Nokkur aðfangadagskvöld hef ég fengið þann heiður að geta hjálpað til við hátíðarhald hjá Hjálpræðishernum. Það er gert með ýmsum hætti. Ég hef farið í uppvaskið, skorið niður kjötið, þjónað til borðs, og síðast og ekki síst – verið til staðar fyrir allt það fólk sem kemur. Eru þetta fallegustu minningar mínar um aðfangadagskvöld. Margir hafa haft áhyggjur af mér að vera „einn“ um jólin en þetta kvöld er einstakt og best að nýta það í það ítrasta. Fyrir mig er það heiður að fá að þjóna þetta mikla kvöld í lífi kristinna manna. Jólin eru einstök hjá hernum.
Ég hvet þá sem geta að horfa á þennan þátt jólanna. Jafnan um jólin vantar sjálfboðaliða víða og einnig hjá Hjálpræðishernum.
Önnur hjálparsamtök hafa nóg að gera um jólin og ég veit að það verður mikið að gera hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir þessi jól enda jólaúthlutun alltaf stór. Það er gott að muna eftir þessum aðilum og sérstaklega um jólin.
Allir eiga að fá gleðileg jól. Gerðu þitt til að svo verði!
„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.“
– Matteusarguðspjall 25 kafli, vers 35-37.
Á myndinni erum við Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum. Myndin er tekin á aðfangadag árið 2016.
Rita ummæli