Miðvikudagur 13.06.2018 - 10:39 - FB ummæli ()

Eins og við manninn mælt

Það er eins og við manninn mælt að þegar einungis 202 dagar eru þar til kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði renna út, þá spretta fram stjórnendur, greiningadeildir bankanna og ráðamenn þjóðarinnar og tjá lágtekjufólki að það sem ógni aðallega stöðugleika í íslensku samfélagi sé heimtufrekja launafólks á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er grátlegt að verða enn og aftur vitni að því að aðilar sem hafa nýlega fengið launahækkanir sem nema í mörgum tilfellum hundruðum þúsunda á mánuði tala um að núna verði launafólk að stilla kröfum sínum í hóf þannig að stöðugleikanum verði ekki ógnað. Sem sagt gömlu hræðsluáróðursplötunni er enn og aftur skellt á fóninn þegar kjarasamningar verkafólks eru að renna út.

Í ljósi þeirra staðreynda að einungis rétt rúmir 200 dagar eru þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út og ekkert samtal við stjórnvöld er að eiga sér stað við nýja forystu í verkalýðshreyfingu þá er nánast einsýnt að það stefnir í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði. Enda liggur það fyrir að tíminn til þess að vinna að þeim kerfisbreytingum sem t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Efling, VR og Framsýn hafa verið að kalla eftir er að renna út.

Það liggur fyrir að ef það á að ná sátt á íslenskum vinnumarkaði þá verður aðkoma stjórnvalda að verða umtalsverð t.d. þarf að létta á skattbyrgði hjá lágtekjufólki og fólki með lægri millitekjur. Það verður að hækka skerðingarviðmið barnabóta umtalsvert enda galið að barnabætur skuli skerðast við einungis 241.000 krónur eða 482.000 hjá hjónum eða sambúðarfólki.

Þessi stéttarfélög kalla líka eftir kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og það verði gert með lækkun vaxta, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Þessi félög vilja líka gera breytingar á lífeyriskerfinu þar sem hagsmunir launafólks verði hafðir að leiðarljósi og þessi félög eru líka með frábærar hugmyndir um hvernig hægt sé að endurreisa verkamannabústaðakerfið lág-og millitekjufólki til góðs.

Já, þessi stéttarfélög eru með hugmyndir um að gerðar verði umtalsverðar kerfisbreytingar almenningi til heilla, en ef stjórnvöld vilja ekki koma að slíkum kerfisbreytingum sem byggjast á hagsmunum almennings og launafólks þá er morgunljóst að kröfur gagnvart atvinnurekendum verða að þeirri stærðargráðu að morgunljóst verður að til mikilla átaka mun koma á íslenskum vinnumarkaði strax í upphafi næsta árs.

Þessi stéttarfélög vilja gera samfélagssáttmála með róttækum kerfisbreytingum, samfélagssáttmála sem myndi jafnvel gilda í 3 til 4 ár. Við viljum auka ráðstöfunartekjur okkar fólks umtalsvert með þessum kerfisbreytingum en um leið stuðla að stöðugleika okkur öllum til hagsbóta, en sá stöðugleiki verður ekki gerður án þess að stjórnvöld verði tilbúin að gera kerfisbreytingar þar sem hagsmunir fjármálaelítunnar verði látnir víkja fyrir hagsmunum almennings.

Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnurekendur hlusti á þessi varnaðarorð sem koma fram í þessari færslu því þessi stéttarfélög ásamt mun fleiri stéttarfélögum munu láta kné fylgja kviði ef ekki verði hlustað á okkar kröfur er lúta að því að auka ráðstöfunartekjur launafólks með kerfisbreytingum og launahækkunum þar sem samið verði í krónutölum en ekki með prósentum.

Flokkar: blogg

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir