Miðvikudagur 19.09.2018 - 14:45 - FB ummæli ()

Hvar eru milljónirnar hans afa? Búinn að borga 31 milljón – Fær bara 14 milljónir ef hann lifir

Hvar eru milljónirnar hans afa? Þetta er góð spurning sem forsvarsmenn lífeyriskerfisins eiga að svara.

Málið er að þessir snillingar komast upp með að segja ár eftir ár að þetta sé besta lífeyriskerfi í heimi og það þrátt fyrir að það vanti um 1000 milljarða til að það geti staðið við sínar skuldbindingar sem kerfið hefur lofað sínum sjóðsfélögum.

En hvar eru peningarnir hans afa? Getur verið að afi hafi ekki átt eitthvað af þessum 500 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir töpuðu í hruninu, allt vegna þess að sjóðirnir stigu trylltan dans með útrásinni?

Þessu til viðbótar liggur fyrir að örorkuþáttur sjóðanna hefur stóraukist á liðnum árum og er að sliga suma sjóðina en í dag eru um 19 þúsund manns á örorku sem er um 10% af öllu vinnuaflinu á íslenskum vinnumarkaði og sumir sjóðir eru að greiða uppundir 40% af útgreiðslum vegna örorku.

Sjötugur maður sem greitt hefur 30 miljónir í lífeyrissjóð á starfsævinni fær bara rúmar 14 milljónir. Barnabarnið spyr: Hvað varð um milljónirnar hans afa?

Pistill Vilhjálms er byggður á skrifum Margrétar Tryggvadóttur fyrrverandi þingmanns sem birti skrif á heimasíðu sinni árið 2012 um lífeyrisgreiðslur. Það var haft eftir barnabarni manns sem var að verða sjötugur og á leið á ellilífeyri að maðurinn hafi sjálfur viljað greiða lífeyrinn sinn í eigin sjóð og ávaxta á eigin vegum. Honum hefði hins vegar verið neitað um það vegna lífeyriskerfisins en skrif Margrétar voru eftirfarandi:

Afi hefur unnið sömu vinnuna alla sína starfsævi og á alla launaseðla frá því hann var 11 ára þegar hann byrjaði að vinna. Hann hefur samtals borgað í lífeyrissjóð rétt tæpa 31 milljón króna. Ég er hagfræðingur og búinn að núvirða til að mynda það sem borgað var fyrir gjaldfellingar og þess háttar. Þetta er peningur sem var tekinn af hans launum og „geymdur“ fyrir hann því íslenska ríkið treystir honum ekki til þess að gera það sjálfur. 31 milljón plús allir vextirnir sem lífeyrissjóðurinn hefur skaffað honum hlýtur að koma sér vel. En sjáum til!

Bréfritari segir að hann fái 80.000 krónur á mánuði úr lífeyrissjóðnum.

Til þess að fá allt sem hann hefur greitt til baka þarf hann að lifa þangað til hann verður 103 ára. Þannig að hann spurði lífeyrissjóðin hve lengi er reiknað með að hann lifi , eða hvernig þetta sé reiknað. Fimmtán ár er svarið! Þannig að hann er að fá kr. 14.400.000.- miðað við þeirra útreikning.

Og hann spyr hvernig hægt sé að taka ákveðna upphæð af fólki en ekki greiða það til baka, heldur mun minna.

Hann spurði hvort það væri hægt að fá þetta í eingreiðslu og já en þá væri tekin þóknun og hann gæti fengið 11.000.000 í eingreiðslu! Það er EINN ÞRIÐJI af því sem hann hefur borgað í sjóðinn í gegnum tíðina. Aftur segi ég, þetta er peningur sem afi var skyldugur til að borga en ef hann hefði lagt þetta sjálfur til hliðar þá væri hann að fá ALLA fjárhæðina auk vaxta núna. Hann væri að vísu búinn að borga fjármagnstekjuskatt alla sína ævi en þetta væru kr. 48.000.000.- sem hann ætti í dag hefði hann lagt peningana inn á lágvaxtabók í stað þess að greiða í lífeyrissjóð.

Hins vegar fengi hann þetta ekki allt þar sem lífeyririnn er skattskyldur.

11 milljónirnar væru til að mynda bara útgreiddar 9 milljónir og svo mætti lengi telja. Sem betur fer dó afi ekki því þá hefði amma bara fengið fyrir skatt 7.000.000 eða rétt um EINN FIMMTA af því sem afi er búinn að borga.

Flokkar: blogg

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir