Sunnudagur 30.9.2018 - 11:54 - Rita ummæli

MEÐ KIM LARSEN Í DÖNSKUTÍMA

Danska alþýðuskáldið Kim Larsen er látinn. Ég þakka fyrrum kennara mínum Vernharði Linnet fyrir að kynna mig fyrir þessum mikla tónlistarmanni dana. Með einstökum hætti nýtti Venni, eins og við kölluðum hann oftast, texta og lög Kim Larsen og þannig virkjaði hann okkur nemendur í að syngja með og kynna okkur innihald textanna sem skáldið söng. Ég fór aðra leið en þá að hella mér í það að læra dönsku, því ég hreyfst þarna mjög af tónlist og persónunni Kim Larsen.

Eftir situr merkileg saga um skáldið Kim Larsen sem nam land á Íslandi með tónlist sinni og alla leið í grunnskóla borgarinnar. Fyrir það er ég afar þakklátur fyrir og þykir vænt um minninguna er við nemendur Venna sátum í hátíðarsal Breiðholtsskóla, sáum Vernharð handleika plötuna þá skiptið, blása rykið af nálinni og við tókum þátt í merkilegasta kennslutíma sögunnar að ég tel – hlusta á í morgunsárið á Kim Larsen og fræðast um dönsku – á okkar hátt!

Blessuð sé minning þessa mikla skálds!

…tak for hele tiden Kim Larsen!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.9.2018 - 23:06 - Rita ummæli

MÁLEFNI HEIMILISLAUSRA – LOKSINS ER HLUSTAÐ!

Ég fagna því að borgarráð sýni þó þennan lit í málinu. Þetta var og er eitt af málum okkar í Miðflokknum í Reykjavík. Það er því ánægjulegt að raddir okkar og margítrekuð áminning um þessa nöturlegu staðreynd hafi náð í gegn, enda eru borgaryfirvöld búin að fá fyrir löngu aðvörun um algjört úrræðaleysi í þessum málum. Háværar raddir okkar virkuðu – því fagna ég!

Nú vetrar og því þarf að vinna skjóttþessum málum!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.9.2018 - 03:14 - Rita ummæli

LOF MÉR AÐ FALLA…

Það eru mjög blendnar tilfinningar sem bærast um í huga manns og hjarta eftir að hafa séð nýjustu kvikmynd Baldvins Z, „Lof mér að falla.“ Kvikmyndin er einstök og hefur brotið blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar og fer út fyrir allt í túlkun á viðfangsefninu. Leikarar allir skara framúr og sýna magnaðan leik. Tónlistin er virkilega góð og flæðir með sem fullkomin stuðningur við túlkun leikarana og áherslur leikstjórans.

En myndin „Lof mér að falla“ er einnig tímamótaverk og mun fara í algjöra nýja nálgun með framhald sitt því myndin er ein mesta staðreynd samtímans í íslensku samfélagi í dag. Hún er núið, með sorg og sárum staðreyndum um það sem við sem þjóð erum að berjast við. Myndin sýnir heim sem við stöndum stjörf yfir að sé til og vonum að við getum falið okkur bakvið það að þetta sé bara bíómynd. En „Lof mér að falla“ er sárasta staðreynd og sönnun um það sem er að gerast núna – núna þegar fjöldi ungs fólks hefur látist sem af er árinu vegna fíkniefnaneyslu.

Myndin sýnir líka þá ömurlegu staðreynd um stöðuna í heilbrigðiskerfinu, stöðunni í meðferðarúrræðum ungra fíkla, og ekki síst stöðunni með geðheilbrigðisþjónustu okkar hér á landi. Hún vekur upp reiði vegna stöðunnar og við spyrjum okkur, eftir að ganga uppgefin frá myndinni, dofin og orðlaus yfir því hvers vegna er ekki búið að leggja af stað í að breyta þessari stöðu, bæta úrræðin og styrkja það sem fyrir er. Við sjáum og heyrum af fréttum um skelfilegt bruðl stjórnvalda í dag og það sem við höfum verið að heyra í fréttum undanfarna daga og vikur. Svo er reynt að slá á umræðuna með því að skella fram loforðum og enn öðru átakinu. Af þessu er mesta skömm – fólk er að deyja – ungt fólk er að deyja!

„Lof mér að falla“ er mynd sem allir verða að sjá. Foreldrar, unglingar, allir verða að sjá þessa mynd. Ráðamenn þjóðarinnar ættu að sjá hana sérstaklega. „Lof mér að falla“ mun breyta öllu í dag því boðskapur hennar er mikill. Hún mun verða sýnd í skólum því hún er sorglegt dæmi og hefur gríðarlegt forvarnargildi. Það var því ánægjulegt að heyra það að foreldrar sé að gefa sér tíma til að fara í bíó og með börnum sínum til að horfa og læra af henni. „Lof mér að falla“ kallar fram allar mestu tilfinningar okkar og tár.

Ég vil þakka aðstandendum og leikurum fyrir einstaka og áhrifamikla túlkun sína. Baldvin Z. þakka ég fyrir að fara í þessa einstöku ferð.

„Lof mér að falla“ skilur eftir sig…

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.9.2018 - 12:10 - Rita ummæli

PARTÝIÐ HJÁ WOW AIR

Skúli Mogensen forstjóri WOW er mikill glaumgosi að mér finnst. Hann kann að láta á sér bera, heldur svakaleg partý eins og það í Hvammsvík fyrir stuttu. WOW AIR hefur virkað eins og partý nýríkra krakka, bleik föt, selfie-æði flugstjóra og nú síðast – galin partý með áflogum og látum sem rata í fréttirnar.

En Skúli hefur breytt flugmarkaði okkar íslendinga og frá því oki sem hefur keyrt okkur niður í áratugi. Það kann að vera að Skúli Mogensen sé glannalegur í viðskiptum. Það kann að vera að hann hafi einmitt farið glannalega í vegferð sína með WOW. En, mér finnst hlakka í ansi mörgum að sjá WOW fara á hausinn. Hagur Icelandair myndi bætast verulega samkeppnin færi í sama einokunarstöðuna – kolkrabbinn næði yfirráðum sínum. Leiðir Icelandair eru lítið frábrugðin þeim sem WOW nýtti sér í góðæri ferðamanna. Meira er talað um glaumgosann og galdramanninn úr Oz.

Svo fremur sem Skúli Mogensen dregur ekki fólk niður með sér, að hann plati ekki fjárfesta í einhverja vitleysu sem er óvinnandi, og rífi ekki lífeyrissjóði með sér í limbó sem gæti skilað engu, þá óska ég þess að Skúli nái að halda sjó. Ég vona að hann nái að koma fyrirtæki sínu í jafnvægi og ég vona að hann slái af partýstemningunni því nú er komin tími á að sýna meiri ábyrgð – í raun fyrir löngu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2018 - 17:33 - Rita ummæli

Á MEÐAN LÖMBIN SOFA – SÓKN SÓSÍALISTA!

Gunnar Smári Egilsson talsmaður Sósíalistaflokksins kann að skapa sér góða vinnu. Hann fór trylltan dans með 2007 liðinu hér fyrir einhverjum árum, ætlaði svo að stýra álfasölu og góðgerðarsamtökum, en er nú komin í eitt mesta plott stjórnmála, því svona eldflaug eins og Gunnar Smári deyr ekki ráðalaus. Hann ætlar sér að þurrka út heila ríkisstjórn, lama stóra stjórnmálaflokka, og þar af þurrka nánast út tvo af þeim. Reyndar mun honum takast að laska alla verulega. Gunnar Smári segist ekki þurfa nema 20% til að ná árangri – þar er sóknin hans.

Til verksins hefur Gunnar Smári bróðir sinn, málglaðan berservís, Sigurjón M. Egilsson sem m.a. ritstýrir miðlægu-kaffistofuspjalli á netinu. Þetta eru hörkuduglegir bræður – í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Þeir hafa einnig komið sér fyrir á útvarpsstöð og undirbúa plottið afar vel. Þeir komu verkalýðsforingja til valda með því að smala í kosningu, og þeir fóru meira að segja inn í hóp yfirlýstra einstaklinga og samtaka sem berjast gegn fátækt og rifu það fólk með sér í limbó sem skilaði þeim það góðum árangri að Framsókn þurrkaðist út í Reykjavík og inn kom nýr flokkur hans sem talar – öðruvísi.

Borgarstjórnarkosningarnar í vor var general prufan á því hvort plottið tekst, og að öllum líkindum mun það takast!

Gunnar Smári og hans fólk hefur blásið til sóknar með verkalýðshreyfingunni og foringjum þeirra, enda þarf sá nýjasti að launa greiðann. Þeir ala á reiðinni og maklegum málagjöldum í næstu kjarasamningum.

Samkvæmt öllu er þessi áætlun ekki fjarri lagi: ASÍ verður hernumið af foringjum verkalýðsins sem tala mannamál og ítrekað bent á afnám verðtryggingar, réttlæti, mismunun í samfélaginu og augljósa stéttarskiptingu. Eftir áramót mun ríkisstjórn Íslands verða ýtt til hliðar fyrir Sósíalista sem markvisst taka hárrétta taktík á því sem skiptir mestu máli – laun og kjör – leið til betra samfélags með réttlæti. Gunnar Smári og hans fólk munu laska og lama núverandi stjórnmálaflokka svo mikið að þeir munu finna fyrir því. Með þéttri fundarherferð um allt land, með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar, trúnaðarmanna þeirra og hins almenna kjósanda sem tekst á við brjálaða háa húsaleigu sem skilar fjölskyldum út í tjöld og hreisi, með endalausar áhyggjur af því að endar nái saman, þannig hefur Gunnar Smári lesið stöðuna – eins og hann gerði í partýinu 2007 og menn trúðu því að þeir gætu valtað yfir danskan dagblaðamarkað og mikið fé var sett í háfleigar hugmyndir sem hrundu svo eins og spilaborg. En núna hefur Gunnar Smári vandað sig. Hann telur sig hafa lært af mistökum sínum.

Næsta ríkisstjórn Íslands verður mynduð eftir áramót þegar VG klippir á samstarfið vegna innanflokksdeilu grasrótarinnar og ótta um að þurrkast út – missa völdin, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn boðar róttækar breytingar og formaður flokksins stígur til hliðar og nýr armur flokksins tekur við. Framsókn mun í ofboði reyna annað útspil og skiptir um annan formann og ætlar að prófa ný jakkaföt. Ásmundur Einar Daðason verður sá aðili ásamt sýnum fylgismönnum sem létu núverandi formann um höggið fyrir Framsókn. Miðflokkurinn fær kannski að vera með í nýrri ríkisstjórn en ekki fyrr en formaður flokksins breytir um taktík. Samfylkingin mun sundrast því innri átök um forystulega röðun smákónga innan hennar raða mun eyðast upp í árás sósíalista. Eftir sitja Píratar sem eru í forystukreppu eftir að Birgitta fyrrum kafteinn þeirra gaf frat í fólkið sitt.

Eftir allt þetta mun Gunnar Smári sitja sáttur með fínasta jobb. Bróðir hans þarf aldrei að fara á sjóinn aftur og Sósíalistaflokkurinn mun verða mesti populismi í sögu stjórnmála. Á meðan þetta fer fram, og er í raun þegar hafið og fyrir löngu skipulagt, sofa lömbin værum svefni og vakna svo í kuldanepju á nýju ári – þegar þeim verður slátrað!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.8.2018 - 14:36 - Rita ummæli

KÍKTU INN, ÞAÐ ER ÓLÆST…

 

 

Í sveitinni eru útidyrnar alltaf ólæstar. Þegar gesti ber að garði þá er drepið á dyr, hurðin er opnuð og kveðja köstuð svo vel heyrist. Ef einhver er heima er sest niður og allar heimsins fréttir úr sveitinni skauta fram með kaffisopa og kruðerí. Ef engin er heima þá lokar maður hurðinni, setur kannski niður skilaboð á blað um að okkur hafi borið að garði en engin virst vera heima. Biður maður fyrir kveðju til heimilismanna. En, maður lokar ólæstri hurðinni.

Í dag er þetta ekki hægt. Óprútnir aðilar hafa áttað sig á því að íslenskt alþýðufólk til sjávar og sveita er í hörkuvinnu á daginn og treystir því að heiðarleikinn og sú gamla hefð að hafa ólæst, sé höfð í heiðri og þetta traust sé ekki brotið. Nei, nú hafa dökkhærðir erlendir skeggapar herjað í sveitirnar og rænt og ruplað á meðan fólk er við vinnu úti á engjum. Lögreglan sem hingað til hefur haft mestu áhyggjur af sveitaböllum, meting og grobb milli sveitunga og bæjarhluta, og haft góða yfirsýn yfir héraðið, á nú fullt í fangi með að sinna oft glórulausum erlendum ferðamönnum sem annað hvort týnast eða festa sig í forarpitti vegna vankunnáttu og upplýsingaleysis. Ofan á þetta allt bætist á þessa tvo lögreglumenn á vakt – skeggaparnir sem virðast vera erlendir glæpakónar sem nýta sér sakleysi sveitarinnar. Nú þarf að loka öllum gluggum með krækjum, læsa hurðum og öll fylgsni þurfa að vera læst.

Nú er hún Snorrabúð stekkur. Nú bregður fólk sér ekki af bæ í snatri heldur þarf að tryggja að allt sé læst og lokað. Þökk sé þessum bévítans skeggöpum og þjófalýð sem fer óhindrað inn í landið og skapar sínar eigin reglur og eigin lög.

Ef við værum með virkt landamæraeftirlit og hætt í þessu Schengen-rugli, væri lögreglan búin að hafa upp á þessum þrjótum. En þess í stað þarf að eyða ótrúlegum tíma í að finna þjófana sem líklega ná að komast heim til sín eða úr landi með góssið úr íslenskum sveitum.

Skilaboðin eru því augljós, á meðan landamæraeftirlitið er eins og gatasigti; Kíktu inn, það er ólæst!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.8.2018 - 13:16 - Rita ummæli

REYKJAVÍK OG HONG KONG

Í allri umræðunni um húsnæðisvanda í Reykjavík, brjáluðu leiguverði, og lóðabrask borgarstjóra við auðmenn, að ekki sé nú minnst á stóran og fjölgandi hóp heimilislausra sem telur einnig námsmenn í miklum vanda – sofandi úti og á göngum háskóla, er vert að spyrja hvort Reykjavík sé Hong Kong norðursins?

Sjá myndband HÉR

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.8.2018 - 15:36 - Rita ummæli

VIÐ ERUM KOMIN Á ÞANN STAÐ

Ein fjölmennasta Menningarnótt Reykjavíkurborgar er að baki. Talið er að um tvö hundruð þúsund manns hafi verið í miðbænum. Margar góðar skemmtanir og frábært tónlistarfólk gerði kvöldið meðal annars afar ánægjulegt svo ekki sé minnst á veðrið sem var stillt og fallegt. Hin árlega flugeldasýning er mikilfengleg og spennandi er að sjá hvernig hún er hverju sinni, ár hvert.

Eitt þótti mér sláandi að sjá og það var mikil áfengisneysla, og sérstaklega var áberandi að sjá mikla unglingadrykkju og börn báru á sér bakpoka sem í var áfengi. Ekki var að sjá að foreldrar væru nærri. Frásögn lögreglu í fréttum staðfesta þetta.

Ég hef talið okkur íslendinga vinna að góðum málum í forvörnum og sýna eftirbreytni í því. Okkur hefur áunnist mikið verk, en margt af þessu brenglar baráttuna. Ég er nýlega búinn að taka þátt í viðtali á dönsku fréttastofunni TV2 þar sem umfjöllun þeirra var um góðan árangur í forvörnum okkar íslendinga í garð barna og unglinga. Danir dást að því hvað við erum dugleg og hvað rannsóknir skila.

Íslenskir áfengisframleiðendur markaðssetja vörur sínar með oft ansi bíræfnum hætti og dansa á línu þess sem telst löglegt. Með þátttöku ýmissa viðburða og tónleika er ljóst að ekki sé hægt halda skemmtun nema að fá styrktaraðila frá áfengisframleiðendum. Þar er nægilegt fé í að styrkja viðburði. Sumir tengjast íþróttum og fjölskylduhátíðum og telst því allt vera í lagi þrátt fyrir oft augljós brot á lögum og reglum sem tengjast auglýsingu á áfengi.

Á síðum á Facebook eru samkomur auglýstar og áfengi er hluti af skemmtuninni. Jafnvel á svæði skutlaranna á Facebook er skipulögð áfengissala og ekkert er gert í málinu. Yfirvöld horfa framhjá og ætlast er til þess að lögreglan bregðist við. Lögreglunni ber að bregðast við en vegna gífulegrar manneklu er líklega ekki mögulegt að sinna þessum málum. Á meðan eru oft og sérstaklega erlendir aðilar að skipuleggja harða svartamarkaðssölu á áfengi – beint fyrir framan okkur, yfirvöld, og ekki síst okkur foreldranna.

Yfirvöld þurfa því að ákveða hvort auglýsa megi áfengi á auglýsingamarkaði og þá að markaðurinn verði opinn með tilskilin leyfi. Og yfirvöld þurfa að ákveða hvort svartamarkaðssala á áfengi og „skutl“ sé gert leyfilegt.

Í raun er staðan þessi: yfirvöld þurfa að ákveða hvort þessi ótrúlegu vinnubrögð og viljaleysi í að fylgja lögum og siðferðilegum vanda sé áfram viðhaldið eða farið sé eftir settum lögum og reglum og eftirlitsaðilum gert mögulegt að framkvæma vinnu sína. Á meðan munum við sjá aukna drykkju ungmenna, ólöglegar áfengissölur, aukin afbrot og siðferðisrof samfélagsins.

Það er ljóst að yfirvöld geta ekki kennt lögreglunni um þróunina. Úrræðaleysi hennar er sorglegt og fjársveltið er orðið alvarlegt. Spurningin er því þessi: Erum við komin á þann stað að yfirvöld hafa viljandi gefist upp og horfa framhjá staðreyndum sem þykir óþægilegt að ræða? Getur verið að viðskiptalegir hagsmunir séu látnir ráða eða viljandi sé forgangur til lýðræðislegrar og siðferðislegrar eflingar ýtt til hliðar fyrir peningaöflin?

Að mínu mati, já…því miður.

Á meðan staðan er þessi skil ég vel áfengisframleiðendur nýti sér allar leiðir við að græða peninga og auka sölu á vörum sínum og þurfa á  sama tíma að hafa ólöglega sprúttsala á Facebook sem ákveðna samkeppnisaðila, aðila sem komast upp með það.

Við erum komin á þann alvarlega stað að langur biðlisti er í meðferðarúrræði, fíknivandinn er banvænn, og misskipting samfélagsins er sláandi. Orsök og afleiðing er rakin m.a. til stjórnleysis og viljaleysi yfirvalda – ríkisstjórn Íslands horfir framhjá einum mesta vanda samfélags okkar í dag…því miður. En fyrst og fremst þurfum við að horfa í eigin barm og spyrja okkur hvort við sættum okkur við stöðuna?

Það er því mikilvægt að viðhalda góðum árangri okkar íslendinga sem ratað hefur víða um heim. Við getum ekki alltaf lifað á gömlum rannsóknum og „frægð.“ Bæta þarf forvarnir, skilgreina betur lög og reglur, bæta strax meðferðarúrræði og auka fé í þann málaflokk, því það að fólk bíði eftir meðferð og deyi á meðan er hræðileg staðreynd. Að lokum er fyrir löngu komin tími til að efla lögreglu og bæta aðbúnað og kjör þeirra.

Við erum komin á annan stað og gætum misst af því mikla verki sem gerði okkur fræg og skilaði sér vel eftir gríðarlega mikla vinnu!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.8.2018 - 14:34 - Rita ummæli

FÓLKIÐ ÚT Á GRANDA

Út á Granda súnkar sólin í hafið við smáhýsin sem Reykjavíkurborg hefur fyrir heimilislausa. Allt um kring er ljóst að þau eru gleymd. Í raun er ullað á þau – þið eruð ekki memm!

Út á Granda er fólkið með jökulinn hjá sér. Hann vakir eins og faðir yfir börnum sínum. Á morgnana býður hann góðan dag og á nóttunni er sólin sæng jökulsins og hann horfir á börnin sín sofna – þegar þau loksins sofna.

Út á Granda stendur tíminn í stað á meðan velferðarráð náði að þagga niður ópin. Brátt kemur vetur og þá er ekki víst að það heyrist í ákalli heimilislausra – kannski er orðið of seint…

Það er von mín að borgarfulltrúar hætti fáránleikanum og horfi í staðreyndir um lifandi líf fólksins sem er látið afskiptalaust langt út frá iðandi lífinu, sigrunum, gleðinni. Ég vona að meirihlutinn í borgarstjórn fari að taka sig alvarlega.

Ég vona að fólk hætti að ulla á okkur!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.8.2018 - 10:18 - Rita ummæli

STOLNAR FJAÐRIR BORGARSTJÓRA

Ánægjulegt að sjá þessa framkvæmd. Það voru þær Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir þáverandi borgarfulltrúar sem lögðu fram tillöguna á sínum tíma en meirihlutinn í borgarstjórn ákvað að fresta málinu. Auðvitað eignar borgarstjóri sér heiðurinn af þessu núna, en hið rétta er m.a. tillaga þeirra valkyrjanna og ekki síst þrýstingur frá foreldrafélögum í Breiðholti sem eru gríðarlega sterk og með góða samstöðu.

Til hamingju foreldrar í Reykjavík að nú sé loksins verið að sinna þessu mikla hagsmunamáli. Hitt er annað mál að borgarstjóri skreytir sig með stolnum fjöðrum. Hann kann það!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar