Þriðjudagur 13.8.2019 - 11:57 - Rita ummæli

AUÐKÝFINGUR EIGNAST LAND

Umræða um uppkaup auðmanna á jörðum er í sjálfu sér ekki ný. Auðkýfingar – auðmenn hafa alltaf numið land, byggt sér sumardvalarstaði og leiksvæði. Það að erlendir auðmenn komi hér og kaupi upp jarðir, sem einmitt hafa mikil hlunnindi, s.s. ferskvatn, sjó, veiðimöguleika, og aðrar leiðir sem nýtast auðmanni. Svo miklir peningar eru um að ræða að ekki skal undra neinn að landeigendur sjái sér skjótfengin gróða og láti slag standa. Jafnvel hafa stjórnmálamenn bitið á agnið og eru á fullu í jarðarbraski og eignasölu lands. Þeir sjá peningana sem renna í gegn og horfa undan.

En allt í einu er forsætisráðherra að hafa áhyggjur af því að auðkýfingar eignist hér mikið land og séu nú með um 1% lands af þjóðinni, landinu Ísland. Á meðan forsætisráðherra og fjármálaráðherra koma fram í fjölmiðlum til að lýsa áhyggjum sínum af stöðunni, er þekktur auðkýfingur að setja þöggunarfé í „samfélagið,“ lofar öllu fögru og ráðherraparið gleymir að taka þessa fléttu auðkýfingsins inn í umræðuna, sem er upphæð í smáaurum talið fyrir svo efnaðann mann, en aðferðin er algjör snilld hjá honum.

Auðkýfingar eru ekki bara þeir sem kaupa upp jarðir og hlunnindi sér til hagsbóta og ætla sér eflaust mun stærri hluti með landareign á Íslandi, annað en að segjast eiga land á þessu fagra landi.
Auðkýfingar og auðmenn hafa nefnilega einnig ætt af stað og með aðstoð stjórnmálamanna eignast gríðarlega mikin auð í formi fasteigna, og einnig með kvótakerfinu sem hefur gert örfáa íslendinga svo ríka að tölurnar eru lýgilegar. Enn fást ekki svör um þær mörgu eignir sem seldar voru frá Íbúðarlánasjóði, hverjir fengu að kaupa og með hvaða kjörum. Þar þegir ráðherra húsnæðismála.

Því er vert að velta fyrir sér hvort sé verra að kaupi upp jarðir hér á landi, íslendingar…. eða útlendingar? En eitt er á hreinu og það er að á meðan jarðir seljast hér auðmönnum er erfitt að sjá nýliðun hjá ungum bændum. Ungir bændur munu eiga enn erfiðara með að hefja búskap – nógu erfitt er það nú.

En á meðan þetta á sér stað, brosa íslenskir auðmenn og kvótakóngar yfir umræðu um erlenda auðmenn. Þeir eru „stikkfrí“ í umræðunni og keppast við að skila hagnaði úr sjávarauðlindum þjóðarinnar til að fá sem mestan arð – fyrir sig!

 

*Myndin tengist ekki umræðunni á neinn hátt!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.8.2019 - 11:55 - Rita ummæli

VATNIÐ OG ED SHEERAN…

Um næstu helgi mun hin geðþekki tónlistarmaður Ed Sheeran skemmta á Íslandi með miklum tónleikum í Laugardalnum. Margir hafa beðið með mikilli eftirvæntingu og er nokkuð öruggt að þeir verða til fyrirmyndar.

Öryggisgæslan verður mikil og umfang tónleikana einnig. Í fyrirspurn minni til SENU vegna þess að ég hafði heyrt að bannað væri að taka vökva með sér kom í ljós að;

„Það er ekki bannað að koma með vatn eða vatnsflöskur, en til að tryggja öryggi er ekki leyfilegt að koma með flösku með tappa.“

„Einnig verður hægt að kaupa 500ml vatnsflösku á 200 kr.“

Hvernig flöskur eru leyfilegar veit ég ekki, en tel að SENA sé til fyrirmyndar hér því ég hafði óttast að þegar inn væri komið myndi vatnið verða selt dýrum dómi líkt og gert er í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Góða skemmtun!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.7.2019 - 12:38 - Rita ummæli

ÞARF NÝJAN ÞJÓÐLEIKHÚSSTJÓRA?

Í fjölmiðlum hafa farið fram meintar deilur og ávirðingar í garð núverandi þjóðleikhússtjóra Ara Matthíassonar. Korter’í endurnýjun á starfi hans koma fram deilur ákveðinna aðila og ýmislegt er borið á þjóðleihússtjórann, þrátt fyrir að hann hafi stýrt starfi sínu prýðilega með ágætum sýningum. Þrátt fyrir stífar venjur í garð þjóðleikhúss um að sinna öllum þáttum hefur tekist að gera gott starf.

Og nú, eftir að búið er að gera Ara Matthíasson nægilega tortrygginn, skipa annað ráð leikhússins, nefnd frá ráðherra og hvetja rúvstjórann til að miklast í starfið, er líklegt að Ari verður ekki áfram í starfi sínu enda gengdarlausar ávirðingar í hans garð og mál borin á torg sem skilst illa.

Mér þykir grunsamlegt að ráðist sé á þjóðleihússtjórann „korterí“ og allt sett uppí loft til að setja stimpil á Ara. Það er því Salómonsdómur væntanlegur frá ráðherra og þeim sem ákveða hvort Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri fái að halda áfram með uppbyggingu á þjóðleikhússinu og að sinna menningu þjóðar. Mér finnst ekki þurfa að skipta út þjóðleikhússtjóra og ætti Ari Matthíasson að halda áfram 1. janúar 2020.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.6.2019 - 08:24 - Rita ummæli

STJÓRNLAUS VANDI MEÐ VESPURNAR!

Skjáskot með frétt á mbl.is

Margsinnis hefur verið bent á þessa hættu og er þetta dæmi sönnun þess að stutt er í mjög alvarlegt slys af völdum vespa sem bruna um göngustíga á miklum hraða. Vespufárið er orðið skelfilegt og stjórnlaust og skrifast á aðgerðleysi yfirvalda sem bregðast ekki við þessum vanda sem margir hafa bent á.

Óskoðaðar í misjöfnu ástandi, oft verið að taka of marga farþega og á öllum göngustígum sem virða oftast nær engar reglur er staðreynd um að yfirvöld og lögreglan hafa misst málið úr höndum sínum og ráða ekki við vandann.

Eina leiðin er að breyta löggjöfinni strax, skylda kennslu og réttindapróf á vespur, auk þess að þær séu skráðar og skoðaðar. Einnig þarf að gera reglur um lágmarks öryggis- og varnarbúnað líkt og er með bifhjólamenn. Reiðhjólamenn er hiklaust undir smásjá um að vera um stíga í sátt við gangandi og hjólandi en svo sjáum við svona dæmi sem eru ansi mörg – bara ekki verið fest á filmu áður!

Hér á mbl.is má sjá frétt um alvarlegt dæmi!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.5.2019 - 13:05 - Rita ummæli

„Reykjaríkið 101“

Nú ætla borgarstjóri að ganga endanlega frá verslun og þjónustu í miðbæ Reykjavíkur með því að loka hann af og koma upp gjaldtöku – tafa- og mengunargjöldum!?
Reykjavík 101 verður „ríki“ sem heimsótt er – stundum… Fáranleikinn hefur engin mörk hjá borgarstjóra og því er ekki úr vegi að bregðast við því.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.4.2019 - 11:10 - Rita ummæli

MEÐ FÚKYRÐUM OG DÓNASKAP 10%

Formaður Eflingar verkalýðsfélags er hissa á 10% þátttöku félagsmanna sinna í kosningum um nýja kjarasamninga.
Þegar formaðurinn var kosinn voru áhrifamenn Sósíalista á Íslandi á fullu við að hjálpa og „rútuferðir“ farnar í að kjósa þennan nýja formann. Sósíalistar voru komnir með vopn í baráttunni fyrir áherslum sínum og ætluðu að ná árangri. Þegar ákveðið var svo að kjósa nú nýlega um verkfall var reyndar rúntað um á rútu milli vinnustaða félagsmanna til að fá sem flesta til að fara í slaginn og boða verkfall – sýna mátt og styrk. Ný sýn á baráttuleið verkalýðshreyfingarinnar kom í ljós hjá þessum nýja formanni, ný skilti risu upp, nýjar áherslur, ný vinnubrögð – gefa á skít í kerfið!

Ég heyrði í góðri konu sem er félagsmaður í Eflingu en hún vill ekki að fólk sýni svona framkomu og telur það ekki skila neinum árangri og því síður telur hún virka að nota erlend mótmælendaskilti með fúkyrðum og dónaskap. Í raun hafi henni blöskrað áfergja formannsins í að blása í verkfall á versta tíma fyrir þjóðfélagið og skilar aðeins um 10% þátttöku.

Á svarthvítu ljósmyndinni sést frá mótmælum við Austurvöll þann 1. maí 1930. Einhver mótmælendaskilti, félagsfánar og prúðbúið fólk og börn að leik. Mikið hefur áunnist síðan.

En í dag árið 2019; Hvar er þetta bakland sem nýr formaður hafði þegar Sósíalistar og aðrir vinir hennar smöluðu henni í formannstól Eflingar? Gáfu þeir skít í kerfið? Eru þá um 90% félagsmanna ósáttir við framgöngu formannsins og neita að kjósa? Var púðurlausri tunnu rúllað af stað sem skilaði sér afar litlu?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.4.2019 - 01:00 - Rita ummæli

FJÁRMÁLARÁÐHERRA AFHJÚPAR SIG!

Þann 6. mars s.l. skrifaði ég á Eyjunni grein um kenningu mína um einbeitta fyrirætlan fjármála- og efnahagsráðherra í að selja Landsvirkjun og keppikefli hans að koma 3 Orkupakkanum í gegnum þingið nú á næstu dögum og vikum. Nefndi ég einnig þá augljósu ætlan ráðherra að komast yfir Sæstreng til Evrópu og í öllu hans plotti þarf að búta Landsvirkjun niður.

Það tók fjármálaráðherra rétt um einn mánuð að sanna það fyrir mig að ég hef rétt fyrir mér og afhjúpa plottið með Sæstrenginn, að ríkið stjórni umráðum hans, einmitt undir stjórn ráðherrans. Ráðherrann, fyrir hönd íslenska ríkisins, ásamt forstjóra Landsvirkjunar hafa skrifað undir samkomulag um að Landsvirkjun framselji 33,2% eignarhlut í Farice ehf, en Farice var stofnað árið 2002 og rekur gagnastrengina Farice og Danice. Eftir framsalið verður Farice að fullu í eigu íslenska ríkisins.
Matsverð eignarhlutar í Farice er um 9,2 milljónir evra. Í frétt frá Landsvirkjun fylgir með að hlutur Landsvirkjunar í Neyðarlínunni hafi einnig verið seldur fyrir 12,5 milljón króna, ekki Evra. Reyndar er verðið á Neyðarlínunni óvenju lágt því búið er fjárfesta gríðarlega í hugbúnaði og þekkingu.
Augljóst er verið að villa um fyrir í tilkynningu frá Landsvirkjun því upphæð Farice er sögð í Evrum og virkar lág upphæð, en verð Neyðarlínunnar er gefið upp í íslenskum krónum. Erfitt virðist vera fyrir Landsvirkjun að skrifa 1300 milljónir króna (eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir króna).

Það er löngu ljóst að fjármálaráðherra ásamt núverandi ríkisstjórn Íslands ætlar sér að búta orkuna upp í eignir til einkaaðila. Hvaða sérsamningar hafa átt sér stað við Evrópusambandið er ekki komið í ljós. En það er deginum ljósara að þessi vinna er komin á fullt og ráðherra ætlar sér að láta vildarvini fá heimildir til að ráða yfir orku þjóðarinnar.

Á þá staðreynd hafa fjölmargir bent á og hafa jafnvel gamlir pólitískir andstæðingar staðið saman og með þekkingu og griðarlegri reynslu sinni bent á hættuna og stigið fram til að koma í veg fyrir mesta þjófnað í sögu þjóðarinnar, en hann er korter í að verða að veruleika með því að Orkupakki 3 verði samþykktur. Slíkt er glapræði og dauðans alvara fyrir íslenska þjóð og framtíð okkar. Slíkt má ekki gerast. Þennan augljósa þjófnað þarf að stöðva strax. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki þessa heimild!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.3.2019 - 15:50 - Rita ummæli

AÐ SLÁTRA WOWAIR…

Ég hef talað um það áður hér að mér hefur þótt Skúli hafa farið alltof geist í að slá um sig. Hann er partýpinni og kann örugglega að gera flottustu partýin. En ég veit að hann gerir ágætlega við starfsfólk sitt, þótt hann fari offari í mörgu, en ég læt það liggja hér.

Nú keppast nokkrir við að slátra Skúla og WOWair. Einhver ferðamógull hélt virkilega að WOW fengi ríkisábyrgð og að hann gæti tekið allt sem Skúli hefur byggt upp, keyrt í þrot og látið íslenska ríkið borga reikninginn.

Icelandair fer aftur í twist með Skúla með það að reyna kaupa WOW. Það er bara útaf einu. Icelandair þarf á vélunum að halda því ekkert má útaf bregða til að skaða þá, eftir að Max vélarnar voru stöðvaðar og rannsókn stendur yfir með hugbúnað þeirra. Fyrir Max – var WOW ekki kostur – eftir Max – þurfa þeir á Skúla að halda.

En ég trúi því að Skúli nái að snúa þessu dæmi við. Það er nefnilega ekki ódýrt fyrir íslendinga að fljúga frá Íslandi. Endalaus keppni við að fá lukkunúmer á tilboðum er þreytandi og horfa uppá ferðamenn koma til Íslands á ótrúlegum verðum er orðið fyrir löngu leiðinlegt og manni ofbýður þegar maður rannsakar verðin og möguleikana. Með komu WOW breyttist samt staðan lítillega með verð og margt lagaðist fyrir íslenska neytendur.

Kannski nær Skúli að bjarga þessu, amk finnst mér vont að sjá að menn eru að fíflast með vinnustaði þar sem mörg þúsund manns vinna.

Skoðum aðeins söguna og stöðuna í dag. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um þann möguleika að ríkið komi WOW til hjálpar:
„Bjarni segir að í raun hafi ekkert breyst varðandi að komu stjórnvalda eftir að tilkynnt var um viðræðuslit WOW og Icelandair Group. „Þarna er um að ræða fyr­ir­tæki í einka­eigu sem er að reyna að greiða úr sín­um fjár­hags­vanda og það hef­ur ekk­ert breyst.“

En hvers vegna var fjölskyldufyrirtæki fjármálaráðherra, SJÓVÁ bjargað á sínum tíma?
Hvers vegna er ekki hægt að bjarga WOWair eins og gert var með Kísilverksmiðjuna í Helguvík en ARION banki afskrifaði lán bankans til verksmiðjunnar uppá 6,2 milljarðar.

Getur verið að það sé einlægur vilji hjá yfirvöldum og ákveðnum hagsmunaaðilum að nota tækifærið og slátra Skúla endanlega og þar með tryggja það að 4000 manns fylgi með og missi störf sín?

Það er ljóst að ríkisstjórn hefur þetta í hendi sér í dag – því miður!

Önnur myndin hér sýnir að ráðherrar fengu „sérfræðinga“ til að segja sér stöðuna það er núna árið 2019.

Hin er af Steingrími J. Sigfússyni þáverandi fjármálaráðherra en hann var einmitt sá sem bjargaði SJÓVÁ með því að borga fyrir það 16 milljarða úr ríkissjóði.

Og það er ekki hægt að hjálpa WOW air!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2019 - 09:59 - Rita ummæli

ÞRIÐJI ORKUPAKKINN OG LANDSVIRKJUN TIL SÖLU?

Árið 2000 hófst í raun vinna hjá nokkrum hagsmunaaðilum með hinn svokallaða þriðja orkupakka. Ótrúlegt plott fór þá af stað. Málið snýst um algjört yfirráð yfir rafmagni og vatni á Íslandi, yfirráðum yfir því að selja rafmagn og vatn til neytenda. Í dag er raforka og vatn auðvitað seld með ýmsum hætti, en síðastliðin ár og núna vikur og daga hefur plottið, sem tekið hefur um tuttugu ár, tekist og er þjóðin ef til vill að vakna upp við verstu martröð sem er staðreynd um stöðuna – Landsvirkjun á að selja og nokkrir ákveðnir aðilar vilja eignast fyrirtækið.

Stór álver hafa verið reist og er raforka seld til þeirra á sérkjörum. Sú vinna sem kom í kjölfarið hefur kostað fórnir á landi okkar og er stórhluti af því óafturkræf náttúrunni. Í efnahagslegri uppsveiflu [góðæri] vorum við lítið að velta fyrir okkur hver fléttan væri í raun og veru en núna árið 2019 er komið í ljós hver hún er – selja á Landsvirkjun!

Með í kaupunum verður fyrirtæki sem ætlar sér að halda áfram með rafstreng til Evrópu. Með strengnum verður möguleiki á að flytja, samhliða með lögn, ferskt vatn. Landsnet mun einnig fylgja með í kaupunum. Með þessu mun allt yfirráð og öryggi þjóðar með raforku, vatn, og dreifikerfi upplýsingamiðlunar, farsíma og internets fara í hendur einkaaðila. Þessir aðilar hófu áætlun sína um árið 2000. Þeir munu láta okkur – þjóðina – borga fyrir vinnuna, og hægt og rólega munum við borga fyrir markaðslega leið þessara aðila til Evrópu. Við munum sjá um að greiða fyrir því að þeir geti farið í „bisness“ með vatn og rafmagn til Evrópu.

Nýlega skrifaði núverandi fjármálaráðherra undir hina ýmsu samninga og hægt og rólega er verið að láta ríkið kaupa inn í bú Landsvirkjunar sem svo verður selt til einkavina. Ef einhver man eftir gjörning þessa sama manns með Borgun þá er þetta líklega síðasta verk fjármálaráðherra sem sandkorn í fjalli siðleysinnar á öllu því sem hann kemst upp með að gera.

Á meðan er Ísland rænt endanlega, bankarnir eru rændir skipulega innan frá af yfirstjórn þeirra með ýmsum klækjabrögðum í formi forkaupsrétta, launahækkana, og sérhagsmuna elítu stjórnenda bankanna.
En vegna þess að þetta viðgengst enn og lítið sem ekkert er gert til að breyta til batnaðar, þá munum við áfram lifa á brauðmolum frá þeim örfáu sem eiga allt í samfélaginu, stjórna öllu með tengingu í fyrirtæki og stofnanir samfélagsins, og koma sínum hagsmunum að jafnvel með því að fá sjávarútvegsráðherra til að koma bestu útkomu sinni áleiðis og í höfn. Eða týna í burtu fasteignir frá Íbúðalánasjóði og selja á algjörum kostakjörum til einkavina í boði félags- og húsnæðismálaráðherra. Sömu aðilar – vinir ráðherra – sem hafa svo búið til leigufélög og stunda brask með íbúðir og fleira. Þeir komast upp með gjörninginn og ráðherra einnig.

Þannig, að áfram munum við horfa uppá þessi vinnubrögð og allt verður óbreytt. Aðeins siðferðileg bylting getur breytt þessu og þá vinnu gerum við sjálf. Þetta er undir okkur komið að breyta – ef hún mun þá nokkuð eiga sér stað!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.1.2019 - 01:01 - Rita ummæli

LOFORÐ VIÐ FANGA SVIKIN

Það er áhugavert þegar Facebook minnir mann á tímatal sitt og það sem maður þá var bardúsa og skrifa. Fyrir þremur árum sat ég málfund í Norræna húsinu sem var um betrunarmál fanga en spurt var „Betrun eða refsing.“ Knut Storberget, þingmaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs sagði frá forvitnilegum leiðum sem Norðmenn voru að gera. Fjöldi manns mættu og þar á meðal þingmenn Samfylkingarinnar, VG, og Sjálfstæðisflokksins.

Allir voru sammála um að fara í það að laga þessi mál í íslenskum raunveruleika. Fyrrum fangar töluðu, aðstandendur og vinir. Allir bentu á vanda sem enn er til staðar og er ekki einu sinni á blaði að leysa.
Sálfræðiþjónusta og huglæg endurhæfing fanga er lífsins mikilvæg en hún er í rúst. Því miður hafa dæmin sýnt það. Réttindi fanga og ekki síst aðstandenda eru óbreytt og að litlu virt.

Það er því leiðinlegt og um leið sorglegt að muna eftir digurbarkalegum yfirlýsingum þingmannanna sem mættu fyrir þremur árum og lofuðu algjörum áherslubreytingum í málefnum fanga, en voru eintóm svik og aðeins notað í pólitísku poti og sýndarmennsku og vera aðeins sem minning á Facebook.

Ekki er vilji að hefja þessa vinnu. Það er komin tími á að breyta!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar