Sunnudagur 28.1.2018 - 08:33 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn gegn þjóðinni!

Sjálfstæðismenn fara offari gegn RÚV þessa dagana, eins og oft áður.

Nú tala þingmenn þeirra opinskátt um að þrengja þurfi að RÚV og taka það af auglýsingamarkaði. Þeir vilja skilgreina hlutverk þess upp á nýtt og draga úr starfsemi þess – skerða tekjurnar (sjá hér og hér).

Svo vilja þeir drekkja fjölmiðlum í auglýsingum á tóbaki og áfengi! Telja að það muni bæta menninguna og hollustuna.

Hér áður fyrr voru Sjálfstæðismenn hallir undir íhaldssemi, þjóðrækni og heilbrigða lífshætti. En ekki lengur. Nú er það sjálfgræðisstefna fámennrar yfirstéttar og peningaplokk sem öllu ræður.

Almenningur gefur þó lítið fyrir þetta „garg“ Valhallarvíkinga og vill halda í öflugt RÚV.

Í nýlegri könnun á viðhorfum þjóðarinnar til RÚV kom þetta fram með afgerandi hætti (sjá hér).

Tæp 73% voru jákvæð gagnvart RÚV en aðeins um 10% neikvæð – hinir voru hlutlausir. Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem afstöðu tóku teljast um 88% almennings (18 ára og eldri) vera jákvæð gagnvart RÚV.

Tæplega 70% telja RÚV mikilvægasta fjölmiðil þjóðarinnar. Um 74% vilja ekki taka RÚV af auglýsingamarkaði. Um 86% segjast ekki vilja lækka tekjur RÚV.

Pælið í þessu! Sjálfstæðismenn eru í algerri andstöðu við þjóðina.

RÚV skiptir þjóðina greinilega miklu máli.

Á þá að láta Sjálfstæðismenn komast upp með aðför að RÚV, þegar þeir eru fulltrúar viðhorfa sem mjög lítill minnihluti þjóðarinnar styður?

Það væri ansi mótsagnarkennt! Og getur auðvitað ekki orðið ef hér er virkt lýðræði.

Hins vegar má vel létta undir með einkareknum fjölmiðlum, til að efla starfsemi þeirra. Margir þeirra eiga erfitt uppdráttar.

Raunar ætti að efla alla íslenska fjölmiðla – í þágu íslenskrar menningar og þróttmeira lýðræðis. Þeir eru í harðnandi samkeppninni við erlenda miðla og efnisveitur hvers konar.

Þetta mætti gera með því að hafa alla fjölmiðla í lægra vsk-þrepi, með matvælum. Eða með beinum stuðningi við innlenda framleiðslu fréttaefnis, fróðleiks og leikins efnis.

Það eru ekki markaður og áfengisauglýsingar sem verja og efla íslenska menningu, heldur lýðkjörið ríkisvald og þjóðin sjálf.

Markaður, áfengis- og tóbaksauglýsingar gera okkur bara að léttvægri hjáleigu við ameríska (ó)menningu.

Kanski við ættum að skera úr um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Það er í öllu falli ófært að láta minnihlutann kúga meirihlutann!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.1.2018 - 11:34 - FB ummæli ()

Lök eignastaða millistéttarinnar á Íslandi

Í bók okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi, er mikil umfjöllun um tekju- og eignaþróun íslensku millistéttarinnar og annarra tekjuhópa, bæði til lengri og skemmri tíma.

Þar kemur meðal annars fram að heldur hefur fjarað undan millistéttinni í seinni tíð, bæði í tekjum og eignum.

Hrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið fór verr með þá tekju- og eignaminni en þá eignamestu í íslenska samfélaginu.

Margir halda að þær miklu eignir sem til urðu á bóluárunum í aðdraganda hrunsins hafi allar verið froða sem einfaldlega hvarf.

Það er mjög rangt.

Mikið af eignum þeirra eignamestu varðveittist og þær eignir eru nú farnar að skila vaxandi fjármagnstekjum til eigenda sinna á ný. Það fleytir hátekjuhópunum framúr venjulegu vinnandi fólki – eins og mikil brögð voru að á áratugnum að hruni.

Forskot stóreignamanna, sem Thomas Piketty útskýrði í frægri bók sinni frá 2014, gildir líka á Íslandi. Mestu eignirnar vaxa alla jafna örast í venjulegu árferði.

Við megum búast við að sjá enn aukna samþjöppun eignarhalds á næstu árum og áratugum, að öðru óbreyttu.

 

Athyglisverðar upplýsingar í Morgunblaðinu í dag

Í Morgunblaðinu er í dag greint frá athugun sem Creditinfo gerði fyrir blaðið. Þar er vísbending um að 1000 manns eigi 98% allra hreinna eigna í íslensku atvinnulífi. Pælið í því!

Tíu eignamestu einstaklingarnir eiga nærri þriðjung alls eiginfjár sem einstaklingar eru skráðir fyrir í atvinnulífinu. Aðeins tíu einstaklingar.

Það er sem sagt þegar orðin mjög mikil samþjöppun eigna á Íslandi – eins og við skýrum á ýmsa vegu í bókinni. Eignaskiptingin hér á landi er mjög ójöfn – líka í samanburði við önnur vestræn lönd.

Eignir þessara eignamestu einstaklinga í landinu munu vaxa hraðar en atvinnutekjur og húsnæðiseignir venjulegs vinnandi fólks – ef fram fer sem horfir.

 

Mikil samúð með stóreignafólki

Staða millistéttarinnar er sem sagt ekki nógu góð. Eignamyndun í íbúðarhúsnæði er of hæg, m.a. vegna of hárra vaxta og verðtryggingarinnar til lengri tíma. Staða lægri stéttarinnar er svo auðvitað enn verri.

Og afar lök staða ungs fólks sem er að stofna fjölskyldur boðar ekki gott til framtíðar. Það fólk – og lágtekjufólk almennt –  þarf að geta komist áfram og orðið að alvöru millistétt.

Kanski við ættum að skoða þessi mál nánar.

Manni finnst stundum að það sé meiri meðaumkun með auðmönnum á Íslandi en með fátæku fólki og tekjulágum almennt – og það sama gildir um millistéttina.

Eftir fjölmörg ár með gríðarlegri eignamyndun og miklum arðgreiðslum til eigenda útgerðanna er nú efst á baugi að lækka veiðileyfagjaldið. Það stendur í stjórnarsáttmálanum og málafylgjumenn eru komnir á fullt að réttlæta það.

En það er ekki hægt að auka við í barnabótum til ungra foreldra sem einnig mæta ógnarháum húsnæðiskostnaði á markaði. Það má heldur ekki auka vaxtabætur sem hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði – jafnvel þó húsnæðisverð sé í hæstu hæðum.

Á húsnæðismarkaði eru eignamennirnir (fjárfestar svokallaðir) í óða önn að hækka bæði kaupverð íbúða og húsaleigu enn frekar. Það eykur arðsemi eiginfjár þeirra.

Eignamönnum gengur allt í haginn á húsnæðismarkaðinum – en flest er þar öndvert hagsmunum ungs fjölskyldufólks.

Í Bandaríkjunum gengur ríkustu 10 prósentunum allt í haginn (og sérstaklega ríkasta eina prósentinu), en hin 90 prósentin standa í stað eða dragast afturúr. Þannig hefur það verið í meira en 30 ár.

Viljum við festast í sama farvegi með okkar samfélag?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.12.2017 - 14:33 - FB ummæli ()

Samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ég ræddi við Egil Helgason í Silfrinu í dag um bókina Ójöfnuður á Íslandi, sem kom út nýlega og er eftir mig og Arnald Sölva Kristjánsson. Egill var með góðar spurningar þannig að samræðurnar veita ágæta innsýn í efni bókarinnar. Hér má sjá og heyra samræður okkar:

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/vidtal-1-stefan-olafsson

Á heimasíðu bókarinnar má svo finna meira kynningarefni um bókina, meðal annars glærur með myndum og efnispunktum. Sjá hér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.11.2017 - 10:27 - FB ummæli ()

Ójöfnuður á Íslandi – kynning

Í gær kom þessi nýja bók úr prentun. Hún fjallar um mikilvæga þætti í íslenska samfélaginu.

Á föstudaginn 1. desember verður hún kynnt í Norræna húsinu.

Allir velkomnir!

Smellið hér til að fá nánari upplýsingar um bókina.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.11.2017 - 11:28 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið: Hvers vegna var það veitt?

Hið fræga símtal Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde veitir engin svör við því, hvers vegna þetta umdeilda lán var veitt.

Raunar gerir símtalið það enn tortryggilegra, vegna þess að í símtalinu kemur fram að það hjálpi Kaupþingi einungis í 4-5 daga og að Davíð telji engar líkur á að það fáist endurgreitt (sjá hér).

Veð í dönskum fjárfestingabanka í yfirstandandi fjármálakreppu hlaut að vera ótraust. Enda stóð sá banki þá þegar á brauðfótum eins og margir fjárfestingabankar og síðar var hann leystur upp.

Seðlabankinn mátti á endanum þakka fyrir að fá einhver verðmæti út úr þessu veði – en þjóðin tapaði þó um 30 milljörðum þegar upp var staðið.

Lánveitingin var ákveðin í þessu símtali nærri hádegi mánudaginn 6. október. Geir flutti hrunræðuna í sjónvarpi um fjórum stundum síðar. Neyðarlögin voru sett um kvöldið. Landsbankinn var fallinn fyrir opnun daginn eftir.

Menn voru búnir að sitja maraþonfundi í Ráðherrabústaðnum alla helgina á undan til að leita leiða til að bjarga bönkunum. Niðurstaðan á sunnudagskvöld var sú, að ekkert væri hægt að gera. Hrunið var þá orðið fyrirséð, enda undirbúningur að setningu neyðarlaganna þegar hafinn.

Ef menn lesa ræðu Geirs Haarde þá er líka algerlega óskiljanlegt að það skuli hafa verið til umræðu fyrr um daginn að veita þetta lán (sjá ræðuna hér).

Hvers vegna henda menn um 80 milljörðum króna inn í hít væntanlegs bankahruns – ef ljóst er að það bjargar engu, heldur frestar falli Kauþings í besta falli um 4-5 daga?

Þetta var restin af gjaldeyrisforða þjóðarinnar, andvirði nýs Landsspítala og Sundabrautar segir Geir í símtalinu. Engir smá peningar. Og það var brýn þörf fyrir þessa peninga í annað.

Í framhaldinu var t.d. óvíst hvort hægt væri að flytja nauðsynjar til landsins (lyf, eldsneyti o.fl.) – einmitt vegna gjaldeyrisskorts.

Ef þessu fé hefði ekki verið kastað á bálið hefði neyðarlánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hinum norrænu þjóðunum ekki þurft að verða jafn stórt.

Hvers vegna var þetta lán þá veitt, með þeim hætti sem varð?

Símtalið veitir engin svör við því. Það gerir þennan gjörning reyndar enn óskiljanlegri en hann var fyrir. Þetta var ákvarðanataka í fáti og fumi, eins og það birtist í símtalinu.

Var þetta til að kaupa tíma? Og þá fyrir hverja? Og til hvers?

Það er aldrei rætt hvert þessir peningar áttu að fara. Hvernig þeir áttu að skipta máli í bankanum? Hvaða mikilvæga hlutverki þeir áttu að gegna? Hverju þeir áttu að bjarga?

Það hefur heldur aldrei verið skýrt með fullnægjandi hætti hvar þessir peningar enduðu.

Af hverju er það ekki gert? Þetta var fé almennings.

Það á að vera hægt að rekja allar greiðslufærslur frá Kaupþingi þessa örlagaríku daga…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.11.2017 - 21:08 - FB ummæli ()

Veik staða Sjálfstæðismanna

Það verður fróðlegt að sjá hverjar verða niðurstöður samninga milli VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ekki síst vegna þess að samningsstaða Sjálfstæðisflokksins er veik.

Helsti möguleiki Sjálfstæðismanna á annarri stjórnarmyndun er með Framsókn, Miðflokki og Flokki fólksins. En Sigurður Ingi hefur þegar hafnað þeim kosti.

Án Framsóknar getur ekki orðið af honum. Og raunar yrði það veikur kostur af ýmsum ástæðum.

Á meðan VG og Framsókn makka saman, eins og þau hafa gert til þessa, þá hafa þau öll trompin á hendi.

Ef þau ná ekki nógu miklu af sínum málum fram gegn Sjálfstæðisflokknum þá eiga þau enn þann ágæta valkost að fara í 4-5 flokka mið-vinstri stjórn.

VG og Framsókn geta því farið fram af mikilli ákveðni í samningaviðræðum við Sjálfstæðismenn.

Ef menn ætla að fara vel út úr stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðismönnum þurfa þeir að koma sínum málum fram af krafti – svo eftir verði tekið.

Annars bíður þeirra “svört framtíð”…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.11.2017 - 09:23 - FB ummæli ()

Tríó-stjórn: Katrín í lykilstöðu

Nú er Framsókn búin að blása af fjögurra flokka mið-vinstri stjórn.

Sjálfsagt telur forysta Framsóknar að hún hafa þar með greitt fyrir myndun þriggja flokka stjórnar D+B+V.

Það er hugsanlegt – en ekki líklegt. Framsókn gæti allt eins hafa spilað sig út í horn.

Ekki síst vegna þess að Sigurður Ingi tók líka illa í fjögurra flokka hægri stjórn (D+B+M+F), sem reyndar yrði erfið samsetning af ýmsum ástæðum.

Mun vænlegra er fyrir VG að fara í þriggja flokka stjórn með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki en að fara í draumastjórn Framsóknar (sjá hér).

Katrín er í lykilstöðu um að hvernig tríó-stjórn verður reynd – með Framsókn eða Samfylkingu. Ég held ekki að Miðflokkur Sigmundar Davíðs komist á dagskrá í þessu samhengi.

Ég reiknaði upphaflega með að Sáttastjórn D+V+S kæmist ekki á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi í desember.

En kanski er bara komið að því að V og S láti reyna á hversu langt þau geta komist með Sjálfstæðisflokkinn í innviða og velferðarmálum.

Þau verða að taka fast á Sjálfstæðismönnum í slíkum samningum. Setja Evrópumálin í bið en fá alvöru umbætur í stjórnarskrármálinu í staðinn. Og hækkun auðlindagjalda.

Það þarf að kosta einhverju til að fá sáttastjórn sem heldur…

Ef Sjálfstæðismenn taka hins vegar engin alvöru skref til móts við S og V þá má aftur snúa sér til Framsóknar og vinna áfram með mið-vinstri kvartett eða kvintett!!

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.11.2017 - 22:08 - FB ummæli ()

Panama-prinsar í frí?

Ég er líklega orðinn of svartsýnn þegar íslensk stjórnmál eru annars vegar.

Hafði enga trú á að það myndi ganga að mynda þá stjórn sem nú er unnið að, fjögurra flokka stjórn á miðju og vinstra megin.

Þess vegna lagði ég til það sem ég hélt að gæti komið á dagskrá í desember eða janúar, það er að VG og Samfylking færu með Sjálfstæðisflokki (sjá hér)!

En ég vona svo sannarlega að þetta gangi vel.

Og að Panama-prinsarnir fái verðskuldað leyfi frá stjórnarsetu.

Nú ef þetta gengur ekki hjá Katrínu þá kemur hinn kosturinn áfram til álita…

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.10.2017 - 13:57 - FB ummæli ()

Sáttastjórn?

Stærstu einstöku sigurvegarar kosninganna eru Sigmundur Davíð, Logi Einarsson og Inga Sæland – og flokkar þeirra.

Miðflokkurinn bætir mestu við sig (10,9%), þá Samfylkingin (6,4%) og Flokkur fólksins (3,4%). VG bæta við sig 1% en allir aðrir tapa fylgi. VG nær mun minni árangri en kannanir gáfu von um.

Mestu tapa Píratar (-5,3%) og svo Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn (-3,8% hvor flokkur).

Þingflokkum fjölgar og atkvæðin dreifast meira en áður.

Forsendur fyrir myndun vinstri stjórnar eru afar veikar (þyrfti 4-5 flokka) og fyrir hægri stjórn (þyrfti 4 sundurlausa eða jafnvel 5 flokka).

Fátt er því um góða kosti ef litið er á málið frá sjónarmiði hægri eða vinstri stjórna.

Reynslan af fráfarandi stjórn gefur tilefni til að óttast um áframhaldandi upplausn og óstöðugleika í heimi stjórnmálanna.

 

Ný leið: Sátt hægri og vinstri afla?

Eini möguleikinn á þriggja flokka stjórn er að VG fari með Sjálfstæðisflokki í stjórn og þá kemur til greina að hafa annað hvort Samfylkingu, Framsókn eða Miðflokk með.

Sennilega er eina raunhæfa vonin um að fá VG í samstarf við Sjálfstæðisflokk að Samfylkingin kæmi með sem þriðji flokkurinn. Það yrði ásættanlegra innanhúss í búðum VG-fólks.

Mér sýnist að margt mæli með slíku samstarfi við þessar aðstæður.

Saman gætu VG og Samfylking veitt frjálshyggjuöflunum í Sjálfstæðisflokki alvöru mótvægi. Þau hafa samningsstöðu. Þau gætu samið um alvöru átak í velferðar- og innviðamálum.

Það þyrfti að fela í sér umtalsverða aukningu fjármuna og meiri hraða í byggingu nýs Landsspítala sem og í aðra heilbrigðisþjónustu. Þau gætu líka haldið aftur af frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og menntamálum.

Þetta ætti einnig að ná til hækkunar frítekjumarks ellilífeyris vegna atvinnutekna strax upp í 109 þúsund og hækkun barna- og vaxtabóta sem nýtist ungu fjölskyldufólki best, en það er sá hópur sem fór einna verst út úr hruninu og býr nú að auki við einstaklega erfiðan húsnæðismarkað.

Aðstæður í efnahagslífinu eru góðar um þessar mundir og hægt að taka fé úr ríkisbönkunum til fjárfestinga, sem léttir af rekstrarútgjöldum ríkisins. Hægt er að gera mikið af góðum og brýnum hlutum án þess að hækka skatta á almenning (lágtekju- og miðtekjufólk).

Þá er einnig hugsanlega hægt að bjóða upp á einhverja skattalækkun með hækkun persónuafsláttar (skattleysismarka) sem yrði gott innlegg til að efla félagslegan stöðugleika og tempra launaþrýsting á vinnumarkaði.

Loks gæti svona stjórn bætt umtalsvert í umhverfis- og mannréttindamál almennt, sem er mikilvægt viðfangsefni.

Það er mikilvægt fyrir bæði VG og Samfylkingu að fá að stjórna við góðar aðstæður í samfélaginu. Síðast stjórnuðu þau við skelfilegar aðstæður hrunsins og var refsað fyrir það með mjög ósanngjörnum hætti.

 

Vænlegast fyrir Bjarna og Sjálfstæðismenn

Fyrir Sjálfstæðisflokk er líka margt gott í slíku samstarfi, sem minnir á Nýsköpunarstjórn Ólafs Thors sem sat frá 1944 til 1947. Sú stjórn innleiddi afar stór og mikilvæg framfaramál (almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu og menntamál, nýsköpun í atvinnulífi o.fl.). Hún var ein af merkustu ríkisstjórnum 20. aldarinnar.

Þriggja flokka stjórn er traustasti grundvöllur stjórnarsamstarfs sem Bjarni Benediktsson á kost á við þessar aðstæður. Að vinna með Miðflokki og Framsókn á sömu skútu getur orðið erfitt eftir djúpan klofning Framsóknar og svo þarf að bæta við óþjálum kostum eins og Viðreisn eða Flokki fólksins í 4-flokka pakka. Það yrði ósamstæð og fallvölt stjórn.

Bjarni lagði jú áherslu á að “trausta og öfluga flokka” þyrfti til samstarfs, ef menn vilja stöðugleika.

Sjálfstæðismenn þyrftu sjálfir að hemja æstustu frjálshyggjuöflin í sínum röðum til að koma þessu í gegn, en það eru einmitt þau öfl sem eyðilögðu “gamla Sjálfstæðisflokkinn” og færðu okkur hrunið og ójöfnuð áratugarins fram að hruni. Það er því rík ástæða til að setja þau öfl til hliðar.

Sem leiðtogi slíkrar sáttastjórnar myndi Bjarni skipa sér veglegan sess í stjórnmálasögunni, sem maður sátta og víðsýni.

Bjarni er reyndar geðþekkur maður og því er leiðtogum VG og Samfylkingar engin vorkunn að fara í samstarf við hann – að því gefnu að þau semji skynsamlega um málefni og fjármagn.

Evrópumál á hins vegar að setja til hliðar en stefna í staðinn á umbætur í stjórnarskrármálinu.

Sáttastjórn hægri og vinstri aflanna er augljóslega vænlegasti kosturinn sem nú býðst.

Hún yrði einnig gott framlag til að efla traust á stjórmálunum í landinu.

En áður en þessi kostur kemst á dagskrá þarf líklega að fara í gegnum möguleika á vinstri eða hægri stjórnum…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.10.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn snúa baki við séreignastefnu

Sú var tíðin að séreignastefna í húsnæðismálum var ein helsta skrautfjöðrin í stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Það var á eftirstríðsárunum og stóð til þess tíma er nýfrjálshyggjan varð allsráðandi í flokknum.

Séreignastefna í húsnæðismálum höfðaði sérstaklega vel til millistéttarinnar í samfélaginu, sem var mjög vaxandi á þessum árum.

Það skapaði Sjálfstæðisflokknum sterka stöðu og gerði flokknum kleift að ná um 40% fylgi og jafnvel meiru en það í Reykjavík þegar best lét. Aðrir flokkar höfðu enga samsvarandi áherslu í húsnæðismálum sem gekk jafn vel í jafn  stóra hópa kjósenda.

Enda féll séreignastefnan vel að sjálfstæðislínunni og gömlu áherslunni á slagorðið “stétt með stétt”. Það var þá.

Eftir að tími Davíðs og nýfrjálshyggjunnar rann upp, einkum frá og með 1995, breyttist þetta allt saman.

Flokkur Davíðs og Hannesar hafði einkum áhuga á óheftum markaði og hagsmunum yfirstéttarinnar. Millistéttin var ekki lengur sérstakt viðmið og markmið – heldur fjárfestar og fyrirtækjamenn.

Í samræmi við það hafa Sjálfstæðismenn í seinni tíð barist gegn öllum ríkisafskiptum af húsnæðismarkaði og beinlínis grafið undan opinberum stuðningi við kaup ungs fjölskyldufólks á íbúðarhúsnæði.

Þetta kemur hvað best fram í þróun þess stuðnings sem stjórnvöld hafa veitt ungu fólki til húsnæðiskaupa með greiðslu vaxtabóta, sem í reynd niðurgreiða óhóflegan vaxtakostnað vegna íbúðakaupa.

Þessa þróun má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir hve stór hluti vaxtabætur voru af vaxtakostnaði heimila. Þetta er góð vísbending um breytilegan stuðning stjórnvalda á þessu sviði.

Mynd 1: Stuðningur stjórnvalda við kaup ungs fólks á íbúðarhúsnæði Niðurgreiðsla vaxtakostnaðar vegna íbúðakaupa. (Heimild: Hagstofa Íslands)

 

Myndin sýnir hvernig opinber stuðningur minnkaði frá ári til árs á Davíðs-tímanum, frá 1996 til 2007. Fór frá því að ríkið greiddi um 27% af vaxtakostnaði að meðaltali niður í 13% árið 2007.

Lágtekjufólk fékk meira en meðaltalið, því vaxtabæturnar voru og eru tekju- og eignatengdar. Þetta hefur því verið sérstaklega mikilvægur stuðningur við ungt fjölskyldufólk sem oft er í lægri og milli tekjuhópum.

Vaxtabæturnar gerðu fleirum kleift að eignast íbúðarhúsnæði og hafa virkað afar vel (sjá hér).

Vinstri stjórn Samfylkingar og VG stórjók svo vaxtabæturnar frá 2009 til 2012, til að létta ofurþungri skuldabyrði af heimilunum í kreppunni, í kjölfar nýfrjálshyggjuhrunsins.

Stuðningurinn hefur svo farið hraðminnkandi frá 2013 til 2016, eftir að Sjálfstæðismenn komust aftur til valda.

Árið 2016 var þessi stuðningur við íbúðakaup ungs fjölskyldufólks orðinn minni en nokkrum sinnum fyrr, eftir að vaxtabótakerfið kom til sögunnar, eða einungis um 7% af vaxtakostnaði.

Á sama tíma er húsnæðisverð orðið hærra en nokkrum sinnum fyrr! Pælið í því…

 

Hverjir styðja nú séreignastefnu og húsnæðismál ungs fólks?

Miðað við ofangreind gögn er ljóst að Samfylkingin og VG snéru algerlega við stefnu Sjálfstæðisflokksins á þessu sviði, frá 2009 til 2012.

Í kosningabaráttunni nú hefur Samfylkingin lofað að tvöfalda vaxtabætur og barnabætur og sýnt vilja til að efla einnig stuðning við leigjendur. VG boða svipaða línu.

Sjálfstæðisflokkurinn skilar hins vegar auðu – að mestu leyti.

Í staðinn eru hin “frjálsu” leigu- og braskfélög markaðarins í sérstöku uppáhaldi hjá Sjálfstæðisflokknum, en það eru einmitt þau sem hafa keyrt upp húsnæðisverð og leigu úr öllu hófi (t.d. Gamma Capital ehf. og Almenna leigufélagið).

Sjálfgræðisstefna Sjálfstæðisflokksins nær sem sagt nú orðið einungis til yfirstéttarinnar – en millistéttin er úti í kuldanum.

Þarna er því heilmikið tækifæri fyrir velferðarflokkana á vinstri væng og miðju til að hasla sér völl á þessu sviði.

Viðhorfakannanir sýna að þeir sem leigja gera það oftast af illri nauðsyn og þá til skemri tíma. Þegar börn koma til sögunnar verður fýsilegra að eiga.

Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði mun því áfram vera lykilþáttur í velferð ungs fjölskyldufólks.

Þeir stjórnmálaflokkar sem styðja kröftuglega viðleitni til að koma sér þaki yfir höfuðið munu uppskera víðtækan stuðning kjósenda í framtíðinni – og kanski líka á laugardaginn!

 

Síðasti pistill:   Skattbyrði tekjuhópa frá 1992 til 2015

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.10.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Skattbyrði tekjuhópa frá 1992 til 2015

Menn hafa rætt nokkuð um skattbyrði undanfarið. Ekki er allt rétt sem sagt er um það mál.

Hægri menn kenna vinstri flokkum um miklar hækkanir á skattbyrði almennings og segjast sjálfir standa fyrir skattalækkanir. Það er vægast sagt villandi, eins og sýnt verður hér að neðan.

Vinstri menn segjast vilja auka útgjöld hins opinbera til góðra og brýnna málefna og lofa að hlífa lægri og milli hópum við aukinni skattbyrði. Er það raunhæft?

 

Svona þróaðist skattbyrðin

Myndin hér að neðan sýnir hvernig skattbyrði tekjuhópa þróaðist frá 1992 til 2015. Við erum með 3 tekjuhópa: lágtekjufólk (lægstu tíu prósent framteljenda), miðtekjufólk og hátekjufólk (tekjuhæstu tíu prósentin).

Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra og sýna greidda beina skatta eftir álagningu, að teknu tilliti til allra löglegra frádráttarliða (persónuafsláttar, barnabóta, vaxtabóta, iðgjalda í lífeyrissjóði o.fl.).

Hér má sjá að skattbyrði lágtekjufólks jókst mikið frá um 1995 til 2004, hélst svo svipuð til hruns.

Í tíð Jóhönnu og Steingríms lækkaði hún í fyrstu en hækkaði svo lítillega aftur eftir að kaup tók að hækka frá og með 2011, án þess að persónuafslátturinn (skattleysismörkin) hækkaði nógu mikið samhliða. Síðan hækkaði skattbyrði lágtekjufólks meira frá 2014 til 2015.

Svipað mynstur er á hækkun skattbyrðinnar hjá miðtekjuhópnum. Nema hvað umfang hækkaðrar skattbyrði þeirra var ekki jafn mikið og hjá lágtekjufólkinu.

Mesta breytingin varð þó hjá hátekjufólki. Þar lækkaði skattbyrðin stórlega frá 1995 og alveg til 2007. Hátekjufólk greiddi að meðaltali um 33% af heildartekjum sínum í beina skatta árið 1995 en hafði lækkað í um 17% árið 2007.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði hæstu tíu prósentanna aftur, bæði vegna minnkandi fjármagnstekna (sem nutu lægri skattbyrðar en atvinnu- og lífeyristekjur) og vegna aukina álagningar á hærri tekjur og miklar eignir (endurupptaka hátekjuskatts og nýi auðlegðarskatturinn).

Skattbyrðin hjá hátekjufólkinu fór í fyrstu aðeins upp fyrir það sem hæst hafði verið um 1995 en lækkaði svo frá 2013 til 2015.

 

Hverjir hækkuðu og hverjir lækkuðu skattbyrðina?

Myndin sýnir glögglega að skattbyrði lágtekju- og miðtekjufólks hækkaði einkum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (2005-2007 og 2013-2016) , en lækkaði aðeins í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms (2009-2013).

Samt fóru hægri menn, Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð offari í gagnrýni á vinstri stjórnina og sögðu hana hafa hækkað skattbyrði “almennings” meira en hundrað sinnum!

Vissulega hafa þessir aðilar fundið fyrir skattahækkunum frá 2009 til 2013, enda hækkaði skattbyrði hátekju- og stóreignafólks umtalsvert þá, sem og skattbyrði fyrirtækja.

En skattbyrði millitekju- og lágtekjuhópa lækkaði á þeim tíma.

Kanski vinstri menn geti endurtekið þennan leik ef þeir komast í stjórn eftir næstu kosningar?

Það ætti raunar að vera auðvelt að framkvæma mikið af góðum málum þá, meðal annars með losun eiginfjár ríkisbankanna og hóflegri aukningu skatta á auðlindarentu, erlenda ferðamenn og allra hæstu tekjur og eignir.

Það eru sem sagt Sjálfstæðismenn sem eru mesta skattaógnin fyrir lágtekju- og miðtekjufólk, allan þorra almennings.

Tekjuskattslækkanir Sjálfstæðisflokksins virðast eingöngu hafa verið fyrir hátekjufólk.

 

Síðasti pistill: Lífeyrismál – lofað og svikið á víxl.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.10.2017 - 10:52 - FB ummæli ()

Lífeyrismál – lofað og svikið á víxl

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er mjög viðkunnanlegur maður. En það er lítið byggjandi á loforðum sem hann gefur lífeyrisþegum.

Ég minnist þessa ekki að nokkur íslenskur stjórnmálamaður hafi lofað eldri borgurum umtalsverðum kjarabótum og svikið þau loforð jafnhratt aftur.

Fyrir kosningar 2013 sendi Bjarni bréf til allra eldri borgara og sagðist ætla að afnema tekjutengingar ellilífeyris (sjá hér og hér).

Það var ansi stórt loforð – sem aldrei var efnt.

Skömmu fyrir kosningar í október í fyrra setti ríkisstjórn Bjarna ný lög um ellilífeyri, sem tóku gildi 1. janúar á þessu ári. Þá voru tekjutengingar auknar en hvorki lækkaðar né afnumdar, eins og lofað var.

Þar til í desember 2016 máttu eldri borgarar hafa 109 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði án þess að það skerti lífeyri TR.

Þetta var aflagt 1. janúar 2017. Það var mikil afturför og gerði það mun ófýsilegra fyrir eldri borgara með lágar lífeyristekjur að vinna með lífeyristökunni, til að bæta hag sinn.

Í staðinn var sett eitt almennt frítekjumark upp á 25 þús. kr. Flestir lífeyrisþegar fá einhverjar tekjur úr lífeyrissjóðum og eru fljótir að nýta þetta almenna frítekjumark upp í topp fyrir lífeyrissjóðstekjurnar.

Þetta þýðir að lífeyrir TR er þá í flestum tilvikum skertur frá fyrstu krónu vegna atvinnutekna (þ.e. hjá þeim sem hafa 25 þús. eða meira frá lífeyrissjóði eða í fjármagnstekjur).

Því til viðbótar var skerðingarhlutfallið hækkað úr um 39% í 45% (þessar breytingar á lífeyriskerfinu eru skýrðar nánar hér).

Fyrir flesta var frítekjumarkið fyrir atvinnutekjur því sem næst afnumið og skerðingin að auki hert í byrjun þessa árs.

Lífeyrisþegar voru betur settir hvað þetta snertir í september 2008 – fyrir um tíu árum síðan (þá máttu þeir hafa 30.000 kr. í atvinnutekjur án þess það skerti lífeyrinn – og 30.000 krónur voru mun verðmætari þá en nú er).

 

Það sem afnumið var í janúar er nýtt kosningaloforð í september

Ég sá í fjölmiðlum fyrir skömmu að Bjarni Benediktsson segist nú ætla að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir eldri borgara, upp í 100 þúsund krónur.

Það er kynnt sem mikil framför. Stór sigur sem í vændum sé.

Í fjárhagsáætlun fráfarandi ríkisstjórnar Bjarna Ben. til næstu 5 ára var gert ráð fyrir að það myndi taka 5 ár að hækka frítekjumarkið aftur upp í 100 þús. (eða um 90% af því sem það var í desember sl.).

Kanski menn lofi því nú í kosningavímunni að gera þetta á skemmri tíma!

Þetta virðast forystumenn Sjálfstæðisflokksins telja miklar framfarir.

Þeir rýra kjörin fyrst og lofa svo að bæta um 90% af því aftur á næstu 5 árum (hækka frítekjumarkið upp í 100 þúsund í stað 109 þúsunda).

Hvers virði eru loforð þess sem hefur boðið eldri borgurum upp á aðra eins hringekju loforða og svika og Bjarni Benediktsson hefur gert síðan 2013?

 

Er ellilífeyrir að hækka mikið um þessar mundir?

Hinar auknu skerðingar lífeyris TR vegna annarra tekna, sem tóku gildi um síðustu áramót, voru réttlættar með því að verið væri að hækka lífeyri TR umtalsvert. Og vissulega hækkaði lífeyririnn fyrir marga.

Þannig fara Sjálfstæðismenn yfirleitt að í velferðarmálum: þeir hækka með annarri hendinni en lækka um leið með hinni!

Ef lífeyrisgrunnurinn er hækkaður þá skerða þeir meira á móti vegna annarra tekna – svo eldri borgarar og öryrkjar fái ekki of mikið út úr kjarabótinni! Þannig hefur þetta oft verið.

Óskertur lífeyrir almannatrygginga (það sem þeir fá sem ekki hafa aðrar tekjur umfram 25 þús. kr. á mánuði) var hækkað í 280 þúsund um áramótin síðustu (fyrir einstakling sem býr einn; fyrir skatt).

Nú er svo talað um að á næsta ári hækki þessi lífeyrir TR í 300 þúsund – og er það sögð mikil hækkun.

En er það sérstaklega mikil hækkun?

Þeir sem hafa fylgst með vita að verið er að láta óskertan lífeyri almannatrygginga fylgja lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Á þessu ári og svo aftur á því næsta.

Verið er sem sagt að leyfa samsvarandi hækkun á lífeyri og varð á lægstu launum í kjarasamningunum.

Er það eitthvað sérstaklega metnaðarfullt fyrir eldri borgara?

Ónei! Ekki myndi ég segja það (þó auðvitað sé það skárra en að vera áfram um 5% lægri en lágmarkslaunin).

Þeir sem eru á lægsta launataxta á vinnumarkaði eru skólafólk í hlutastörfum og innflytjendur sem verið er að níðast á. Venjulegt íslenskt verkafólk er með um 55-60% hærri laun fyrir 40 tíma vinnuviku – það er meðaltal reglulegra verkamannalauna. Nær væri að miða hámark lífeyris TR við þá tölu – til fulls eða að hluta.

Þetta hefur verið það skásta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi talið að sé verjandi að bjóða lífeyrisþegum TR að hámarki – það sama og er í lægsta launataxtanum.

Það hefur reyndar verið basl á köflum að láta lífeyri TR hanga í lægsta launataxtanum – sérstaklega þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan sem sýnir hvernig óskertur lífeyrir hefur þróast frá 1990 til samtímans, sem hlutfall af lágmarkslaunum.

Hér má sjá að árið 1991 var lífeyrir almannatrygginga um 9% hærri en lægsti launataxtinn á vinnumarkaðinum.

Síðan dróst lífeyririnn afturúr jafnt og þétt og náði botni árið 2001, þegar lífeyririnn var aðeins um 88% af lægsta launataxta. Þetta var á Davíðs-tímanum.

Árin 2002 og 2003 hækkaði hann svo aftur upp í 99-100% af lágmarkslaunum, eftir mikla baráttu Öryrkjabandalagsins undir forystu Garðars Sverrissonar og Samtaka eldri borgara undir forystu Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis.

Lífeyririnn dróst svo afturúr á ný á árinu 2008, í aðdraganda hrunsins, en hækkaði myndarlega í byrjun árs 2009 – og varð þá hærri miðað við lágmarkslaun en nokkurt annað ár síðan 1990 (15% hærri). Hann var 10% hærri 2010 og 2011 en lækkaði svo aftur uns botni var náð í 95-96% af lægstu launum á árunum 2015 og 2016.

Hinar “miklu hækkanir” á lífeyri almannatrygginga á þessu ári og því næsta eru sem sagt til þess að ná aftur þeirri stöðu að lífeyrir verði jafn lægsta launataxtanum á ný.

Það er allur sigurinn.

Það er allt örlætið sem réttlætti þá einstaklega óskynsamlegu aðgerð að afnema því sem næst frítekjumarkið vegna atvinnutekna.

 

Síðasti pistill:  Allt rétt sem ég sagði um skatta

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.8.2017 - 12:31 - FB ummæli ()

Allt rétt sem ég sagði um skatta

Í gær var birt ný skýrsla ASÍ, Skattbyrði launafólks 1998-2016.

Þetta er mikilvæg skýrsla fyrir almenning, enda sýnir hún hvernig þróun skattkerfisins og velferðarbóta hefur verið óhagstæð lægri og milli tekjuhópum.

Ég hef skrifað mikið um þessi mál á síðusta áratug (sjá t.d. hér og hér) og féll í mikla ónáð hjá Sjálfstæðismönnum og talsmönnum fyrirtækja og fjármála – helstu valdaöflum samfélagsins.

Stofnað var til sérstakrar herferðar gegn skrifum mínum og lagt í viðamikla útgerð til að skaða mannorð mitt, með alls konar lygum og afbökunum.

Ástæðan var sú, að ég sýndi að um leið og skattbyrði hátekju- og stóreignafólks var stórlega lækkuð frá 1995 til 2007 þá var skattbyrði lægri og milli tekjuhópa aukin umtalsvert. Þetta var stjórnvöldum óþægilegt og varpaði skugga á arfleifð Davíðs Oddssonar, sem hafði sagt fólki að ríkisstjórnir hans væru að lækka skatta allra.

Þetta er ömurleg saga sem ég nenni þó ekki að rifja upp núna.

Nú fær ég hins vegar uppreista æru mína því þessi ágæta skýrsla ASÍ endurtekur margar af fyrri niðurstöðum mínum og skýringum sömuleiðis.

Ég átti svo sem alltaf von á að staðreyndirnar kæmust í gegn á endanum!

Inn í skýrslu ASÍ vantar hins vegar umfjöllun sem tengist fjármagnstekjum og áhrifum þeirra á heildarskattbyrði hátekjuhópanna.

Þróun skattbyrðarinnar var nefnilega þannig, að um leið og skattbyrði lágtekju- og millihópa hækkaði fyrir hrun þá stórlækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa, ekki síst fyrir áhrif aukinna fjármagnstekna sem báru mun lægri skatta en atvinnutekjur launafólks.

Vinstri stjórnin 2009-2013 rétti þetta að nokkru leyti af á stjórnartíma sínum, en síðan hefur sigið til sömu áttar á ný.

Nettóþróunin á tímabilinu frá 1998 til 2016 var sú, að milli og lægri tekjuhópar hafa þurft að taka á sig auknar byrðar, langt umfram hæstu tekjuhópana.

Ætla má að þetta nýja innlegg ASÍ um þróun skattbyrðar launafólks (þ.e. um þróun álagningar, presónuafsláttar, vaxtabóta, barnabóta o.fl.) muni koma inn í kjarabaráttu launafólks á næstunni.

Það er ekki nóg að hækka kaup ef aukin skattbyrði og minnkandi stuðningur velferðarkerfisins étur upp ávinning af launahækkunum kjarasamninga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.8.2017 - 16:20 - FB ummæli ()

Arður eykst – en vaxtabætur lækka og lækka

Á síðustu árum hafa fjármagnstekjur, einkum arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja, aukist umtalsvert.

Á sama tíma hafa vaxtabætur til húsnæðiskaupenda stórlækkað og þeim sem þær fá hefur stórfækkað. Sjá um þetta t.d. hér og hér.

Vaxtabætur eru nú einungis um þriðjungur af því sem mest var árin 2010-2011.

 

Hverjir hagnast?

Þetta er gott fyrir stóreignafólkið og fjárfestana sem eiga fyrirtækin – en afleitt fyrir ungt fólk sem stendur í íbúðakaupum.

Á sama tíma hefur íbúðaverð stórhækkað og er nú hærra en nokkrum sinnum fyrr.

Vaxtabætur niðurgreiða kostnað við íbúðakaup og skiptu ungt fjölskyldufólk miklu máli hér áður fyrr. Þær eru nú lægri en nokkru sinni fyrr.

Þeim sem fá vaxtabætur hefur að auki fækkað um 30 þúsund manns frá 2010.

Pælið í því!

Það gerðist á sama tíma og verðið fór upp úr öllu valdi.

Stjórnvöld virðast ekki vilja gera neitt til að létta undir með ungu fjölskyldufólki sem hættir sér út á húsnæðismarkaðinn og vill freista þess að eignast húsnæði.

Þau tala bara um að fjölga íbúðum – en ungt fólk hefur ekki efni á að kaupa (sjá hér).

Hafa Sjálfstæðismenn alveg snúið baki við séreignastefnunni í húsnæðismálum?

Hugsa þeir nú orðið bara um hag byggingaverktaka og fjárfestanna í Gamma og víðar?

Svo virðist vera…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.7.2017 - 11:45 - FB ummæli ()

Flott ný plata frá Bubba

Bubbi Mortens hefur nýlega sent frá sér plötuna Tungumál (sjá hér).

Bubbi hefur í gegnum tíðina verið einstaklega skapandi og leitandi listamaður. Hann hefur siglt frá einum stíl til annars og iðulega slegið meistaratakta.

Á þessari nýju plötu treður meistarinn enn einn nýja slóðann.

Hann leitar áhrifa í latino tónlist Suður Ameríku og teygir sig á köflum í átt kúrekagítars í anda Duane Eddy.

Platan öll hefur mjög sterkan og skemmtilegan karakter – söngurinn, textarnir og gítarspilið, sem Bubbi annast allt sjálfur.

Í textunum eru ljúfar og líflegar hugvekjur í bland við ádeilur og músíkin er eyrnakonfekt.

Kanski er þetta besta plata Bubba til þessa – og er þá mikið sagt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar