinni skuldabyrði, sem færði okkur neðar í alþjóðlegum lífskjarasamanburði.

OECD setur okkur nú í 11 sæti af aðildarríkjum sínum (og byggir það á gögnum fyrir árin 2011-2012) þ.e. eftir að botni kreppunnar var náð (sjá hér). Við höfðum þá fallið úr 6. sæti á sambærilegan fjölþættan mælikvarða fyrir árin 2005 til 2008.

Við vorum hins vegar komin á ný í þriðja efsta sæti hvað ánægju með lífið snertir árið 2012 (sjá hér, mynd 5). Það var svipuð niðurstaða og kom fram í skýrslunni sem forsetinn vísaði til (hér), en hún nær til ýmissa annarra þátta en ánægju með lífið.

 

Það sem gæti verið betra

Frá 2011 höfum við verið að bæta hag okkar á ný, án þess þó að hafa enn náð sambærilegri stöðu og fyrir hrun. Það sem helst vantar uppá nú er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna batni enn frekar.

Hækka þarf grunnkaup og draga úr yfirvinnu og óhóflegri atvinnuþátttöku. Einnig gæti verið kjarabót í lækkaðri skattbyrði hjá lægri og milli tekjuhópum, þ.e. ef það kemur ekki til fulls niður á lakari velferðarþjónustu eða í aukningu notendagjalda.

Húsnæðismálin eru sérstaklega erfið vegna áhrifa hrunsins, misvægis í húsnæðisframboði og vegna of lélegs kaupmáttar margra, einkum ungs fólks.

Heilbrigðismál sömuleiðis. Þar eru mál þó væntanlega að fara að snúast til betri vegar, með kjarasamningum við lækna og auknum fjárveitingum til málaflokksins.

Vinstri stjórnin verndaði allra tekjulægstu hópana eftir hrun og núverandi stjórn hefur breikkað það til annarra tekjuhópa, t.d. með skuldaleiðréttingunni, auk nokkurra kjarabóta til lífeyrisþega. Meira þarf þó til.

Stóra verkefnið í kjarasamningum í framhaldinu ætti að vera áhersla á framleiðniaukningu (með styttingu vinnutíma) og verðtryggða kaupmáttarsamninga, sem færa t.d. 3-4% aukningu ráðstöfunartekna samhliða hagvexti upp á 2-3%, til lengri tíma litið. Með meiri hagvexti myndi kaupmáttur hækka meira.

Verðtrygging kjarasamninga er sérstaklega hagstæð og áhættulítil núna, þegar liggur við verðhjöðnun. Við þær aðstæður má semja um hóflega kaupmáttaraukningu á línuna, þannig að hagvöxtur á mann skili sér að fullu til allra. Afmarkaðir sérhópar í greinum sem standa vel gætu jafnvel fengið enn meira.

Umbætur í húsnæðismálum, framleiðniaukning og verðtryggðir kaupmáttarsamningar ættu að vera stærstu málin til skemmri tíma, að því gefnu að heilbrigðismálin séu nú að komast á betri braut. Menntamálin þurfa síðan að fá fjárhagslega örvun eftir niðurskurð krepputímans.

Stjórnvöld vinna nú að miklum umbótum í húsnæðismálum, sem munu væntanlega líta dagsins ljósa alveg á næstunni. En óvíst er hvaða stefna verður tekin á vinnumarkaði. Þar ættu menn að skoða mögulegan ávinning af tengingum milli framleiðniaukningar og verðtryggðra kaupmáttarsamninga.

Með duglegu átaki á þessum sviðum á allra næstu árum komumst við betur út úr afleiðingum hrunsins og gerum gott Ísland enn betra en nú er.

Það er vel gerlegt. Gæfa okkar felst ekki hvað síst í þeim möguleika.

Til lengri tíma ætti svo að vera hægt að útrýma alvarlegri fátækt á Íslandi og gera samfélagið enn manneskjulegra, grænna og vænna.

 

Síðasti pistill:  Nýja Ísland – hver er stefnan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 30.12.2014 - 14:54 - FB ummæli ()

Nýja Ísland – hver er stefnan?

Nýja ÍslandÍ lok hrunmánaðarins, október 2008, kom út bókin Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér, eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing.

Bókin var skrifuð á árinu fyrir hrun og lýsti miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem orðið höfðu upp úr 1990. Höfundur segir svo í formála að tengja megi sumar þessara breytinga við hrunið sjálft, sem orsakir.

Þær breytingar sem Guðmundir Magnússon fjallaði um voru hnignun íslenska jafnaðarsamfélagsins sem ríkt hafði frá lýðveldisstofnun og upplausn þeirrar samheldni sem því hugarfari fylgdi.

Í staðinn kom aukin stéttaskipting og auðræði, sem skákaði lýðræðislegu valdi til hliðar. Því fylgdi svo fjármálavæðing alls samfélagsins, þar sem bankamenn og braskarar fóru með mestu völdin.

Þessi nýja valdastétt á toppi samfélagsins drekkti fyrirtækjum og bönkum í skuldum, með taumlausri græðgi sinni og braski með lánsfé. Að lokum varð skuldasöfnunin svo mikil að hrun fjármálakerfisins varð óumflýjanlegt.

Guðmundur gagnrýnir þetta nýja Ísland sem hinum nýja tíma fylgdi, tíma sem ég hef kallað “frjálshyggjutímann” en mætti líka kalla „sérhyggjutíma“. Hann telur að samfélagið hafi verið betra áður en til þessara nýmæla og breyttu stéttaskiptingar kom – auk þess sem hann harmar auðvitað hið mikla hrun sem í kjölfarið fylgdi.

Lykilhugtök gamla samfélagsins voru “jöfnuður, menning og samfélag”, segir Guðmundur. En lykilhugtök þessa nýja Íslands voru “frelsi, peningar og markaður”.

Gagnrýni Guðmundar Magnússonar er sérstaklega sterk því hann hefur lengi verið virkur Sjálfstæðismaður og var meira að segja sjálfur talsmaður aukinnar frjálshyggju á árum áður. Sú frjálshyggja sem hann mælti þá með lagði áherslu á heilbrigðari samkeppni, jöfn tækifæri og minni spillingu í stjórnmálum. Það er stefna sem gamli Alþýðuflokkurinn lagði oft mikla áherslu á.

En sú frjálshyggja sem varð ríkjandi eftir 1990, nýfrjálshyggjan (neoliberalism/libertarianism), færði hins vegar fyrri galla samfélagsins flesta til verri vegar. Samþjöppun auðs og valds varð meiri en nokkrum sinnum fyrr, ójöfnuður jókst og fyrirhyggjuleysi keyrði um þverbak.

Samhliða þessu jukust völd auðmanna í stjórnmálum til muna. Spilling jókst og samfélagið veiktist vegna aukinna áhrifa auðræðis (sjá viðtal við Guðmund hér).

 

Hvert stefnir hið endurreista Ísland?

Eftir hrun varð ríkjandi sá skilningur að tilraunin með óheftan markað og fjármálavæðingu í aðdraganda hrunsins hefði mistekist herfilega. Breyta þyrfti um kúrs og endurbyggja samfélagið, fá annað “nýtt Ísland”.

Vinda skyldi ofanaf fjármálavæðingunni, spillingunni, græðginni, ofurvaldi auðmanna og efla í staðinn lýðræði, aðhald, fagmennsku, gagnsæi og gera samfélagið heilbrigðara.

“Heiðarleiki, virðing, jafnrétti og réttlæti” voru helstu áhersluorð þjóðfundarins árið 2009.

Nú sex árum eftir hrun má spyrja hvernig til hafi tekist? Hvar er hið nýja Ísland statt?

Að mörgu leyti tókst endurreisn samfélagsins nokkuð vel, miðað við aðrar þjóðir sem fóru illa út úr kreppunni, til dæmis Írland, Grikkland, Spán, Portúgal og Eystrasaltsríkin. Hagvöxtur var endurvakinn frá og með 2011 og atvinnuleysi varð minna hér en víðast í kreppuríkjunum.

Lægri tekjuhópum var að hluta hlíft við áfallinu, þó allir fyndu fyrir mikilli kjaraskerðingu. Jöfnuður jókst verulega á ný, með lækkun fjármagnstekna yfirstéttarinnar og breyttri skatta- og bótastefnu stjórnvalda.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði góðri skýrslu um orsakir hrunsins og fleiri lögðu þar hönd á plóg. Of mikil áhættutaka og skuldsetning sem bankarnir gerðu mögulega var sögð frumorsök vandans, en opinberir eftirlitsaðilar (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld) brugðust í þeirri skyldu sinni að verja almenning gegn óhófi fjármálageirans og yfirstéttarinnar.

Sérstakur saksóknari var skipaður til að rannsaka hvort lög hefðu verið brotin. Hann er enn að störfum, en hefur þegar kært allmarga þátttakendur. Allnokkrir hafa verið sakfelldir en sumir hafa fengið sýknudóm.

Tilraunir til að endurnýja lýðræðið með setningu nýrrar stjórnarskrár, fyrir milligögnu stjórnlagaráðs, var siglt í strand af ríkjandi stjórnmálaöflum. Lítils virðist að vænta af framhaldi þess máls.

Fá önnur nýmæli í samfélagsgerðinni er uppi og raunar virðist sem hið endurreista Ísland sé í grunninn að mestu svipað því samfélagi sem var hér fyrir hrun, án óhófsbrasksins þó – enn sem komið er.

Sú endurnýjun sem vonast var eftir hefur þannig orðið að litlu.

Átökin um stöðu og framtíð opinbera heilbrigðiskerfisins og Ríkisútvarpsins vekja svo upp margar spurningar um horfurnar.

 

Sérhyggjumenn herða róðurinn

Í flestum grannríkjanna á Vesturlöndum er litið svo á að hemja verði fjármálageirann eftir kreppureynsluna, með nýrri löggjöf um hertara eftirlit og aðhald hins opinbera og seðlabanka. Stemma þurfi stigu við ójöfnuði, ofríki og óhófi fjármálaaflanna, með því að setja eins konar hraðatakmarkanir (reglun og aukið aðhald) á nýfrjálshyggjuskipanina sem komin var á. Grunni kapítalismans er þó almennt ekki breytt.

Hér á landi neituðu nýfrjálshyggjumenn að viðurkenna nokkra ábyrgð eða galla óhefta markaðarins, auðmannadekursins né galla afskiptaleysisstefnunnar sem ríkti fyrir hrun. Margir íslenskir hagfræðingar virðast því miður enn of hallir undir óheftan markað, þó OECD og AGS og fleiri hafi snúið við blaðinu í þeim efnum (sjá hér). Hér er því lítill vilji til breytinga.

Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar hafa endurheimt sjálftraust sitt og þylja nú með vaxandi þunga sömu þulurnar og fyrir hrun. Þær snúast um aukið frelsi fyrirtækja og fjármála; lækkun skatta (einkum hjá hátekjufólki og fyrirtækjum); samdrátt ríkishlutverks á öllum sviðum; einkavæðingu; markaðsvæðingu; einkaeign á náttúruauðlindum þjóðarinnar og öðrum sameignum; veikingu eftirlitsstofnana; niðurrif velferarríkisins (þ.m.t. opinbera heilbrigðisgeirans) og niðurrif Ríkisútvarpsins.

Sérstakt nýmæli hjá íslenskum nýfrjálshyggjumönnum eftir hrun er útbreiðsla hins róttæka boðskapar skáldkonunnar Ayn Rand, en hún telur atvinnurekendur vera ofurmenni og flesta aðra aumingja er lifi sníkjulífi á þeim ríku! „Græðgi er góð“ og „kapítalisminn siðlegur“ hafa þeir eftir henni. Ayn Rand er einnig þekkt fyrir blygðunarlausa lofgjörð sína um eigingirnina. Þessir aðilar ganga því enn lengra en áður í áróðursstarfi sínu.

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins (SA) eru aftur komin  á fullt við að móta þjóðmálastefnuna í þessum anda og frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru við völd í landsstjórninni. Þar lækka þeir skatta á hátekju- og stóreignafólk en hækka matarskatt og komugjöld í heilbrigðisþjónustunni, sem leggst með mestum þunga á þá tekjulægstu.

Margt virðist þannig stefna í sömu átt og fyrir hrun. Tal um hraðahindranir eða takmarkanir á nýfrjálshyggjuskipan óhefta markaðarins virðist vera jafnvel minna hér á landi en í flestum grannríkjanna, þrátt fyrir skelfilega reynslu okkar af hinu “Nýja Íslandi” Guðmundar Magnússonar.

Þeir sem vilja verjast því að tilraun fyrir-hruns áranna verði endurtekin þurfa því að hafa sig alla við – hvar í flokki sem þeir standa.

Minnumst þess að margir græddu gríðarlega á braski bóluáranna og vilja ólmir taka upp þann þráð á ný, um leið og þeir sjá mikla þörf á að halda aftur af öllum launahækkunum til almennings. Sömu aðilar vilja gera almenning ábyrgan fyrir verðbólgunni og heimta jafnframt meiri niðurskurð opinbera velferðarkerfisins, svo lækka megi skatta á hátekjufólk og fyrirtæki.

 

Lokaorð

Í lokakafla bókar sinnar, Nýja Ísland: Listin að týna sjálfum sér, segir Guðmundur Magnússon:

„Á síðustu fimmtán árum eða svo hefur hinn alþjóðlegi frjálsi markaður numið land á Íslandi með öllum þeim kostum og ókostum sem honum fylgja. Hér hefur orðið til nýtt þjóðfélag, sumpart fyrir innlendan tilverknað, sumpart fyrir hnattræna þróun og sem afleiðing af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hamagangurinn og kappið sem einkennt hefur þessi ár minnir að ýmsu leyti á það hvernig eldri kynslóðir brutust úr fátækt og kyrrstöðu þjóðfélagsins á fyrstu áratugum síðustu aldar. En munur er á. Þær báru gæfu til þess að varðveita og rækta samtímis með sér lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeiði sem gekk yfir. Annars hefði farið illa. Annars er ekki víst að Ísland væri í dag sjálfstætt ríki.  Jöfnuðurmenning og samfélag eru lykilhugtök til skilnings á þessum tíma. Þá sögðu Íslendingar gjarnan „við“ og skírskotuðu þannig til heildarinnar.

Frelsipeningar og markaður mega líklega teljast einkennishugtök „Nýja Íslands“. Nú segja menn oftar „ég“ en „við“; „hvað hef ég upp úr þessu?“ er ósjaldan viðkvæðið þegar verkefni eða viðfangsefni ber á góma. Aukið frelsi einstaklinga og svigrúm til viðskipta er stærsti ávinningur síðustu áratuga. En kunnum við að fara með frelsið? Skiljum við ábyrgðina sem því fylgir? Getur verið að breytingarnar hafi orðið hraðstígari en þjóðfélagið réð við? Margt sem rakið hefur verið í þessari bók bendir til þess að svo sé. Svo virðist sem í ákafanum á markaðnum hafi samkenndin, sem er svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélagsins, gleymst. Hlýtur það ekki að vera hið stóra verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir að endurheimta hana?“

Taka má undir þessi orð Guðmundar Magnússonar.

 

PS! Þetta er lítillega endurbætt útgáfa fyrri pistils.

Síðasti pistill: Úr garði Monets

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar