Föstudagur 7.12.2018 - 20:19 - Rita ummæli

JÓLIN MEÐ ÓKUNNUGUM

Nokkur aðfangadagskvöld hef ég fengið þann heiður að geta hjálpað til við hátíðarhald hjá Hjálpræðishernum. Það er gert með ýmsum hætti. Ég hef farið í uppvaskið, skorið niður kjötið, þjónað til borðs, og síðast og ekki síst – verið til staðar fyrir allt það fólk sem kemur. Eru þetta fallegustu minningar mínar um aðfangadagskvöld. Margir hafa haft áhyggjur af mér að vera „einn“ um jólin en þetta kvöld er einstakt og best að nýta það í það ítrasta. Fyrir mig er það heiður að fá að þjóna þetta mikla kvöld í lífi kristinna manna. Jólin eru einstök hjá hernum.

Ég hvet þá sem geta að horfa á þennan þátt jólanna. Jafnan um jólin vantar sjálfboðaliða víða og einnig hjá Hjálpræðishernum.

Önnur hjálparsamtök hafa nóg að gera um jólin og ég veit að það verður mikið að gera hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir þessi jól enda jólaúthlutun alltaf stór. Það er gott að muna eftir þessum aðilum og sérstaklega um jólin.

Allir eiga að fá gleðileg jól. Gerðu þitt til að svo verði!

„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.“
– Matteusarguðspjall 25 kafli, vers 35-37.

Á myndinni erum við Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum. Myndin er tekin á aðfangadag árið 2016.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.12.2018 - 09:52 - Rita ummæli

SÓLHEIMAR Í GRÍMSNESI – SAMFÉLAG TIL EFTIRBREYTNI

Það er ákaflega góð minning er ég hitti þennan merkilega mann fyrst fyrir tveimur árum.
„Það hefur bjargað minni tilveru að vera upptekinn. Upptekin í lífinu og þessum dellum sem ég fengið eins og þetta með fána, tölur og íslenska málfræði,“ segir Reynir Pétur en hann hefur búið á Sólheimum í yfir sextíu ár. Fyrstu ár ævi sinnar bjó hann í Kamp Knox og flutti svo á Sólheima þar sem hann býr ásamt Henný eiginkonu sinni.

Reynir Pétur er hugsjónarmaður sem virkilega er gaman að tala við og hefur einstaka og nægjulega sýn á heiminn. Sú sýn sem hann hefur og er á Sólheimum í Grimsnesi, ætti að vera eftirbreytni fyrir okkur öll en þar leynist tilvera sambúðar einstaklinga sem er fyrirmynd af samfélagi sem ég vil búa og lifa í.

Þar er nægjusemin lífsskoðun og vinnusemin til samfélagsins dyggð. Á Sólheimum byggist allt upp með samkennd og tillitssemi, kærleika og vináttu. Þar eru allir vinir og illmælgi á hvergi þar heima.
Já, í raunverulegu og lifanda lífi tilveru dagsins er til svona líf, líf sem ætti – og gæti verið eftirbreytni fyrir okkur öll.

Mér þykir óendanlega vænt um Sólheima í Grímsnesi. Ég sendi bestu jólakveðjur til allra þar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.12.2018 - 00:20 - Rita ummæli

MÍNAR ÁHYGGJUR!

Ég hef ákveðið að tjá mig sem minnst um það sem hefur gengið á í Miðflokknum síðustu daga og læt því aðra um það mál og það að klára þá ákvörðun og hreinsa upp eftir sig!

Hitt er annað mál og mér mikilvægara en það sem þjóðin er að tapa sér útaf, en það er staða frænda míns Einars Óla sem fékk alvarlega heilablæðingu fyrir einu og hálfu ári. Eftir að hafa verið sendur til Svíþjóðar í aðgerð sem fór ekki eins og vonast var til varð heili hans fyrir miklum súrefnisskorti. Einar Óli hlaut alvarlegan heilaskaða. Allt breyttist og tilvera okkar allra í fjölskyldunni. Margir aðrir úr fjölskyldunni koma að því að létta undir með Einari Óla og fjölskyldu hans sem staðið hefur vaktina allan þennan tíma.

Í eitt og hálft ár hefur Einar Óli mátt vera á Grensásdeild og eru engin úrræði í boði fyrir hann. Staðan er ömurleg og er ekkert að lagast og algjört úrræðaleysi frá yfirvöldum. Einar Óli er einn af mörgum aðilum í sömu stöðu.

Hér er að finna viðtal við móður Einars Óla. Ég hvet ykkur til að hlusta, staldrið við og horfið í þau gildi sem þarf að hafa í lífinu, hvernig staða þeirra er sem eru í sömu sporum og við fjölskyldan. Íhugið hvað skiptir máli og gott væri að reyna að læra af því, sérstaklega eftir undanfarna daga. Já, mér þætti vænt um að þið hlustið…

Og á meðan staðan er óbreytt hjá flokknum er hyggilegast að draga sig frá allri umræðu í Miðflokknum og þeirri meðvirkni sem er augljóslega þar.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
2. varaborgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.11.2018 - 13:17 - Rita ummæli

AÐ VERA ÁHRIFAVALDUR

 

Það er þannig í lífi okkar að við hittum fyrir fólk sem oft á tíðum kemur óvænt í líf okkar. Aðrir koma með vindinum og stökkva með þér um borð þangað sem vindurinn feykir þér. Aðrir koma með einhverskonar vitund og lífsreglum, visku og hæfileika til að vera sem fyrirmyndir í leik og starfi. Margir af þeim skildu eftir sig haf af visku, fræðslu, og eftir sitja minningar um þetta fólk sem með einum eða öðrum hætti setti mark sitt á söguna, ekki með 30 sekúndna videómyndskoti á vefmiðlum – heldur í hina lifandi sögu veraldar. Þetta fólk breytti sögunni margt hvert – og gerir enn!

Að vera áhrifavaldur vinnst ekki með auglýsingum og bellibrögðum kaupmennsku og augnabliks frægðar á veraldarvefnum, heldur með þeirri andlegri gjöf og visku sem manneskjunni er gefið með þeim hæfileika til að skilja eftir sig spor sem aldrei hverfa – vera fyrirmynd – óumbeðin fyrirmynd. Spor sem stígin voru með innlegg þeirra til heimsins, bara með orðum þeirra og hátterni. Það eru ahrifavaldar heimsins, hinir sönnu sem eftir er tekið, en á hraða nútímans er líkt og blik þeirra hverfi í hraðanum. En það mun aldrei gleymast – það verk sem eftir þau eru, því sagan er það sterk sem eftir þau eru og er enn að skrifast.

Ég var því hissa á því að heyra að nýjasti starfstitillinn í dag er „áhrifavaldur.“ Stundum hugsa ég því alvarlega; „hvert er þessi þjóð að fara?“

*Ég birti hér nokkra af þeim áhrifavöldum í lífi mínu, fyrir utan foreldra mína sem kenndu/kenna mér um lífið, nákvæmlega eins og það er glyslaust. Ég er enn að læra!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2018 - 19:41 - 1 ummæli

KONUR SEM HATA KARLMENN

Mynd: undirritaður 

Fyrir rúmu ári steig ég fram í erfiðustu ákvörðun minni vegna kynferðismisnotkunar sem ég varð fyrir. Eitt af haldreipum mínum var stór hópur fólks sem kvittaði sig inní METOO byltinguna. Við treystum því að viljinn væri sá einn að stíga fram og vera fyrirmynd annarra til að létta á þessum þungu skrefum. Það hélt ég að væri tilgangurinn.

Nú hefur hópur kvenna farið í krossferð gegn körlum og tala niðrandi og ljótt um þá, af þeim óafvitandi jafnvel, og án þess að þeir geti nokkuð varið sig. Þær tala niður til okkar karlanna með ýmsum yfirlýsingum og kalla okkur meðal annars Feðraveldi. Er það sagt með neikvæðum hætti og feður okkar dæmdir fyrir tíðarandann sem þá var. Þær hafa þar með skorið á haldreipi mitt. Brýst þetta út hjá þessum konum sem algjört hatur á karlmönnum.
Til verða konur sem hata karlmenn. Jafnvel segja sumar að þær þurfi ekki á karlmanni að halda í líf sitt, hvorki til lags, né til að stofna eigin fjölskyldu. Nútíminn og læknisfræðileg tækni gefi konum það tækifæri. Konur eigi að standa saman og í huga margra á að rústa karlinum. Karlar eru að verða óþarfir.

Í öllu þessu erum við karlmenn í algjörri klemmu margir. Við fáum ekki að vera karlmenn því sumar konur hafa ákveðna skoðun og upplifun á því hvað karlmaður á að gera. Oft er sú hugmynd svo brengluð að við botnum hvorki upp né niður hvers er ætlast til af okkur. Og ef við reynum þá er það fyrirfram dæmt – af konum!

Þessi þröngi hópur kvenna sem í raun rændi METOO byltingunni, elur á hryllilegu hatri á karlmönnum. Þær taka ákveðna menn fyrir og niðurlægja þá í orði, á lokuðum síðum á Facebook og koma fram undir nafni – hiklaust.

Mér þykir vænt um konur. Mér finnst konur spennandi og þær eru mér nauðsynlegar til að lifa. Ég á móður sem er góð húsmóðir og reynist traust í öllu. Hún hatar ekki karlmenn. Ég á vinkonur sem eru mér sem hlekkur í góðri vinakeðju sem má aldrei slitna. Þær hata ekki karlmenn.

Því velti ég því fyrir mér hvort eitthvað andlegt mein búi ekki að baki þeirra kvenna sem ákveða að hata alla karlmenn sem tjá sig um jafnrétti, feminisma, baráttu fyrir réttindum beggja kynja, og tjá sig um konur almennt – með þeirra hætti? Getur verið að þessar konur séu með mölbrotna sjálfsmynd og laskaða, að hluti af líðan þeirra brýst út í gengdarlausu og hræðilegu hatri í garð karlmanna?

Vegna þess að þær, þessar konur, tengja þennan ásetning sinn við METOO byltinguna, þá hef ég ákveðið að tengja mig ekki með neinum hætti við þá byltingu sem augljóst er að éta sig upp í hatri, eins og sést á umræðunni sem þessar örfáu konur hafa skaðað góðan málstað og þarfan.
Ef ég hataði eitthvað þá var það gerandinn, í mínu tilfelli. Ég var vissulega reiður, en hluti af öllu ferlinu var að skila skömminni því hún var ekki mín.

Ég finn því til með þessum konum sem hata mig. En ég get svo sem lítið sagt enda hluti af „feðraveldi“ – og ég er karlmaður. En kannski ættu þessar konur og við öll að velta því fyrir okkur hvers vegna drengjum gengur verr í lestri, fara síður í framhaldsskóla, eiga oftar en ekki við tilfinningavanda að stríða, frekar en stúlkur.
Væri ekki nær að þessar konur leituðu sér aðstoðar í hatrinu og að við karlmenn fáum að vera karlmenn? Við þurfum í það minnsta að fara að grípa til alvarlegs inngrips með líðan ungra drengja, og ekki hjálpa þessar konur til.

Skömmin er jú þessara kvenna í dag!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2018 - 18:31 - Rita ummæli

ER SLÖKKVILIÐSSTJÓRINN BRENNUVARGURINN?

Ódýr redding meirihluta borgarstjórnar, sem var að brenna inni með svörin um Braggamálið, var að fá slökkviliðsstjórann til að slökkva í sinunni með klöppum úr ráðhúsinu – og rjúka svo í burtu ábyrgðarlaus. Vitleysan, þvælan og stjórnleysið er lýgilegt.

Það að stjórnandi borgarinnar undir stjórn borgarstjóra hafi getað þetta er óeðlilegt og þýðir aðeins eitt – lögreglurannsókn er næsta skref þessa máls og annarra sem hafa verið keyrð langt framúr. Heiðarlegir starfsmenn borgarinnar eiga rétt á því – ásamt borgarbúum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.10.2018 - 22:08 - Rita ummæli

ÚTIGANGSFÓLK DEYR !!

Þetta er svo sorglegt. Við sem þekkjum þetta erum alltaf að hamra á þessum mikla vanda útigangsmanna. Ár eftir ár, vetur eftir vetur. Já, senn kemur vetur. Frostið mun bíta og ennþá má fólkið í þessum sporum berjast fyrir lífi sínu – og tapa – fólk deyr.
Það væri réttast að loka þessu bölvaða braggaskrýpi eða Mathöllinni við Hlemm til að svara ákalli þessa fólks. Breytum bragganum í heimili – tökum Mathöllina og opnum fyrir venjulegt fólk, ekki uppveðraða snobbista. Ömurleg staðreynd að búið sé að eyða fé í braggann og Mathöllina.

Þingmaðurinn Samfylkingarinnar skammar borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna. Væri ekki nær að horfast í augu við staðreyndir um stöðuna og breyta strax? Þingmaðurinn ætti að skammast sín fyrir að snúa út úr og hún ætti að horfa á stöðuna!

Ég fordæmi vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar – hafið skömm fyrir vinnubrögð ykkar. Drattist til að koma niður úr fílabeinsturninum og horfa á lífið eins og það er hjá mörgum í Reykjavík!

Skammist ykkar!!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.10.2018 - 10:50 - Rita ummæli

ER VIGDÍSI UM AÐ KENNA?

Braggamálið tekur nú nýja stefnu hjá meirihluta borgarstjórnar. Oddviti Pírata kennir Vigdísi Hauksdóttur um að skemma partýið í ráðhúsinu. Það er Vigdísi að kenna að upplýsa eitt mesta sukk sem borgarstjóri er ábyrgur fyrir. Píratar eru grautfúlir því þeir eru meðsekir fyrir vitleysuna og að leyft þessu máli að fara svo langt eins og er enn að koma í ljós.
Ljósglætan er að Viðreisn lýst ekkert á blikuna og vita að þeim er kennt um sóðaskap í veislunni sem þeim var boðið í. Sá sem rústaði veislunni er flúinn og lætur aðra gesti sjá um að ganga frá.
Braggamálið er ekki Vigdísi að kenna. Hún er kjörinn fulltrúi borgarbúa og ber að hafa aðhald og vinna fyrir borgarbúa – og það gerir hún.
Ef þetta mál hefði ekki komið á yfirborðið væru borgarbúar ekki með eina einustu vitneskju um það að borgarstjóri er ábyrgur fyrir því að gamall braggi var gerður upp og það að kostnaðaráætlun við þá vinnu fer svo langt fram úr áætlun að ekki bara kjörnum fulltrúum borgarráðs gjörsamlega blöskrar, heldur eru borgarbúar orðlausir yfir málinu.

Líklegt er að Braggamálið sé eitt af mörgum hjá borgarstjóra sem hefur farið langt yfir skynsamlega kostnaðaráætlun því við höfum séð nokkur gæluverkefni borgarstjóra og hans fólks spretta upp og engu er til sparað – flest allt í 101 Reykjavík. Á meðan er ekki einu sinni hægt að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börnin, vinnueftirlitið leggur dagsektir vegna vanrækslu, húsnæðismál eru enn í ólestri, og sumir skólar þurfa verulegt viðhald og endurnýjun tækja og annarra nauðsynja sem börn nota dagsdaglega.

Innri endurskoðun borgarinnar hefur örugglega að geyma gott fólk sem kann til verka, en skynsamlegt er að fá óháða aðila til að rannsaka þetta mál – og önnur, þar sem grunsamlega mikið er m.a. að sjá sömu verkfræðistofuna vinna sérverk borgarstjóra og fá tugi milljóna fyrir – úr sjóði borgarbúa. Um það snýst málið, en ekki það að um Vigdís Hauksdóttur sé að kenna. Vigdís er einfaldlega að vinna vinnuna sína með ábyrgð!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.10.2018 - 06:15 - Rita ummæli

ÞEGAR KAUPMAÐURINN STAL JÓLUNUM

 

Ég telst vera jólasveinn. Ég á við algjör jólasveinn, eins og Ketill Larsen heitinn og Ómar Ragnarsson. Ég hef verið að í 34 ár hver einustu jól í desembermánuði. Síðustu árin voru með Hjálpræðishernum í Reykjavík. Þetta „jobb“ er líklega það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í – og mun taka þátt í. Tugir jólaböll, þúsundir heimsókna, og endalaus gleði. Það er einmitt ólýsanlegt að sjá glampann og gleðina, vonina og þetta augnablik barnsins; „loksins er Sveinki komin!“

Í dag er öldin önnur

Jólaatið hefst í ágústmánuði, næstum fjórum mánuðum fyrir jólin. Taugaveiklun kaupmannsins um það að hefja maraþonið og kappið um þessa hátíð sem er í raun í nokkra daga, er með ólíkindum. Það verða allir að gera þetta og gera hitt. Heilu þættirnir í sjónvarpi og útvarpi snúast um jólin. Raftæki, húsgögn, matvörur og annað breytist í það að verða „jóla.“ Jólakókómjólk, jólajógúrt, og nú er meira að segja sérstakur jólabjór sem mætir í bæinn og bjórdrykkjumenn fagna sínum jólum með ærlegri drykkju enda „takmarkað magn.“ Aðrir hversdagslegir hlutir breytast í „jóla.“

Það er kaupmaðurinn sem stelur jólunum með ofsa sínum og græðgi. Það er kaupmaðurinn sem breytti jafnvel jólasveininum og klæddi hann í bláann búning til að aðlagast verslun sinni. Það er kaupmaðurinn sem telur okkur í trú um það að jólin hefjist – ekki nema

Ég man eftir jólunum þegar þau fengu að koma með þeirri eftirvæntingu sem þau báru með sér. Þau hófust í bíltúr að Rammagerðinni í Reykjavík þar sem jólasveinarnir þar voru mættir, einmitt til kaupmannsins sem kom með þessa hlið jólanna, en með skynsamlegum hætti – hann byrjaði í desembermánuði. Hljóðlaus andardráttur jólasveinanna var dularfullur og framandi. Við gluggann þráði maður að tala við Sveinka, fá að snerta hann. Ég man líka þegar kveikt var á Óslóartrénu og jólasveinarnir skemmtu á þaki Nýja Kökuhúsins við Austurvöll og Ketill Larsen var hver einustu jól, eða þar til ég svo vissi hver var bakvið gervið. Ég man þegar Gáttaþefur söng fyrir börnin – og ég söng með.

Jólin er hátíð og tilgangurinn er að gleðjast og fagna. Við njótum og gefum af okkur – og frá okkur. En við kaupum ekki þessa gleði með einum einasta hætti. Engin jólakókómjólk eða jólabjór gefur okkur þá gleði sem jólin eru. Ef eitthvað er þá kemur jólabjórinn með sér aukið svoll um þessa hátíð sem er hátíð barnsins.

Mér hefur blöskrað ofsinn í kaupmanninum og atið við að reyna að selja okkur jólin, selja okkur þá hugmynd að jólin hefjist, ekki nema…

Það er ekkert „ekkert nema!

Jólin koma og þau fara. Hvað skilur eftir er mesta verkefni okkar. Hvernig minnumst við jólanna og hvernig gleðjumst við. Við eigum að fá að hafa jólin í friði, laus frá þessari ótukt sem búið er að skapa. Við eigum að fá að vera einlæg og kannski einföld yfir jólin. Við eigum að fá að hafa kirkjuna og helgihald hennar. Við eigum að fá að hlusta á messuna í útvarpinu. Við eigum að fá að hafa grunngildi kristninnar – ef við viljum. Við eigum ekki að láta kreddur hræða okkur og því síður að láta kaupmanninn telja okkur í trú um það að jólin hefjist í ágúst.

Ég er líklega farin að eldast og telst vera of gamaldags. Ég verð líklega skammaður af kaupmanninum, bjórdrykkjumönnunum, jógúrtgerðarmanninum, og þeim sem halda ekki jól.

En hvað get ég sagt? Ég er jú bara jólasveinn…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.10.2018 - 22:05 - Rita ummæli

ÞRJÚ, FIMM, SJÖ, NÍU, OG ELLEFU…

Eldri bróðir minn starfaði á sínum yngri árum meðal annars sem dyravörður í Regnboganum sem var kvikmyndahús og er nú þar sem Bíó Paradís er til húsa. Dyraverðir í kvikmyndahúsum voru reffilegir menn, jafnvel sumir í júníformi. Þeir tóku afrifu miðana og vísuðu fólki til sætis. Þeir höfðu vasaljós til að lýsa yfir salinn í leit að lausum sætum fyrir þá sem komu of seint, sýningin hafin, og tróðu sér svo meðfram sætaröðinni. Var það gjarnan mikil truflun og fengu þeir kvikmyndagestir illt auga frá öðrum gestum sýningarinnar.

Gjarnan um helgar þótti mér gaman að hjálpa til við gæsluna og stóð stoltur í anddyrinu og fylgdist með bróður mínum vinna verk sitt með miklum sóma og af ábyrgð. Eitthvað var um að krakkagrey reyndu að fara á kvikmyndir sem bannaðar voru yngri en 16. ára. Man ég eftir einum ólátabelg úr hverfinu mínu reyna það en bróðir minn stöðvaði hann. Er ekki laust við að hlakkað hafi í mér að sjá hann stara á mig með mikilli öfund – hinumegin við gluggann og í öruggum höndum dyravarðarins.

Ég var svo heppinn þegar bróðir minn var í hurðinni, að fara á alla sýningartíma dagsins – þrjú, fimm, sjö, níu, og ellefu. Fékk ég nóg af poppkorni og gosdrykki. Ég var greifi í sölum Regnbogans. Þegar leið á kvöldið fór ég heim með bróður mínum, sæll og uppfullur af poppkorni. Í einhver skipti fengu mínir bestu vinir að upplifa þennan einstaka munað og forréttindi. Fréttist það fljótt og þótti mikið. Ólátabelgurinn komst svo að því einnig og framvegis hnussaði hann til mín er við mættust, eða þar til hann varð sextán ára.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar