Þriðjudagur 15.1.2019 - 17:46 - Rita ummæli

ROSALEGA MIKIÐ AF SJÁLFSVÍGUM – LAUSNIN KOSTAR 13 ÞÚSUND KRÓNUR!

Sjálfsvígstíðni á Íslandi er með því hærra í heiminum eða 15 á hverja hundrað þúsund íbúa árið 2012 samkvæmt skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Þetta ár sem þessi tölfræði kom fram árið 2012 frömdu 49 sjálfsvíg á Íslandi, 12 konur og 37 karlar.

Á næstu dögum ætlar ung íslensk kona, búsett í New York að leysa þennan vanda fyrir tæpar 13 þúsund krónur og á einni kvöldstund.

Fólk tekur það með sér þegar það kemur út [eftir fyrirlestur hennar] að vera miklu sterkari og heill einstaklingur.“ 

Í einu viðtalinu þar sem hún markaðssetur viðburðinn segir hún einnig þetta:

„Lausnin í þessu er einföld, setningin Þú ert bara nóg. Þannig að þessi viðburður er settur upp til heiðurs þeirra sem héldu að þau væru ekki nóg, og ég vil bara breiða út þennan boðskap eins og ég get og mig langar þannig að önnur hver manneskja sé að halda svona Masterklass því þetta eru bara skilaboðin.“

Ég veit ekki með reynslu þessa New York búa með sjálfsvígsmál, þunglyndi og aðra andlega vanlíðan, en ég veit það af eigin reynslu að töfrasýning á þrettán þúsund krónur virkar ekki. Sú aðferð er siðlaus leið til að ná peningum af fólki sem þarf hjálp. Að markaðssetja sjálfsvíg – og í mínum huga – vanvirða það fólk sem fór þá leið er sorglegt að sjá.

Ég vann hjá Neyðarlínunni í mörg ár. Ég tók á móti ótal mörgum málum sem tengdust sjálfsvígum og ég tók einnig á móti tilkynningum um sjálfsvíg. Sorgin og eftirmáli þess. Ég þekki þetta einnig af eigin reynslu ættingja. „Þú ert nóg,“ virkar ekki að segja.

Sem manneskja með sérþekkingu á þessu máli, er pottþétt að leið fyrirlesarans er ekki að virka. Málið er samfélagslegt og verkefni okkar allra sem hefur meðal annars farið af stað með vinnu margra sem láta málið sig varða. Það vinnst ekki með tilboði frá New York, og því síður á einu kvöldi sem kostar þrettán þúsund krónur!

Ég hélt að við værum komin lengra í þessum málum og að virðing þessa máls sé ekki í markaðslegum tilgangi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.1.2019 - 11:55 - Rita ummæli

KLUKKAN ER TILBÚIN TIL SÖLU…

Við íslendingar erum merkileg. Fyrir nokkrum dögum, eða þann 8. janúar kom bankastjóri Landsbankans brosandi af gleði með að tilkynna þjóðinni það að nú væri; „Landsbankinn tilbúinn til sölu og ekkert því til fyrirstöðu að hefja söluferlið.“

Bankastjórinn sagði einnig að hún teldi að bæði innlendir og erlendir aðilar muni hafa áhuga á að kaupa bankann. Rétt eins og að bjóða í partý þá vonaðist hún til að allir myndu mæta.

Í dag takast íslendingar á við það hvort færa eigi klukkuna til, hvort við förum fyrr af stað á morgnana eða seinna. Þá vaknað forsætisráðherra og er til í að ræða það. Endilega að fara í þá umræðu!

Á meðan er splunkunýtt fjármálaráðuneytið á fullri vinnu undir stjórn ráðherra að undirbúa tombóluna sem verður þegar bankarnir verða seldir og partýið byrjar – aftur – og vinirnir mæta og taka ókeypis tombólumiða.

Á meðan veltum við því fyrir okkur hvort að við vöknum fyrr eða seinna á morgnana í framtíðinni og höldum áfram að láta hafa okkur að fíflum af þessari elítu sem kaupa mun bankana, eða réttast að fá gefins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.1.2019 - 10:15 - Rita ummæli

SAUÐURINN, APINN, OG FÁVITINN ÉG??

Facebook er merkilegt apparat sem við notum mörg hver mjög mikið með ýmsum hætti. Samfélagsvettvangur og afþreying, auglýsingar og fleira. Reglulega koma hinar ýmsu tilkynningar upp eins og ein sem fræg var um Jayden K. Smith, en hann var sagður hakkari sem tengdi sig inná kerfi Facebook og inná reikning manns.

Nú síðast er tilkynning sem segir frá leyfi um aðgang að efni okkar, myndum og öðru sem er á Facebook og við teljum vera okkar. Ég sá hina ýmsu vini setja þetta á vegginn hjá sér og taldi að um einhverskonar umræðu um aðgengi og oft frekju Facebook væri um að ræða á nýju ári, því ekki næ ég að fylgjast með öllum heimsins fréttum.
Það virðist vera að um þvælu sé að ræða og um enn eina dreifitilkynningu á Facebook. Ég setti þetta á vegginn hjá mér um miðnætti og nú undir morgun sá ég mjög margir hafa gert það sama. Ég tók þetta svo út – eitt af fáum skiptum sem ég tek efni út sem ég hef sett inn.

Eitt vekur furðu mína nú er ég fer yfir Facebook og sé efni vina minna og sérstaklega þeirra sem hafa sett inn sömu færslu og ég gerði, eru skammirnar og leiðindin sem fólk, „séníin“ sem vissu allt og vita allt um Facebook og hvernig það er notað með ýmsum hætti, láta frá sér í athugasemdum. Orð eins; „fávitar, sauðir, apar, heimskingjar, hjarðfífl,“ og önnur orð og lýsingar, eru ekki spöruð af „sérfræðingunum.“ Ég fékk jafnvel einkapóst frá vinum sem helltu sig yfir mig og voru hissa á að ég – Sveinn Hjörtur, myndi falla fyrir svona.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, né „sérfræðingana“ á Facebook. En það væri óskandi að fólk myndi horfa í eigin barm yfir hjarðhegðun á Facebook og múgsefjun sem sett er af stað, þegar það eltir þvælu og alvarlega umræðu um fólk, málefni, skoðanir, jólakveðjur, og jafnvel mögulega glæpi sem skilar svo því að augnabliks taugaveiklun fólks á Facebook skilar því að manneskja er kosin Maður ársins – og allir eru sáttir að hafa elt fjölpóst og algjöra og fáránlega múgsefjun.

Ég velti því fyrir mér hver er í raun sauðurinn, apinn og allt það?

Eigið góðan dag…

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.12.2018 - 10:56 - Rita ummæli

ALLT NEMA ANDLITIÐ – LÍFFÆRAGJÖF

Fyrir mörgum árum áskotnaðist mér lítill bæklingur sem í var skírteini sem á stóð; „Organ donation.“ Ég ritaði undirskrift mína og merkti við að ég vil verða líffæragjafi komi það til, að ljóst sé með raunverulegum hætti að ég sé í þannig ástandi að ekki er undan því komist að ég muni deyja, eða að ég látist og ekki sé hægt að bjarga mér til lífs og því verði ég gjafi með líffærum mínum tafarlaust.

Á þennan miða skrifaði ég að ég vildi gefa allt nema andlit. Nokkrir vissu af þessari beiðni minni og töldu margir mig skrítin að setja þessa ósk fram – hver fer að óska eftir andliti og hvenær verður andlit grætt á manneskju? Á þeim tíma, sem ég setti þetta fram, hafa nokkrir læknar eflaust verið að athuga þennan möguleika til læknavísindanna og þróunar til líffæragjafa, en vinir mínir töldu það fráleitt þá. Í dag hafa nokkrar manneskjur um heiminn farið í andlitságræðslu.

Ég tel að þetta skref okkar á Íslandi sé mikilvægt og við verðum að treysta læknum til að meta hárrétta stöðuna þegar tilfellin koma upp. Ég treysti Runólfi Pálssyni yfirlækni algjörlega og hvet fólk til að hugsa þetta og horfa á með jákvæðum hætti.

Að lokum; Ég á móður sem er nýrnasjúk og þarf í vél annan hvern dag. Í mörg ár hefur mamma barist við þessi veikindi. Hún er þreytt og biðin er löng eftir því að fá nýtt nýra. Mamma mun líklega þurfa að bíða lengur. Það er nefnilega merkilegt að vera hinumegin við þessa stöðu og sjá hversu mikilvægt það er að vera líffæragjafi og vita það að við getum mögulega lengt líf margra aðila með gjöf.

Undir það kvitta ég og vil geta hjálpað „síðasta sprettinn“ sé það hægt…allt nema andlit!

Nánar hér

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.12.2018 - 20:19 - Rita ummæli

JÓLIN MEÐ ÓKUNNUGUM

Nokkur aðfangadagskvöld hef ég fengið þann heiður að geta hjálpað til við hátíðarhald hjá Hjálpræðishernum. Það er gert með ýmsum hætti. Ég hef farið í uppvaskið, skorið niður kjötið, þjónað til borðs, og síðast og ekki síst – verið til staðar fyrir allt það fólk sem kemur. Eru þetta fallegustu minningar mínar um aðfangadagskvöld. Margir hafa haft áhyggjur af mér að vera „einn“ um jólin en þetta kvöld er einstakt og best að nýta það í það ítrasta. Fyrir mig er það heiður að fá að þjóna þetta mikla kvöld í lífi kristinna manna. Jólin eru einstök hjá hernum.

Ég hvet þá sem geta að horfa á þennan þátt jólanna. Jafnan um jólin vantar sjálfboðaliða víða og einnig hjá Hjálpræðishernum.

Önnur hjálparsamtök hafa nóg að gera um jólin og ég veit að það verður mikið að gera hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir þessi jól enda jólaúthlutun alltaf stór. Það er gott að muna eftir þessum aðilum og sérstaklega um jólin.

Allir eiga að fá gleðileg jól. Gerðu þitt til að svo verði!

„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.“
– Matteusarguðspjall 25 kafli, vers 35-37.

Á myndinni erum við Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum. Myndin er tekin á aðfangadag árið 2016.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.12.2018 - 09:52 - Rita ummæli

SÓLHEIMAR Í GRÍMSNESI – SAMFÉLAG TIL EFTIRBREYTNI

Það er ákaflega góð minning er ég hitti þennan merkilega mann fyrst fyrir tveimur árum.
„Það hefur bjargað minni tilveru að vera upptekinn. Upptekin í lífinu og þessum dellum sem ég fengið eins og þetta með fána, tölur og íslenska málfræði,“ segir Reynir Pétur en hann hefur búið á Sólheimum í yfir sextíu ár. Fyrstu ár ævi sinnar bjó hann í Kamp Knox og flutti svo á Sólheima þar sem hann býr ásamt Henný eiginkonu sinni.

Reynir Pétur er hugsjónarmaður sem virkilega er gaman að tala við og hefur einstaka og nægjulega sýn á heiminn. Sú sýn sem hann hefur og er á Sólheimum í Grimsnesi, ætti að vera eftirbreytni fyrir okkur öll en þar leynist tilvera sambúðar einstaklinga sem er fyrirmynd af samfélagi sem ég vil búa og lifa í.

Þar er nægjusemin lífsskoðun og vinnusemin til samfélagsins dyggð. Á Sólheimum byggist allt upp með samkennd og tillitssemi, kærleika og vináttu. Þar eru allir vinir og illmælgi á hvergi þar heima.
Já, í raunverulegu og lifanda lífi tilveru dagsins er til svona líf, líf sem ætti – og gæti verið eftirbreytni fyrir okkur öll.

Mér þykir óendanlega vænt um Sólheima í Grímsnesi. Ég sendi bestu jólakveðjur til allra þar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.12.2018 - 00:20 - Rita ummæli

MÍNAR ÁHYGGJUR!

Ég hef ákveðið að tjá mig sem minnst um það sem hefur gengið á í Miðflokknum síðustu daga og læt því aðra um það mál og það að klára þá ákvörðun og hreinsa upp eftir sig!

Hitt er annað mál og mér mikilvægara en það sem þjóðin er að tapa sér útaf, en það er staða frænda míns Einars Óla sem fékk alvarlega heilablæðingu fyrir einu og hálfu ári. Eftir að hafa verið sendur til Svíþjóðar í aðgerð sem fór ekki eins og vonast var til varð heili hans fyrir miklum súrefnisskorti. Einar Óli hlaut alvarlegan heilaskaða. Allt breyttist og tilvera okkar allra í fjölskyldunni. Margir aðrir úr fjölskyldunni koma að því að létta undir með Einari Óla og fjölskyldu hans sem staðið hefur vaktina allan þennan tíma.

Í eitt og hálft ár hefur Einar Óli mátt vera á Grensásdeild og eru engin úrræði í boði fyrir hann. Staðan er ömurleg og er ekkert að lagast og algjört úrræðaleysi frá yfirvöldum. Einar Óli er einn af mörgum aðilum í sömu stöðu.

Hér er að finna viðtal við móður Einars Óla. Ég hvet ykkur til að hlusta, staldrið við og horfið í þau gildi sem þarf að hafa í lífinu, hvernig staða þeirra er sem eru í sömu sporum og við fjölskyldan. Íhugið hvað skiptir máli og gott væri að reyna að læra af því, sérstaklega eftir undanfarna daga. Já, mér þætti vænt um að þið hlustið…

Og á meðan staðan er óbreytt hjá flokknum er hyggilegast að draga sig frá allri umræðu í Miðflokknum og þeirri meðvirkni sem er augljóslega þar.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
2. varaborgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.11.2018 - 13:17 - Rita ummæli

AÐ VERA ÁHRIFAVALDUR

 

Það er þannig í lífi okkar að við hittum fyrir fólk sem oft á tíðum kemur óvænt í líf okkar. Aðrir koma með vindinum og stökkva með þér um borð þangað sem vindurinn feykir þér. Aðrir koma með einhverskonar vitund og lífsreglum, visku og hæfileika til að vera sem fyrirmyndir í leik og starfi. Margir af þeim skildu eftir sig haf af visku, fræðslu, og eftir sitja minningar um þetta fólk sem með einum eða öðrum hætti setti mark sitt á söguna, ekki með 30 sekúndna videómyndskoti á vefmiðlum – heldur í hina lifandi sögu veraldar. Þetta fólk breytti sögunni margt hvert – og gerir enn!

Að vera áhrifavaldur vinnst ekki með auglýsingum og bellibrögðum kaupmennsku og augnabliks frægðar á veraldarvefnum, heldur með þeirri andlegri gjöf og visku sem manneskjunni er gefið með þeim hæfileika til að skilja eftir sig spor sem aldrei hverfa – vera fyrirmynd – óumbeðin fyrirmynd. Spor sem stígin voru með innlegg þeirra til heimsins, bara með orðum þeirra og hátterni. Það eru ahrifavaldar heimsins, hinir sönnu sem eftir er tekið, en á hraða nútímans er líkt og blik þeirra hverfi í hraðanum. En það mun aldrei gleymast – það verk sem eftir þau eru, því sagan er það sterk sem eftir þau eru og er enn að skrifast.

Ég var því hissa á því að heyra að nýjasti starfstitillinn í dag er „áhrifavaldur.“ Stundum hugsa ég því alvarlega; „hvert er þessi þjóð að fara?“

*Ég birti hér nokkra af þeim áhrifavöldum í lífi mínu, fyrir utan foreldra mína sem kenndu/kenna mér um lífið, nákvæmlega eins og það er glyslaust. Ég er enn að læra!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2018 - 19:41 - 1 ummæli

KONUR SEM HATA KARLMENN

Mynd: undirritaður 

Fyrir rúmu ári steig ég fram í erfiðustu ákvörðun minni vegna kynferðismisnotkunar sem ég varð fyrir. Eitt af haldreipum mínum var stór hópur fólks sem kvittaði sig inní METOO byltinguna. Við treystum því að viljinn væri sá einn að stíga fram og vera fyrirmynd annarra til að létta á þessum þungu skrefum. Það hélt ég að væri tilgangurinn.

Nú hefur hópur kvenna farið í krossferð gegn körlum og tala niðrandi og ljótt um þá, af þeim óafvitandi jafnvel, og án þess að þeir geti nokkuð varið sig. Þær tala niður til okkar karlanna með ýmsum yfirlýsingum og kalla okkur meðal annars Feðraveldi. Er það sagt með neikvæðum hætti og feður okkar dæmdir fyrir tíðarandann sem þá var. Þær hafa þar með skorið á haldreipi mitt. Brýst þetta út hjá þessum konum sem algjört hatur á karlmönnum.
Til verða konur sem hata karlmenn. Jafnvel segja sumar að þær þurfi ekki á karlmanni að halda í líf sitt, hvorki til lags, né til að stofna eigin fjölskyldu. Nútíminn og læknisfræðileg tækni gefi konum það tækifæri. Konur eigi að standa saman og í huga margra á að rústa karlinum. Karlar eru að verða óþarfir.

Í öllu þessu erum við karlmenn í algjörri klemmu margir. Við fáum ekki að vera karlmenn því sumar konur hafa ákveðna skoðun og upplifun á því hvað karlmaður á að gera. Oft er sú hugmynd svo brengluð að við botnum hvorki upp né niður hvers er ætlast til af okkur. Og ef við reynum þá er það fyrirfram dæmt – af konum!

Þessi þröngi hópur kvenna sem í raun rændi METOO byltingunni, elur á hryllilegu hatri á karlmönnum. Þær taka ákveðna menn fyrir og niðurlægja þá í orði, á lokuðum síðum á Facebook og koma fram undir nafni – hiklaust.

Mér þykir vænt um konur. Mér finnst konur spennandi og þær eru mér nauðsynlegar til að lifa. Ég á móður sem er góð húsmóðir og reynist traust í öllu. Hún hatar ekki karlmenn. Ég á vinkonur sem eru mér sem hlekkur í góðri vinakeðju sem má aldrei slitna. Þær hata ekki karlmenn.

Því velti ég því fyrir mér hvort eitthvað andlegt mein búi ekki að baki þeirra kvenna sem ákveða að hata alla karlmenn sem tjá sig um jafnrétti, feminisma, baráttu fyrir réttindum beggja kynja, og tjá sig um konur almennt – með þeirra hætti? Getur verið að þessar konur séu með mölbrotna sjálfsmynd og laskaða, að hluti af líðan þeirra brýst út í gengdarlausu og hræðilegu hatri í garð karlmanna?

Vegna þess að þær, þessar konur, tengja þennan ásetning sinn við METOO byltinguna, þá hef ég ákveðið að tengja mig ekki með neinum hætti við þá byltingu sem augljóst er að éta sig upp í hatri, eins og sést á umræðunni sem þessar örfáu konur hafa skaðað góðan málstað og þarfan.
Ef ég hataði eitthvað þá var það gerandinn, í mínu tilfelli. Ég var vissulega reiður, en hluti af öllu ferlinu var að skila skömminni því hún var ekki mín.

Ég finn því til með þessum konum sem hata mig. En ég get svo sem lítið sagt enda hluti af „feðraveldi“ – og ég er karlmaður. En kannski ættu þessar konur og við öll að velta því fyrir okkur hvers vegna drengjum gengur verr í lestri, fara síður í framhaldsskóla, eiga oftar en ekki við tilfinningavanda að stríða, frekar en stúlkur.
Væri ekki nær að þessar konur leituðu sér aðstoðar í hatrinu og að við karlmenn fáum að vera karlmenn? Við þurfum í það minnsta að fara að grípa til alvarlegs inngrips með líðan ungra drengja, og ekki hjálpa þessar konur til.

Skömmin er jú þessara kvenna í dag!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2018 - 18:31 - Rita ummæli

ER SLÖKKVILIÐSSTJÓRINN BRENNUVARGURINN?

Ódýr redding meirihluta borgarstjórnar, sem var að brenna inni með svörin um Braggamálið, var að fá slökkviliðsstjórann til að slökkva í sinunni með klöppum úr ráðhúsinu – og rjúka svo í burtu ábyrgðarlaus. Vitleysan, þvælan og stjórnleysið er lýgilegt.

Það að stjórnandi borgarinnar undir stjórn borgarstjóra hafi getað þetta er óeðlilegt og þýðir aðeins eitt – lögreglurannsókn er næsta skref þessa máls og annarra sem hafa verið keyrð langt framúr. Heiðarlegir starfsmenn borgarinnar eiga rétt á því – ásamt borgarbúum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar