Miðvikudagur 06.06.2018 - 09:49 - Rita ummæli

BÖRNIN, EÐA LÆKKUN Á VEIÐIGJALDI?

Frá áramótum hefur ungt fólk látist vegna eiturlyfjanotkunar. Með óútskýrðum hætti komast börn og ungt fólk í sterk morfínskyld lyf útgefin af læknum. Vandi sem allir vita um – læknar líka – en fátt er gert til að breyta hlutunum, engin kallaður til ábyrgðar. Læknadóp, eftirlit með því og ávísun er svo ábótavant að stór hópur hefur tekjur af því að selja, m.a. börnum sem svo hafa dáið. Allir vita, ráðherra, landlæknir, allir vita – ekkert breytist!

Vandi barna sem eru olnbogabörn í kerfinu er skelfilegur. Foreldrar og fjölskylda þeirra missir þrek og kraft hægt og ákveðið. Baklandið, kerfið er að bregðast og vill ekki takast á við vandann, nefndir og starfshópar eru stofnaðir og málið er svæft í kerfinu. Á meðan erum við í baráttu við að börnin okkar fái hjálp þá klukkustundina, að þau lifi og séu ekki endanlega tekin frá okkur. Húsnæði fyrir meðferðarúrræði er ekki nýtt og boltanum er kastað í burtu og við fáum ekki að vera með, vera með í lífinu og fá aðstoð frá kerfinu.

Á meðan við leitum að börnunum okkar og berjumst við flækjustig kerfisins er ríkisstjórnin að velta því fyrir sér hvort lækka eigi veiðigjöld til útgerðarinnar og auðvelda róður hennar.

Útgerðin

Guðmundur Kristjánsson, sem oft er kenndur við útgerðarfyrirtækið Brim, keypti sumarið 2017 eina dýrustu glæsikerru landsins, Mercedes-Benz AMG G 63 á tæplega 31 milljón króna.

Útgerðarfélagið HB Grandi hagnaðist um þrjá milljarða króna á síðasta ári, litlu minna en í fyrra þegar hagnaðurinn var 3,2 milljarðar króna. Stjórn félagsins lagði til að hluthafar fái 1.270 milljónir króna í arð.

Ríkisstjórnin

Og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ætlar að lækka veiðigjöld á útgerðina, en fyrir kosningar og áður en hún fór í ríkisstjórn og var gerð að forsætisráðherra þá var hún á því að hækka veiðigjöldin.

Á meðan bíðum við eftir lausn fyrir börnin okkar, olnbogabörnin sem fáir vilja vita af. Á meðan aka útgerðarmenn á lúxusbílum og vilja að veiðigjöldin séu lækkuð.

 

Á meðan…bíðum við…

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er fæddur 2. maí 1971 í Reykjavík. Hann starfaði í mörg ár sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og er einn af þeim sem mótuðu framtíð Neyðarlínunnar. Í dag er hann markþjálfi og athafnamaður til ýmissa verka sem reynsla hans nýtist í. Meðal félags- og trúnaðarstarfa sem að Sveinn Hjörtur gegnir eru að vera fulltrúi í Hverfisráði Breiðholts, vera í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla ásamt því að sinna sjálfboðavinnu og vera í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, en með því er Sveinn Hjörtur fyrsti karlmaðurinn sem gerir það. Sveinn Hjörtur hefur einnig setið í Mannréttindaráði Reykjavíkur og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur er einn af stofnendum Miðflokksins og skipar 3. sæti hjá Miðflokknum í Reykjavík í komandi sveitastjórnarkosningum.
Sveinn Hjörtur flutti í Breiðholt árið 1979 og hefur látið sig hverfið varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur sem einn af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína er viðkemur hverfarölti ásamt samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Sveinn Hjörtur er einhleypur og á þrjú börn sem eru í grunnskólum í Breiðholti. Sveinn er þekktur fyrir léttleika og þegar kemur að hverfinu þá er metnaður hans mikill. Áhugamál mál hans eru fluguveiði, ljóðagerð og lestur, mótorhjól, tónlist og handbolti.
RSS straumur: RSS straumur

Flokkar