Sunnudagur 25.5.2014 - 09:42 - FB ummæli ()

Nýsköpun – góð stefnubreyting

Ég gagnrýndi það þegar ríkisstjórnin lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp að hún felldi niður áform fyrri ríkisstjórnar um fjárfestingaráætlun til þriggja ára.

Þar voru mörg góð áform um aukið fé til nýsköpunar og rannsókna, með áherslu á þekkingarbúskap og græna hagkerfið. Áhersla var á aukinn fjölda nýrra smáfyrirtækja.

Þetta var verkefni sem Dagur B. Eggertsson stýrði fyrir hönd stjórnvalda og byggði m.a. á samráðum við fólk úr öllum landshlutum (sóknaráætlanir landshlutanna og Ísland 2020 áætlunin, sem að mörgu leyti voru til fyrirmyndar sem vinnubrögð við stefnumótun). Guðmundur Steingrímsson úr stjórnarandstöðunni kom líka að verkefninu.

Núverandi ríkisstjórn blés þetta af í fjárlagafrumvarpi sínu og sagði að þessi áform hefðu ekki verið fjármögnuð. Hækkun veiðileyfagjaldsins nýja átti að greiða hluta kostnaðar.

Nú kemur ríkisstjórnin með þetta til baka og hefur útfært á sinn hátt í aðgerðaráætlun til nokkurra ára. Ríkisstjórnin var þá varla andvíg áformum fjárfestingaráætlunar fyrri stjórnar, heldur vildi setja sitt mark á málið og breyta fjármögnun. „Aðgerðunum er sömuleiðis ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun“, segir í greinargerðinni.

Ég fagnaði því þegar þessi áform um aukna nýsköpun komu fram hjá fyrri stjórn og harmaði það er þau voru blásin af.

En nú er ástæða til að fagna aftur og hæla núverandi stjórn fyrir að koma með þetta til baka.

Fátt er mikilvægara í atvinnulífinu en þróttmikil nýsköpun.

 

Síðasti pistill: Ójöfnuður – Thomas Piketty slær í gegn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.5.2014 - 00:19 - FB ummæli ()

Ójöfnuður – Thomas Piketty slær í gegn

Það er merkilegt að sjá þá miklu athygli sem bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the 21st Century, vekur um allan heim. Bókin fjallar um ójöfnuð eigna og tekna í helstu ríkjum hins þróaða heims, síðustu tvær til þrjár aldirnar. Hún þykir marka tímamót og selst eins og heitar lummur, sem er vægast sagt óvenjulegt fyrir fræðibók.

Það sem einkum vekur athygli eru ný gögn um skiptingu tekna og eigna í löndunum og svo ýmsar niðurstöður og greiningar Pikettys. Sú niðurstaða sem hefur vakið hvað mesta athygli er að ávöxtun eigna þeirra ríkustu eykst alla jafna meira en hagvöxturinn í landi þeirra.

Það þýðir að þeir ríkustu taka til sín sífellt stærri hluta þjóðarauðsins og teknanna í venjulegu árferði. Þeir hafa alltaf forskot á alla aðra. Það helsta sem raskaði þessu á tuttugustu öldinni voru tvær heimsstyrjaldir og kreppan mikla á fjórða áratugnum. En stjórnmál gætu líka skipt máli fyrir framvinduna – ef þeim væri beitt gegn óhóflegri samþjöppun auðsins, segir Thomas Piketty.

Ef fram heldur sem horfir, segir Piketty, þá stefnir í að eignum vestrænna þjóða verði álíka ójafnt skipt milli íbúa landanna og tíðkaðist á 18. og 19. öld. Við erum á leið til miðalda í þessum efnum. Samfélagið breytist þá frá millistéttarsamfélagi til auðræðissamfélags, þar sem fámennur hópur auðmanna á megnið af þjóðaraunum og ræður för samfélagsins í krafti eigna sinna. Tækifæri almennings minnka. Lýðræðið víkur fyrir auðræði.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð tekju- og eignaskiptingin jafnari bæði í Evrópu og Ameríku en verið hafði fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það tímabil, frá um 1945 og fram undir 1980, einkenndist af miklum hagvexti og miklum kjarabótum fyrir almenning, auk þess sem velferðrríkið byggðist hratt upp. Þetta var gullöld blandaða hagkerfisins, ört vaxandi hagsældar og kjarabóta fyrir allan þorra almennings – ekki bara fyrir þá allra ríkustu.

Eitt af því sem Thomas Piketty sýnir er að skattlagning allra hæstu tekna var miklu hærri á þessu sama tímabili en verið hafði bæði fyrir og eftir þann tíma. Fjármálakreppur hurfu einnig að mestu á sama tíma. Allt gekk betur í vestræna kapítalismanum en varð eftir um 1980.

Þarna liggur sú mikilvæga niðurstaða, ein af mörgum hjá Piketty, sem margir grípa nú á lofti. Hún er sú, að mun mikilvægara er að bæta hag almennings en hag þeirra allra ríkustu. Þannig eru framfarir og farsæl virkni samfélags og lýðræðis best tryggð. Þeir ríkustu eru alltaf með forskot á aðra og því þarf að hemja auðsöfnun þeirra, t.d. með skattlagningu, segir Piketty – til farsældar fyrir samfélagið í heild.

Þessi niðurstaða gengur í berhögg við speki nýfrjálshyggjunnar, ekki síst brauðmylsnukenninguna. Sú speki hefur boðað að stjórnvöld eigi að setja auðmenn (fjárfesta og atvinnurekendur) í forgang. Gera allt sem þeir fara fram á. Það magnar hins vegar einungis samþjöppun auðsins, en bætir ekki almennar framfarir eða hagvöxt.

Niðurstaða þessarar stefnu nýfrjálshyggjunnar liggur nú fyrir. Dómur reynslunnar hefur verið upp kveðinn, bæði til skemmri og lengri tíma. Brauðmylsnukenning nýfrjálshyggjunnar virkar alls ekki. Þvert á móti leiðir hún til gríðarlegrar samþjöppunar auðsins í fáum höndum – og stöðnunar eða jafnvel hnignunar í kjörum milli og lægri stétta. Hún leiðir líka til samþjöppunar stjórnmálaáhrifa. Vaxandi auðræði ógnar lýðræðinu.

Piketty sýnir hvernig regla hefur verið í þessari þróun síðustu tvær aldirnar í mörgum löndum.

 

Fyrirlestur Pikettys

Í gær var Thomas Piketty með opinberan fyrirlestur við École des Hautes Etudes en Sciences Sociale í París, sem hann tengist og þar sem ég er gistiprófessor um þessar mundir.

Piketty er ekki bara einstaklega útsjónarsamur rannsóknarmaður, heldur hefur hann skrifað einstaklega aðgengilega og áhugaverða bók um frekar flókið viðfangsefni, sem þó skiptir alla miklu máli. Málsmetandi menn spá því að bók hans muni breyta fræðilegum áherslum í hagfræði og öðrum félagsvísindum í heiminum.

Maðurinn er einnig afar geðþekkur í framkomu og algerlega laus við tilgerð eða hroka, sem stundum einkennir þá sem mikillar velgengni njóta.

Hér að neðan má sjá Thomas Piketty flytja fyrirlestur í New York nýlega um bók sína. Fjórir kunnir hagspekingar taka svo þátt í áhugaverðum umræðum um efni bókarinnar í framhaldinu.

Screenshot 2014-05-22 20.56.47

https://www.youtube.com/watch?v=heOVJM2JZxI

Hér ræðir Bill Moyers efni bókar Thomasar Piketty við Paul Krugman:

Bill Moyers

 

Meira um þetta síðar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.5.2014 - 22:20 - FB ummæli ()

Davíð æfði Lögreglukórinn!

Davíð Oddsson segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hann hafi ekki gert nein mistök í aðdraganda hrunsins og virðist telja sig lausan allrar ábyrgðar á því sem gerðist í íslenskum fjármálaheimi. Hann sver af sér hrunið.

Ekki benda á mig, segir hann, rétt eins og í klassískum texta við lag Bubba Mortens. “Ég var að æfa Lögreglukórinn”!

Samt var hann forsætisráðherra á þeim tíma sem grunnur var lagður að þeirri skipan, stefnu og starfsháttum sem leiddu til hrunsins.

Svo varð hann æðsti yfirmaður íslenska peningakerfisins, sem hrundi til grunna undir hans stjórn!

Hann er einn þeirra sem Rannsóknarnefnd Alþingis sakaði um grófa vanrækslu í starfi sínu sem aðalbankastjóri Seðlabankans, sem einnig varð gjaldþrota undir hans yfirstjórn. Hann brást skyldum sínum.

Tvær nýlegar bækur um hrunið gera ábyrgð Davíðs Oddssonar á hruninu ágæt skil: Hamskiptin – þegar allt varð falt á Íslandi eftir Inga Frey Vilhjálmsson og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson.

Maður getur auðvitað skilið að erfitt sé að horfast í augu við allt þetta sem gerðist. Maður getur líka vorkennt Davíð Oddssyni að hafa látið hugmyndafræðing sinn (HHG) leiða sig svo illa afvega. Þeir félagar töldu sig hafa innleidd íslenskt efnahagsundur, sem í reynd var skelfilegt viðundur.

En afleiðingar rangrar stefnu, lélegrar framkvæmdar og gríðarlegra mistaka lentu á herðum almennings og því er ekki hægt að leyfa Davíð að sverja af sér ábyrgðina sem augljóslega var hans – og raunar annarra líka.

Það er því ekki boðlegt hjá Davíð að segja einfaldlega að hér hafi verið innleiddar sömu reglur og í ESB. Öllu máli skiptir hvernig framkvæmd reglunar, eftirlits og peningastjórnunar var háttað. Davíð fylgdi afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar og það leiddi til hættulegra lausataka í fjármálageiranum, gagnvart braski, áhættu og skuldasöfnun.

Einungis Írar nálguðust okkur í óhóflegri skuldasöfnun og áhættu. Þeir voru að mörgu leyti með sama regluverkið og við (utan þess að þeir eru með Evruna), en eins og hjá okkur skipti framkvæmd stjórnunar og eftirlits mestu máli.

Það var oftrúin á sjálfstýringu hins óhefta markaðar sem leiddi Davíð Oddsson og fylgjendur hans afvega. Gráðugir bankamenn og braskarar nýttu sér það til hins ýtrasta og settu þjóðarbúið á hliðina með algerlega ósjálfbærri skuldasöfnun.

Í starfslýsingu Davíðs Oddssonar og annarra seðlabankastjóra stóð að þeir ættu að vernda og tryggja fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi. Of mikil áhætta og of mikil skuldasöfnun ógnaði fjármálastöðugleikanum – langt umfram það sem var í öðrum löndum.

Þar brugðust Davíð og félagar í einu og öllu, með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.5.2014 - 07:28 - FB ummæli ()

Dagur rís

Ég hef stutt Dag B. Eggertsson til forystu í Reykjavíkurborg.

Ástæðan er sú, að eftir að hafa fylgst með störfum Dags þá hef ég sannfærst um að hann vinnur vel, er góðgjarn og hæfur stjórnandi. Honum lætur vel að vinna með fólki og leita sátta og farsælla málamiðlana.

Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að sjá að kjósendur í Reykjavík virðast í auknum mæli vera að sjá kosti Dags.

Á síðasta ári vildi um þriðjungur kjósenda helst fá Dag sem borgarstjóra. Í byrjun ársins var stuðningur við Dag um 50% og í mars um 55% . En nú vilja um 63% helst fá Dag B. Eggertson sem næsta borgarstjóra.

Þetta er stórsókn hjá Degi.

Öruggasta leiðin til að fá Dag sem borgarstjóra er sú að kjósa Samfylkinguna í Reykjavík, hvort sem menn eru sáttir við stöðu og stefnu flokksins í landsmálunum eða ekki. Fylgi Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur vaxið og möguleikar Dags eru að aukast.

Listi Samfylkingarinnar í Reykjavík er raunar vel skipaður fagfólki sem hefur skilað góðu verki, í bland við kröftuga nýliða (sjá hér). Stefnan er með sterkan velferðarfókus og svarar þörfum borgarinnar fyrir aukna nýsköpun.

Það virðist því alveg óhætt að kjósa Dag og félaga.

 

Síðasti pistill: Vill Bjarni endurtaka mistökin?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.5.2014 - 11:51 - FB ummæli ()

Vill Bjarni endurtaka mistökin?

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, tjáði áhuga sinn á einkavæðingu Landsvirkjunar á ársfundi fyrirtækisins í vikunni.

Það vekur furðu þeirra sem muna hrikaleg mistök er tengjast einkavæðingu bankanna og Landssímans! Eru Sjálfstæðismenn kanski búnir að gleyma hruninu?

Einkavæðing Landsvirkjunar, hvort sem er til lífeyrissjóða eða annarra, er raunar í mikilli mótsögn við margt af því sem Bjarni sagði sjálfur um Landsvirkjun í ávarpi sínu á ársfundinum.

Skoðið til dæmis þetta:

“Það eru forréttindi okkar Íslendinga að eiga og reka fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem nýtir gæði náttúrunnar  á umhverfisvænan hátt í þágu okkar allra.”

“Áhersla Landsvirkjunar nú, á að starfa í sátt við umhverfi og samfélag er til fyrirmyndar.”

“Ég minntist hér áðan á góðan árangur stjórnenda Landsvirkjunar og hið ábyrga markmið þeirra um að bæta skuldastöðu fyrirtækisins.”

En svo kemur þetta:

“Landsvirkjun býr að því að eiga ríkissjóð sem traustan bakhjarl. Það er samt sem áður svo að það er mikilvægt að Landsvirkjun standi til boða alþjóðlega samkeppnishæf kjör án ríkisábyrgðar – og að lokum hljótum við að stefna að því að afnema ríkisábyrgðina.
Hugsanlegt er að liður í að hraða því ferli væri að fá meðeigendur að félaginu.”

Bíðið við! Er það eitthvert sérstakt vandamál að Landsvirkjun njóti betri lánskjara vegna þess að hún er í eigu ríkisins? Má ekki nýta það í þágu almennings?

Hvað kallar á einka(vina)væðingu þegar Landsvirkjun er vel rekið og gott fyrirtæki sem vinnur “í þágu okkar allra”?

 

Varúð! Sjálfstæðismenn vilja einkavæða orkulindirnar

Allir vita að Sjálfstæðismenn voru komnir af stað með einka(vina)væðingu orkulindanna fyrir hrun. Ég nefni t.d. REI-málið og Hitaveitu Suðurnesja. Þar var lagt upp með að færa bröskurum ágóða orkulindanna á silfurfati. Eins og gert var með sjávarauðlindina.

Ekki var það “í þágu okkar allra”!

Bjarni er vel viljaður og geðþekkur maður, held ég. En mótsagnirnar í ofangreindu ávarpi hans minna á hina hættulegu frjálshyggju-kreddu sem hefur heltekið Sjálfstæðismenn. Þeir neita líka að læra nokkuð af fyrri mistökum sínum í einkavæðingu og fjármálastjórn landsins. Þeir vilja heldur ekkert læra af hruninu.

Viðhorfin í Valhöll eru því enn stórhættuleg fyrir þjóðarhag. Á meðan svo er þarf þjóðin að hafa á sér vara gagnvart áformum Sjálfstæðismanna um einkavæðingu orkulindanna og skyld áform.

Er misheppnuð útfærsla kvótakerfisins ekki líka góð áminning um það sama? Áhrifaríkt neyðarkall íbúa Djúpavogs ætti að hringja sömu viðvörunarbjöllunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.5.2014 - 09:14 - FB ummæli ()

Meiri og betri skuldalækkun

Ég hef stutt hugmyndir um lækkun skulda heimilanna. Tel það mikilvæga kjarabót og jákvæða efnahagsaðgerð.

Fyrir því má færa margvísleg rök. Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, leggur áherslu á lækkun skulda heimila í kreppu til að örva hagkerfið til hagvaxtar og vinna betur bug á kreppunni.

Þessi rök finnst mér mikilvægust. Við höfum einmitt mikla þörf fyrir örvun einkaneyslunnar á Íslandi eftir þá miklu kjaraskerðingu sem hrun krónunnar orsakaði.

Ríkisstjórnin notar réttlætisrök (leiðrétting forsendubrests). Það eru tvíbent rök, því erfitt er að draga mörk milli þeirra sem verðskulda leiðréttingu og annarra – svo öllum líki.

Ég er þó ekki sérlega hrifinn af því hvernig ríkisstjórnin útfærir tillögur sínar. Mér sýnist að Sjálfstæðismenn hafi haft of mikil áhrif á það. Verst finnst mér að draga eigi frá þá aðstoð sem heimili fengu frá fyrri ríkisstjórn. Það kemur illa við marga sem enn standa illa. Auk þess máttu aðgerðirnar vera veigameiri.

Ég hefði líka sett eignaþak á skuldaleiðréttinguna, til að aftra því að sterkefnað fólk fái hjálp sem það ekki þarf á að halda.

Ég sé að stjórnarandstaðan leggur áherslu á kostnað af skuldaleiðréttingunni fyrir ríkissjóð. Þó var fundinn nýr skattstofn (þrotabú og fjármálastofnanir) til að fjármagna 80 milljarðana sem úrræði Framsóknar eiga að kosta. Tillögur Sjálfstæðismanna gera svo ráð fyrir að heimilin greiði kostnaðinn sjálf að mestu, með séreignasparnaði sínum.

Ég bendi á að Paul Krugman segir réttlætanlegt að greiða skuldalækkun heimila á krepputíma með almennum skatttekjum. Í því samhengi er ekki ástæða til að gera of mikið úr áhrifum fyrirhugaðra aðgerða á ríkissjóð. Ég gef líka lítið fyrir rök Seðlabankans gegn aðgerðunum.

Fyrri ríkisstjórn féll í kosningunum í fyrra einkum af tveimur ástæðum: heiftarlegri gagnrýni frá stjórnarandstöðu (sem var eldfim í umhverfi kreppuerfiðleika) og vegna þess að heimilunum fannst hún ekki sýna vanda þeirra nægilegan skilning.

Mótrök stjórnarflokkanna fyrri voru þau, að ábyrg fjármálastjórn leyfði ekki meiri aðstoð. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá voru heimilin verulega ósammála því. Þess vegna töpuðu Samfylking og VG svo illa.

 

Betri skuldalækkun

Ég er svolítið hissa á viðbrögðum sömu flokka við skuldaaðgerðum núverandi stjórnarflokka. Þeir halda sig í megindráttum við fyrri rök sín, sem kjósendur höfnuðu eftirminnilega í fyrra, en bæta við umkvörtunum um að aðgerðirnar leysi ekki vanda þeirra sem verst standa.

Það væri án efa betri herfræði hjá stjórnarandstöðunni að styðja skuldalækkunina en fara kröftuglega fram á að þær nái betur til þeirra verr settu, en síður til yfirstéttarinnar. Fara fram á betri útfærslu.

Ég er líka hissa á því að þeir sem eru andstæðingar skuldalækkunar til heimila hafa lítið haft við það að athuga að nærri helmingur skulda fyrirtækja hefur verið afskrifaður (sjá hér). Það eru einungis vasapeningar sem hafa verið hreinsaðir af heimilunum í samanburði við það sem eigendur fyrirtækja hafa fengið.

Það er vissulega samkvæmt forskriftinni að Sjálfstæðismenn skuli vilja skuldaafskriftir hjá fyrirtækjum um leið og þeir mega ekki heyra minnst á neinar aðgerðir til kjarabóta fyrir heimili. Þeir eru jú flokkur fjármálamanna og hátekjuhópa.

En er ekki of langt gengið hjá núverandi stjórnarandstöðu að gera málflutning Sjálfstæðismanna að sínum?

Stjórnarandstaðan ætti að fara fram á betri og jafnvel meiri skuldalækkun til heimila, frekar en að hafna úrræðunum alfarið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.5.2014 - 11:10 - FB ummæli ()

Húsnæðismálin – athyglisverðar nýjar tillögur

Starfshópur félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, hefur skilað af sér athyglisverðum tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.

Húsnæðismálin eru eitt stærsta viðfangsefnið sem núverandi stjórnvöld standa frammi fyrir og því er mikið í húfi að vel takist til um endanlega útfærslu þessara hugmynda.

Megin markmið nýs kerfis þarf að vera, að venjulegt fólk ráði við að kaupa hóflegt húsnæði fyrir fjölskylduna og að tekjulágir og ungt fjölskyldufólk eigi einnig möguleika á því, sem og að geta gengið að leiguhúsnæði með langtíma öryggi á viðráðanlegri leigu.

Talsvert vantar uppá að staðan sé þannig í dag.

Nýju húsnæðiskerfi þurfa því að fylgja alvöru framfarir á þessu sviði og það er möguleiki innan ramma þessara tillagna – en háð útfærslu.

Rammi þessara hugmynda að nýju kerfi er danska kerfið, með jafnvægi milli fjármögnunar og lánveitinga. Lán þurfa þá að vera uppgreiðanleg til upphaflegs lánveitanda.

Hættan við danska kerfið er sú, að markaðsvextir verði of háir og sveiflist of mikið í íslensku verðbólguumhverfi. Verja þarf heimilin fyrir þeirri óvissu, með mildandi öflugum félagslegum þætti (einkum vaxtabótum). Það er sérstaklega mikilvægt fyrir lágtekjuhópa, ungt fjölskyldufólk og landsbyggðarfólk.

Einnig þarf að aftra því að skuldsetning heimila verði of mikil, eins og er í Danmörku. Stjórnsýsla nýja kerfisins þarf því að vera öflug með miklum möguleikum á inngripum til aðhalds og mildandi aðgerða. Ný Húsnæðisstofnun þarf að hafa alvöru getu til þess.

Í tillögunum er einkum gert ráð fyrir nýju kerfi húsnæðisbóta (bæði fyrir eigendur og leigjendur), stofnframlagi og skattaívilnunu til að sinna félagslega markmiðinu að milda, tryggja og jafna aðstæður heimila.

Mestu mun skipta að félagslegar hliðar nýja kerfisins verði nógu öflugar og virki til að taka högg af markaðssveiflum (verðbólgukreppum og of háum markaðsvöxtum) af heimilunum.

Markaðinum einum er ekki treystandi til að sinna húsnæðismálum svo viðunandi sé. Sterkur félagslegur þáttur og öflug stjórnsýsla þurfa því að hafa stórt hlutverk. Það er einn af mikilvægum lærdómum af reynslunni af því, þegar bankarnir fóru inn á húsnæðismarkaðinn árið 2004 – og raunar af bólunni allri og hruninu. Það voru einkabankarnir sem settu húsnæðismálin á hliðina. Banka þarf að vera hægt að hemja, samfélaginu til góðs.

 

Afnám verðtryggingar

Þá er mikið nýmæli fólgið í því að í grunninn verði ný húsnæðislán óverðtryggð. Það er athyglisvert, en því fylgir hærri greiðslubyrði á fyrri hluta lánstíma og meiri sveifluáhætta fyrir afkomu heimila. Höfuðstóll mun hins vegar ekki hækka með verðbólguskotum (sem er afar mikilvæg framför), en greiðslubyrði til skemmri tíma mun hækka með verðbólgu.

Vaxtabótaþáttur í nýju kerfi húsnæðisbóta þarf því að vera sérstaklega öflugur til að taka á of hárri greiðslubyrði og miklum sveiflum. Raunar þarf talsvert öflugra vaxtabótakerfi en nú er. Það þarf því að fjármagna kröftuglega frá byrjun, með auknum framlögum.

Með sterkum félagslegum þætti (húsnæðisbótum, skattaívilnunum og stofnframlögum) er hægt að ná þessum mikilvægu markmiðum. Hvort kerfið verður til góðs mun öðru fremur ráðast af því.

Áhrifaaðilar, t.d. ASÍ og stjórnarandstaðan, þurfa því að styðja við bakið á félags- og húsnæðismálaráðherra í báráttu fyrir félagslega þættinum. Með árangri á því sviði verður um mikið framfaraskref að ræða fyrir heimilin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 3.5.2014 - 12:11 - FB ummæli ()

Ójöfnuður fyrir og eftir hrun

Á vel heppnuðu málþingi í Þjóðminjasafninu í gær flutti ég erindi um þróun tekjuójafnaðar á Íslandi fyrir og eftir hrun, með sérstakri áherslu á hæstu tekjurnar.

Efnið sem ég kynnti kemur úr rannsóknum sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur og ég höfum unnið að á síðustu misserum og munum birta á bók næsta vetur.

 

Aðferðafræði Piketty, Atkinson og félaga

Við byggjum á aðferðafræði sem Thomas Piketty og Anthony B. Atkinson og félagar hafa þróað og notum sambærileg gögn og þeir félagar. Þar er um að ræða skattagögn þar sem allar skattskyldar tekjur eru til grundvallar, en hægt er að greina að einstaka tekjuþætti og áhrif skatta.

Piketty, Atkinson og félagar hafa haft mikil áhrif á rannsóknir á tekjuskiptingu og eignaskiptingu á síðustu árum, nú síðast með nýrri bók Thomas Piketty, Capital in the Twenty First Century, sem er metsölubók um allan heim (sem er mjög óvenjulegt fyrir fræðibók). Þeir hafa einnig sett saman alþjóðlegan gagnabanka um hátekjur (World Top Incomes Database), sem við nýtum okkur.

Íslensku gögnin ná til allra skattgreiðenda en ekki til úrtaks eins og Hagstofurnar nota.

 

Mesta aukning ójafnaðar – en úr jöfnustu stöðu

Þróun tekjuójafnaðar fram að hruni var mjög óvenjuleg á Íslandi. Ójöfnuður jókst hér örar en áður hefur sést í vestrænu samfélagi frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Áður en sú aukning hófst var Ísland með einna jöfnustu tekjuskiptinguna, ásamt hinum norrænu löndunum.

Annað sem var mjög sérstakt hér var að fjármagnstekjur, ekki síst söluhagnaður hlutabréfa og annarra eigna („capital gains“, sem eru hinar eiginlegu brask- og spákaupmennskutekjur), voru mun meiri hér en annars staðar. Þar gætir sérstakra áhrifa stærsta bóluhagkerfis sögunnar, sem hér ríkti frá 1998 og með verulega auknum þunga frá 2003 til 2008.

Lækkuð skattbyrði í hærri tekjuhópum og aukin byrði í lægri hópum jók einnig á ójöfnuðinn á þessum tíma, auk þess sem bætur almannatrygginga drógust aftur úr launum á vinnumarkaði.

Eftir hrun dró svo snarlega úr ójöfnuðinum á ný. Það gerðist vegna minnkunar fjármagnstekna (sem einkum höfðu runnið til allra tekjuhæsta hópsins) og vegna aukinna jöfnunaráhrifa af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum.

Ísland fór frá því að vera með eina jöfnustu tekjuskiptingu Vesturlanda á árunum fram að 1995 og yfir í að verða með þeim ójöfnustu á Vesturlöndum 2005 til 2007, þ.e. þegar allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar (einnig söluhagnaðarhluti fjármagnstekna, sem var óvenju mikill hér). Ef söluhagnaði er sleppt (eins og gert er í könnunum Hagstofu Íslands og Eurostat) þá fór Ísland úr næstefsta í 18. sæti Evrópuþjóða þegar ójöfnuðurinn var orðinn mestur (sjá nánar hér).

 

 Óvenju mikil jöfnun aftur eftir hrun

Frá og með 2010 var tekjuskiptingin aftur orðin svipuð og verið hafði um árið 1999, í byrjun bólutímans. Ísland var þá aftur komið í hóp hinna jöfnustu samfélaga. Samt var tekjuskiptingin enn heldur ójafnari en verið hafði á árunum 1997 og fyrr.

Þessar fordæmalausu sveiflur í umfangi og einkennum ójafnaðar urðu einkum vegna áhrifa bóluhagkerfisins og hrunsins, en einnig vegna stefnu stjórnvalda.

Aukning ójafnaðar fram að hruni varð að tveimur þriðju hlutum vegna verulega aukinna fjármagntekna hátekjuhópanna, en að einum þriðja vegna áhrifa af skatta- og bótastefnu stjórnvalda (sjá hér). Sú þróun gekk svo til baka eftir hrun, í svipuðum hlutföllum.

Myndirnar tvær úr erindi mínu frá í gær sem hér fylgja segja þessa sögu. En við Arnaldur Sölvi Kristjánsson höfum safnað miklu magni af upplýsingum og greiningum sem styðja og styrkja þessar niðurstöður. Við birtum það allt síðar.

Slide1

Aukning ójafnaðarins er mest þegar allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar (svörtu súlurnar), en þó söluhagnaði sé sleppt þá er aukningin einnig mikil (gráu súlurnar – ath. að tiltölulega lítil breyting á Gini stuðlinum felur í sér umtalsverða breytingu á tekjuskiptingunni).

Línan á myndinni sýnir svo áhrif bóluhagkerfisins (spákaupmennskunnar með hlutabréf og aðrar eignir) á ójöfnuðinn. Þau áhrif byrjuðu að aukast eftir 1998 og náðu hámarki á árinu 2007.

Svo er hér að neðan sýnt hvernig hlutur ríkasta eins prósents einstaklinga af heildartekjum þjóðarinnar jókst á Íslandi í samanburði við Bandaríkin.

Athyglisvert er að samdráttur tekna ríkasta eins prósentsins í Bandaríkjunum var mun minni í núverandi kreppu en á Íslandi og þeir ríku þar í landi eru aftur komnir á flug og eru að endurheimta tekjustig sitt frá því fyrir hrun. Þróunin á Íslandi til 2012 var öll önnur.

Athyglisverð spurning er hvort hæstu tekjurnar hér á landi muni aftur fara framúr öllum öðrum eftir að hlutabréfamarkaðurinn fer á flug á ný og önnur eignaverð taka að hækka. Stefna stjórnvalda mun þó  skipta miklu máli um það, ekki síst skatta- og auðlindastefnan.

Slide2

Aukning háu teknanna byrjaði af krafti á Reagan-tímanum í Bandaríkjunum, upp úr 1980, en var örust á bóluárunum (t.d. 1994-2000 og 2003-2007). Hér byrjaði aukning háu teknanna síðar en gekk mun örar fyrir sig en í Bandaríkjunum.

Á árinu 2007 er hámarki var náð var ríkasta eitt prósent Íslendinga með tæplega 20% heildartekna en samsvarandi hópur í Bandaríkjunum var með um 23,5%.

Samspil bóluhagkerfisins, hrunsins og tekjuskiptingarinnar felur þannig í sér mikla og afar óvenjulega sögu.

 

Síðasti pistill: Tekjur ríka fólksins á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.5.2014 - 12:33 - FB ummæli ()

Tekjur ríka fólksins á Íslandi

Bóluhagkerfið á Íslandi sem hófst um 1998 og náði hamarki frá 2003 til 2008 var gríðarleg gósentíð fyrir hátekjufólk á Íslandi. Þetta var stærsta bóluhagkerfi sögunnar.

Tekjur þeirra ríkustu ruku upp úr öllu valdi og urðu með þeim allra hæstu í Evrópu. Þetta má sjá í nýlegum gögnum frá Eurostat, sem sýnd eru á myndinni hér að neðan.

Slide1

Raunverulegar ráðstöfunartekjur tekjuhæsta eins prósentsins í Evrópu-löndum, meðaltal 2005 til 2007 (kaupmáttarjafnað). Heimild: Eurostat (söluhagnaður undanskilinn, en hann var óvenju hár á Íslandi).

Einungis ríka fólkið í Lúxemborg var með hærri ráðstöfunartekjur en ríka fólkið á Íslandi, á hátindi bóluáranna, 2005 til 2007. Ríka fólkið í Sviss var lítillega lægra en kollegar þeirra á Íslandi á þessum tíma.

Samt eru háu tekjurnar á Íslandi meira vantaldar en í hinum löndunum. Hvers vegna voru þær meira vantaldar hér?

Jú, vegna þess að brasktekjur (capital gains – söluhagnaður) voru meiri hér en í nokkru öðru landi. Það var vegna hinnar óvenju stóru spákaupmennskubólu sem hér var og einstakra skattfríðinda hátekjufólks. Einnig virðast íslenskir hátekjumenn hafa notað skattaskjól meira en kollegar þeirra í öðrum vestrænum löndum.

Það hversu margir hátekjumenn græddu gríðarlega á braski bóluáranna skýrir hvers vegna Ísland fór svo illa afvega og hrundi á endanum – hvers vegna þetta gekk svo langt. Hætta er á að of margir vilji endurtaka leikinn á ný. Ofsagróðinn mun áfram freista.

 

Athyglisverð málstofa á morgun í Þjóðminjasafninu

Þetta er meðal efnis sem ég mun fjalla um á ráðstefnu EDDU-Öndvegisseturs í fundarsal Þjóðminjasafnsins á morgun (Ójöfnuður – stærsta mál samtímans?).

Efni mitt er „Þróun háu teknanna á Íslandi – fyrir og eftir hrun“.

Dagskráin er mjög athyglisverð, ekki síst fyrirlestur Bandaríkjamannsins Jason Beckfield sem mun spyrja hvort samfélag jafnaðarins heyri nú sögunni til í Evrópu.

Þá fjalla Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg um viðhorf til ójafnaðar í Evrópu og á Íslandi.

Málþingið er í fundarsal Þjóðminjasafnsins kl. 14 á morgun, föstudag. Málþingið fer fram á ensku.

Allir eru velkomnir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.4.2014 - 00:07 - FB ummæli ()

Ójöfnuður – stærsta mál samtímans?

Screenshot 2014-04-29 23.17.09

Áhugaverð málstofa í HÍ á föstudag

EDDA – Öndvegissetur, í samstarfi við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, stendur fyrir opnu málþingi um þróun ójafnaðar í nútímanum, föstudaginn 2. maí, kl. 14-17 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Málþingið fer fram á ensku.

Ójöfnuður hefur verið að aukast í vestrænum samfélögum frá um 1980 og er nú víða orðinn eitt stærsta viðfangsefni þjóðmálaumræðunnar. Fræðimenn og alþjóðlegar stofnanir hafa kortlagt þróunina og stjórnmálamenn láta sig málið varða í auknum mæli.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði nýlega að ójöfnuður væri stærsta mál samtímans. Kreppan hefur víða aukið ójöfnuð og fátækt. Nýjar bækur um ójöfnuð frá höfundum á borð Joseph Stiglitz og nú síðast frá Thomas Piketty vekja mikinn áhuga.

Tilefni málstofunnar er heimsókn ungs prófessors frá Harvard háskóla í Bandaríkjunum, Jason Beckfield, sem vinnur að rannsókn á þróun ójafnaðar í Evrópu. Jason Beckfield mun fjalla um hvort samfélag jafnaðar heyri nú sögunni til í Evrópu.

Auk Jasons Beckfields munu Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands, Sigrún Ólafsdóttir dósent við Boston Háskóla og Jón Gunnar Bernburg prófessor við Háskóla Íslands flytja erindi. Stefán fjallar um þróun ójafnaðar á Íslandi fyrir og eftir hrun, en Sigrún og Jón Gunnar fjalla um viðhorf íbúa Evrópu til ójafnaðar.

Málþingið er öllum opið.

Hér er dagskráin.

 

Síðasti pistill: Dvöl við Parísarháskóla

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.4.2014 - 14:31 - FB ummæli ()

Dvöl við Parísarháskóla

logo_ehess

Í maí og júní verð ég gistiprófessor við Parísarháskóla. Nánar tiltekið verð ég í L’Ecole des Hautes Etudes en Sciences Sociales (EHESS).

Þetta er hinn eiginlegi “háskóli félagsvísindanna” í Frakklandi, hluti af topp skólum Frakka (les Grand Écoles), þar sem allir helstu félagsvísindamenn þeirra hafa verið, frá einum tíma til annars (Bourdieu, Touraine, Braudel, Febvre, Levi-Strauss, Boudon, Aron, Piketty – svo örfáir séu nefndir).

Ég verð þar í boði prófessors Philippe Urfalino, sem er stjórnandi í CESPRA (Centre D’ Études Sociologiques et Politiques Raymond Aron) og Rannsóknarráðs Frakklands (CNRS). EHESS er einnig nátengdur SciencesPo, sem er helsta vígi stjórnmálafræðinnar í París.

Ég mun flytja þrjá fyrirlestra í tveimur námskeiðum og að auki einn opinberan fyrirlestur í fyrirlestraröð EHESS. Hér að neðan er auglýsing á opinberum fyrirlesti mínum í EHESS. Ég mun þar fjalla um leið Íslands út úr kreppunni.

Vikuna áður flytur hagfræðingurinn Thomas Piketty opinberan fyrirlestur í sömu fyrirlestraröð um bók sína Capital in the Twenty-First Century, sem hefur slegið í gegn í heiminum undanfarið.

Thomas Piketty er einn þeirra mörgu merku fræðimanna sem tengdir eru EHESS og verður gagnlegt að hitta hann í návígi.

Verk okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings um tekjuskiptingu á Íslandi byggja m.a. á aðferðum sem Piketty hefur þróað í samvinnu við Anthony B. Atkinson (sem er í mínum gamla skóla, Nuffield College við Oxford háskóla) og Emmanuel Saez við Berkley háskólann í Kaliforníu (sjá hér). Við Arnaldur Sölvi verðum væntanlega tilbúnir með bók um efnið í haust.

Þetta verður sannkölluð veisla fyrir félagsvísindamann frá Reykjavík.

 

Kynning á opinbera fyrirlestrinum mínum:

Fyrirlestur EHESS

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.4.2014 - 18:23 - FB ummæli ()

Ólíkar afskriftir skulda heimila og fyrirtækja

Skuldaleiðréttingin hefur verið stærsta mál stjórnmálanna, bæði á fyrra kjörtímabili og núna.

Það er því fróðlegt að skoða hversu mikið hefur verið afskrifað af skuldum heimila í samanburði við skuldaafskriftir sem eigendur  fyrirtækja hafa fengið.

Nýlegar tölur frá Seðlabankanum benda til að skuldaafskriftir til fyrirtækja séu nú orðnar um níu sinnum meiri að vöxtum en skuldaafskriftir sem heimilin hafa fengið (sem % af landsframleiðslu).

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Skuldaafskriftir heimila og fyrirtækja

Umfang skulda fyrirtækja og heimila fyrir og eftir afskriftir og umfang afskrifta. (Heimild: Seðlabanki Íslands)

 

Fyrirtækin skulduðu mest um 384% af landsframleiðslu í upphafi kreppunnar. Það voru einmitt skuldir fyrirtækjanna og bankanna sem settu Ísland á hliðina með hruninu (en ekki flatskjáir heimilanna!).

Eftir gríðarlegar skuldaafskriftir voru skuldir fyrirtækja í lok síðasta árs komnar niður í 142% af landsframleiðslu.

Það er sem sagt búið að afskrifa um 63% af skuldum fyrirtækjanna, hátt í tvo þriðju skuldanna. Mörgum heimilum þætti væntanlega gott að fá slíkan lúxus?

Þetta eru nærri tvær og hálf landsframleiðsla sem búið er að losa af fyrirtækjunum (242% af landsframleiðslu).

 

Litlar afskriftir hjá heimilum

Skuldir heimila urðu hæstar um 134% af landsframleiðslu en voru komnar niður í um 105% í lok síðasta árs.

Það er einungis búið að afskrifa eða greiða niður um 22% af skuldum heimilanna – á móti 63% af skuldum fyrirtækja (sem voru miklu meiri að vöxtum en skuldir heimila).

Það er einungis um 28% af einni landsframleiðslu sem heimili hafa fengið.

Afskriftum er því mjög misjafnlega skipt milli heimila og fyrirtækja. Vægast sagt.

Í þessu samhengi er því mjög undarlegt hversu mikil andstaða er nú gegn skuldaleiðréttingu til heimila, bæði innan Sjálfstæðisflokks og jafnvel einnig meðal stjórnarandstöðuflokka.

Fyrirtæki hafa losnað við um 4000 milljarða af skuldum. Beinn kostnaður við áformaða nýja skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar nemur einungis um 80 milljörðum (utan séreignasparnaðarins sem heimilin borga sjálf).

Svo segir Seðlabankinn að skuldaleiðréttingin til heimilanna stefni stöðugleikanum í voða. Ofurafskriftir til fyrirtækja eru hins vegar ekki taldar stefna neinum stöðugleika í voða!

Er ekki eitthvað rangt við þetta allt?

 

Síðasti pistill: Útrásin – myndir Sigurþórs Jakobssonar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.4.2014 - 13:53 - FB ummæli ()

Útrásin – myndir Sigurþórs Jakobssonar

Hrunið er einn stærsti viðburðurinn í lífi þjóðarinnar til þessa. Það á eftir að verða lengi til umfjöllunar, í þjóðmálaumræðu og á vettvangi fræða. En stórviðburðir þjóða rata líka inn í listina, stundum meira eftir því sem lengra frá líður.

Myndlistarmaðurinn Sigurþór Jakobsson hefur gert athyglisverð myndverk um efnið. Myndmál Sigurþórs er skýrt og beinskeytt og vel til þess fallið að miðla upplifunum og vekja upp hugmyndir.

Hér eru tvær myndir Sigurþórs frá árinu 2008 sem hann hefur góðfúslega veitt mér leyfi til að birta hér á síðunni. Þær eru um útrásina í aðdraganda hrunsins og það sem henni fylgdi.

Útrásin

Kjötbitinn

 

Sigurþór birti nýlega  bók með skemmtilegum myndverkum sínum, meðal annars skondnum myndum af fótboltamönnum.

Gleðilega páska!

 

Síðasti pistill: Útvarpsstjóri slær í gegn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.4.2014 - 20:27 - FB ummæli ()

Útvarpsstjóri slær í gegn

Magnús Geir Þórðarson kemur sterkur inn í embætti útvarpsstjóra á RÚV.

Hann virðist hafa heilbrigð sjónarmið og mikinn metnað fyrir hönd Ríkisútvarpsins.

Það hefur vakið athygli hversu rösklega hann gengur til verks og skiptir að mestu um framkvæmdastjórn miðilsins á einu bretti, yngir upp og fjölgar konum í æðstu embættum.

Ekki síður hefur það vakið athygli að honum virðist takast að framkvæma breytingarnar á farsælan hátt. Varla er hægt að segja að hann sé að ráða stórpólitískt fólk í lykilstöður, eins og stöðu fréttastjóra. Margir óttuðust slíkt, en þar tekur við ung kona sem virðist hafa ágætt faglegt tilkall til embættisins. Kröftugur menningarmaður verður dagskrárstjóri á Rás 1.

Það er að heyra að starfsfólk sé almennt ánægt með umskiptin og fyrri stjórnendur, eins og fyrrverandi fréttastjóri, munu í einhverjum tilvikum gegna öðrum verkefnum á vegum RÚV.

Vonandi boðar þetta góðan og þróttmikinn rekstur á Ríkisútvarpinu öllu. Það er stofnun sem þjóðin metur mikils og sem skiptir miklu máli. Keppinautarnir skipta auðvitað líka miklu máli og vonandi búa stjórnvöld þeim viðunandi samkeppnisstöðu til framtíðar.

Í lokin langar mig að koma á framfæri einni tillögu til nýrra tæknistjórnenda á RÚV, frá dyggum áhorfanda. Í útsendingum sjónvarpsins er full mikill munur á styrkleika hljóðs, milli talmáls og hljóðstefa. Þannig eru t.d. hljóðstef í fréttum of hátt stillt miðað við talmálið á milli. Væri ekki hægt að jafna þetta svolítið?

Einnig er hljóðið á auglýsingatímum of hátt stillt miðað við almennan útsendingarstyrk.  Miklar sveiflur í hljóðstyrk í útsendingunni eru svolítið amatöralegar – a.m.k. í samanburði við erlendar stöðvar…

 

 Síðasti pistill: Hólmsteinn fúskar um fátækt

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.4.2014 - 12:42 - FB ummæli ()

Hólmsteinn fúskar um fátækt

Hannes Hólmsteinn Gissurarson endurprentaði nýlega nokkra helstu smellina úr ófrægingarherferð sinni gegn mér frá síðustu sjö árunum.

Heldur er það nú hlægilegt – eða öllu heldur “Hólmsteinslegt”!.

Einna efst á blaði er sú staðhæfing hans að ég hafi gert mistök í fjölmiðlaumræðu um fátækt á árinu 2003.

Forsaga þess máls er sú, að ég gerði rannsókn ásamt öðrum á umfangi, einkennum og þróun fátæktar á Íslandi frá 1986 til 1998. Birti niðurstöðurnar í skýrslu og fræðilegri grein erlendis og einnig í bókinni Íslenska leiðin, sem kom út árið 1999.

 

Fátækt var bannorð í ríki Davíðs

Þetta var á stjórnartíma Davíðs Oddssonar. Sá ágæti maður kunni því hins vegar illa að talað væri um að fátækt væri að finna á Íslandi. Ég hafði verið í ágætu sambandi við forystu Sjálfstæðisflokksins áður, ráðlagði þeim m.a. um túlkun kannana fyrir kosningarnar 1995. Með greinaskrifum mínum um fátækt ári síðar féll ég hins vegar umsvifalaust í mikla ónáð hjá Davíð og hirð hans allri. Lét það þó ekki á mig fá.

Síðar braut ég aftur af mér gagnvart hirð Davíðs með því að standa að útgáfu merkrar bókar Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi, vorið 2003. Hending réð því að bókin kom út skömmu fyrir þingkosningarnar, en hún var send í prentun einfaldlega þegar hún var tilbúin. Átti raunar að vera komin út talsvert fyrr.

Þetta tóku hirðmenn Davíðs sem mikla og skipulagða herferð gegn honum og beinlínis ærðust af heift – jafnvel þó útkoman hafi alls ekki verið Íslandi neitt sérstaklega óhagstæð! Það einfaldlega mátti ekki tala um fátækt í ríki Davíðs. Hannes Hólmsteinn hefur til dæmis ekki enn getað hætt að tala um þessi miklu “drottinsvik” (eins og líka sést af bloggi hans frá síðustu viku)!

Hin meintu mistök mín eiga að hafa verið þau, að hafa dregið þá hóflegu ályktun, að á tímabilinu frá 1986 til 1998 hafi fátækt verið „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænu þjóðunum“, enda var velferðarkerfi frænda okkar þá viðameira og örlátara en okkar. Sú ályktun stendur þó enn óhögguð fyrir það tímabil – og á raunar einnig við um nútímann.

Löngu seinna birti Hagstofan tölur úr könnun fyrir árið 2004 sem bentu til að þá væri það sem kallað er “afstæð fátækt” svipað á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Það var raunar í ágætu samræmi við niðurstöður mínar frá fyrra tímabilinu, enda benti ég á að fátækt hefði verið minnkandi á Íslandi frá 1986 til 1998, einkum meðal eldri borgara.

Framhald þeirrar þróunar til 2004 hefði einmitt að öðru óbreyttu átt að færa okkur nær hinum norrænu þjóðirnar um árið 2004-5, miðað við þessa mælingu (sem þó er alls ekki sú eina sem máli skiptir og alls ekki sú mikilvægast).

Síðan hefur Hannes gert mikið úr því að ég hafi tekið til máls um fátækt á árinu 2003 í dagblaði, með athugasemd við erindi Sigurðar Snævarr, sem augljóslega vanmat fátæktina, eins og raunar kom fram í fyrirvara Sigurðar sjálfs. En Hannes horfir auðvitað framhjá því að mynd sem ég birti með þeirra athugasemd vísaði til áranna 1997 til 1998 – en ekki til 2004, eins og hann hefur þó ítrekað gefið í skyn.

 

Fátækt er fjölþætt fyrirbæri – krefst fjölþættra mælinga

Almennt veit Hannes Hólmsteinn lítið um rannsóknir á fátækt, aðferðafræði eða niðurstöður og hann fylgist heldur ekki með á því sviði. Hann hefur aldrei gert neina rannsókn á fátækt á Íslandi. Hann hefur alltaf haft meiri áhuga á hugmyndafræði og ríka fólkinu, eins og almennt er um nýfrjálshyggjumenn.

Í nýlegri fræðilegri grein um fátækt á Íslandi, sem Guðný Björk Eydal prófessor og ég ritum í bókinni Þróun velferðarinnar 1988-2008, bendum við á að fátækt er fjölþætt fyrirbæri sem kallar á fjölþættar mælingar. Það er engin ein mæling sú eina rétta. Afstæð fátækt sem mikið er notuð af hagstofum er alls ekki án galla og heldur ekki sú mikilvægasta. Birtum við því nokkrar ólíkar mælingar á fátækt á Íslandi í greininni.

Skemmst er frá því að segja að ólíkar mælingar gefa svolítið ólíkar niðurstöður. Almenna niðurstaðan er þó sú, að í seinni tíð hefur fátækt á Íslandi verið í átt að því sem hefur verið á hinum Norðurlöndunum og þar með er hún með minna móti á heimsvísu. Þó ýmsar traustar vísbendingar séu um heldur meiri fátækt hér á landi er ekki ástæða til að vera með nein gífuryrði um það. Munurinn er almennt lítill.

Forsætisráðuneyti Geirs Haarde gekkst t.d. fyrir úttekt á fátækt barna á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin fyrir árið 2004, sem birt var árið 2006 (sjá hér). Þar var niðurstaðan sú að fátækt væri meiri á Íslandi en hjá frændþjóðunum. Það var í nokkru ósamræmi við könnun Hagstofunnar sem síðar var birt og náði einnig til ársins 2004. Hannes hefur auðvitað ekki áhuga á slíkum flækjum.

Hann hefur heldur ekki ráðist að Geir Haarde fyrir að birta árið 2006 skýrslu í nafni forsætisráðuneytisins sem sagði að fátækt barna væri meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum!

 

Nýrri gögn um fátækt á Íslandi og Norðurlöndum

Ég hef svo á bloggi mínu birt nýrri tölur um fátækt sem snerta viðfangsefnið að mörgu leyti betur en fyrri gögn sem tiltæk hafa verið. Þau gögn benda mörg til þess að fátækt sé í seinni tíð og sérstaklega í kreppunni meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Heldur meiri. Við erum samt í góðum félagsskap í þeim efnum, þó betur megi vissulega gera til að draga úr fátækt hér á landi.

Fyrri myndin hér að neðan sýnir tölur frá OECD fyrir árið 2005. Þar eru sýndar jafngildar ráðstöfunartekjur lágtekjufólks í OECD-ríkjunum (þ.e. kaupmáttur rauntekna þeirra tíu prósenta heimila sem lægstar tekjur hafa). Þetta segir miklu meira um afkomu lágtekjufólks í ólíkum löndum en tölur um afstæða fátækt.

Niðurstaðan er ótvírætt sú, að lágtekjufólk á Íslandi hafði lægri ráðstöfunartekjur og kaupmátt en sambærilegir hópar á hinum Norðurlöndunum árið 2005 (grein um það hér).

Mynd 1: Raunverulegur kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD-ríkjum árið 2005 (miðað er við þau 10% heimila sem lægstar tekjur hafa). (Heimild: OECD Growing Unequal?, 2008)

Hannes Hólmsteinn hélt því einnig gjarnan fram fyrir nokkrum misserum að fátækir í Bandaríkjunum væru með miklu betri lífskjör en fátækir á Norðurlöndum. Tölur OECD ganga þó þvert á það! Kaupmáttur ráðstöfunartekna fátækra í Bandaríkjunum var mun lakari en á Norðurlöndunum öllum, þar með talið á Íslandi, eins og sjá má á myndinni.

Seinni myndin er svo með nýleg gögn frá Eurostat er gefa einnig mun ábyggilegri mynd af stöðu fátækra en tölur um afstæða fátækt einar og sér. Þarna má sjá í hve miklum mæli fátækir (þeir sem eru undir afstæðum fátækramörkum) eiga erfitt með að láta enda ná saman í daglegum útgjöldum heimilisins (grein um það hér).

Mynd 2: Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks (þeirra sem eru undir fátæktarmörkum) á Norðurlöndum, 2004 til 2011. Miðað er við 60% fátæktarmörk. Súlurnar sýna hlutfall þeirra sem eru undir fátæktarmörkum sem segjast “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman”. (Heimild: Eurostat).

Á árinu 2004 var umtalsvert stærri hluti fátækra heimila á Íslandi sem átti í erfiðleikum með að láta enda ná saman en á hinum Norðurlöndunum (20% hér á móti 8-14% þar). Það skánaði svo á bóluárunum en fjárhagsþrengingar jukust svo fyrir alla hér á landi eftir frjálshyggjuhrunið. Myndin sýnir það með skýrum hætti og svo hefur staðan heldur skánað á ný á allra síðustu misserum.

Fjárhagsþrengingar lágtekjufólks hafa verið meiri á Íslandi öll árin frá 2004 til síðustu ára. Kanski það skipti máli fyrir mat á fátækt?

Miðað við þessar nýju tölur virðist mín hóflega ályktun frá 1999, um að fátækt sé heldur meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum best lýsa stöðunni enn þann dag í dag. Þó má einnig finna dæmi um einstaka þætti fátæktarmála sem eru í betra horfi hér á landi en hjá frændum okkar. Til dæmis er félagsleg útskúfun minni hér vegna betra atvinnuástands til lengri tíma (þ.e. utan verstu kreppuáranna).

Þeir sem vilja fjalla um fjölþætt viðfangsefni eins og fátækt þurfa að horfa á alla þætti sem máli skipta og byggja niðurstöður sínar á margvíslegum gögnum, en ekki bara einni hagstærð.

Hannes Hólmsteinn hefur aldrei haft áhuga á að kryfja staðreyndir um fátækt á Íslandi. Í fyrstu var hann í hópi þeirra sem vildu þagga niður alla umræðu um fátækt á Íslandi og síðar reyndi hann fyrir sér með ófrægingum um gömul skrif mín og nýrri skrif Hörpu Njáls, með einföldunum, afbökunum og hártogunum – en umfram allt með ósannindum.

Þannig er háttur fúskara og áróðursmanna.

Hannes hefur líka fúskað mikið um ójöfnuð. Ég mun fjalla nánar um það síðar.

 

Síðasti pistill:  Húsnæðiskostnaður – merk skýrsla Hagstofunnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar