Sunnudagur 28.12.2014 - 12:52 - FB ummæli ()

Nýja Ísland – hver er stefnan?

Nýja ÍslandÍ lok hrunmánaðarins, október 2008, kom út bókin Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér, eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing.

Bókin var skrifuð á árinu fyrir hrun og lýsti miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem orðið höfðu upp úr 1990. Höfundur segir svo í formála að tengja megi sumar þessara breytinga við hrunið sjálft, sem orsakir.

Þær breytingar sem Guðmundir Magnússon fjallaði um voru hnignun íslenska jafnaðarsamfélagsins sem ríkt hafði frá lýðveldisstofnun og upplausn þeirrar samheldni sem því hugarfari fylgdi.

Í staðinn kom aukin stéttaskipting og auðræði, sem skákaði lýðræðislegu valdi til hliðar. Því fylgdi svo fjármálavæðing alls samfélagsins, þar sem bankamenn og braskarar fóru með mestu völdin.

Þessi nýja valdastétt á toppi samfélagsins drekkti fyrirtækjum og bönkum í skuldum, með taumlausri græðgi sinni og braski með lánsfé. Að lokum varð skuldasöfnunin svo mikil að hrun fjármálakerfisins varð óumflýjanlegt.

Guðmundur gagnrýnir þetta nýja Ísland sem hinum nýja tíma fylgdi, tíma sem ég hef kallað “frjálshyggjutímann” en mætti líka kalla „sérhyggjutíma“. Hann telur að samfélagið hafi verið betra áður en til þessara nýmæla og breyttu stéttaskiptingar kom – auk þess sem hann harmar auðvitað hið mikla hrun sem í kjölfarið fylgdi.

Lykilhugtök gamla samfélagsins voru “jöfnuður, menning og samfélag”, segir Guðmundur. En lykilhugtök þessa nýja Íslands voru “frelsi, peningar og markaður”.

Gagnrýni Guðmundar Magnússonar er sérstaklega sterk því hann hefur lengi verið virkur Sjálfstæðismaður og var meira að segja sjálfur talsmaður aukinnar frjálshyggju á árum áður. Sú frjálshyggja sem hann mælti þá með lagði áherslu á heilbrigðari samkeppni, jöfn tækifæri og minni spillingu í stjórnmálum. Það er stefna sem gamli Alþýðuflokkurinn lagði oft mikla áherslu á.

En sú frjálshyggja sem varð ríkjandi eftir 1990, nýfrjálshyggjan (neoliberalism/libertarianism), færði hins vegar fyrri galla samfélagsins flesta til verri vegar. Samþjöppun auðs og valds varð meiri en nokkrum sinnum fyrr, ójöfnuður jókst og fyrirhyggjuleysi keyrði um þverbak.

Samhliða þessu jukust völd auðmanna í stjórnmálum til muna. Spilling jókst og samfélagið veiktist vegna aukinna áhrifa auðræðis (sjá viðtal við Guðmund hér).

 

Hvert stefnir hið endurreista Ísland?

Eftir hrun varð ríkjandi sá skilningur að tilraunin með óheftan markað og fjármálavæðingu í aðdraganda hrunsins hefði mistekist herfilega. Breyta þyrfti um kúrs og endurbyggja samfélagið, fá annað “nýtt Ísland”.

Vinda skyldi ofanaf fjármálavæðingunni, spillingunni, græðginni, ofurvaldi auðmanna og efla í staðinn lýðræði, aðhald, fagmennsku, gagnsæi og gera samfélagið heilbrigðara.

“Heiðarleiki, virðing, jafnrétti og réttlæti” voru helstu áhersluorð þjóðfundarins árið 2009.

Nú sex árum eftir hrun má spyrja hvernig til hafi tekist? Hvar er hið nýja Ísland statt?

Að mörgu leyti tókst endurreisn samfélagsins nokkuð vel, miðað við aðrar þjóðir sem fóru illa út úr kreppunni, til dæmis Írland, Grikkland, Spán, Portúgal og Eystrasaltsríkin. Hagvöxtur var endurvakinn frá og með 2011 og atvinnuleysi varð minna hér en víðast í kreppuríkjunum.

Lægri tekjuhópum var að hluta hlíft við áfallinu, þó allir fyndu fyrir mikilli kjaraskerðingu. Jöfnuður jókst verulega á ný, með lækkun fjármagnstekna yfirstéttarinnar og breyttri skatta- og bótastefnu stjórnvalda.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði góðri skýrslu um orsakir hrunsins og fleiri lögðu þar hönd á plóg. Of mikil áhættutaka og skuldsetning sem bankarnir gerðu mögulega var sögð frumorsök vandans, en opinberir eftirlitsaðilar (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld) brugðust í þeirri skyldu sinni að verja almenning gegn óhófi fjármálageirans og yfirstéttarinnar.

Sérstakur saksóknari var skipaður til að rannsaka hvort lög hefðu verið brotin. Hann er enn að störfum, en hefur þegar kært allmarga þátttakendur. Allnokkrir hafa verið sakfelldir en sumir hafa fengið sýknudóm.

Tilraunir til að endurnýja lýðræðið með setningu nýrrar stjórnarskrár, fyrir milligögnu stjórnlagaráðs, var siglt í strand af ríkjandi stjórnmálaöflum. Lítils virðist að vænta af framhaldi þess máls.

Fá önnur nýmæli í samfélagsgerðinni er uppi og raunar virðist sem hið endurreista Ísland sé í grunninn að mestu svipað því samfélagi sem var hér fyrir hrun, án óhófsbrasksins þó – enn sem komið er.

Sú endurnýjun sem vonast var eftir hefur þannig orðið að litlu.

Átökin um stöðu og framtíð opinbera heilbrigðiskerfisins og Ríkisútvarpsins vekja svo upp margar spurningar um horfurnar.

 

Sérhyggjumenn herða róðurinn

Í flestum grannríkjanna á Vesturlöndum er litið svo á að hemja verði fjármálageirann eftir kreppureynsluna, með nýrri löggjöf um hertara eftirlit og aðhald hins opinbera og seðlabanka. Stemma þurfi stigu við ójöfnuði, ofríki og óhófi fjármálaaflanna, með því að setja eins konar hraðatakmarkanir (reglun og aukið aðhald) á nýfrjálshyggjuskipanina sem komin var á. Grunni kapítalismans er þó almennt ekki breytt.

Hér á landi neituðu nýfrjálshyggjumenn að viðurkenna nokkra ábyrgð eða galla óhefta markaðarins, auðmannadekursins né galla afskiptaleysisstefnunnar sem ríkti fyrir hrun. Margir íslenskir hagfræðingar virðast því miður enn of hallir undir óheftan markað, þó OECD og AGS og fleiri hafi snúið við blaðinu í þeim efnum (sjá hér). Hér er því lítill vilji til breytinga.

Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar hafa endurheimt sjálftraust sitt og þylja nú með vaxandi þunga sömu þulurnar og fyrir hrun. Þær snúast um aukið frelsi fyrirtækja og fjármála; lækkun skatta (einkum hjá hátekjufólki og fyrirtækjum); samdrátt ríkishlutverks á öllum sviðum; einkavæðingu; markaðsvæðingu; einkaeign á náttúruauðlindum þjóðarinnar og öðrum sameignum; veikingu eftirlitsstofnana; niðurrif velferarríkisins (þ.m.t. opinbera heilbrigðisgeirans) og niðurrif Ríkisútvarpsins.

Sérstakt nýmæli hjá íslenskum nýfrjálshyggjumönnum eftir hrun er útbreiðsla hins róttæka boðskapar skáldkonunnar Ayn Rand, en hún telur atvinnurekendur vera ofurmenni og flesta aðra aumingja er lifi sníkjulífi á þeim ríku! „Græðgi er góð“ og „kapítalisminn siðlegur“ hafa þeir eftir henni. Ayn Rand er einnig þekkt fyrir blygðunarlausa lofgjörð sína um eigingirnina. Þessir aðilar ganga því enn lengra en áður í áróðursstarfi sínu.

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins (SA) eru aftur komin  á fullt við að móta þjóðmálastefnuna í þessum anda og frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru við völd í landsstjórninni. Þar lækka þeir skatta á hátekju- og stóreignafólk en hækka matarskatt og komugjöld í heilbrigðisþjónustunni, sem leggst með mestum þunga á þá tekjulægstu.

Margt virðist þannig stefna í sömu átt og fyrir hrun. Tal um hraðahindranir eða takmarkanir á nýfrjálshyggjuskipan óhefta markaðarins virðist vera jafnvel minna hér á landi en í flestum grannríkjanna, þrátt fyrir skelfilega reynslu okkar af hinu “Nýja Íslandi” Guðmundar Magnússonar.

Þeir sem vilja verjast því að tilraun fyrir-hruns áranna verði endurtekin þurfa því að hafa sig alla við – hvar í flokki sem þeir standa.

Minnumst þess að margir græddu gríðarlega á braski bóluáranna og vilja ólmir taka upp þann þráð á ný, um leið og þeir sjá mikla þörf á að halda aftur af öllum launahækkunum til almennings. Sömu aðilar vilja gera almenning ábyrgan fyrir verðbólgunni og heimta jafnframt meiri niðurskurð opinbera velferðarkerfisins, svo lækka megi skatta á hátekjufólk og fyrirtæki.

 

Lokaorð

Í lokakafla bókar sinnar, Nýja Ísland: Listin að týna sjálfum sér, segir Guðmundur Magnússon:

„Á síðustu fimmtán árum eða svo hefur hinn alþjóðlegi frjálsi markaður numið land á Íslandi með öllum þeim kostum og ókostum sem honum fylgja. Hér hefur orðið til nýtt þjóðfélag, sumpart fyrir innlendan tilverknað, sumpart fyrir hnattræna þróun og sem afleiðing af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hamagangurinn og kappið sem einkennt hefur þessi ár minnir að ýmsu leyti á það hvernig eldri kynslóðir brutust úr fátækt og kyrrstöðu þjóðfélagsins á fyrstu áratugum síðustu aldar. En munur er á. Þær báru gæfu til þess að varðveita og rækta samtímis með sér lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeiði sem gekk yfir. Annars hefði farið illa. Annars er ekki víst að Ísland væri í dag sjálfstætt ríki.  Jöfnuðurmenning og samfélag eru lykilhugtök til skilnings á þessum tíma. Þá sögðu Íslendingar gjarnan „við“ og skírskotuðu þannig til heildarinnar.

Frelsipeningar og markaður mega líklega teljast einkennishugtök „Nýja Íslands“. Nú segja menn oftar „ég“ en „við“; „hvað hef ég upp úr þessu?“ er ósjaldan viðkvæðið þegar verkefni eða viðfangsefni ber á góma. Aukið frelsi einstaklinga og svigrúm til viðskipta er stærsti ávinningur síðustu áratuga. En kunnum við að fara með frelsið? Skiljum við ábyrgðina sem því fylgir? Getur verið að breytingarnar hafi orðið hraðstígari en þjóðfélagið réð við? Margt sem rakið hefur verið í þessari bók bendir til þess að svo sé. Svo virðist sem í ákafanum á markaðnum hafi samkenndin, sem er svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélagsins, gleymst. Hlýtur það ekki að vera hið stóra verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir að endurheimta hana?“

Taka má undir þessi orð Guðmundar Magnússonar.

 

Síðasti pistill: Úr garði Monets

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.12.2014 - 00:30 - FB ummæli ()

Úr garði Monets

Hér er myndasería frá síðasta sumri. Hún er tekin í þorpinu Giverny í Normandy, skammt fyrir utan París. Þar bjó einn helsti frumkvöðull impressjónismans í málaralistinni, Claude Monet.

Þar skapaði hann fjölda klassískra myndverka og það sem hann kallaði mesta listaverkið sitt, garðinn sinn.

Sjá má myndaseríuna með því að smella á myndina hér að neðan.

DSC_6491b

Þegar serían opnast er hægt að skoða einstakar myndir stærri eða seríuna alla í „slideshow“ (efst til hægri í rammanum). Galleríið er á ensku þar eð það er vistað á erlendri síðu.

Hér eru síðan nokkrar impressjónir af París (smellið á Eiffel turninn):

DSC_5413b

Ég óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.12.2014 - 20:51 - FB ummæli ()

Almenningur styður lækna

Mörgum finnst furðulegt hversu mjög læknaverkfallið hefur dregist á langinn. Vandi hleðst upp og fyrr en varir verður tjónið talið í mannslífum.

Kannanir hafa sýnt að allur þorri almennings styður veglega launahækkun til lækna í opinbera heilbrigðiskerfinu.

Um 90% segjast styðja lækna beint eða eru hlutlaus, samkvæmt könnun Gallups. Einungis 10% eru andvíg launakröfum lækna – sennilega frjálshyggjukjarninn í Sjálfstæðisflokknum.

Ef vilji væri til að semja í Valhöll þá væri búið að gera það. Almenningur er ekki að fara fram á sömu launahækkun og læknar. Enginn þarf að óttast það.

Fólk skilur að málið snýst um að bjarga heilbrigðisþjónustu okkar frá því að holast að innan og hrynja. Skriða uppsagna sérhæfðra lækna er þegar hafin. Hana verður að stöðva strax og snúa vörn í sókn.

Ef Sjálfstæðismenn vilja brjóta niður opinberu heilbrigðisþjónustuna til að greiða einkarekinni þjónustu leið, að bandarískri fyrirmynd, þá eiga þeir að þora að segja það og bera ábyrgð á þeirri afstöðu.

Vonandi þekkja þó stjórnvöld í ráðuneytum heilbrigðismála og fjármála vitjunartíma sinn og leysa málið á viðunandi hátt – í sátt við þjóðina.

Sýna þarf jákvæðan vilja í verki – annars fer illa fyrir okkur öllum.

 

Síðasti pistill:  Við greiðum Icesave – með bros á vör!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.12.2014 - 14:06 - FB ummæli ()

Við greiðum Icesave – með bros á vör!

Bresk stjórnvöld sendu í gær frá sér tilkynningu um að þau hafi nú endurheimt um 85% af Icesave skuld Íslendinga, sem þau lögðu út fyrir strax eftir hrun.

Stefnt er að því að skuldin verði að fullu innheimt árið 2017, segir jafnframt í tilkynningunni (sjá hér).

Þetta hljómar auðvitað undarlega á Íslandi.

Íslendingar kusu tvisvar í þjóðaratkvæði gegn Icesave og töldu sig vera að hafna því að greiða “skuldina”, enda væri þetta ekki skuld Íslands.

Síðan unnum við dómsmálið fyrir EFTA dómstólnum og þar með var staðfest að stjórnvöld bæru ekki ábyrgð á málinu.

En þrotabú gamla Landsbankans greiðir samt skuldina upp í topp, í gegnum nýja Landsbankann, sem er nærri 100% í eigu íslenska ríkisins (okkar allra).

Það var raunar inntak allra samninganna um Icesave, frá fyrsta Svavars-samningnum til Buchheit-samningsins, að eignir þrotabúsins myndu renna til greiðslu á innistæðum Icesave-reikninga gamla Landsbankans.

Við sleppum að vísu við vaxtagreiðslur sem gert var ráð fyrir í báðum samningunum sem felldir voru í þjóðaratkvæði forseta vors, Ólafs Ragnars Grímssonar. Ef ríkið hefði gengist undir að greiða einhverja vexti af skuldinni þá hefði það væntanlega einnig getað gert kröfu fyrir því í þrotabúið.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave og sigurinn í dómsmálinu skipta þannig frekar litlu þegar upp er staðið.

Höfuðstóll Icesave innistæðanna verður greiddur upp að fullu af þrotabúinu – í gegnum Landsbankann “okkar”.

Svona geta hlutirnir orðið mótsagnakenndir!

 

Síðasti pistill:  OECD hafnar óheftum markaði og ójöfnuði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.12.2014 - 12:12 - FB ummæli ()

OECD hafnar óheftum markaði og ójöfnuði

Hugmyndin um nytsemd hins frjálsa og óhefta markaðar hefur verið einn af hornsteinum hagfræðinnar um langa hríð.

Í hugmyndinni er falin sú forsenda, að því minni sem ríkisafskipti og önnur inngrip í virkni frjálsa markaðarins séu (t.d. af hálfu launþegafélaga), þeim mun meiri árangri skili markaðurinn í hagvexti og efnahagsframförum.

Þeim mun meira frelsi, þeim mun meiri hagvöxtur – segir þulan. Óheftur markaður er alltaf bestur!

Í áhrifamikilli bók, Equality and Efficiency – The Big Tradeoff, setti hagfræðingurinn Arthur Okun þetta fram árið 1975 á þann veg, að markaður skilaði hagkvæmni og hagvexti en lýðræðisleg stjórnmál skiluðu jöfnuði, t.d. með velferðaraðgerðum ríkisins, hækkun lágmarkslauna og jafnandi skattheimtu.

Kjarni boðskapar Okuns var einmitt sá, að menn gætu ekki haft fullt hús beggja gæða: hagkvæmni og jafnaðar. Aukning jafnaðar fyrir tilstilli stjórnvalda og launþegafélaga myndi koma niður á hagkvæmninni og þar með hagvextinum. Óheftur markaður yki á hinn bóginn ójöfnuð og gerði samfélagið ómannúðlegt.

Okun sjálfur var þó hlynntur því að ríkið færi meðalveg blandaða hagkerfisins og drægi úr þeim ójöfnuði sem óheftur markaður skilar að öðru jöfnu. Slíkt væri verjandi og mikilvægt í þágu lýðræðis, manngildis og réttlætis – til að efla stöðugleika og bæta samfélagið.

Flestir hagfræðingar hafa hins vegar til lengri tíma samþykkt þá (villandi) forsendu að algerlega óheftur markaður skilaði mestum hagvexti.

Frjálshyggjusinnaðir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa tekið þessa trú lengst allra. Í nafni hennar leggjast þeir gegn hvers konar ríkisafskiptum og krefjast síaukins markaðsfrelsis. Það er þeirra mantra sem hljómar í sífellu.

“Ríkið er vandamálið, en ekki lausnin”, sagði frjálshyggjumaðurinn Ronald Reagan, þá nýorðinn forseti Bandaríkjanna. Hjá róttækustu markaðshyggjumönnum kveður gjarnan við sú þula, að allt sem ríkið geri sé slæmt, en allt sem markaður geri sé gott!

Þó það hafi verið óheftur og agalaus fjármálamarkaður einkageirans sem gat af sér hrunið á Íslandi og alþjóðlegu fjármálakreppuna breytir það engu fyrir hina trúuðu.

Þeir hafna velferðarríkinu sem inngripum í markaðinn, einnig skattkerfinu sem fjármagnar hlutverk ríkis og sveitarfélaga. Vilja banna launþegafélög og veita fjármagninu algert frelsi. Allt skal vera í einkaeigu og engar sameignir þjóðar eða ríkis umbornar. Þetta er svo (ranglega) sagt auka hagvöxt.

 

Óheftur markaður eykur ójöfnuð

Óheftum markaði fylgir meiri ójöfnuður en þar sem velferðarríki og jöfnunaraðgerðir lýðkjörinna stjórnvalda vega meira. Þetta er vel þekkt staðreynd úr bæði hagfræðum og þjóðfélagsfræðum (félagsfræði og stjórnmálafræði).

Þess vegna hafa fylgjendur hins óhefta markaðar almennt ekki áhyggjur af ójöfnuði og telja að í staðinn fái samfélögin meiri hagvöxt sem allir njóta, þrátt fyrir allt.

Brauðmylsnukenningin er svo sérstakt afbrigði af pólitískri hugmyndafræði frjálshyggjunnar, sem boðar að vænsta leiðin til aukinnar hagsældar sé að stuðla að sem bestum hag þeirra allra ríkustu. Það muni svo seitla niður til almennings og færa honum einnig betri hag – á lengri tíma.

Þessi “kenning” hefur þó aldrei verið studd raunverulegum rannsóknargögnum, heldur hefur henni verið haldið á floti sem pólitískum trúarbrögðum.

Lengi vel voru helstu áhrifaöfl hagfræðinnar og hægri stjórnmála og fjölmiðla höll undir kenninguna um mikilvægi óhefta markaðarins fyrir hagvöxtinn.

OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og margir áhrifamestu hagfræðingar heimsins skrifuðu beint og óbeint uppá þá fyrirfram gefnu forsendu, að minni afskipti af markaði skiluðu alltaf meiri hagvexti. Höfðu því ætíð horn í síðu velferðarríkisins og opinbers aðhalds hvers konar (þ.á.m. reglun fjármálamarkaða).

Það eru ekki mörg ár síðan OECD var enn að birta ályktanir um að ójöfnuður væri gagnlegur hvati fyrir hagvöxt.

 

Nýr tíðarandi í hagfræðum?

Nú ber svo við að helstu áhrifastofnanir alþjóðlegra hagfræða (OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn o.fl.) hafa algerlega snúið við blaðinu.

Þetta eru þó ekki trúarleg siðaskipti, heldur umskipti byggð á reynslurannsóknum. Það sem er nýtt er að upp hafa byggst sífellt meiri sönnunargögn um að óheft markaðsskipan með meiri ójöfnuði skili ekki meiri hagvexti – heldur hamli hagvexti.

Þannig segir reynslan frá um 1980 til samtímans að aukinn ójöfnuður vegna meira frelsis á mörkuðum og minni ríkisafskipta hefur dregið úr hagvexti vestrænna ríkja á þeim tíma.

Niðurstaða nýrrar rannsóknar OECD segir að aðildarríkin væru hagsælli í dag sem nemur að meðaltali um 8,5% ef ekki hefði komið til aukins ójafnaðar eftir 1980 (sjá hér og hér og hér). Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýlega samsvarandi niðurstöður (sjá hér). Rannsóknarmenn Alþjóðabankans sömuleiðis (sjá hér).

Tíðarandi hins óhefta markaðar í kenningum hagfræðanna þarf sem sagt að víkja fyrir nýrri þekkingu. Þetta er það sem kallað er “paradigm shift” í vísindaheimspekinni.

Ný kenning byggð á reynslurannsóknum steypir eldri ófullnægjandi kenningu af stalli!

Brauðmylsnukenning frjálshyggjustjórnmálanna fellur að sjálfsögðu samhliða þessu, með braki og brestum – og það sama gildir um vúdú-hagfræði áróðursmannsins Arthurs Laffers.

Þessar “kenningar” sýna sig að vera ekkert annað en mælskubrögð frjálshyggjuróttæklinga sem hafa haft þann tilgang helstan, að réttlæta aukinn ójöfnuð og aukin fríðindi fyrir hátekju- og stóreignafólk, á kostnað venjulegs fólks.

Frjálshyggjan er lítið annað en pólitísk trúarbrögð sem réttlæta auðræði – og vinna gegn lýðræði.

Íslenskir frjálshyggjumenn tóku öll þessi trúarbrögð um óheftan markað, brauðmylsnur og vúdú-brellur sem sjálfsögðum sannindum og fylgdu þeim fast eftir. Vilja leggja íslenska samfélagið allt undir þessar villukenningar.

Nú þegar sterkustu raddir hins alþjóðlega hagfræðisamfélags, eins og OECD o.fl., hafa komist að þeirri niðurstöðu, að óhefti markaðurinn og aukinn ójöfnuður vinni gegn sjálfum hagvextinum, verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum íslenskra frjálshyggjuróttæklinga og annarra stjórnmálamanna.

Samþykkja þessir aðilar vandaðar reynslurannsóknir eða halda þeir sér við trúarbrögð óhefta markaðarins?

Í ljósi þess að frjálshyggjumenn hafa einkum tekið boðskap sinn sem trúarbrögð, frekar en fræðilega trausta þekkingu, má búast við að þeir haldi áfram að hártoga, falsa og blekkja – í þágu auðræðis.

Það verður mun athyglisverðara að fylgjast með því, hvernig alvöru hagfræðingar taka þessum nýju tímamótarannsóknum virtra alþjóðlegra stofnana.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.12.2014 - 12:16 - FB ummæli ()

Ráðherrann með reisupassann!

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, lætur ekki segjast og vill troða “náttúrupassa” sínum ofan í kok þjóðarinnar.

  • Hirðir ekki um andstöðu í ferðamálageiranum.
  • Hirðir ekki um aldagamla hefð fyrir frjálsu aðgengi almennings að náttúru Íslands.
  • Hirðir ekki um dýran framkvæmdamáta.
  • Hirðir ekki um andstöðu almennings.

En hvers vegna?

Svo virðist sem ráðherrann vilji ganga erinda hóteleigenda sem ekki vilja gistináttaskatt eða hærra þrep virðisaukaskatts á ferðaþjónustu (þó hvoru tveggja sé algengt í grannríkjunum).

Ráðherrann virðist líka ætla að leyfa landeigendum að vera sjálfir með gjaldtöku, eins og fitjað var uppá í fyrra.

Kanski er megin markmið ráðherrans með “náttúrupassanum” að lögmæta gjaldtöku landeigenda. Ríkið verði með gjaldtöku í formi náttúrupassa á sínum svæðum – og þá megi landeigendur rukka hver á sinni þúfu.

Fyrir almenning og erlenda ferðamenn verður gjaldtakan þá fljótt miklu meiri en nemur einungis gjaldi fyrir passa ráðherrans.

Náttúra Íslands gæti öll á skömmum tíma orðið einn allsherjar súpumarkaður – þar sem fjöll, lækir og berjamó verða verðlögð eins og „vara“ í hillum búðanna.

Niðurstaða ráðherrans beinist þannig í átt víðtækrar gjaldtökuvæðingar á landinu öllu. Verður það spennandi ásýnd fyrir ferðamenn – íslenska sem erlenda?

Þetta væri hins vegar mjög í anda þeirrar auðhyggju og peningagildismats sem flokksmenn ráðherrans boða með róttækri frjálshyggju sinni.

Skítt með frelsi almennings til að njóta Íslands. Frelsi landeigenda og fjármagns er miklu mikilvægara í Sjálfstæðisflokknum.

Kanski almenningur sýni ráðherranum þann passa sem hér hæfir:  reisupassann – rauða spjaldið!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.12.2014 - 16:41 - FB ummæli ()

Landsbankinn einkavæðir með risaafslætti

Kjarninn hefur undanfarið upplýst um vafasama sölu Landsbankans á stórum eignarhlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun. Bankinn vill einnig selja hlut sinn í VISA (Valitor) – en þó helst án útboðs.

Þeir vilja bara selja til handvalinna kaupenda – í kyrrþey.

Þykjast fá gott verð og senda svo frá sér fréttatilkynningu á rúnaletri, sem enginn skilur. Þýða það svo þannig, að Samkeppniseftirlitið banni þeim að selja Borgun með eðlilegum hætti!

Nú hefur Kjarninn einnig upplýst að verðið á eignarhlutinum í Borgun er ótrúlega lágt. Bæði samanborið við önnur íslensk fyrirtæki og samanborið við erlend greiðslukortafyrirtæki.

Þetta telst þá vera einkavæðing með risaafslætti – þar eð Landsbankinn á að heita í nærri 100% ríkiseigu.

Fjármálaráðuneytið hefur yfirumsjón með ráðstöfun eigna ríkisins. Spurning er hvort það hafi samþykkt þessa sérstöku jólabrunaútsölu?

Er það virkilega svo, einungis 5 árum eftir hrun, að við þurfum að búa við svona vafasama viðskiptahætti á ný?

Og það hjá sjálfum ríkisbankanum?

 

Síðasti pistill:  Er báknið alltaf að þenjast út?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.12.2014 - 12:37 - FB ummæli ()

Er báknið alltaf að þenjast út?

Frjálshyggjumenn eru sífellt að tala um að ríkið sé alltaf að vaxa. Þeir missa gjarnan svefn yfir þessu.

Telja að ríkið vaxi jafnt í tíð hægri og vinstri stjórna. Vaxi alveg stjórnlaust!

En hvað segir Hagstofa Íslands um þróun opinberra útgjalda? Opinber útgjöld eru mikilvægasti mælikvarðinn á umsvif hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga samanlögð).

Það má sjá á myndinni hér að neðan. Hún er með tvo mælikvarða á útgjöldin. Annars vegar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og hins vegar í krónutölu á föstu verðlagi 2013.

Opinber útgjöld til 2013

Bláa línan bendir til vaxtar útgjalda að raunvirði frá 1988, einkum eftir 1995. Hámarki náðu útgjöldin á hrunárinu 2008. Þá urðu útgjöldin óvenju mikil, einkum vegna endurfjármögnunar hins gjaldþrota Seðlabanka Íslands.

En þjóðarframleiðslan sjálf jókst líka á þessum tíma að krónuvirði.

Við venjulegar aðstæður aukast raunveruleg útgjöld hins opinbera að krónuvirði álíka mikið og þjóðarframleiðslan, til dæmis vegna þess að laun opinberra starfsmanna fylgja launaþróuninni í einkageiranum. Það þarf ekki einu sinni fjölgun opinberra starfsmanna til að opinber útgjöld aukist samhliða þjóðarframleiðslunni.

Þetta er einmitt það sem gerðist á tuttugu árunum frá 1988 til 2007.

Opinber útgjöld jukust þá einfaldlega í takti við þjóðarframleiðsluna, auknu umsvifin í samfélaginu. Þetta má sjá á gráu súlunum á myndinni. Opinberu útgjöldin í heild voru um 41,5% árið 1988 og 40,7% árið 2007. Á milli sveifluðust þau í kringum þessar stærðir (urðu lægst 39,5% og hæst 44,6%).

Hlutur opinberra útgjalda af þjóðarkökunni stóð sem sagt að mestu í stað í 20 ár fram að hruni.

Þá jukust þau hins vegar gríðarlega, vegna kostnaðar af hruninu. En þau hafa verið lækkandi á ný frá 2010. Útgjöldin eru þó enn heldur hærri en almennt á 20 ára tímabilinu fram að hruni, einkum vegna mikils vaxtakostnaðar af opinberum skuldum, sem hrunið jók stórlega.

Það virðist stefna í að báknið jafnist aftur út í svipaðri stærð og fyrr, eftir að afleiðinga frjálshyggjuhrunsins fer að gæta minna á næstu árum (sjá hér, mynd 6).

Það er því vægast sagt villandi þegar frjálshyggjumenn fjargviðrast yfir meintum vexti ríkisvaldsins.

Báknið hefur að mestu staðið í stað, nema vegna frjálshyggjuhrunsins (sem frjálshyggjumenn eiga enn eftir að biðja afsökunar á!).

Opinbera báknið óx hins vegar einnig frá 1980 til um 1990, en þá var það einkum vegna vaxtar velferðarríkisins og menntakerfisins. Sá vöxtur var samfélaginu mjög til góðs.

Raunar er báknið á Íslandi ekki sérlega stórt samanborið við grannríki Íslendinga (sjá hér og hér).

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.12.2014 - 09:58 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð vill lækna og Landsspítala í forgang

Forsætisráðherra hefur a.m.k. tvisvar sinnum hreyft því á Alþingi að læknar fái sérmeðferð í kjarasamningum.

Það er nauðsynlegt. Þjóðir er því líka samþykk.

Að gera Ísland samkeppnishæft fyrir lækna er forsenda þess að áfram verði ásættanlegt að búa hér á landi.

Framsóknarmenn hafa einnig lagt áherslu á að auka nú fjárveitingar til reksturs Landsspítalans, sem og til byggingar nýs Landsspítala og annarra þátta opinberrar heilbrigðisþjónustu.

Þetta eru réttu áherslurnar fyrir flokk sem vill vera velferðarflokkur, er setur mikilvægustu mál almennings í forgang.

Annað er uppi í Sjálfstæðisflokknum. Þar eru menn enn fastir í frjálshyggjuöfgunum sem Hannes Hólmsteinn flutti inn frá klappstýrum amerískra auðmanna. Þeir boða fátt annað en aukna einkavinavæðingu og auðræði, sem er einungis til hagsbóta fyrir þá allra ríkustu.

Niðurrif opinberrar heilbrigðisþjónustu er draumur þessara frjálshyggjumanna. Í staðinn vilja þeir sjá aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, að bandarískri fyrirmynd.

Það er vel reynd leið sem skilar þeim ríkustu mjög góðri þjónustu en öðrum takmarkaðar eða engar sjúkratryggingar og annars flokks þjónustu. Samt kostar bandaríska heilbrigðiskerfið um 50% meira en norræn kerfi sem ná mun betri árangri fyrir almenning.

Fátt er mikilvægara fyrir Framnsóknarmenn en að kokgleypa ekki frjálshyggju Sjálfstæðismanna hráa, eins og gerðist á tíma Halldórs Ásgrímssonar.

Það varð þjóðinni dýrt.

Sem betur fer virðist annað vera uppi á tengingnum í Framsókn nú.

Sigmundur Davíð og hans lið ítreka velferðaráherslur flokksins og reyna að vinna þeim framgang, þó Sjálfstæðismenn flækist fyrir og hafi önnur og háskalegri áform.

Nú þarf að stöðva niðurrif  frjálshyggjuhirðarinnar og leysa læknaverkfallið.

Það er í þágu þjóðarinnar.

 

Síðasti pistill:  Hlægilegur náttúrupassi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.11.2014 - 13:37 - FB ummæli ()

Hlægilegur náttúrupassi

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ætlar alla leið með náttúrupassann – einmitt nú þegar samtök helstu aðila í ferðaþjónustu hafa snúist gegn þeirri leið. Vilja frekar gistináttagjald.

Þetta er mikill dómgreindarbrestur hjá Ragnheiði Elínu.

Náttúrupassinn felur í sér að nú verða Íslendingar skattlagðir sérstaklega ef þeir vilja skoða náttúruperur í landi sínu. Það verður aldrei samþykkt af almenningi.

Vonandi stöðva Framsóknarmenn þessa fásinnu. Tveir glæsilegustu formenn Framsóknarflokksins sem jafnframt voru þekktir náttúruunnendur, Eysteinn Jónsson og Steingrímur Hermannsson, hefðu aldrei látið sér detta í hug að taka þátt í slíkri gjaldtöku á Íslendinga, fyrir að njóta landsins.

Náttúrupassinn felur líka í sér að hafa verður eftirlitsfólk með sultardropa á nasavængjum við helstu náttúruperlur, allan ársins hring, til að tryggja að enginn komist inn án passa.

Það er eins óhagkvæm framkvæmd og hægt er að hugsa sér. Skapar að auki ógeðfellda mynd af Íslandi.

Heillandi náttúruparadís breytist í rukkunarparadís!

Í stað þess að vöxtur ferðaþjónustu sé einkum til að afla þjóðinni aukinna tekna þá verður sá vöxtur tilefni til að skattleggja Íslendinga sjálfa aukalega!

“Skattalækkunarstefna” Sjálfstæðisflokksins verður sífellt furðulegri: hærri matarskattur, hærri bókaskattur, hærri notendagjöld í heilbrigðismálum og nú sérstakt gjald á landsmenn fyrir að skoða land sitt!

Veiðigjald útvegsmanna, sem nú græða sem aldrei fyrr, mun þó lækka. Þannig er forgangsröðunin.

Öll skynsemi mælir með hærra gistináttagjaldi á ferðaþjónustuna, til að afla fjár til verndar og uppbyggingar aðstöðu á ferðamannastöðum. Það myndi einkum leggjast á erlenda ferðamenn.

Ráðherrann er augljóslega að sigla málinu og sjálfri sér í strand.

Hvers vegna á skynsemin svona erfitt uppdráttar í pólitíkinni – og þá sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum?

 

Síðasti pistill:  Er Ísland ónýtt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.11.2014 - 17:45 - FB ummæli ()

Er Ísland ónýtt?

Það hefur verið undan mörgu að kvarta á Íslandi eftir hrun. Hrunið var gríðarlegt áfall fyrir íslenska samfélagið, með mikilli kaupmáttarskerðingu, skuldaaukningu, niðurskurði opinberrar þjónustu og töpuðu trausti á stofnunum og stjórnmálunum. Allt er það skiljanlegt og að gefnu tilefni.

Þó vel hafi miðað í endurreisn samfélagsins bíða enn stór verkefni úrlausnar. Margir hafa við þessar aðstæður orðið mjög gagnrýnir og sumir gengið svo langt að segja íslenska samfélagið ónýtt.

Það er of langt gengið. Þó samanburður við Noreg sé okkur (og raunar fleiri þjóðum) um margt óhagstæðari um þessar mundir en áður var, er ástæðulaust fyrir flesta Íslendinga að örvænta.

Gagnlegt er við þessar aðstæður að spyrja hvernig Íslendingar standa þegar lífsgæði eru borin saman við önnur lönd og hverjar horfurnar eru.

Um daginn flutti ég erindi um þetta efni á ráðstefnu Félagsfræðingafélags Íslands um lífsgæði Íslendinga fyrir og eftir hrun.

Ég birti hér nokkrar myndir sem ég sýndi þar og læt smá upplýsingar úr erindinu fylgja með. Hin erindin sem öll voru athyglisverð má sjá hér.

 

Góð lífsgæði Íslendinga frá 1985 til 2008

Lífsgæði Íslendinga höfðu verið áþekk því sem tíðkaðist meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum allt frá níunda áratugnum og til hruns. Staðan á árinu 1988 var staðfest í lífskjarakönnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði árið 1988, að skandinavískri fyrirmynd (sjá bók mína Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum, er kom út árið 1990). VIð vorum í hópi 10 til 12 hagsælustu þjóða hins vestræna heims, með ágæt lífsgæði.

Megin munur á Íslandi og hinum norrænu þjóðunum þá var sá, að Íslendingar þurftu að vinna meira fyrir lífsgæðum sínum og nutu minni stuðnings frá velferðarríkinu. Við vorum og erum raunar enn meiri vinnuþjóð, byggjum lífskjör okkar í meiri mæli en frændþjóðirnar á sjálfsbjargarviðleitni og vinnusemi.

Við héldum svo að mestu leyti í við hinar norrænu þjóðirnar fram til 2008 (sjá bók okkar Guðnýjar Eydal, Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).

Í viðamikli rannsókn sem ég gerði á lífsgæðum nútímaþjóða á tímabilinu 2005 til 2008 (og birti árið 2013) kom fram að Íslendingar voru þá með sjöttu bestu lífsgæði í hópi 29 nútímaþjóða. Rannsóknin byggði á nærri 70 mælingum á mikilvægum lífsgæðaþáttum (sjá hér). Yfirlit um niðurstöðurnar má sjá á eftirfarandi mynd.

Slide1

Á næstu mynd má svo sjá sambærilega niðurstöðu lífsgæðamats OECD frá 2013 (byggt að mestu á gögnum frá 2011). Þar kemur fram að Íslendingar höfðu fallið með hruninu úr 6. sæti  niður í 11. sæti af 36 þjóðum.

Slide2

Það er talsvert fall, úr 6. sæti niður í 11. sæti. Hins vegar lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila talsvert meira en þetta, í fjölþjóðlegum samanburði.

Eins og sjá má á þriðju myndinni þá urðu Íslendingar fyrir næst mestu kjaraskerðingu í Evrópu frá 2008 til 2011, á eftir Grikkjum. Miðgildi ráðstöfunartekna lækkaði um 16% en meðaltalið um nálægt 20% (minna þó hjá lágtekjufólki).

Slide3

Þetta fall kaupmáttar, sem gengisfall íslensku krónunnar orsakaði á árunum 2008 og 2009, setti okkur í 21. sæti OECD-ríkjanna, í nýlegum samanburði OECD á ráðstöfunartekjum heimila (að teknu tilliti til ábata af bótum og opinberri velferðarþjónustu, en að frádregnum sköttum). Það má sjá á næstu mynd.

Slide4

Það þarf ekki að koma á óvart að lífsgæði almennt skerðist minna en kaupmáttur heimilistekna í alvarlegri kreppu, eins og hér skall á með bankahruninu.

Þó kaupmáttur falli um 20% þýðir það ekki að heilsufar fólks versni um 20%, né menntastig, eða húsnæðisgæði og félagsauður, sem felst í gæðum hins mannlega samfélags sem við búum í.

Þannig getur oft orðið munur á útkomu þjóða þegar litið er á kaupmáttarþróun og önnur lífsgæði, eins og ánægju með lífið almennt og einstaka þætti samfélagsumhverfisins.

Þannig sjáum við á síðustu myndinni að þegar á árinu 2012 höfðu Íslendingar náð þeirri stöðu á ný að vera þriðja efsta þjóðin í samanburði á ánægju með lífið almennt. Ánægja með lífið hafði minnkað umtalsvert strax í kjölfar hrunsins. Það endurheimtist smám saman frá og með árinu 2011.

Slide5

 

Ísland er á réttri leið – en mörg brýn verkefni bíða úrlausnar

Í reynd varð það þannig að margt tókst vel í viðbrögðum við kreppunni á Íslandi, í samanburði við aðrar kreppuþjóðir. Okkur hefur miðað að mörgu leyti í rétta átt, þó enn sé ekki búið að endurheimta að fullu þau lífsgæði sem við nutum almennt frá 1985 til 2008.

Íslendingar eru þó enn í hópi þeirra 10 til 12 vestrænu þjóða sem njóta hvað bestra lífsgæða.

Það sem helst brennur nú á er að bæta enn frekar kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna og efla grunn heilbrigðisþjónustunnar og menntakerfisins, sem veiktust verulega í kreppunni, vegna niðurskurðar.

Einnig hafa húsnæðismálin orðið að sérstaklega miklu vandamáli, einkum fyrir ungar fjölskyldur sem ekki geta keypt og þurfa að stóla á leigumarkað sem býður upp á alltof háa húsaleigu og mikið óöryggi.

Þá eru sérhópa í miklum vanda, svo sem öryrkjar, einstæðir foreldrar, atvinnulausir, eldri borgarar og ungt fjölskyldufólk sem fór illa út úr kreppunni.

Þó furðu vel hafi tekist að hífa þjóðina upp úr feni fjármálakreppunnar, sem var óvenju djúp og alvarleg, eru þannig enn mikilvæg verkefni sem bíða úrlausnar. Fjárhagsþrengingar heimila eru enn of miklar og fólk sem var í erfiðri stöðu fyrir hrun býr nú oft við afar slæm kjör.

Ísland er þrátt fyrir allt komið fyrir vind hvað hagvöxt og atvinnustig snertir, skuldabyrði heimila er að léttast og svigrúm til lífskjarasóknar eykst því á ný.

Það er því ástæða til bjartsýni, ef þjóðin heldur vöku sinni og tryggir að hagvöxturinn skili sér að fullu til almennings –  en ekki bara til fámennrar yfirstéttar.

Ísland er sem sagt ekki ónýtt, eins og sumir segja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.11.2014 - 15:51 - FB ummæli ()

Heilsugeirinn: Er Valhöll alveg sama?

Læknaverkfallið dregst á langinn með alvarlegum afleiðingum. Staða Landsspítalans er afleit og versnar.

Sjálfstæðismenn fara bæði með heilbrigðismálin og fjármálin í ríkisstjórninni. En þeir sýna engin merki um áhuga á að leysa þessi mál, sem eru einhver þau mikilvægustu sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Þeir láta bara reka á reiðanum.

Ég verð var við að sífellt fleiri spyrja sig að því, hvort þetta sé að yfirlögðu ráði, til að greiða fyrir auknu hlutverki einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.

Í Sjálfstæðisflokknum hefur verið mikill stuðningur við aukinn einkarekstur heilbrigðisþjónustu. Það á m.a. rætur í hinni róttæku frjálshyggju, sem fyrirlítur allt sem ríkið gerir og heldur að einkareknir gróðapungar geri alltaf betur.

Þó slíkir aðilar hafi nýlega sett sjálfa þjóðarskútuna á hliðina þá breytir það engu um kreddu frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum.

Þó einkarekna heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum sé um 50% dýrara en þau skandinavísku, sem einnig skila betri árangri, þá breytir það engu fyrir frjálshyggjuróttæklingana.

Meðal yngri frjálshyggjumanna eru frændur okkar í Skandinavíu kallaðir “skandífasistar” af því þeir hafa haft ríkisrekna spítala!

Sáuð þið þetta? Frjálshyggjuróttæklingar í Sjálfstæðisflokki kalla frændur okkar “skandífasista”!

Þessir “hugsjónamenn” í Sjálfstæðisflokknum vilja frekar að Sjóvá reki sjúkrahús, að bandarískri fyrirmynd (sjá hér).

Þeir virðast frekar vilja bandarískt auðræði en skandinavískt lýðræði!

Frjálshyggjuróttæklingarnir eru sem sagt ekki í neinu sambandi við veruleikann, en kyrja trúarofstæki í gríð og erg. Það er dapurlegt, en um leið hættulegt fyrir íslenska þjóð.

Það er því full ástæða til að spyrja, hvort stefna Sjálfstæðismanna sé að láta ríkisreknu heilbrigðisþjónustuna molna enn frekar niður í þeirri von að jarðvegur skapist fyrir aukna einkarekna heilbrigðisþjónustu – að bandarískri fyrirmynd.

Framsókn er þó ekki sama um heilbrigðismálin og forsætisráðherra boðar stórauknar fjárveitingar til þeirra. Vonandi gengur það eftir. Þetta þarf að skýrast sem allra fyrst.

 

Síðasti pistill:  Útgönguskattur eða skaðabætur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.11.2014 - 10:54 - FB ummæli ()

Útgönguskattur eða skaðabætur?

Snjóhengjan svokallaða, kvikar eignir útlendinga hér á landi og kröfur í þrotabú föllnu bankanna, eru eitt stærsta vandamálið sem leysa þarf í tengslum við afnám gjaldeyrishafta.

Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og seðlabankastjórinn Már Guðmundsson hafa lengi bent á að erlendir kröfuhafar þurfi að gefa eftir hluta af krónueignum sínum, annað hvort með afskriftum eða beinni skattlagningu (útgönguskatti).

Þarna er um að ræða hundruð milljarða króna, sem ættu að renna í ríkissjóð og lækka skuldir þjóðarinnar.

Rökin fyrir því að reynt verði að semja við kröfuhafana um slíkt eða setja á þá útgönguskatt eru skortur á gjaldeyri og hættan á nýju hruni krónunnar, sem myndi leggja heimilin í rúst.

Það eru vissulega gild og afar mikilvæg rök.

En það eru einnig önnur rök sem grípa má til.

Kröfuhafar bankanna og þeir fjárfestar sem voru að elta uppi háa vexti á Íslandi ollu þjóðarbúinu gríðarlegu tjóni, með ofurskuldsetningu bankanna og alltof mikilli áhættutöku. Það gerðu þeir í eigin gróðasókn.

Eðlilegt er að þeir hafi mikinn kostnað af þessu tjóni, til viðbótar við það sem orðið er.

Eitt mikilvægt viðmið er beint fjárhagslegt tjón íslenska ríkisins af hruninu. Það nam rúmum 700 milljörðum, eða um 44% af þjóðarframleiðslu, skv. mati AGS-manna (sjá hér).

Annað ekki síðra viðmið er að skuldir ríkisins jukust um rúma 1200 milljarða króna vegna hrunsins, eða um 72% af landsframleiðslu.

Því til viðbótar var svo gríðarleg kjaraskerðing heimilanna og rýrnun eigna þeirra.

Kanski markmið stjórnvalda ætti að vera að ná inn allt að 1200 milljörðum vegna tjónsins sem fjármálabraskið olli íslensku þjóðinni?

Það myndi fara langleiðina með að greiða niður opinberar skuldir ríkisins.

Í öllu falli eru sterk rök fyrir því að ríkið innheimti verulegar fjárhæðir af erlendu kröfuhöfunum vegna þess tjóns sem þeir ollu hér á landi með braski sínu.

 

Síðasti pistill:  Styrmir von Stasi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 20.11.2014 - 14:26 - FB ummæli ()

Styrmir von Stasi

Það vakti mikla athygli þegar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins til áratuga og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, upplýsti að hann hafði stundað njósnir um vinstri menn á Viðreisnarárunum (sjöunda áratugnum).

Uppljóstrarinn sem veitti Styrmi upplýsingar fékk greitt fyrir viðvik sitt og formaður Sjálfstæðisflokksins, ritstjóri Morgunblaðsins og sendiráð Bandaríkjanna (CIA?) fengu upplýsingarnar. Styrmir telur að Bandaríkjamenn hafi lengst af greitt kostnaðinn af starfinu.

Þarna var sem sagt um að ræða samstillta aðgerð milli ritstjórnar Morgunblaðsins (þar sem Styrmir starfaði), forystu Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins og bandaríska sendiráðsins.

Þetta er auðvitað með ólíkindum, eins og Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Fréttablaðsins bendir á í leiðara gærdagsins.

Sjálfstæðisflokkurinn stundaði þó einnig víðtæka upplýsingasöfnun um kjósendur, eins og m.a. kom fram í ævisögu Gunnars Thoroddsen, eftir Guðna Jóhannesson sagnfræðing. Slíkar upplýsingar voru m.a. notaðar til að mismuna vinstra fólki á vinnumarkaði (sjá einnig hér).

Þessi starfsemi virðist hafa miðað frekar að því að styrkja valdastöðu Sjálfstæðisflokksins en að verja lýðræðissamfélagið á Íslandi, eins og Styrmir þó gefur í skyn.

Alþýðubandalagið og forveri þess voru ekki að berjast fyrir endalokum lýðræðis á Íslandi á sjöunda áratugnum, ef ég man rétt, heldur fyrir breyttum áherslum í þjóðmálum, einkum betri kjörum almennings og hlutleysi í alþjóðamálum.

 

Um hverja er njósnað í dag?

Að þessu leyti var njósnastarfsemi Sjálfstæðisflokksins svipuð að eðli og starfsemi Stasi, austurþýsku leyniþjónustunnar. Þetta var starfsemi sem miðaði að því að efla og viðhalda valdastöðu ráðandi stjórnmálaflokks.

Vissulega var Stasi að verja afar ógeðfellt samfélag og ógeðfelldan valdaflokk, með skuggalegum aðferðum, mjög ólíkt því sem var hér á landi. Samt verður ekki framhjá því horft, að Sjálfstæðismenn beittu ólýðræðislegum aðferðum við að efla valdastöðu sína og berja á vinstri mönnum.

Ólýðræðislegar aðferðir stjórnvalda grafa undan lýðræðinu frekar en að verja það og efla.

Það er þó ef til vill þroskamerki fyrir þjóðmálaumræðuna og valdaskiptinguna á Íslandi í dag að Styrmir skuli á næstunni taka við stjórn umræðuþáttar í Ríkissjónvarpinu ásamt Þórhildi Þorleifsdóttur, þekktri vinstri konu á njósnaárum Styrmis.

Vonandi veit það á eitthvað gott í framhaldinu, kanski heilbrigðari þjóðmálabaráttu!

Hins vegar læðist að manni sú kaldhæðnislega hugsun, að verið gæti að Styrmir og félagar hafi njósnað um Þórhildi Þorleifsdóttur og félaga hennar á þessum árum – og kanski gera þeir það enn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.11.2014 - 12:27 - FB ummæli ()

Þróun lífsgæða í Bandaríkjunum frá 1979

Bandaríkin voru draumaland fyrir marga á 19. öldinni og einnig lengst af á þeirri tuttugustu.

Landið þar sem draumar gátu ræst, þar sem fólk gat brotist frá fátækt til bjargálna og notið nútímalegra lífsgæða.

Á þessu varð grundvallarbreyting á síðasta aldarfjórðungi tuttugustu aldarinnar, einkum eftir 1980. Þá fór ójöfnuður að aukast stórlega og inntak ameríska draumsins varð sífellt holara.

Tímamótin eru nátengd auknum áhrifum frjálshyggjustjórnmála, sem ágerðust með tilkomu Ronalds Reagans á forsetastól.

Frjálshyggjan réttlætir aukinn ójöfnuð og berst gegn velferðarríkinu sem jafnar tækifæri og bætir hag lægri stétta. Frjálshyggjan berst einkum fyrir bættum hag þeirra allra ríkustu.

Nú eru Bandaríkin betur þekkt sem land þar sem þeir ríkustu bæta hag sinn stórlega frá ári til árs á meðan millistéttin og lágstéttin standa því sem næst í stað (sjá hér).

Bandaríska lýðræðið og markaðssamfélagið breyttist sem sagt í auðræði, þar sem völd þeirra allra ríkustu eru í vaxandi mæli notuð til að efla auðræðið enn frekar og grafa undan lýðræðinu og velferðarríkinu.

Bandaríkin eru orðin að landi þar sem tekjur þeirra ríkustu aukast í sífellu en aðrir standa í stað eða verr. Spáð er að unga kynslóðin sem nú er muni njóta lakari lífskjara en kynslóð foreldra þeirra. Það yrði nýmæli.

Þekktur hagfræðiprófessor við Berkley háskólann í Kaliforníu, J. Bradford DeLong, skrifaði nýlega grein um þessa þróun og segir einmitt að megnið af hagvextinum í Bandaríkjunum síðan 1979 hafi runnið til þeirra allra ríkustu.

Hagvöxtur á mann jókst um nærri 72% að raunvirði á þremur áratugunum frá 1979 til 2009. Á sama tíma bötnuðu kjör venjulegs fólks lítið sem ekkert. Það eru mögnuð umskipti frá því sem áður hafði tíðkast.

Áhætta hefur einnig aukist, eins og hefur sýnt sig í kreppunni. Millistéttarfólk sem missir vinnuna getur jafnvel misst húsnæði og sjúkratryggingar og endað með fjölskyldu sína á götunni.

Nú er það svo að hægri sinnaðir hagfræðingar hjá OECD og IMF, aðrir en frjálshyggjuróttæklingar, eru farnir að óttast að ójöfnuður grafi undan hagvexti (sjá hér og hér).

Stjórnmálafræðingar benda sömuleiðis á að auðræðið grafi undan lýðræðinu.

Allt hefur þetta afleiðingar sem vega að rótum hins vestræna samfélags, sem áður skilaði flestum miklum tækifærum og raunverulegum lífskjarabata.

Þegar millistéttin hættir að blómstra og lágstéttin á litla von um að komast áfram þá tekur stöðnun við – og síðan breytist stöðnun í hnignun.

 

Síðasti pistill:  Hve lengi skal vinna á efri árum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar