Miðvikudagur 17.10.2018 - 22:08 - Rita ummæli

ÚTIGANGSFÓLK DEYR !!

Þetta er svo sorglegt. Við sem þekkjum þetta erum alltaf að hamra á þessum mikla vanda útigangsmanna. Ár eftir ár, vetur eftir vetur. Já, senn kemur vetur. Frostið mun bíta og ennþá má fólkið í þessum sporum berjast fyrir lífi sínu – og tapa – fólk deyr.
Það væri réttast að loka þessu bölvaða braggaskrýpi eða Mathöllinni við Hlemm til að svara ákalli þessa fólks. Breytum bragganum í heimili – tökum Mathöllina og opnum fyrir venjulegt fólk, ekki uppveðraða snobbista. Ömurleg staðreynd að búið sé að eyða fé í braggann og Mathöllina.

Þingmaðurinn Samfylkingarinnar skammar borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna. Væri ekki nær að horfast í augu við staðreyndir um stöðuna og breyta strax? Þingmaðurinn ætti að skammast sín fyrir að snúa út úr og hún ætti að horfa á stöðuna!

Ég fordæmi vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar – hafið skömm fyrir vinnubrögð ykkar. Drattist til að koma niður úr fílabeinsturninum og horfa á lífið eins og það er hjá mörgum í Reykjavík!

Skammist ykkar!!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.10.2018 - 10:50 - Rita ummæli

ER VIGDÍSI UM AÐ KENNA?

Braggamálið tekur nú nýja stefnu hjá meirihluta borgarstjórnar. Oddviti Pírata kennir Vigdísi Hauksdóttur um að skemma partýið í ráðhúsinu. Það er Vigdísi að kenna að upplýsa eitt mesta sukk sem borgarstjóri er ábyrgur fyrir. Píratar eru grautfúlir því þeir eru meðsekir fyrir vitleysuna og að leyft þessu máli að fara svo langt eins og er enn að koma í ljós.
Ljósglætan er að Viðreisn lýst ekkert á blikuna og vita að þeim er kennt um sóðaskap í veislunni sem þeim var boðið í. Sá sem rústaði veislunni er flúinn og lætur aðra gesti sjá um að ganga frá.
Braggamálið er ekki Vigdísi að kenna. Hún er kjörinn fulltrúi borgarbúa og ber að hafa aðhald og vinna fyrir borgarbúa – og það gerir hún.
Ef þetta mál hefði ekki komið á yfirborðið væru borgarbúar ekki með eina einustu vitneskju um það að borgarstjóri er ábyrgur fyrir því að gamall braggi var gerður upp og það að kostnaðaráætlun við þá vinnu fer svo langt fram úr áætlun að ekki bara kjörnum fulltrúum borgarráðs gjörsamlega blöskrar, heldur eru borgarbúar orðlausir yfir málinu.

Líklegt er að Braggamálið sé eitt af mörgum hjá borgarstjóra sem hefur farið langt yfir skynsamlega kostnaðaráætlun því við höfum séð nokkur gæluverkefni borgarstjóra og hans fólks spretta upp og engu er til sparað – flest allt í 101 Reykjavík. Á meðan er ekki einu sinni hægt að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börnin, vinnueftirlitið leggur dagsektir vegna vanrækslu, húsnæðismál eru enn í ólestri, og sumir skólar þurfa verulegt viðhald og endurnýjun tækja og annarra nauðsynja sem börn nota dagsdaglega.

Innri endurskoðun borgarinnar hefur örugglega að geyma gott fólk sem kann til verka, en skynsamlegt er að fá óháða aðila til að rannsaka þetta mál – og önnur, þar sem grunsamlega mikið er m.a. að sjá sömu verkfræðistofuna vinna sérverk borgarstjóra og fá tugi milljóna fyrir – úr sjóði borgarbúa. Um það snýst málið, en ekki það að um Vigdís Hauksdóttur sé að kenna. Vigdís er einfaldlega að vinna vinnuna sína með ábyrgð!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.10.2018 - 06:15 - Rita ummæli

ÞEGAR KAUPMAÐURINN STAL JÓLUNUM

 

Ég telst vera jólasveinn. Ég á við algjör jólasveinn, eins og Ketill Larsen heitinn og Ómar Ragnarsson. Ég hef verið að í 34 ár hver einustu jól í desembermánuði. Síðustu árin voru með Hjálpræðishernum í Reykjavík. Þetta „jobb“ er líklega það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í – og mun taka þátt í. Tugir jólaböll, þúsundir heimsókna, og endalaus gleði. Það er einmitt ólýsanlegt að sjá glampann og gleðina, vonina og þetta augnablik barnsins; „loksins er Sveinki komin!“

Í dag er öldin önnur

Jólaatið hefst í ágústmánuði, næstum fjórum mánuðum fyrir jólin. Taugaveiklun kaupmannsins um það að hefja maraþonið og kappið um þessa hátíð sem er í raun í nokkra daga, er með ólíkindum. Það verða allir að gera þetta og gera hitt. Heilu þættirnir í sjónvarpi og útvarpi snúast um jólin. Raftæki, húsgögn, matvörur og annað breytist í það að verða „jóla.“ Jólakókómjólk, jólajógúrt, og nú er meira að segja sérstakur jólabjór sem mætir í bæinn og bjórdrykkjumenn fagna sínum jólum með ærlegri drykkju enda „takmarkað magn.“ Aðrir hversdagslegir hlutir breytast í „jóla.“

Það er kaupmaðurinn sem stelur jólunum með ofsa sínum og græðgi. Það er kaupmaðurinn sem breytti jafnvel jólasveininum og klæddi hann í bláann búning til að aðlagast verslun sinni. Það er kaupmaðurinn sem telur okkur í trú um það að jólin hefjist – ekki nema

Ég man eftir jólunum þegar þau fengu að koma með þeirri eftirvæntingu sem þau báru með sér. Þau hófust í bíltúr að Rammagerðinni í Reykjavík þar sem jólasveinarnir þar voru mættir, einmitt til kaupmannsins sem kom með þessa hlið jólanna, en með skynsamlegum hætti – hann byrjaði í desembermánuði. Hljóðlaus andardráttur jólasveinanna var dularfullur og framandi. Við gluggann þráði maður að tala við Sveinka, fá að snerta hann. Ég man líka þegar kveikt var á Óslóartrénu og jólasveinarnir skemmtu á þaki Nýja Kökuhúsins við Austurvöll og Ketill Larsen var hver einustu jól, eða þar til ég svo vissi hver var bakvið gervið. Ég man þegar Gáttaþefur söng fyrir börnin – og ég söng með.

Jólin er hátíð og tilgangurinn er að gleðjast og fagna. Við njótum og gefum af okkur – og frá okkur. En við kaupum ekki þessa gleði með einum einasta hætti. Engin jólakókómjólk eða jólabjór gefur okkur þá gleði sem jólin eru. Ef eitthvað er þá kemur jólabjórinn með sér aukið svoll um þessa hátíð sem er hátíð barnsins.

Mér hefur blöskrað ofsinn í kaupmanninum og atið við að reyna að selja okkur jólin, selja okkur þá hugmynd að jólin hefjist, ekki nema…

Það er ekkert „ekkert nema!

Jólin koma og þau fara. Hvað skilur eftir er mesta verkefni okkar. Hvernig minnumst við jólanna og hvernig gleðjumst við. Við eigum að fá að hafa jólin í friði, laus frá þessari ótukt sem búið er að skapa. Við eigum að fá að vera einlæg og kannski einföld yfir jólin. Við eigum að fá að hafa kirkjuna og helgihald hennar. Við eigum að fá að hlusta á messuna í útvarpinu. Við eigum að fá að hafa grunngildi kristninnar – ef við viljum. Við eigum ekki að láta kreddur hræða okkur og því síður að láta kaupmanninn telja okkur í trú um það að jólin hefjist í ágúst.

Ég er líklega farin að eldast og telst vera of gamaldags. Ég verð líklega skammaður af kaupmanninum, bjórdrykkjumönnunum, jógúrtgerðarmanninum, og þeim sem halda ekki jól.

En hvað get ég sagt? Ég er jú bara jólasveinn…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.10.2018 - 22:05 - Rita ummæli

ÞRJÚ, FIMM, SJÖ, NÍU, OG ELLEFU…

Eldri bróðir minn starfaði á sínum yngri árum meðal annars sem dyravörður í Regnboganum sem var kvikmyndahús og er nú þar sem Bíó Paradís er til húsa. Dyraverðir í kvikmyndahúsum voru reffilegir menn, jafnvel sumir í júníformi. Þeir tóku afrifu miðana og vísuðu fólki til sætis. Þeir höfðu vasaljós til að lýsa yfir salinn í leit að lausum sætum fyrir þá sem komu of seint, sýningin hafin, og tróðu sér svo meðfram sætaröðinni. Var það gjarnan mikil truflun og fengu þeir kvikmyndagestir illt auga frá öðrum gestum sýningarinnar.

Gjarnan um helgar þótti mér gaman að hjálpa til við gæsluna og stóð stoltur í anddyrinu og fylgdist með bróður mínum vinna verk sitt með miklum sóma og af ábyrgð. Eitthvað var um að krakkagrey reyndu að fara á kvikmyndir sem bannaðar voru yngri en 16. ára. Man ég eftir einum ólátabelg úr hverfinu mínu reyna það en bróðir minn stöðvaði hann. Er ekki laust við að hlakkað hafi í mér að sjá hann stara á mig með mikilli öfund – hinumegin við gluggann og í öruggum höndum dyravarðarins.

Ég var svo heppinn þegar bróðir minn var í hurðinni, að fara á alla sýningartíma dagsins – þrjú, fimm, sjö, níu, og ellefu. Fékk ég nóg af poppkorni og gosdrykki. Ég var greifi í sölum Regnbogans. Þegar leið á kvöldið fór ég heim með bróður mínum, sæll og uppfullur af poppkorni. Í einhver skipti fengu mínir bestu vinir að upplifa þennan einstaka munað og forréttindi. Fréttist það fljótt og þótti mikið. Ólátabelgurinn komst svo að því einnig og framvegis hnussaði hann til mín er við mættust, eða þar til hann varð sextán ára.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2018 - 01:15 - Rita ummæli

EINMANA Í BORGINNI

 

Lífið markar okkur með ýmsum hætti. Við vinnum sigra og upplifum ósigra. Við kynnumst sum hver lífsbaráttu sem er ómannlegt að þola en gerir okkur oft kleift til að skilja heiminn og verkefnin sem okkur eru sett. Á einn eða annan hátt þá sigrum við – að lokum.

Tindur Gabríel, eða Ingimundur Valur Hilmarsson var hersir hins lifandi lífs og háði mestu orrustur þess. Tindur Gabríel lést fyrir skemmstu. Ég kynntist Tindi á vígvelli sínum. Í mestu þjáningum alkahólismans reis Tindur Gabríel upp og sigraði baráttuna það skiptið. Í fallegu viðtali í Fréttablaðinu þann 4. ágúst s.l. var Tindur Gabríel í sigurborgum og stoltur af ró sinni og edrú sigri. Hann ræddi einmitt um atið í borginni og þá staðreynd að einmanaleikinn er í raun allstaðar. En Tindur Gabríel tókst á við einmanaleikann á sinn hátt og var eftirbreytni í því. Með náttúruna og heimspekina í örmum sér naut hann þess sem Guð gaf. Í viðtalinu naut hann sín.

Eitt skiptið hitti ég Tind Gabríel í einni orrustunni á Ingólfstorgi í Reykjavík. Hann var lemstraður og þreyttur eftir átökin við Bakkus. „Ég þarf að hvíla mig, ég Tindur Gabríel, eins og nafnið Gabríel erkiengill Guðs. Ég heiti eins og erkiengillinn sem Guð hefur…hetja Guðs,“ sagði Tindur Gabríel við mig og við ræddum saman um Guð stutta stund, en ég heyrði það strax að hann hafði trúna í hjarta sínu og guðlegan styrk.

Nú hefur þessi góði maður yfirgefið vígvöllinn þar sem sigrarnir voru og aðrar orrustur sem unnust eða töpuðust. Eftir situr minning um mann sem kannski var einmana í ati borgarinnar, týndur í kerfislægu þrasi um raunverulegt líf fólks sem verður utanvelta í baráttunni. Fólkið sem sigrar að lokum, en er einmana í borginni – og andvarp þeirra þagnar að lokum.

„En engillinn svaraði honum: „Ég er Gabríel sem stend frammi fyrir Guði“… Lúkasarguðspjall.

Blessuð sé minning minning þín Tindur Gabríel.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.9.2018 - 11:54 - Rita ummæli

MEÐ KIM LARSEN Í DÖNSKUTÍMA

Danska alþýðuskáldið Kim Larsen er látinn. Ég þakka fyrrum kennara mínum Vernharði Linnet fyrir að kynna mig fyrir þessum mikla tónlistarmanni dana. Með einstökum hætti nýtti Venni, eins og við kölluðum hann oftast, texta og lög Kim Larsen og þannig virkjaði hann okkur nemendur í að syngja með og kynna okkur innihald textanna sem skáldið söng. Ég fór aðra leið en þá að hella mér í það að læra dönsku, því ég hreyfst þarna mjög af tónlist og persónunni Kim Larsen.

Eftir situr merkileg saga um skáldið Kim Larsen sem nam land á Íslandi með tónlist sinni og alla leið í grunnskóla borgarinnar. Fyrir það er ég afar þakklátur fyrir og þykir vænt um minninguna er við nemendur Venna sátum í hátíðarsal Breiðholtsskóla, sáum Vernharð handleika plötuna þá skiptið, blása rykið af nálinni og við tókum þátt í merkilegasta kennslutíma sögunnar að ég tel – hlusta á í morgunsárið á Kim Larsen og fræðast um dönsku – á okkar hátt!

Blessuð sé minning þessa mikla skálds!

…tak for hele tiden Kim Larsen!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.9.2018 - 23:06 - Rita ummæli

MÁLEFNI HEIMILISLAUSRA – LOKSINS ER HLUSTAÐ!

Ég fagna því að borgarráð sýni þó þennan lit í málinu. Þetta var og er eitt af málum okkar í Miðflokknum í Reykjavík. Það er því ánægjulegt að raddir okkar og margítrekuð áminning um þessa nöturlegu staðreynd hafi náð í gegn, enda eru borgaryfirvöld búin að fá fyrir löngu aðvörun um algjört úrræðaleysi í þessum málum. Háværar raddir okkar virkuðu – því fagna ég!

Nú vetrar og því þarf að vinna skjóttþessum málum!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.9.2018 - 03:14 - Rita ummæli

LOF MÉR AÐ FALLA…

Það eru mjög blendnar tilfinningar sem bærast um í huga manns og hjarta eftir að hafa séð nýjustu kvikmynd Baldvins Z, „Lof mér að falla.“ Kvikmyndin er einstök og hefur brotið blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar og fer út fyrir allt í túlkun á viðfangsefninu. Leikarar allir skara framúr og sýna magnaðan leik. Tónlistin er virkilega góð og flæðir með sem fullkomin stuðningur við túlkun leikarana og áherslur leikstjórans.

En myndin „Lof mér að falla“ er einnig tímamótaverk og mun fara í algjöra nýja nálgun með framhald sitt því myndin er ein mesta staðreynd samtímans í íslensku samfélagi í dag. Hún er núið, með sorg og sárum staðreyndum um það sem við sem þjóð erum að berjast við. Myndin sýnir heim sem við stöndum stjörf yfir að sé til og vonum að við getum falið okkur bakvið það að þetta sé bara bíómynd. En „Lof mér að falla“ er sárasta staðreynd og sönnun um það sem er að gerast núna – núna þegar fjöldi ungs fólks hefur látist sem af er árinu vegna fíkniefnaneyslu.

Myndin sýnir líka þá ömurlegu staðreynd um stöðuna í heilbrigðiskerfinu, stöðunni í meðferðarúrræðum ungra fíkla, og ekki síst stöðunni með geðheilbrigðisþjónustu okkar hér á landi. Hún vekur upp reiði vegna stöðunnar og við spyrjum okkur, eftir að ganga uppgefin frá myndinni, dofin og orðlaus yfir því hvers vegna er ekki búið að leggja af stað í að breyta þessari stöðu, bæta úrræðin og styrkja það sem fyrir er. Við sjáum og heyrum af fréttum um skelfilegt bruðl stjórnvalda í dag og það sem við höfum verið að heyra í fréttum undanfarna daga og vikur. Svo er reynt að slá á umræðuna með því að skella fram loforðum og enn öðru átakinu. Af þessu er mesta skömm – fólk er að deyja – ungt fólk er að deyja!

„Lof mér að falla“ er mynd sem allir verða að sjá. Foreldrar, unglingar, allir verða að sjá þessa mynd. Ráðamenn þjóðarinnar ættu að sjá hana sérstaklega. „Lof mér að falla“ mun breyta öllu í dag því boðskapur hennar er mikill. Hún mun verða sýnd í skólum því hún er sorglegt dæmi og hefur gríðarlegt forvarnargildi. Það var því ánægjulegt að heyra það að foreldrar sé að gefa sér tíma til að fara í bíó og með börnum sínum til að horfa og læra af henni. „Lof mér að falla“ kallar fram allar mestu tilfinningar okkar og tár.

Ég vil þakka aðstandendum og leikurum fyrir einstaka og áhrifamikla túlkun sína. Baldvin Z. þakka ég fyrir að fara í þessa einstöku ferð.

„Lof mér að falla“ skilur eftir sig…

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.9.2018 - 12:10 - Rita ummæli

PARTÝIÐ HJÁ WOW AIR

Skúli Mogensen forstjóri WOW er mikill glaumgosi að mér finnst. Hann kann að láta á sér bera, heldur svakaleg partý eins og það í Hvammsvík fyrir stuttu. WOW AIR hefur virkað eins og partý nýríkra krakka, bleik föt, selfie-æði flugstjóra og nú síðast – galin partý með áflogum og látum sem rata í fréttirnar.

En Skúli hefur breytt flugmarkaði okkar íslendinga og frá því oki sem hefur keyrt okkur niður í áratugi. Það kann að vera að Skúli Mogensen sé glannalegur í viðskiptum. Það kann að vera að hann hafi einmitt farið glannalega í vegferð sína með WOW. En, mér finnst hlakka í ansi mörgum að sjá WOW fara á hausinn. Hagur Icelandair myndi bætast verulega samkeppnin færi í sama einokunarstöðuna – kolkrabbinn næði yfirráðum sínum. Leiðir Icelandair eru lítið frábrugðin þeim sem WOW nýtti sér í góðæri ferðamanna. Meira er talað um glaumgosann og galdramanninn úr Oz.

Svo fremur sem Skúli Mogensen dregur ekki fólk niður með sér, að hann plati ekki fjárfesta í einhverja vitleysu sem er óvinnandi, og rífi ekki lífeyrissjóði með sér í limbó sem gæti skilað engu, þá óska ég þess að Skúli nái að halda sjó. Ég vona að hann nái að koma fyrirtæki sínu í jafnvægi og ég vona að hann slái af partýstemningunni því nú er komin tími á að sýna meiri ábyrgð – í raun fyrir löngu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2018 - 17:33 - Rita ummæli

Á MEÐAN LÖMBIN SOFA – SÓKN SÓSÍALISTA!

Gunnar Smári Egilsson talsmaður Sósíalistaflokksins kann að skapa sér góða vinnu. Hann fór trylltan dans með 2007 liðinu hér fyrir einhverjum árum, ætlaði svo að stýra álfasölu og góðgerðarsamtökum, en er nú komin í eitt mesta plott stjórnmála, því svona eldflaug eins og Gunnar Smári deyr ekki ráðalaus. Hann ætlar sér að þurrka út heila ríkisstjórn, lama stóra stjórnmálaflokka, og þar af þurrka nánast út tvo af þeim. Reyndar mun honum takast að laska alla verulega. Gunnar Smári segist ekki þurfa nema 20% til að ná árangri – þar er sóknin hans.

Til verksins hefur Gunnar Smári bróðir sinn, málglaðan berservís, Sigurjón M. Egilsson sem m.a. ritstýrir miðlægu-kaffistofuspjalli á netinu. Þetta eru hörkuduglegir bræður – í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Þeir hafa einnig komið sér fyrir á útvarpsstöð og undirbúa plottið afar vel. Þeir komu verkalýðsforingja til valda með því að smala í kosningu, og þeir fóru meira að segja inn í hóp yfirlýstra einstaklinga og samtaka sem berjast gegn fátækt og rifu það fólk með sér í limbó sem skilaði þeim það góðum árangri að Framsókn þurrkaðist út í Reykjavík og inn kom nýr flokkur hans sem talar – öðruvísi.

Borgarstjórnarkosningarnar í vor var general prufan á því hvort plottið tekst, og að öllum líkindum mun það takast!

Gunnar Smári og hans fólk hefur blásið til sóknar með verkalýðshreyfingunni og foringjum þeirra, enda þarf sá nýjasti að launa greiðann. Þeir ala á reiðinni og maklegum málagjöldum í næstu kjarasamningum.

Samkvæmt öllu er þessi áætlun ekki fjarri lagi: ASÍ verður hernumið af foringjum verkalýðsins sem tala mannamál og ítrekað bent á afnám verðtryggingar, réttlæti, mismunun í samfélaginu og augljósa stéttarskiptingu. Eftir áramót mun ríkisstjórn Íslands verða ýtt til hliðar fyrir Sósíalista sem markvisst taka hárrétta taktík á því sem skiptir mestu máli – laun og kjör – leið til betra samfélags með réttlæti. Gunnar Smári og hans fólk munu laska og lama núverandi stjórnmálaflokka svo mikið að þeir munu finna fyrir því. Með þéttri fundarherferð um allt land, með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar, trúnaðarmanna þeirra og hins almenna kjósanda sem tekst á við brjálaða háa húsaleigu sem skilar fjölskyldum út í tjöld og hreisi, með endalausar áhyggjur af því að endar nái saman, þannig hefur Gunnar Smári lesið stöðuna – eins og hann gerði í partýinu 2007 og menn trúðu því að þeir gætu valtað yfir danskan dagblaðamarkað og mikið fé var sett í háfleigar hugmyndir sem hrundu svo eins og spilaborg. En núna hefur Gunnar Smári vandað sig. Hann telur sig hafa lært af mistökum sínum.

Næsta ríkisstjórn Íslands verður mynduð eftir áramót þegar VG klippir á samstarfið vegna innanflokksdeilu grasrótarinnar og ótta um að þurrkast út – missa völdin, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn boðar róttækar breytingar og formaður flokksins stígur til hliðar og nýr armur flokksins tekur við. Framsókn mun í ofboði reyna annað útspil og skiptir um annan formann og ætlar að prófa ný jakkaföt. Ásmundur Einar Daðason verður sá aðili ásamt sýnum fylgismönnum sem létu núverandi formann um höggið fyrir Framsókn. Miðflokkurinn fær kannski að vera með í nýrri ríkisstjórn en ekki fyrr en formaður flokksins breytir um taktík. Samfylkingin mun sundrast því innri átök um forystulega röðun smákónga innan hennar raða mun eyðast upp í árás sósíalista. Eftir sitja Píratar sem eru í forystukreppu eftir að Birgitta fyrrum kafteinn þeirra gaf frat í fólkið sitt.

Eftir allt þetta mun Gunnar Smári sitja sáttur með fínasta jobb. Bróðir hans þarf aldrei að fara á sjóinn aftur og Sósíalistaflokkurinn mun verða mesti populismi í sögu stjórnmála. Á meðan þetta fer fram, og er í raun þegar hafið og fyrir löngu skipulagt, sofa lömbin værum svefni og vakna svo í kuldanepju á nýju ári – þegar þeim verður slátrað!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar