Laugardagur 13.10.2018 - 06:15 - Rita ummæli

ÞEGAR KAUPMAÐURINN STAL JÓLUNUM

 

Ég telst vera jólasveinn. Ég á við algjör jólasveinn, eins og Ketill Larsen heitinn og Ómar Ragnarsson. Ég hef verið að í 34 ár hver einustu jól í desembermánuði. Síðustu árin voru með Hjálpræðishernum í Reykjavík. Þetta „jobb“ er líklega það skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í – og mun taka þátt í. Tugir jólaböll, þúsundir heimsókna, og endalaus gleði. Það er einmitt ólýsanlegt að sjá glampann og gleðina, vonina og þetta augnablik barnsins; „loksins er Sveinki komin!“

Í dag er öldin önnur

Jólaatið hefst í ágústmánuði, næstum fjórum mánuðum fyrir jólin. Taugaveiklun kaupmannsins um það að hefja maraþonið og kappið um þessa hátíð sem er í raun í nokkra daga, er með ólíkindum. Það verða allir að gera þetta og gera hitt. Heilu þættirnir í sjónvarpi og útvarpi snúast um jólin. Raftæki, húsgögn, matvörur og annað breytist í það að verða „jóla.“ Jólakókómjólk, jólajógúrt, og nú er meira að segja sérstakur jólabjór sem mætir í bæinn og bjórdrykkjumenn fagna sínum jólum með ærlegri drykkju enda „takmarkað magn.“ Aðrir hversdagslegir hlutir breytast í „jóla.“

Það er kaupmaðurinn sem stelur jólunum með ofsa sínum og græðgi. Það er kaupmaðurinn sem breytti jafnvel jólasveininum og klæddi hann í bláann búning til að aðlagast verslun sinni. Það er kaupmaðurinn sem telur okkur í trú um það að jólin hefjist – ekki nema

Ég man eftir jólunum þegar þau fengu að koma með þeirri eftirvæntingu sem þau báru með sér. Þau hófust í bíltúr að Rammagerðinni í Reykjavík þar sem jólasveinarnir þar voru mættir, einmitt til kaupmannsins sem kom með þessa hlið jólanna, en með skynsamlegum hætti – hann byrjaði í desembermánuði. Hljóðlaus andardráttur jólasveinanna var dularfullur og framandi. Við gluggann þráði maður að tala við Sveinka, fá að snerta hann. Ég man líka þegar kveikt var á Óslóartrénu og jólasveinarnir skemmtu á þaki Nýja Kökuhúsins við Austurvöll og Ketill Larsen var hver einustu jól, eða þar til ég svo vissi hver var bakvið gervið. Ég man þegar Gáttaþefur söng fyrir börnin – og ég söng með.

Jólin er hátíð og tilgangurinn er að gleðjast og fagna. Við njótum og gefum af okkur – og frá okkur. En við kaupum ekki þessa gleði með einum einasta hætti. Engin jólakókómjólk eða jólabjór gefur okkur þá gleði sem jólin eru. Ef eitthvað er þá kemur jólabjórinn með sér aukið svoll um þessa hátíð sem er hátíð barnsins.

Mér hefur blöskrað ofsinn í kaupmanninum og atið við að reyna að selja okkur jólin, selja okkur þá hugmynd að jólin hefjist, ekki nema…

Það er ekkert „ekkert nema!

Jólin koma og þau fara. Hvað skilur eftir er mesta verkefni okkar. Hvernig minnumst við jólanna og hvernig gleðjumst við. Við eigum að fá að hafa jólin í friði, laus frá þessari ótukt sem búið er að skapa. Við eigum að fá að vera einlæg og kannski einföld yfir jólin. Við eigum að fá að hafa kirkjuna og helgihald hennar. Við eigum að fá að hlusta á messuna í útvarpinu. Við eigum að fá að hafa grunngildi kristninnar – ef við viljum. Við eigum ekki að láta kreddur hræða okkur og því síður að láta kaupmanninn telja okkur í trú um það að jólin hefjist í ágúst.

Ég er líklega farin að eldast og telst vera of gamaldags. Ég verð líklega skammaður af kaupmanninum, bjórdrykkjumönnunum, jógúrtgerðarmanninum, og þeim sem halda ekki jól.

En hvað get ég sagt? Ég er jú bara jólasveinn…

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar