Miðvikudagur 24.04.2013 - 10:04 - FB ummæli ()

Ert þú þolinmóði skuldarinn?

Við í Framsóknarflokknum erum stolt af því öfluga starfi sem við höfum unnið síðastliðin misseri við að móta stefnu flokksins okkar sem byggð hefur verið á mikilli greiningarvinnu og aðkomu fjölda fólks og sérfræðinga til að leita leiða til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.  Við höfum sett okkur skýrar siðareglur og tekist á við þann fortíðarvanda sem flokkurinn glímdi við.  Við teljum að í öllum ákvarðanatökum okkur eigum við að hafa það meginsjónarmið að leiðarljósi að setja manngildi ofar auðgildi og aðeins þannig getum við virkjað þann kraft og auð sem í þjóðinni okkar býr og við hvetjum þig kjósandi góður til að taka upplýsta ákvörðun á kjördag þar sem sömu meginsjónarmið verða höfð að leiðarljósi.

Í dag dynja á kjósendum okkar allskonar lausnir á skuldavanda heimilanna, svo mikið að mörgum þykir nóg um.  Við fögnum því að ráðamenn þjóðarinnar og þeir sem er að sækja um vinnu á Alþingi til næstu fjögurra ára hafa nú loksins viðurkennt og gert sér grein fyrir því að um raunverulegan vanda er að ræða.  Frá árinu 2009 hefur Framsóknarflokkurinn verið meðvitaður um þennan vanda og lagði fram tillögur til lausnar á honum á þeim tíma.  Þær tillögur fengu ekki hljómgrunn á sínum tíma, en flestir stjórnmálaflokkar hafa í dag viðurkennt að rétt og gerlegt hefði verið að leiðrétta hann með tillögum Framsóknarflokksins á þeim tíma.  Vegna aðgerðarleysis stjórnvalda þá hefur þessi vandi nánast útrýmt millistéttinni á Íslandi, valdið því að eldra fólk hefur skuldsett sig langt umfram getu, með því að gangast í ábyrgðir eða veita veð í fasteignum sínum fyrir íbúðakaupum erfingja sinna og sem hefur líka valdið því að kynslóðin sem kemur til með að erfa landið finnur mjög þröngar leiðir, ef nokkrar til að eignast þak yfir höfuðið.

Í umræðum um lausnir í skuldamálum höfum við lagt áherslu á að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán.  Við viljum nýta það svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa gömlu bankanna til að leiðrétta stökkbreytt, verðtryggð húsnæðislán og ástæðan er sú að það er ekkert sem réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreytingar lána af völdum efnahagshrunsins.  Um slíkt réttlætismál er að ræða að þjóðinni ber skylda til að standa saman eins og einn maður, eins og hún hefur sýnt að hún gerir þegar hamfarir hafa átt sér stað.

Kjósendur spyrja sig hvernig er þetta hægt?  Margar leiðir eru tækar, en sú sem hugnast okkur í Framsóknarflokknum best er hægt að lýsa í stuttu máli þannig að  skuld þrotabús (föllnu bankanna) er eign þess sem á viðkomandi kröfu í búið. Verðmæti krafna í þrotabú ræðst fyrst og fremst af væntingum um hversu mikið fáist úr búinu upp í þær kröfur. Þær væntingar ráðast aðallega af ætluðu verðmæti þeirra eigna sem í búinu eru. Kröfur í Glitni og Kaupþing munu eftir hrun hafa selst á nálægt 5% af nafnvirði. Líklegt er að hinir svonefndu vogunarsjóðir hafi eignast sínar kröfur á verði nálægt því. Talið er að allt að 95% af kröfum í bú gömlu bankanna séu nú í eigu erlendra aðila, að langstærstum hluta vogunarsjóðanna. Í vetur bárust fréttir af því að kröfurnar seldust á 25-30% af nafnverði. Kröfurnar hafa því margfaldast í verði.  Þegar þeir keyptu þessar kröfur vissu þeir af gjaldeyrishöftum þeim í gildi eru á Íslandi.  Þeir vissu eða máttu vita að þeir þyrftu að semja við íslensk stjórnvöld um það hvernig þeir kæmu eignum sínum úr landi og þannig er íslenska þjóðin í góðri samningsaðstöðu sem okkur ber skylda til að nýta.

Þá er það sanngirnismál að svokölluð „lyklalög“ verði sett sem geri lánþegum mögulegt að afsala eign sinni til lánveitenda án þess að slíkt hið sama leiði til gjaldþrots.  Í gegnum tíðina hefur staðan verið sú að fjármálastofnanir og lífeyrisjsóðir hafa lánað gegn fasteignaveðum, en þegar lán hækka vegna verðtryggingar umfram fasteignaverð, eða jafnvel þegar lækkanir verða á fasteignamarkaði, þá hefur það verið lántakinn sem ber áhættuna af því og ef eignin er seld þá standa eftirstöðvarnar eftir sem skuld á lánþegann oft með þeim afleiðingum að hann á sér þá einu leið út úr skuldafeninu að fara í gjaldþrot.

Það er hagsmunamál allra aldurshópa í þjóðfélaginu og ekki síst ófæddrar kynslóðar að afnema verðtryggingu af neytendalánum.  Fyrir því eru margar ástæður.  Sú fyrsta  er sú að verðtrygging leiðir til hærri vaxta vegna þessa að verðtryggð lán hafa verið útbreidd hérlendis og því hafa stýrivaxtahækkanir haft minni áhrif á neyslu og því dregið minna úr þenslu en ella og því má færa rök fyrir því að stýrivextir hafi hækkað meira og verið lengur hærri, en ef verðtrygging hefði ekki verið jafn útbreidd.  Önnur er að verðtrygging leiðir sjálfkrafa til meiri verðbólgu þar sem hún hækkar höfuðstól verðtryggðra útlána.  Sú hækkun er færð til tekna hjá bönkum, með því hækkar eigið fé bankanna og svigrúm þeirra til peningamyndunar eykst sjálfkrafa.  Nýti bankar sér þetta svigrúm til peningamyndunar, eykur það verðbólgu og eftir því sem árin líða magnast áhrif þessarar hringrásar.  Í þriðja lagi þá veldur verðtrygging því að erfiðlega gengur að greiða lánin upp og helsta von fasteignaeigenda er sú að verð eigna þeirra hækki hraðar en skuldir.  Frá hruni hefur eignaverð nánast staðið í stað á meðan að lán hafa hækkað og þúsundir lánþega hafa því tapað öllum þeim sparnaði sem þeir lögðu í íbúðakaup.  Í fjórða lagi þá hvetur verðtrygging beint til  verðbólgu  þar sem viðskiptabankar eiga meira verðtryggt en þeir skulda og því græða þeir þegar verðbólga hækkar.  Ríkissjóður skuldar um 700 milljarða óverðtryggt og hagnast því um 7 milljarða við hvert 1% sem verðbólgan hækkar um.  Bankar og stjórnvöld eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á verðbólgu, en hafa lítinn hvata til þess. Síðastliðin þrjú ár hafa skattahækkanir stjórnvalda skilað því að skuldir heimilanna hækkuðu um 22 milljarða króna og þykir flestum nóg um og í fimmta lagi þá er engin leið til þess að verðtryggðar skuldir lækki í kreppu og er allt tal um slíkt hugarórar einir.  Ekki eru ókostir verðtryggingar hér tæmandi taldir.

Með afnámi verðtryggingar verður jafnframt að huga að því að skapa skilyrði til að auðvelda fólki að flytja lánaviðskpti milli lánastofnana og setja þak á innheimtu lántökugjalda við skuldskeytingu t.d. og afnámi stimpilgjalda í þeim tilfellum.

Okkur sem byggjum þetta land, ber skylda til að standa saman um lausn skuldamála heimilanna og vonum að við fáum umboð þitt ágæti kjósandi til þess.

(Meðhöfundur að greininni er Vigdís Hauksdóttir og birtist hún fyrist í Hverfablaði Háaleitis- og Bústaðar)

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur